03.04.1979
Sameinað þing: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

176. mál, atvinnu- og efnahagsleg áhrif takmarkana á fiskveiðum Íslendinga

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú látið móðan mása í nokkurn tíma, rætt vítt og breitt um ýmis atriði er snerta fiskveiðimál. En það er eins og oft áður með ræður þess hv. þm., að efnisatriði þau, er hann minnist á, eru oft og tíðum órökstuddir sleggjudómar um eitt og annað út í loftið, án þess að nokkrum rökstuddum atriðum sé þar til að dreifa sem hann sanni með sitt mál. Þessum sleggjudómum um eitt og annað, sem hann er orðinn frægur fyrir að endemum um allt land, hlær almenningur dátt að. Ég tel ræðu þessa hv. þm. á engan hátt svaraverða og væri nær að hann reyndi að kynna sér þessi mál þannig að hann gæti stutt mál sitt einhverjum efnislegum rökum.

Að vísu var það eitt atriði, sem hann ræddi, sem hann tók upp eftir hv. þm. Stefáni Jónssyni. Það snertir togarakaup er til umr. voru í ríkisstj. ekki alls fyrir löngu.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var ekki einn um það, heldur virðast hv. þm. Stefán Jónsson, hv. þm. Lúðvík Jósepsson og fleiri hv. þm. alveg hættir að reikna með því að til sé nokkurt svæði í landinu sem heiti Suðurnes og þurfi á einhverju að lifa. Það er alveg furðulegt, að þegar til einhvers konar framfara horfir á þessu svæði og til umr. er að aðrir staðir á landinu gefi eitthvað eftir þess vegna, þá fer allt upp í loft. Eitt einkennandi dæmi um þetta er að þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ræðir af vandlætingu um ákvarðanir um togarakaup í ríkisstj. í s. l. viku, þá talar hann um að aðeins hafi verið um að ræða tvær umsóknir,varðandi kaup á rækjutogara annars vegar og kolmunnaskipi hins vegar. En þær voru ekki tvær, heldur fjórar. Það voru tvær frá Suðurnesjunum. Það var ekki á borðinu hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að þaðan kom líka beiðni um að taka þátt í þeirri nauðsynlegu starfsemi að veiða vannýttar fisktegundir sem í hafinu eru. Þetta er einkennandi fyrir þennan hv. þm. og málflutning hans og margra annarra þm., sem hafa verið að ræða um þessi mál og skipulega verið að reyna að vinna gegn því að einhvers konar atvinnuviðreisn ætti sér stað á Suðurnesjasvæðinu.

Til þess að fræðast öllu nánar um það hvernig fiskveiðimálin hafa þróast á undanförnum árum, og fá raunverulega mynd af því um hvað verið er að fjalla, ættu þm. að kynna sér hver breyting á nýtingu fiskafla á Íslandi hefur verið s. l. áratug. Þeir þyrftu kannske ekki að fara lengra en aftur til ársins 1973. Ef við lítum þá t. d. á, hvað mikið veiddist á Suðurnesjum af þorski sem nýttist til vinnslu, kemur í ljós að það voru 25.2% af öllum þorskafla landsmanna. Árið 1978, eða á síðasta ári, er afli Suðurnesjaflotans kominn niður í 12.6%. Hann hefur lækkað um helming. Þarna hafa e. t. v. verið óformlegar fiskveiðitakmarkanir í gangi eða einhvers konar aðrar takmarkanir, kannske í formi þess að ekki hefur verið vísað í þetta kjördæmi jafnmiklu fjármagni til fiskiskipakaupa eða til hagræðingar og skipulagningar í fiskvinnslumálum og í önnur kjördæmi. Meðan það gerist, að þorskafli Suðurnesjamanna minnkar úr 25.2% í 12.6 hækkar hann á Vestfjörðum — á sama tímabili — úr 14.5 í 19.5, hann hækkar á Norðurlandi vestra úr 4.4% í 6.7 á Norðurlandi eystra úr 13.3% í 19.8 og á Austfjörðum á sama tímabili úr 11.1% í 12.7. Þetta eru tölur í raun sem hv. þm. ættu að skoða og skoða þegjandi í stað þess að koma upp í stólinn og apa hver eftir öðrum eina vitleysuna eftir aðra. Hér ættu menn að staldra við og skoða staðreyndir málsins. Þetta eru staðreyndir málsins.

Það hefur verið samdráttur í fiskafla á Suðurnesjum allt frá árinu 1973. Ástæðurnar eru margar. Ein er kannske mikilvægust, að þangað hefur ekki verið beint fjármagni til endurreisnar fiskiskipaflotanum og til hagræðingar og endurbætts skipulags í fiskvinnslunni, sem hefur átt sér stað annars staðar á landinu. Þetta vil ég ítreka að þm. ættu að kynna sér. Og svo loksins þegar á að fara að létta undir með því byggðarlagi á einhvern hátt, sem hefur orðið undir í samkeppninni um fiskinn, ætlar allt saman af göflunum að ganga. Sætta Vestfirðingar sig við það að minnka þorskafla sinn um 50% næstu 4 árin? Sætta menn sig við það á Norðurlandi eystra að minnka þorskafla sinn um 50% næstu árin? Nei, þeir gera það ekki og ég skil það vel. Þeir sætta sig ekki við það.

En samkeppnin um fiskinn má ekki verða til þess, að fiskveiðarnar þjóti stjórnlaust áfram og hvert kjördæmi og hvert byggðarlag sé í samkeppni við annað, heldur verður að beita heildarstjórnun og miðla fiskinum réttlátlega um landið allt með tilliti til byggðasjónarmiða og atvinnuþarfar á hverjum stað. Þess vegna er það hugmynd út af fyrir sig, sem ætti að athuga og ætti að ræða, hvort ekki ætti að koma á fót þorskkvóta fyrir hvern landshluta, miða ekki alltaf veiðitakmarkanir við fiskiskipin, heldur miða takmarkanirnar við landaðan fisk á hverju svæði. Þetta mundi auðvelda mjög alla skiptingu á fiskafla um landið. Það er ekki aðalatriðið, hvað hvert skip veiðir mikið, heldur er hitt aðalatriðið, hvar fiskinum er landað, hvar fiskurinn er unninn. Þetta er meginatriði þessa máls, sem ég vildi leggja áherslu á.

Skipulag sjávarútvegsmála á undanförnum árum hefur verið þannig, að ekki hefur aðallega verið samkeppni milli byggða um að vinna fiskinn, heldur hefur orðið samkeppni um skipin, samkeppni um að safna sem flestum skipum í hvert kjördæmi til þess að hvert kjördæmi geti verið sjálfu sér nóg um fiskinn. Það er samkeppni á öllum sviðum um að reyna að afla þessara fáu fiska, sem í sjónum eru, í staðinn fyrir að fram fari einhver athugun á hver sé atvinnuþörf og hver sé fiskþörf hvers byggðarlags um sig til þess að standa undir eðlilegu atvinnulífi. Hér er stjórnlaus samkeppni á ferðinni, sem verður að uppræta og koma eðlilegu jafnvægi á. Hitt vil ég enn ítreka, að það er óþolandi til lengdar að hlusta á það í þessum sölum, að fulltrúar byggðasvæða komi hver á fætur öðrum og kvarti yfir því, að kannske sé möguleiki á því að spónn úr aski þeirra sjálfra komi til með að detta næstu vikurnar eða mánuðina, þegar hvort tveggja er verið að vernda fiskstofnana almennt í hafinu og e. t. v. reisa almennar stoðir undir athafnalíf á einu svæði eða öðru.

Það, sem um er að ræða og er mikilvægasta atriðið í þessu, er að það þarf að viðhalda almennri vinnu um allt landið. Það má ekki gera atvinnulífið þannig á einum stað að um umframatvinnu sé að ræða, heldur verður að hafa jafnvægi í atvinnulífi um allt land. Og það má geta þess sem almennra upplýsinga — það hefur ekki komið fram í þessari umr. — að þrátt fyrir aukna fiskisókn annarra byggðasvæða búa ekki nógu margir á þessum svæðum til að vinna þann afla sem á land kemur. Það hafa raunverulega ekki búið þar nógu margir til þess að hafa við að vinna afla allra þeirra skipa, sem landa á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Austfjörðum, og það hefur orðið að bæta við fólki. Það hefur ekki verið mannafli, a. m. k. hefur fólksstraumur af Suðvesturlandi ekki verið ör út á land, þannig að orðið hefur að bæta um betur, það hefur orðið að flytja fólk frá útlöndum til þess að vinna fisk á þessum stöðum. Það væri dálítið fróðlegt að fá t. d. upplýsingar um það, hvað hæstv. félmrh. hefur gefið út mörg atvinnuleyfi fyrir útlent verkafólk í fiskvinnslu á þessu landi. Og kannske væri jafnfróðlegt að fá upplýsingar um það líka, hvernig það sundurliðaðist eftir stöðum.

Mér hefur sárnað að horfa upp á, t. d. á s. l. sumri, hundruð manna atvinnulausa á Suðurnesjum meðan stór hópur útlendinga var að vinna í fiskverkun og fiskvinnslu víða úti um land. Þetta er óeðlilegt ástand. Svo koma menn upp með miklum vandlætingartón og segja að sé verið að eyðileggja allt atvinnulíf í kjördæmum þeirra, vegna þess að það er verið að beita almennum og nauðsynlegum fiskveiðitakmörkunum. Og síðan kemur þessi gamla ræða gegn Suðurnesjunum, aftur og aftur og aftur. Eitt einkennandi dæmi þess er setning sem kom fram í umr. í gær frá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, þegar hann sagði alveg forkastanlegt að einhver eyrir færi í þessa skuldasúpu á Reykjanesi, þess vegna væri ákveðin brtt. flutt o. s. frv. Þetta er óþolandi.

Ég hvet hv. þm. til að kynna sér staðreyndir málsins, kynna sér hvernig þorskur hefur dreifst um landið til vinnslu. Það er grundvallaratriðið. Og ég ítreka það, að ég bið menn um að gera það þegjandi.