03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 341 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Er þess að vænta, að menntmrn. beiti sér fyrir opinberri stefnumörkun í menningarmálum svo sem víðast er gert í okkar nágrannalöndum?“

Fsp. þessi er fram borin að beiðni ýmissa þeirra aðila er við menningarmál fást, einkum úti á landsbyggðinni, þar sem menn álíta að einhvers konar stefnumörkun í þessum mikilvæga málaflokki gæti eflt og stutt menningarviðleitni ýmiss konar, veitt henni lið með að leggja ákveðna grundvallarlínu án þess þó að um nokkra einstefnu væri að ræða. Sama er að segja um ýmsa þá, er fást við þessi mál á ráðuneytisgrundvelli, að þeim þykir hér nokkuð á skorta, m. a. gagnvart fjárveitingavaldi og eins varðandi hin einstöku sveitarfélög.

Á árinu 1977 var gerð á því nokkur könnun, hver framlög okkar til eiginlegra menningarmála væru í raun, og tekinn inn í þá mynd samanburður við nágranna okkar. Hlutur okkar var þar vægast sagt ekki góður, allra síst hvað snertir stuðning við hina frjálsu félagastarfsemi, enda mála sannast að þar eru mikil verkefni óunnin. Þessi niðurstaða skaut nokkuð skökku við þá yfirborðskenndu fullyrðingu, að við eyðum jafnvel of miklu til þessa þáttar. Ég gæti hér og nú vitnað til nágranna okkar sem gert hafa veruleg átök á þessu sviði. Danir hafa gert sérstaka samhæfða ályktun um menningarstefnu, þar sem höfuðáhersla er lögð á rétt sem allra flestra menningarþátta til að þróast eðlilega og einkum og sér í lagi að skapa sem flestum tækifæri til eigin menningarsköpunar í stað þess að vera neytendur eingöngu. Þrátt fyrir mikla og góða viðleitni margra erum við hér í nokkurri hættu, að fólk vilji í ríkari mæli vera þiggjendur menningar eingöngu í stað eðlilegrar eigin viðleitni til menningartúlkunar á hinum ýmsu sviðum.

Ég gæti vitnað í viðamikla sænska skýrslu, þar sem höfuðáhersla er lögð á samtengingu fyrri arfleiðar og nýsköpunar í menningarmálum og ekki síður það, að menningunni væru búin sem þroskavænlegust skilyrði sem allra víðast um landið, ekki síst í hinum dreifðari og fámennari byggðum. Ekki síst mætti vitna til ráðstefnu í Osló 1976, þar sem menntmrh. hinna ýmsu Evrópulanda báru saman bækur sínar og sendu frá sér merkar yfirlýsingar, m. a. um menningarlegt lýðræði án of mikillar miðstýringar, skyldu stjórnvalda til að taká á þessum málum á hverjum tíma með það að leiðarljósi að auka tjáningarmöguleika æ fleiri og samhæfa menningarstefnuna í hverju landi almennri menntastefnu, umhverfisaðstæðum, þjóðfélagslegum aðstæðum, þar sem m. a. var lögð rík áhersla á nýtingu frítíma fólks til menningarlegrar tjáningar ekki síður en menningarneyslu. Merkasta niðurstaðan var máske sú, að hin svokölluðu æðri menningarsvið ættu ekki að hafa forgang í stuðningi hins opinbera, heldur enn frekar jafnvel að fá fólk sem víðast sem beina þátttakendur í skapandi menningarlífi, veita þar aðstoð sem mest hætta væri á menningarlegri einangrun, skapa þannig aukna breidd, aukinn margbreytileika í menningarlífinu almennt.

Margt af þessu á við um okkur. Stefnumótun að vissu marki gæti hvort tveggja verið örvandi og leiðbeinandi og gæfi vissa viðspyrnu t. d. gagnvart fjárveitingavaldi, svo sem raunar er í ýmiss konar lagaformi okkar í dag. — Af þessum og fleiri ástæðum er um þetta mál spurt.