02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja orðræður um þetta mál sem er hér til meðferðar í Sþ. Mig langar þó vegna athugasemda við orð, sem hér voru sögð á fyrri fundi, taka eftirfarandi fram: Í fyrsta lagi segir hv: þm. Alexander Stefánsson réttilega, að rekstrarlega þekkingu skortir víðar en í strjálbýlinu, ég er honum fyllilega sammála um það. Það vill hins vegar þannig til, að sú þáltill., sem hér er til umr., fjallar um eflingu þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum. Það var þess vegna sem ég minntist á það mál. Ég skal gjarnan ítreka það hér, fyrst tækifæri gefst, að það er stundum ástæða til þess hyggja einnig að því, hvort ekki eigi að byggja upp rekstrarlega þekkingu víða um landið — og ég skal hafa Reykjavíkursvæðið gjarnan með — fremur en að einblína alltaf á fjármagnsskortinn svo sem flestir virðast gera. Þetta sagði ég þá og segi nú að eigin raun, vegna þess að um þessi mál hef ég fjallað í mínu starfi.

Þá minntist hv. þm. Stefán Jónsson á ræður okkar hv. þm. Halldórs Blöndals sem nú er horfinn af þingi. Við gagnrýndum það sem fram kemur í till., að framleiðslusamvinnufélög eigi að njóta sérstakra kjara, þ.e.a.s. að fá óafturkræf lán.

Við töldum að það ætti ekki að mismuna rekstrarformum í þessu máli, og við teljum að þarna geti hlutafélög komið til skjalanna, og þá er þess að geta, að hlutafélög geta verið stór og smá. Það geta verið jafnmargir og jafnvel miklu fleiri um hlutafélag heldur en framleiðslusamvinnufélag. Á þetta vil ég benda, þannig að það fari ekki á milli mála. Það er svo kannske ástæða til að benda jafnframt á það í þessum umr., að það er nú einu sinni svo, að samvinnufélög njóta skattfríðinda. Þau njóta þegar talsverðra fríðinda. Mig minnir að í 17. gr. núverandi skattalaga sé minnst á þau mál, hvernig samvinnufélög njóta slíkra fríðinda. Um það ætla ég ekki að fjalla að sinni, en það þýðir að þeir, sem taka þátt í rekstri slíkra félaga og standa að þeim, njóta þegar frá hendi löggjafans meiri fríðinda en önnur rekstrarform.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég fæ tækifæri til þess að fjalla um þetta mál í n., þar sem málið fer væntanlega til atvmn., og þar kem ég athugasemdum mínum á framfæri.