02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að þakka mönnum fyrir góðar undirtektir undir þetta þingmál sem hér er flutt um smáiðnað í sveitum.

Að vísu er Halldór Blöndal ekki lengur í hópi hv. þm., en til hans vildi ég gjarnan beina máli mínu, en hv. þm. Friðrik Sophusson kom inn á sömu atriði og væri þá trúandi til þess að koma skilaboðum til Halldórs. Þeir mæltu báðir gegn því, að kveðið væri á um það sérstaklega af hálfu Alþingis að framleiðslusamvinnufélag nyti sérstakrar fyrirgreiðslu, ef um það væri að ræða að koma upp iðnaðarfyrirtæki af þessu tagi í sveit, og töldu að slíkt væri ekki við hæfi. Nú hygg ég að þessi andmæli stafi af því að þeir geri sér ekki fulla grein fyrir hvað átt er við með hugtakinu framleiðslusamvinnufélag. Ef það kæmi nú í ljós, að einföld skýring nægði til þess að snúa huga þeirra í þessu máli, þá vil ég reyna að skýra stöðuna á þessa leið:

Nú mun láta nærri að fengist hafi 50% lán til þeirra saumastofa sem stofnaðar hafa verið hingað og þangað um landið til þess að vinna útflutningsvöru úr íslenskri ull. Talið er að vélar, sem þarf til einnar slíkrar saumastofu, sem veiti 10 manns fulla atvinnu, kosti nú tæpar 5 millj. kr. Þá má reikna með því, að lágmarkskostnaður við húsnæði yrði eitthvað í kringum 15 millj. Þyrfti því í stofnfé svona fyrirtækis 20 millj. kr. og ætti að fást til þess 10 millj. kr. lán. Nú stofna þessir 10 einstaklingar framleiðslusamvinnufélag til þess að koma upp slíku fyrirtæki og sækja um 10 millj. kr. lán og fá þá lán sem samsvarar því, að hver einstaklingur fengi 1 millj. að láni. Síðan tökum við aftur dæmi af einstaklingi sem vill stofna svona fyrirtæki og sækir um 10 millj. kr. lán, og eins og oft vill verða hjá okkur er fremur skortur á lánsfé. Þá á hið opinbera eða meðgjörðarmenn hinna opinberu sjóða, sem lánað er úr, val á milli einstaklings, sem fer fram á 10 millj. kr. lán, og 10 einstaklinga, sem fara samanlagt fram á lán, sem nemur 1 millj. á mann. Þá virðist samkvæmt almennum sanngirnisvenjum, að það liggi í augum uppi, að fremur sé leyst úr vanda 10 einstaklinga með því að veita þeim lán sameiginlega, sína milljónina hverjum, heldur en úr vanda þess sem fer fram á 10 millj. kr. lán til síns fyrirtækis. Þetta virðist liggja í augum uppi, og ég held að jafnvel hinir harðsvíruðustu einkaframtaksmenn hljóti að fella sig við siðferðið sem bak við þessa hugsun býr. Með þessu er alls ekki verið að mæla gegn því, að einstaklingar fái fyrirgreiðslu til að koma upp slíkum fyrirtækjum þar sem ekki er til að dreifa samtökum fólksins um framleiðslusamvinnufélag.

Aðeins í lokin á þessu spjalli mínu vil ég rifja upp örlítið af því sem hv. þm. Hannes Baldvinsson fræddi okkur um varðandi stöðu íslensks ullariðnaðar og þá hættu sem nú blasir við innlendum ullariðnaði vegna mistaka sem hafa átt sér stað í sambandi við verslun með svokallaða íslenska ull sem blönduð hefur verið erlendum ullartegundum og jafnvel gerviefnum. Það er vafalítið, að einmitt þessi iðnaður, — ullariðnaðurinn — er á margan hátt í hættu, ef við hugsum um smáiðnað í sveitum, ekki síst vegna þess að hér er um að ræða í mörgum tilfellum að fólkið fullvinni eigið hráefni til sölu innanlands og utan. Síðan Hannes Baldvinsson flutti þessa ágætu ræðu sína um smáiðnað í sveitum, þar sem hann vakti athygli á þessari hættu sem ullariðnaður er í hef ég fengið frekari upplýsingar sem hníga í þá átt, að það sé orðið mjög aðkallandi og megi alls ekki dragast í marga mánuði að stemma stigu við klaufaskap sem átt hefur sér stað í sambandi við útflutning á íslensku loðbandi og lopa til samkeppnisþjóða okkar og einnig varðandi raunverulega gróf brot á góðum verslunarháttum sem hafa átt sér stað í sambandi við vörufölsun á þessu sviði. Ég vil eindregið taka undir hvatningu Hannesar Baldvinssonar til hins opinberra um að grípa hér í taumana.