03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3803 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Jón Ásbergsson:

Herra forseti. Ég vona, að það teljist ekki brot á neinum óskrifuðum siðvenjum hins hv. Alþingis, að nýliði biðji um orðið fyrsta dag sinn á þingi. Og þó að svo sé hlýtur mér að fyrirgefast framhleypnin, því að eins og hv. 5. þm. Vestf., flokksbróðir minn Þorv. Garðar Kristjánsson, benti á í ræðu sinni við 2. umr. þessa máls í gær er ekki að sjá að löng ræðuhöld þm. Alþfl. og Alþb. muni tefja að ráði afgreiðslu þessa frv. hér í d. Örfá orð frá nýliðanum ættu því vart að saka.

Eina lífsmarkið, sem í gær mátti finna með gömlu stjórnarandstöðunni, var örstutt, en djúpt frammíkall frá hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, þess efnis að Ólafur Jóhannesson væri góður maður. Þetta var eina innleggið úr þeirri átt þann daginn um frv. til l. um stefnumörkun í efnahagsmálum — stefnumörkun sem hvorki meira né minna á að tryggja næga og stöðuga atvinnu, halda verðhækkunum í skefjum, stuðla að jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd, greiða fyrir félagslegum og efnahagslegum framförum og bættum lífskjörum alls almennings. Já, mikil er trú þín, kona. Þetta stutta frammíkall er þá líklega merkilegasta framlag Alþb. til íslenskrar efnahagsmálaumr. um langt skeið, því að það má færa nokkur rök fyrir því, að þetta framlag sé sannleikanum samkvæmt og af hinu góða, sem er nýlunda úr þeim herbúðum.

En þótt Ólafur Jóhannesson sé góður maður er frv. það til l., sem hér er um fjallað, ekki gott. Það er slæmt. Það er svo slæmt, að viðbúið er að höfundur þess muni áður en langt um líður gefa því svipuð eftirmæli og hann, að vísu af nokkurri ósanngirni, gaf skattalögum Framsfl. og Sjálfstfl. Hann taldi ákveðnar greinar í þeim lögum gera mönnum næstum ókleift að ákveða sjálfir hvenær og hvar þeir köstuðu af sér vatni. Ástfóstur þessa frv. við alls kyns skýrslugerð og áætlanagerð mun ekki auðvelda mönnum þær ákvarðanir. En þó er sýnu verra að verði frv. þetta grundvöllur efnahagsstefnu ríkisstj. mun skattpíningarstefnu ríkisstj. ekki linna á næstunni. Ráðh. hafa þegar sýnt fádæma frumleik í vali skattstofna og er aldrei að vita hvar þeir bera niður næst. Þarfir manna til baks og kviðar hafa áður verið skattlagðar af fjársoltnum yfirvöldum og kynni svo að geta farið að ríkisstj. leitaði þar fyrirmyndar.

Þögn þm. Alþfl. og Alþb. við umr. í gær er sjálfsagt besta staðfesting þess, hversu tilgangslaust þetta frv. er. Alþfl.-menn lofuðu kjósendum sínum á síðasta vori, að þeir skyldu koma kerfis- og verðbólguflokkunum vondu á kné og þeir skyldu kenna þeim hvernig ætti að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Nú ætla þeir að standa að samþykkt frv. sem lögleiðir 40% verðbólgu. Alþb. menn lofuðu hins vegar öllum sínum kjósendum, að þeir skyldu jafna um kaupránsflokkana. „Ríkisstj. frá og samningana í gildi,“ var kosningaslagorð þeirra. Ríkisstj. fór frá og þeirra eigin óskastjórn, vinstri stjórn, tók við. Nú eru hins vegar engir kjarasamningar í gildi. Hinn áður heilagi frjálsi samningsréttur er nú einskis metinn og kommar skeggræða í smáklíkum, sem þeir kalla nú forustu launþegasamtakanna, hversu mörgum prósentum þeir eiga að ræna af launþegum.

Ríkisstj.-flokkarnir hafa mjög gumað af því samráði sem þeir hafi haft við ýmsa hagsmunaaðila og þrýstihópa í landinu við samningu þessa frv. Slíkt samráð skal að vísu ekki alfarið vanvirt. En hvers virði er slíkt samráð, ef þeir hinir sömu hagsmunaaðilar hafa sýnt sig í því að láta pólitíska þjónkun sína við kommúnista ráða afstöðu sinni í allri faglegri kjarabaráttu? Eða hvar eru núna skyndiverkföllin, útflutningsbannið og útifundirnir? Og hvers virði er slíkt samráð, ef útkoman er löggjöf svo útþynnt og vesæl að hún nær hvergi að vinna á því meini sem henni er ætlað að vinna á, þ. e. a. s. verðbólgunni?

Ég er viss um að allir hv. þm. þessarar d. hafa haldið yfir kjósendum sínum magnþrungnar ræður um skaðsemi verðbólgunnar, um hvernig verðbólgan eyðileggur allt verðmætaskyn manna, um hvernig verðbólgan leiðir til fjárfestingar sem gefur engan arð af sér, um hvernig arðurinn af fjárfestingunni er í raun og veru það sem kemur til skiptanna milli atvinnurekandans og launþegans og um hvernig stöðvun verðbólgunnar og áhersla á arðsemi fjárfestingar er grundvöllur þess að unnt sé að bæta lífskjör almennings í landinu. Ef þessar staðreyndir og samhengi þeirra er öllum þm. ljóst, hví þá ekki að setja löggjöf sem miðar hiklaust að því marki að stöðva verðbólguna og bæta lífskjörin í landinu? Að því hljóta þó allir stjórnmálaflokkar að stefna. Auðvitað kemur slík löggjöf við einhvern í upphafi, en hann verður þeim mun betur settur eftir á. Læknir sem meðhöndlar keðjureykingamann, sem sýnir merki lungnakrabba, eyðir ekki miklu púðri í að „diskútera“ við sjúklinginn þau óþægindi sem hann muni hafa af því að hætta að reykja. Val sjúklingsins er milli lífs og dauða. Hið sama á við hér. Lausn þess efnahagsvanda, sem þjóðin hefur strítt við undanfarin ár, er val milli lífs og dauða, milli vaxandi eða minnkandi velmegunar, milli byggðar í landinu eða fólksflótta. Valið ætti því að vera auðvelt.

Eitt mest notaða orð íslenskrar þjóðmálabaráttu er orðið „byggðastefna“. Er þar átt við þá stefnu, sem allflestir eru sammála um, að nauðsynlegt sé að viðhalda blómlegri byggð sem víðast um landið. En ef fram fer sem horfir í íslenskum þjóðmálum er líklegt að þetta hugtak fái víðtækari merkingu og þá verði megininntak íslenskrar byggðastefnu að halda landinu í byggð, þ. e. a. s. koma í veg fyrir fólksflutninga í ríkum mæli til annarra landa. Brottflutningur fólks af landinu undanfarin ár, þrátt fyrir næga atvinnu, gæti verið aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal. Augljóst er hvers vegna fólkið flytur. Þjóðartekjur á mann eru mun hærri meðal nágrannaþjóðanna en hér og er vinnudagurinn þar þó styttri og talsverður fjöldi manna atvinnulaus í þokkabót. Það er með öllu ástæðulaust að ætla að Íslendingar sætti sig til lengdar við lakari lífskjör en gerist meðal nágrannaþjóðanna. Og ef lífskjörin batna ekki hér heima, þá fara menn — fyrst þeir, sem hafa lært fræðigreinar eða handverk, svo hinir. Þessi fólksflótti verður ekki stöðvaður með skírskotun til ættjarðarástarinnar og fjallkonunnar, því malbikskynslóðin tengist engum slíkum böndum við land sitt og þjóð að hún meti ekki meira, þegar á reynir, beinharða efnahagslega afkomu og öryggi.

En ef bæta á lífskjörin verðúr að brjóta leið út úr vítahring verðbólgunnar, minnkandi kaupmáttar og taprekstrar fyrirtækjanna. Slíkt verður ekki gert með neinum einföldum ráðum eða slagorðum, og það tilgangslausa kukl, sem hér er lagt til að stundað verði, mun ekki leiða okkur út af ógæfubrautinni.

Ég sagði áðan að ríkisstj. gumaði af samráði sínu við ýmis hagsmunasamtök. Þó er ekki að sjá að henni hafi tekist að velja þau heilræði sem þaðan hafa komið og best munu duga. Í byrjun marsmánaðar ályktaði t. d. aðalfundur verkalýðsfélagsins Einingar á þessa leið og sendi ríkisstj., — mig langar til, með leyfi forseta, að lesa hluta ályktunarinnar upp, en hér segir í 2. gr.:

„Komið ykkur umsvifalaust saman um langtímastefnumörkum er miði að aukinni framleiðni og auknum kaupmætti launafólks. Tryggið öllum vinnu við arðbær störf er skapa aukinn þjóðarauð til skipta.“

Þessi ályktun hittir kjarna þeirrar lausnar sem er á efnahagsvanda þjóðarinnar. Menn verða að glöggva sig á því til hlítar, hverjar eru undirstöður efnahagslegrar velferðar á Íslandi í nútíð og framtíð og hvernig rétt tök á þessum undirstöðum geta skapað þjóðinni aukinn auð til skiptanna, aukinn kaupmátt og tryggt arðbær störf. Þessar undirstöður eru sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður. Hvernig sem menn reyna að rangfæra og mistúlka þessa staðreynd er hún óumflýjanleg. Þessar tvær atvinnugreinar hafa slíka sérstöðu hér á landi, að þær einar geta boðið álíka framleiðni og þá um leið lífskjör og gerast meðal hinna iðnvæddu nágrannaríkja okkar. Allur annar íslenskur útflutningur mun verða að berjast um markaðsaðstöðu við vöru frá vaxandi iðnveldum Asíu, svo sem Suður-Kóreu, Indónesíu, Malaysíu o. fl. Þar er vinnuaflið ódýrt og lífskjör almennings frumstæð.

Ef menn neita að viðurkenna sérstöðu sjávarútvegsins og orkufreks iðnaðar til að skapa hér velferðarríki framtíðarinnar eru menn að dæma þjóðinni versnandi lífskjör. Það er óþarfi að tíunda hér í deildinni í dag þá hættu sem sjávárútvegurinn er í nú vegna ofveiði helstu nytjafiska. Hins vegar er vitað að skipulögð sóknarminnkun mun gera þessum fiskstofnum kleift að ná sér aftur á strik og tryggja um leið að þessi mikilvæga auðlind, sjórinn, gefi af sér varanlegan afrakstur í framtíðinni. En meðan þorskur og loðna eru að nokkru hvíld verður að hefja skipulega nýtingu orkunnar og orkufreks iðnaðar. Ég ætla ekki í dag að verða langorður um hvernig það skuli helst gert. En skjótasta, einfaldasta og besta leiðin út úr efnahagsöngþveitinu hér er að reisa á næstu 10 árum 3–4 orkufrek iðnfyrirtæki á stærð við ÍSAL og auka raforkuframleiðslu sem því næmi. þessi fyrirtæki mundu veita rösklega 2000 manns vinnu og leggja grunn að störfum annarra 6000. Til að raska ekki félagslegri uppbyggingu hinna dreifðu byggða yrðu fyrirtæki þessi reist hér á þéttbýlissvæðinu á Suðvestur(andi, hugsanlega einnig á Suðurlandi. Þm. þyrftu þá ekki að hlusta á umr. eins og rétt áðan í Sþ. um skiptingu þorskanna — þeirra fáu sem til skipta eru. Fyrirtækin yrðu algerlega í eigu erlendra aðila og framkvæmdafé íslenska ríkisins ekki bundið í uppbyggingu áhættusamra fyrirtækja, auk þess sem fyrirtækin yrðu látin greiða sem hæst raforkuverð ásamt framleiðsluskatti, eins og gert er við ÍSAL. Með þessu væri dregið úr mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðina á Suður- og Suðvesturlandi og dreifbýlinu veittur forréttur að nýtingu sjávarauðlindanna. Þannig yrðu varanleg lífskjör allra Íslendinga tryggð um ókomna tíð, án röskunar á þeirri uppbyggingu landsins sem við nú þekkjum og viljum ekki breyta. Hugsanlega eru enn til menn sem helst vilja naga hundasúrur og drekka fíflamjólk úti í móa, en þeir eru það fáir og fer fækkandi að á þá ber ekki að hlusta.

Ég læt svo ræðu minni lokið.