03.04.1979
Sameinað þing: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3785 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

346. mál, niðurfelling afnotagjalds af síma fyrir ellilífeyrisþega

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þessar undanþágur, sem hér eru ræddar, eru hliðstæðar þeim undanþágum sem hafa verið gefnar hjá Ríkisútvarpinu. Eftir að ég kynntist framkvæmd þeirra mála þar verð ég að segja það, að mér hefur orðið æ ljósara hvers konar óskapleg vandræðatilhögun þessar undanþágur eru. T. d. hjá útvarpinu var vitað um mörg einstök dæmi þar sem reynt var að komast fram hjá þessu í sambandi við uppbyggingu fjölskyldunnar og annað þess háttar, komast fram hjá því að greiða gjöldin og láta þau falla á ömmuna. Einhver kom beint til eins ágæts starfsmanns hjá útvarpinu að ráðgast um hvernig ætti að færa tæki yfir á ömmu sína, selja ömmu sinni tæki, svo að það væri pottþétt að hún yrði skráð fyrir því. Þetta er mesta vandræðamál. Auk þess finnst mér mjög óeðlilegt, að hinum og þessum stofnunum í þjóðfélaginu sé falið að hlaupa undir bagga við framfærslu þess fólks sem á erfiðast uppdráttar, t. d. Pósti og síma, Ríkisútvarpinu o. s. frv. Mér finnst þetta mjög óeðlilegt. Það gerir þetta líka óaðgengilegra í framkvæmd, að í þessum tilvikum báðum, ég held að það sé eins hjá Pósti og síma og hjá Ríkisútvarpinu, er það ein stofnun sem metur hvort á að veita undanþáguna, en önnur sem lætur í té greiðsluna án þess að hafa nokkur áhrif á matið. Þetta er ekki nógu gott. Þó finnst mér þetta ekki vera meginatriðið, heldur hitt, að með almannatryggingalögunum og öllu okkar almannatryggingakerfi er gert ráð fyrir að aldraðir, öryrkjar og aðrir, sem eru hjálparþurfi, eigi sinn tiltekna rétt sem þeir þurfi ekki að sækja eftir með umsóknum og fara bónarveg að. Þá var gamla sveitarstyrksfyrirkomulagið afnumið og átti að vera afnumið í eitt skipti fyrir öll. En nú er eiginlega vikið þarna út af leið og þessu fólki gert að fara að leita eftir sérstökum styrk og fá til þess ýmiss konar vottorð sem til þess þarf. Fólkið þarf sjálft að sækja um þetta og ganga í þetta. Það er oft tilviljunum bundið, hvort allir, sem eiga raunverulega rétt á þessu, hafi aðstöðu til að meta hvort það þýði fyrir þá að sækja um það.

Það, sem ég álít að eigi að gera, er einfaldlega að fella þessa styrki og þessar undanþágur niður og færa yfir á tryggingarnar að leysa þetta mál þannig að þessu fólki sé mögulegt að njóta símaþjónustu. Það var n. starfandi í þessu máli á vegum fyrrv. ríkisstj., en hún hafði ekki lokið störfum. Ég átti minn þátt í því, að sú n. var sett á laggirnar, og ég vil eindregið ráðleggja núv. hæstv. ríkisstj. að athuga vandlega hvort ekki yrði hægt að leysa málið á þennan hátt.