03.04.1979
Sameinað þing: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Austurl. fsp. sem hann bar fram í ræðu sinni áðan. Hvort honum þykja svör hæstv. sjútvrh. bærileg veit ég ekki. Mér fannst þau ófullnægjandi. Ráðh. segir okkur, — og ítrekar raunar það sem hann hafði áður sagt okkur við umr. hér í Sþ., — að til álita komi að stöðva netaveiðar í vor, og bætir síðan við: Þetta er verið að gera. — Í sömu andránni segir hann okkur að lagaheimild skorti til þess að stöðva veiðarnar. Nú er spurningin: Vissi hæstv. ráðh. um skortinn á þessum lagaheimildum þegar hann leyfði loðnuveiðiflotanum að hefja netaveiðar sunnanlands nú á vertíðinni? Vissi hæstv. sjútvrh. að slíkar lagaheimildir skorti þegar hann boðaði okkur fyrir hálfum mánuði að netavertíðin yrði stöðvuð nú í vor ef með þyrfti?

Spurningin um það, hvort við séum almennt undir það búnir að gera út á vetrarvertíð eins og við nú gerum með þeim netafjölda sem nú er leyfður við svo mikla fiskgengd og órofa gæftir eins og nú ber upp á, kom að vísu til umr. strax á fyrstu mánuðum þingsins nú í haust, þegar rætt var um búnað frystihúsanna og fiskiðjuveranna hér á Faxaflóasvæðinu og í ljós kom, að hvað svo sem tæknibúnaði þeirra liði liðu þau af þess háttar fjárskorti og rekstur þeirra væri svo óviss af fjárhagsástæðum að ljóst væri að eigendur þessara húsa gætu ekki ráðið sér menn til starfa á vetrarvertíð nú þannig að hægt yrði að reka þessar fiskverkunarstöðvar af einhverjum þrótti. Ég hef það fyrir satt, að nú í dag sé verið að landa ísuðum kassafiski úr togaranum Sigluvík yfir í loðnuskip í Njarðvíkurhöfn til siglingar til útlanda. Ég veit að á Snæfellsnesi — ég hef fyrir mér í því góðar heimildir — reyna menn nú af fremsta megni að treina saltið sitt með því að umstafla og nota úrsalt — ég er ekki að segja að það sé úr hófi — og vinna fram yfir miðnætti á hverju kvöldi til þess að geta saltað það sem hægt er að salta. Hjallar eru þar ekki til til þess að hengja upp fisk til þurrkunar á óvissan markað — gersamlega óvissan markað. Það er verið eins og fyrri daginn að leggja spírur yfir hraungjótur til þess að hengja þennan fisk. Við vitum upp á hár að sú verkun á okkar ágæta þorski, sem nú er drepinn á Suðurlandsvertíð, gefur þjóðarbúinu miklu, miklu minni peninga en ef þessi þorskur væri veiddur af skynsemi og með skipulagi þannig að hann kæmist í neyslupakkningar.

Hæstv. ráðh. upplýsti það við fyrri umr. í þinginu, að samkv. áliti Þjóðhagsstofnunar nægðu 280–290 þús. tonn til þess að gefa okkur það fé sem ráðgert væri í efnahagsmálaáætlunum ríkisstj. Aftur á móti fæ ég þær upplýsingar hjá Þjóðhagsstofnun, að þar hafi verið reiknað með sams konar nýtingarhlutfalli á fiskinum, sem aflað væri, í neytendapakkningum og í frystum blokkum, og var á s. l. ári. Við sjáum ljóslega hvernig fer með þann afla sem er að koma að landi hér syðra, m. a. fyrir tilstilli loðnubátanna. Við sjáum ljóslega hvernig fer með þann afla, hvernig hann muni nýtast. Við vitum það upp á hár, að við fáum miklu minna fé fyrir þennan afla en ella hefði verið. Við vitum að þessi ráðstöfun á hinu skammtaða þorskmagni mun leiða til atvinnuleysis á Vestfjörðum, á Norðurlandi og á Austfjörðum í sumar — þetta ráðdeildarleysi.

Enn vil ég víkja að því sem er að gerast á Breiðafjarðarhöfnunum núna, og það veit sá sem allt veit, að ég lái ekki sjómönnunum, sem þar eru, þó þeir hirði þann fisk sem þeir geta fengið í net. Ég veit ekki betur en þeir komi með hann að landi í góðu standi og uppfylli ströngustu reglur í sambandi við meðferð á þeim afla. En hitt veit ég, að þegar í land kemur, jafnvel þar sem er þó dugandi fólk við fiskvinnsluna, — jafnvel þar er svo ástatt að þessum fiski verður ekki komið undan með hagkvæmustu verkunaraðferðum þannig að hið besta verð fáist fyrir hann. Það er ekki á þeirra valdi. Þeir mundu eiga í fullu tré ef þeir þyrftu aðeins að taka afla af heimabátunum. En nú er ekki svo. Þeim er einnig á höndum að taka afla af bátum annars staðar frá, m. a. af bátum sem hrakist hafa á miðin suður frá Norðurlandi, ekki fyrst og fremst vegna hafíssins, hann á þó nokkurn þátt í þessu, heldur er ástæðan sú, að eigendur þessara báta sjá fram á að þegar komið verður fram á sumar, eins og vertíðin hefur farið af stað hérna, eins og horfir með gæftir, kann að verða lítið eftir til skiptanna þegar kemur til sumarveiðanna.

Ég hef fyrir framan mig skrá yfir báta sem veitt hefur verið leyfi til netaveiða fyrir Norðurlandi. Nú var tekið fram af hálfu hæstv. sjútvrh. við umr. í Sþ. fyrr og í reglugerð, að fyrirhugað væri að takmarka netaveiðar fyrir Norðurlandi í júlí og ágúst á næsta sumri. Það er mál út af fyrir sig. Ég hygg að í raun og veru snerti þetta mjög illa útgerðarmenn við Eyjafjörð, sem gera þar út báta af stærðinni 30–60 tonn og hafa sótt mjög góðan afla, sem hefur nýst ákaflega vel í frystingu í neytendapakkningar, á Kolbeinseyjarmiðin og djúpt í Eyjafjarðarál undanfarin sumur. En af því að verið er að tala um skynsamlegar ráðstafanir til takmarkana á þorskveiðum hér við land kemst ég ekki hjá því að geta þess, að við lauslega athugun, enda þótt leyfin séu skráð á skrásetta báta, fæ ég ekki betur séð af þeirri tiltölulega takmörkuðu staðbundnu þekkingu sem ég hef en hér séu veitt leyfi til allmargra manna sem stundi aðra atvinnu. Ég þykist sjá í þessum hóp verkfræðinga eina 2–3, allmarga skrifstofumenn, tvo lækna og fæ ekki betur séð, eftir því hvaða báta hér er um að ræða og bátastærð, en hér hafi verið úthlutað leyfum til þorskanetaveiði í Eyjafirði næsta sumar með netafjölda sem muni nægja til að þvergirða fjörðinn 50 sinnum. Að vísu er ekki ljóst af stærð sumra bátanna, hvort um þorskanet er að ræða. Ég sé að hér er einn bátur upp á 1.6 tonn, og gæti maður dregið þá ályktun af því, að það væri hárnet sem þar ætti að veiða með. En hitt er ljóst, að ef með útgáfu þessarar reglugerðar hefur verið stigið fyrsta skrefið í átt til skipulagðrar nýtingar á fiskstofnum við Ísland kvíði ég fyrir hinum skrefunum sem á eftir kunna að koma.

Enn sem fyrr vil ég ítreka það, að ekki lái ég það neinum fiskimanni, hvort sem hann sækir í Breiðafjörð eða Faxaflóa, þótt hann hirði þann fisk sem hann getur fengið í netin sín. Annað væri ónáttúrlegt. Til þess væri ekki hægt að ætlast. Aftur á móti sýna skýrslur undanfarinna ára hvernig þessi fiskur, sem hér hefur verið tekinn, jafnvel í slökum meðalárum og lélegu aflaári eins og í fyrra, hefur nýst okkur til verðmætisöflunar. 1978 — í fyrra — fóru innan við 50%, tæp 49%, af fiski metnum upp úr bátum á ferskfiskmati á Suðurnesjum í 1. flokk og þó enn þá minna á Akranesi, þar voru það 38% í marsmánuði. Í 3. flokk fóru á þessum verstöðvum 22–27% af þorskaflanum.

Ég kemst ekki hjá því að undirstrika það mjög sterklega að fiskurinn, sem Sigluvíkin er núna að landa um borð í loðnuveiðiskip í Njarðvíkurhöfn til þess að sigla með hann til útlanda, átti að fara til vinnslu, til atvinnu fyrir fólkið í frystihúsunum okkar, til verkunar í neytendapakkningar til þess að seljast fyrir hæsta verð sem fáanlegt er erlendis. Og það er ekki svo einungis um fiskinn sem verið er að landa úr Sigluvíkinni í dag. Svo er um stóru ýsuna, sem flutt hefur verið út frá Vestmannaeyjum undanfarna daga, togarafarm til Bretlands, annan til Færeyja. Sá fiskur átti að fara til vinnslu í fiskiðjuverunum okkar og verkast til sölu á hinu hæsta verði erlendis. Á meðan ekki er hugað að slíkum málum af hálfu hæstv. sjútvrh. finnst mér hann tæpast hafa leyfi til að taka í munn sér orð eins og „skipulag á fiskveiðum okkar“. Og svo bætist það ofan á, að ég veit ekki betur en rétt nýlega hafi hæstv. ráðh. samþykkt kaup á skuttogurum, þ. á m. skuttogara sem við höfðum nýlega komið af höndum okkar yfir til Noregs í sambandi við og í skiptum fyrir nýsmíði á skipi, — samþykkt kaup til landsins á slíkum skipum til þorskveiða og beitt sér gegn og raunar fellt kaup á skipi til djúprækjuveiða, sem átti sannarlega ekki að fara að veiða þorsk, heldur að nýtast til þess að gera út á ónotaðan fiskstofn eða lítt notaðan, og jafnframt fellt að keypt yrði skip til veiða á kolmunna, sem hefði þó létt á okkur efnahagslega, svo að við hefðum getað hlífst við þorskstofninn.

Ég tel að svör hæstv. ráðh, á þessari stundu séu ekki fullnægjandi, og ég tel að það, sem hann hefur gefið í skyn um hugsanlegar ráðstafanir til þess að draga úr þorskveiðunum hér syðra í aflahrotu nú á þessari vertíð, sé hvergi nærri viðhlítandi. Ef standa á við fyrirheit um hlé um páskana má segja að ekki sé eftir af vetrarvertíð til þess að gera einhverjar slíkar ráðstafanir nema hálfur mánuður. En sá hálfi mánuður getur skipt sköpum. Og þá er hins ógetið, þegar verið er að tala um að nú sé verið að gera ráðstafanir til þess að hlífa hrygningarstofninum, að sá fiskur, sem verið er að veiða núna, — og enn ítreka ég að ég gagnrýni það ekki þótt veiddur sé fiskur á þessum slóðum, þótt sjómenn á þessu svæði, sjómennirnir á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð fái að veiða það af fiski sem hægt er að koma undan í vinnslu, — en þetta er hrygningarfiskur sem er raunverulega kominn hingað suður til þess að hrygna, sá fiskur sem verið er að landa úr Sigluvíkinni núna til flutnings á breska markaðinn, fiskurinn sem verið er að hengja upp núna vegna saltskorts, fiskurinn sem fer í salt, ekki bara vegna þess hve mikið fiskast, heldur fyrst og fremst vegna þess að fiskvinnslustöðvarnar á þessu svæði voru ekki undir það búnar. Sá tími er liðinn í fyrsta lagi, að við fáum starfslið austan, norðan og vestan af landi á vetrarvertíð, því að fram að þessu hefur stjórn sjávarútvegsmála verið hagað með þeim hætti að fólkið hefur allt í einu fengið nóg að vinna heima og ekki þurft að fara á vertíð. Fyrst og fremst er þetta vegna þess, að þannig var orðið ástatt um fjárhag fiskverkenda á þessu svæði frá liðnum árum og þeir voru ekki í stakk búnir til þess að reka fiskiðjuverin sín af fullum krafti. Fiskurinn, sem verður fyrir norðan í sumar eða austan og vestan, jafnvel þessi 6 ára gamli fiskur, jafnvel 7 ára gamli fiskurinn frá 1972, er fiskur sem er að komast á kynþroskaskeið. En hann er ekki orðinn hrygningarfiskur. Hrygningarfiskurinn er sá fiskur sem er á slóðinni fyrir Suðvestur- og Suðurlandi núna, hann er að fara að hrygna, hann er kominn þangað til þess og það er hann sem verið er að drepa núna.

Ef hæstv. ráðh. vill ræða við okkur um raunverulegar ráðstafanir í stöðunni eins og hún er núna til þess að hlífa hrygningarstofninum í fyrsta áfanga, þá skal ég hlýða á mál hans með athygli og taka undir góð og gild sjónarmið. En þau sjónarmið, sem komið hafa fram hjá hæstv. ráðh., skoðuð í ljósi, björtu sólarljósi þessara apríldaga, með slíkan uppgripaafla sem við nú fáum á Breiðafjarðarmiðum og sæmilegan afla annars staðar, get ég ekki tekið gild.