03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3802 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. 6. þm. Suðurl. tók fram gerði ég fsp. við 2. umr. um það, hvernig bæri að skilja I. tölul. brtt. við ákvæði til bráðabirgða eftir 51. gr. frv. með tilliti til Bandatags starfsmanna ríkis og bæja. Hv. þm. lofaði því í gær, að þetta mál yrði athugað áður en til 3. umr. kæmi. Hann hefur staðið við það eins og hans var von og vísa.

Hér hefur verið lögð fram brtt. á þskj. 513 til þess, eins og hv. 6. þm. Suðurl. sagði, að taka af öll tvímæli um hvað I. tölul. í ákvæðum til bráðabirgða eftir 51. gr. frv. þýðir með tilliti til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna. Ég hef ekkert nema gott um það að segja og tel raunar að það hafi verið nauðsynlegt að bera fram brtt. til þess að kveða skýrt á um þetta efni. En í brtt. segir að það skuli að því er varðar félagsmenn í BSRB og BHM fara þó eftir samkomulagi því sem gert hefur verið við fjmrn. Mér þykir að það sé nauðsynlegt að hér sé skýrt frá því, í hverju þetta samkomulag er fólgið. Það er ekki nægilegt að vitna til samkomulagsins. Hv. þm. verða að vita og fá skýringu á því, lýsingu á því samkomulagi. Annars vita hv. þm. ekki hvað þeir eru að samþykkja.

Ég hef fyrir framan mig úrklippu úr Morgunblaðinu í dag, þar sem er rætt við Kristján Thorlacius formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þetta atriði og þar sem hann kemur inn á það, um hvað þetta samkomulag sé. Það er aðeins vikið að þessu örfáum orðum og mér þykir nauðsynlegt að fá nánari skýringu en er að finna í því ágæta blaði Morgunblaðinu í dag um þetta efni. Og það er það sem ég vildi óska eftir að fram kæmi.