03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Björnsson bar hér fram nokkrar fsp. varðandi niðurfellingu afnotagjalds af síma, og hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur nú komið fsp. á framfæri. Ég verð að játa að þessi fsp. er ærið óvenjuleg, vegna þess að þar er gefið í skyn að öðruvísi hafi verið haldið á málum en staðreynd er.

Í 1. lið fsp. segir: „Hver er skýringin á því, að fjölmiðlar eru látnir telja fólki trú um að allir ellilífeyrisþegar eigi að fá eftirgjöf af ársfjórðungsgjaldi fyrir venjulegan síma, þegar ráðh. hefur með reglugerð sjálfur stórlega takmarkað fjölda þessa fólks?“

Mergurinn málsins er auðvitað einfaldlega sá, að fjölmiðlar hafa ekki verið látnir telja fólki trú um að allir ellilífeyrisþegar eigi að njóta þessara réttinda. Þvert á móti hefur það verið skýrt tekið fram frá upphafi og ég gæti vitnað m. a. í orð mín í útvarpsumr. í lok nóvembermánaðar, þar sem ég gerði fyrst grein fyrir þessum áformum, að það væru ekki allir lífeyrisþegar sem ættu að njóta þessara réttinda, heldur einungis þeir sem uppfylltu ákveðin skilyrði. Ég hef beðið Póst- og símamálastofnunina að svara þessum fsp., og í svari við þessum 1. lið segir póst- og símamálastjóri:

„Í öllum upplýsingum, sem fjölmiðlar hafa fengið frá réttum stjórnvöldum, hefur það verið tekið skýrt fram, að eftirgjöf á föstu ársfjórðungsgjaldi til elli- og örorkulífeyrisþega væri bundin því skilyrði, að viðkomandi njóti óskertrar tekjutryggingar og ekki búi aðrir í íbúðinni en fólk sem uppfylli sömu skilyrði, nema það væri innan tvítugs, einnig að ekki væri annar sími í viðkomandi íbúð. Fjölmiðlar hafa því ekki af réttum stjórnvöldum verið látnir telja fólki trú um annað en það sem framkvæma átti samkv. reglugerð.“

Við þetta er engu að bæta öðru en því, að auðvitað geta síðan fjölmiðlar skýrt rangt frá, og það má vel vera að einhver dæmi séu þess, að fjölmiðlar hafi sagt þessa frétt án þess að láta þess getið hvaða skilyrðum eftirgjöfin var bundin.

Í 2. lið fsp. segir: „Eftir setningu umræddrar reglugerðar ... óskaði ráðh.... eftir lista frá Tryggingastofnun ríkisins yfir elli- og örorkulífeyrisþega, er njóti óskertrar uppbóta á elli- og örorkulífeyri, og hefur að sjálfsögðu fengið hann. Póst- og símamálastofnunin notar síðan nafn Tryggingastofnunar ríkisins til afsökunar fyrir synjunum á slíkri eftirgjöf. — Hvers vegna er þessi háttur hafður á?“

Vonandi skýrir það svar, sem ég hef þegar gefið, hvers vegna þessi háttur er á hafður. Það er miðað við að fólk njóti óskertrar tekjutryggingar, og samkv. reglugerð verður Póst- og símamálastofnunin að fá lista yfir þetta fólk frá Tryggingastofnun ríkisins. Í svari póst- og símamálastjórnar segir:

„Þegar um synjun er að ræða er þess getið í svarbréfi, hvers vegna synjað er, og veit þá viðkomandi strax hvað það er sem hann þarf að athuga, ef hann er ekki sáttur við úrskurðinn, í stað þess að byrja á því að spyrja Póst og síma. Er því hér um að ræða vinnusparnað, bæði fyrir viðkomandi einstakling og Póst- og símamálastofnunina, auk þess sem það er almenn kurteisi að fólk fái sem fyllstar upplýsingar í sambandi við afgreiðslu mála sinna.“

3. spurningin er á þessa leið: „Leggur þessi deild póst- og símamálarn. það að jöfnu til útilokunar frá eftirgjöf á fastagjaldi síma, hvort elli- og örorkulífeyrisþegar eru e. t. v. í fjárhagslega vanmegnasta lífeyrissjóði eða þeim elsta og sterkasta?“

Þessi spurning er gersamlega út í hött. Í svari Póst- og símamálastofnunar segir um þetta atriði:

„Stofnunin metur ekki hagi fólks utan þess ramma sem reglugerðin setur. Hafi viðkomandi ekki óskerta tekjutryggingu er búið að kveða upp úrskurð í því efni samkv. öðrum lögum og af öðrum aðila en Pósti og síma.“