03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

178. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það er vissulega tilbreyting að ræða menningarmál á hinu háa Alþ. Það gerist því miður allt of sjaldan. Og nú gefst ekki tími í fsp.-tíma til að gera neina allsherjarúttekt á því stóra máli sem hér er til umr.

Ég er fyllilega sammála hv. fyrirspyrjanda, 3, þm. Austurl., um að opinberrar stefnumörkunar sé þörf, og eins og hann bind ég vonir við að auðveldara verði að fá auknar fjárveitingar til menningarmála á grundvelli slíkrar stefnumörkunar. Ég held að slík stefnumörkun hljóti að veita alþm. betri yfirsýn yfir þörfina á fjármagni og hvert því skuli stefnt. Stuðningur við menningarmál hlýtur að vera betur skipulagður og ekki eins handahófskenndur ef gerð er allsherjarúttekt og könnun í þessum efnum.

Í þessu sambandi þarf auðvitað að gera ítarlega úttekt á ástandinu eins og það er. Þess vegna þótti mér fróðlegt að hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson talaði áðan og skýrði frá n. sem átti að gera úttekt á ríkisstuðningi eða ríkisframlagi til hinna mismunandi listgreina. Mér leikur nokkur forvitni á að vita hvað hefur orðið af starfi þessarar n., en því miður fengum við ekki þær upplýsingar í ræðu hæstv. fyrrv. menntmrh., aðrar en þær, að það starf hefði dottið upp fyrir. (VH: Það varð ekkert úr þessari n.) Var ekkert unnið að þessu? (VH: Nei) Þá er enn meiri þörf á að fara að hefjast handa og vinna að þessu svo að gagni komi.

Sannleikurinn er sá, að Alþ. hefur trúlega aldrei veitt nægilegt fjármagn til menningarmála og við erum þar, því miður, langt á eftir þeim þjóðum sem við viljum telja okkur skyldar í menningarlegum efnum, skilja þann nauðsynlega þátt sem menningarstarf og listsköpun er — þann stóra þátt sem það og skipar í þjóðlífi öllu.