03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (2957)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson):

Áður en gengið er til dagskrár hefur hv. 1. þm. Vestf. kvatt sér hljóðs utan dagskrár, og ég vil aðeins geta þess, áður en ég gef honum orðið, að hann hefur tjáð mér að hann ætli að spyrja hér um alveg ákveðið og afmarkað málefni. Ég á von á að það þurfi ekki að verða almennar umr. um þetta málefni, heldur væntanlega einungis fsp. hv. þm. og svar hæstv. ráðh. En að öðrum kosti, ef tilefni þykir gefast til að frekari umr. verði leyfðar, þá mun ég a. m. k. halda þeim innan þeirra marka, sem gilda um fsp. almennt, og vænti þess, að allir hv. þm. geti sætt sig við það. Eins og kunnugt er gilda engar reglur um umr. utan dagskrár, svo að það er á valdi farseta hverju sinni að haga þeim eftir því sem hann telur rétt og eðlilegt. Ég vænti þess, að allir hv. þm. geti með tilliti til hinna margvíslegu verkefna, sem liggja fyrir þinginu, fallist á þetta.