02.04.1979
Neðri deild: 69. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3767 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þá brtt. ásamt fjórum öðrum þm., Matthíasi Á. Mathiesen, Ólafi G. Einarssyni, Sverri Hermannssyni og Albert Guðmundssyni, að aftan við 3. gr. frv. komi ný mgr.: „Áður en kemur til skipta á fé samkv. a- og b-lið þessarar greinar, skal greiða lífeyrissjóði sjómanna 175 millj. kr. til að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur og aðrar tryggingabætur til sjómanna og 25 millj. kr. til orlofshúsa sjómannasamtakanna“.

Við flm. þessarar till. teljum eðlilegt við ráðstöfun gengishagnaðar að sýna sjómönnum að þeir eru meðeigendur að þeim fjármunum sem hér er verið að skipta og eiga samkv. frv. þessu að fara til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sem má segja að sé fullkomlega eðlilegt og til hagræðingar í fiskiðnaði og enn fremur til þess að bæta nokkuð erlendar skuldir þeirra útvegsmanna sem skulda sjóðnum vegna gengisbreytingarinnar.

Þjóðhagsstofnun gerði áætlun um, áður en gengisbreytingin var gerð í sept. 1978, að í gengismunarsjóð kæmu 5 800–6 000 millj. kr. í hreinan gengismun miðað við 15% gengisfellingu. 26. febr. nam innkomið fé í sjóðinn 9 340 millj. Þegar tekið er tillit til að frá dragast upphæðir vegna leiðréttingar flutningskostnaðar o. fl., sbr. 4. og 5. mgr. 2. gr. brbl., eða samtals 1 746 millj., þá er áætlað í febrúarlok að komnar séu inn 7 594 millj. í staðinn fyrir 5 500-6 000 millj. sem Þjóðhagsstofnunin áætlaði.

Þegar brbl. þessi voru gefin út fannst mér vanta inn í þau að taka tillit til sjómanna í sambandi við gengismuninn og vitna í fyrri hliðstæð lög um ráðstafanir gengismunar — t. d. lög frá 1975 — þar er ákveðið að til lífeyrissjóð sjómanna til þess að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur þeirra og aðrar tryggingabætur verði varið 75 millj. kr. og til orlofshúsa sjómannasamtakanna 12 millj. kr., sem skipt var eftir að auglýst hafði verið eftir umsóknum frá sjómannasamtökunum. Einnig vil ég minna á að við ákvörðun gengishagnaðar 1974 var varið 15 millj. kr. til að verðbæta lífeyrisgreiðslur aldraðra, sem fá greiddan lífeyri úr lífeyrissjóði sjómanna, og til orlofshúsa sjómannasamtakanna 11 millj. kr.

Ég tel óeðlilegt að þegar brbl. voru gefin út var ekkert tillit tekið til félagslegra umbóta sjómannastéttarinnar. Ekkert slíkt hefur komið fram í Ed. Alþ. eða í n. í Nd. og við 1. umr. um þetta mál. Því fannst mér rétt að flytja brtt., og til þess að sýna fram á að þessi till. er ekki nein yfirboðstill. eru þetta svipaðar upphæðir og voru við ráðstöfun gengishagnaðar 1975, miðað við verðgildi peninga, og m. a. s. heldur lægri miðað við það fjármagn sem kemur í gengismunarsjóð. Með því að líta á fyrri ráðstafanir um gengishagnað er till. þessi að mínum dómi fullkomlega eðlileg og sanngjörn og ég vænti þess, að hv. þdm. taki tillit til þess hvað áður hefur gerst í þessum efnum, og ég vil þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir undirtektir hans.

Það fer ekki á milli mála, að meðferð þessa frv. hefur verið ákaflega seinvirk í hv. Alþ. Málið var afgreitt frá Ed. fyrir miðjan desembermánuð, en hefur verið hér í Nd. síðan, var lengi í meðferð n., en n. skilaði áliti 7.–9. mars. Frv. kom ekki til 2. umr. fyrr en s. l. miðvikudag og þá var umr. frestað, en nú fer fram framhald 2. umr.

Eins og ég sagði áðan er ég alveg samþykkur því hlutfalli sem fer til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og tel það eðlilegt hlutfall, var reyndar reiknað með því í allt fyrrasumar og þá höfðu stjórnmálaflokkarnir um það samvinnu í sambandi við ábyrgð á fiskverði meðan hinar langvinnu stjórnarmyndunarviðræður fórn fram, svo að um það á ekki að vera nokkur ágreiningur. Hins vegar finnst mér eðlileg sú till., sem hv. 1. þm. Austurl. var að lýsa áðan og er flutt af honum og hv. þm. Kjartani Ólafssyni, og ég fyrir mitt leyti get vel greitt henni atkv.till. gerir ráð fyrir að breyta nokkuð frá frv. ráðstöfun þeirra 50%, sem koma í gengismunarsjóð af andvirði þeirra afurða sem taldar eru undir a-lið 3. gr. frv., svo og því sem kemur af andvirði annarra sjávarafurða. Veita skal 50% sem lán til hagræðingar- og framleiðniaukningar í fiskiðnaði. Lánin skulu fyrst og fremst veitt til kaupa á vélum og tækjum og til að koma upp kældum fiskmóttökum. Óheimilt er að veita lán þessi til greiðslu rekstrarskulda eða annars sem telja verður til venjulegs rekstrar. Jafnframt skal endurgreiðsla lána þessara með vöxtum renna til Fiskveiðasjóðs.

Ég tel bæði eðlilegt og sjálfsagt að Fiskveiðasjóður veiti þessi lán og hefði hann átt að hafa af því allan veg og vanda. En annað hefur verið tekið upp. Lánin, sem Fiskveiðasjóður hefur afgreitt, eru eiginlega ekki annað en formsatriði, því að málin hafa verið unnin með öðrum hætti.

Þá er hér brtt. um að lækka 2. liðinn nokkuð, til að létta stofnfjárkostnað eigenda fiskiskipa, en 10% af því skulu renna í Aldurslagasjóð fiskiskipa hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Skal ég ekki fjölyrða frekar um það, það gerði hv. 1. þm. Austurl. þegar hann fylgdi brtt. sinni úr hlaði, en ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti, að ég er samþykkur því að sá háttur verði hafður á. Ég sé ekki ástæðu til að vera með tvær stofnanir í gangi og menn þurfi að leita til tveggja aðila í sambandi við þessi fjárframlög.

Aldurslagatrygging við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum var stofnuð með lögum á s. l. ári. Gengust útgerðarmenn undir það af fúsum og frjálsum vilja að greiða sérstakt iðgjald til aldurslagatryggingar, en hin gamla bráðafúadeild frá 1958 var með þeim lögum lögð niður. Hún átti rúmlega 200 millj. kr. í sjóði, sem gengu til aldurslagadeildar. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum er þannig stjórnað, að tveir menn eru skipaðir af ráðh. eftir tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna, tveir eru skipaðir eftir tilnefningu bátaábyrgðarfélaganna og einn er skipaður af ráðh. án tilnefningar. Eru fulltrúar útgerðar 4 af 5 í stjórninni og því hef ég telið rétt að þessi eini aðili ætti að hafa með þetta að gera, en ekki að skipa sérstaka nefnd til að inna þetta verkefni af hendi.

Það liggur nú fyrir um það framlag sem á að verja til hagræðingar, það sem Byggðasjóður ver, það sem ætlað er að bankarnir taki á sig og sveitarfélögin greiði fyrir atvinnufyrirtækjum, muni nema um 2 050 millj. kr. Mér finnst, þegar ég lít á þessa tölu, að hlutur bankanna í þessari „konverteringu“ sé afar lítill, ekki nema um 574 millj. Ég vil minna á „konverteringu“ þá sem fór fram á haustinu 1974 og á árinu 1975. Hún nam, að mig minnir, um 3 240 millj. á þeim tíma, að óhætt væri að sennilega 21/2-falda þá upphæð núna til þess að hún yrði sambærileg við þessa tölu. Mér finnst eðlilegt í alla staði að bankar landsins taki þátt í því að „konvertera“ lánum til þeirra fyrirtækja sem eru hlaðin lausaskuldum og eiga í erfiðleikum-fyrirtækja sem á annað borð er talið eðlilegt að haldi áfram rekstri. Þetta gengismunarfé á fyrst og fremst að vera, eins og síðasti ræðumaður tók réttilega fram, til þess að auka hagræðinguna og fyrst og fremst til að veita lán til kaupa á vélum og tækjum og bæta frystihúsin og sérstaklega fiskmóttökurnar, auka hagkvæmni í rekstri, en ekki til þess að koma til móts við bankana og greiða þeim upp vanskilaskuldir eða áfallnar skuldir, sem þeir eiga fyllilega að mínum dómi að taka þátt í að breyta í lán til lengri tíma.

Samkv. þessu er talið að hagræðingarfé í gengismunarsjóði verði 575.6 millj. kr., en jafnframt 660 millj. kr. frá Byggðasjóði og 239 millj. sem ætlað er að sveitarfélögin komi til móts við fyrirtæki með því að breyta skuldum þeirra eða greiða fyrir þeim til þess að koma rekstri í betra horf.

Það hefur verið mikið talað um það á undanförnum árum, að ekkert hafi verið gert til þess að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði og jafnvel ákveðin landssvæði hafi verið skilin útundan. Hv. frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., Ólafur G. Einarsson, kom nokkuð inn á þetta. Á árinu 1978 var úthlutað til Fiskveiðasjóðs í lánum til hagræðingar í fiskiðnaði samkv. reglugerð, sem gefin var út 8. júní, og annarri reglugerð, sem gefin var út 13. apríl á s. l. ári, samtals 701.8 millj. kr. Þar af fóru í Reykjaneskjördæmi eitt 312 millj. kr., eða 44.5% af heildarúthlutun til hagræðingar í fiskiðnaði. Mér finnst sérstaklega ástæða til þess að benda á þetta og vekja athygli á því, því að það hefur verið mjög í tísku að telja að engin lán hafi komið á það svæði og sérstaklega ekki á Suðurnesin.

Næsta kjördæmi við Reykjaneskjördæmi er Suðurlandskjördæmi, sem fékk 102.6 millj. kr., og þriðja kjördæmið er Reykjavík með 91.5 millj. kr. M. ö. o.: bróðurpartúr af fénu fór í þessi þrjú kjördæmi, þó sérstaklega í Reykjaneskjördæmi. Ég er ekki að nefna þetta til þess að telja á nokkurn hátt eftir það sem fór í þau kjördæmi, síður en svo, heldur aðeins til að vekja athygli þeirra, sem tala alltaf um að þau hafi aldrei fengið neitt, á því, hvað þau hafa fengið. — En við erfiðleika í útgerð og vinnslu sjávarafurða hafa menn átt í þessum kjördæmum sem ég sérstaklega nefndi.

Ég tel eðlilegt í alla staði, að þegar reglugerð var gefin út 22. sept. 1978 í sambandi við ráðstöfun gengismunar samkv. brbl. var tekið inn í 3. gr. reglugerðarinnar að af fé þessu skuli veita lán til hraðfrystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva til hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar, m. a. til vélakaupa, endurnýjunar á vélum og vinnslurásum og annarra ráðstafana sem horfa til hagræðingar að mati sjóðsstjórnar. Þetta tel ég alveg hárrétt, en síðan er bætt við: „Þau frystihús, sem stöðvað hafa rekstur eða þar sem rekstrarstöðvun er yfirvofandi og mikilvæg eru fyrir atvinnuöryggi á viðkomandi stað, skulu hafa forgang við lánveitingar samkv. reglugerð þessari, enda horfi stuðningur við þau til bætts skipulags í veiðum og vinnslu“. Ég tel að þetta ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar styðjist alls ekki við þau lög sem reglugerðin er gefin út eftir. Ég tel í hæsta máta óeðlilegt að fyrirtæki, sem hafa stöðvað rekstur sinn, eigi að njóta forgangs við úthlutun þess fjármagns sem verið er að skipta. Er verið með þessu að ýta undir að ef menn vantar peninga í reksturinn stöðvi þeir rekstur sinn því að þá njóti þeir forgangs? Ég tel þetta furðulegt ákvæði og fái alls ekki staðist samkv. þeim lögum sem reglugerðin er gefin út eftir, hvað þá heldur fari eftir þeim.

Ég tel að frv. þetta sé búið að velkjast allt of lengi fyrir þingi og margt bendi til þess að ekki hafi verið sótt af neinum áhuga frá hendi hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. að fá afgreitt. Ég tek undir þau orð þess ræðumanns, sem talaði á undan mér, að það er ekki ráðh. eða ríkisstjórnar að afgreiða þessi mál, heldur fyrst og fremst Alþingis. Ég tel að þær brtt., sem fram eru komnar við frv., séu til bóta, og mér finnst sú brtt., sem ég var að mæta fyrir, sjálfsögð, sanngjörn og eðlileg og trúi ekki öðru en hv. þdm. taki vel undir þá till. þegar sérstaklega er haft í huga hvað áður hefur gerst í þessum efnum og jafnframt að sú áætlun, sem Þjóðhagsstofnun gerði um gengismuninn, var miklu lægri en hann reyndist, eins og ég gat um í upphafi máls míns.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess að þdm. taki tillit til þeirra till. sem hér liggja fyrir, og ég trúi ekki öðru en hæstv. sjútvrh. sé samþykkur því að gera þessar nauðsynlegu og sjálfsögðu breytingar á frv.