03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár, er sú, að Félag ísl. atvinnuflugmanna hefur nú nýlega tilkynnt verkfallsaðgerðir, sem hafa staðið nú um nokkra daga, og framhald þeirra, sem, hlýtur að lama samgöngulíf landsmanna, heilla landshluta, þegar við bætist hafís og samgönguleysi eftir öðrum leiðum á nokkrum stöðum, sérstaklega norðanlands, og valda margvíslegum truflunum á samgöngum til Norðurlanda og Bretlands. Þetta mál kom, að mig minnir, fyrir tveimur mánuðum til umr. hér á þingi, og þá lýsti hæstv. félmrh. yfir að skipuð yrði sáttanefnd til að reyna að leysa þessa deilu. Við alþm. höfum lesið í blöðum og heyrt í ríkisfjölmiðlum að þessi sáttanefnd hafi starfað og m. a. borið fram eina sáttatillögu sem samþykkt var af flugmönnum, en hafnað af Flugleiðum. Sömuleiðis höfum við heyrt eftir félmrh., að hann telji að það eigi að bregðast við þessum vanda með því að stjórnvöld eða löggjafinn grípi inn í þessa deilu. Ég vil spyrjast fyrir um það hjá honum eða þá hæstv. samgrh., hvort ríkisstj. hafi hér uppi einhver ákveðin áform og þá hver þau áform eru og hvenær megi búast við að ríkisstj. láti til skarar skríða í þessari deilu, því að á því er brýn nauðsyn að þessi deila verði til lykta leidd.

Ég ætla ekki að taka hér neina efnislega afstöðu til þessara mála, ég hef ekki kunnugleika á því, en veit að ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. félmrh. og hæstv. samgrh. hljóta að hafa fylgst svo vel með þessari deilu að það væri bæði fróðlegt og nauðsynlegt fyrir okkur alþm. og þjóðina alla að fá að heyra hver áform eru til lausnar þessu brýna vandamáli.