03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3776 í B-deild Alþingistíðinda. (2962)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur óskað eftir því að ég gefi skýrslu um hugrenningar mínar. Hér var borin fram fsp. til ríkisstj. sem varðaði verkföll og vinnudeilu. Eins og hv. þm. munu allir vita heyra lög um verkföll og vinnudeilur undir hæstv. félmrh. og það er því fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að hann verði fyrir svörum af hálfu ríkisstj. í þessu máli. Hann hefur gefið það svar, að málið sé til umr. innan ríkisstj. og verði tekið fyrir á næsta fundi.

Vegna þrábeiðni hv. þm. um að ég gefi skýrslu um hugrenningar mínar í þessu máli, sem ég að vísu hef enga skyldu til að gera, vil ég taka það fram, að ég hef talið harla óskynsamlegt ef Alþ. færi að lögfesta ákveðna kauphækkun til flugmanna, t. d. með lögfestingu einnar af þeim sáttatillögum sem fram hafa verið bornar í þessu máli. Ég hefði ekki talið og síst af öllu með hliðsjón af öllum aðstæðum í þjóðfélagi okkar nú og með hliðsjón af ástandi á vinnumarkaði, að það sé hægt að verja slíka gerð á einn eða neinn hátt. Hins vegar er mér alveg jafnljóst og hv. þm., að það er mjög alvarlegt ástand að skapast í samgöngumálum og því alveg ljóst að hér er á ferðinni vandi sem ríkisstj. verður að taka föstum tökum. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja að öðru leyti þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál af minni hálfu eða annarra, og vil bíða þess að ríkisstj. fjalli um það á næsta fundi sínum.