03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þeirri staðreynd, að samkv. þeirri brtt. á þskj. 513 sem hefur verið borin fram af meiri hl. fjh.- og viðskn., er gefið í skyn að þrátt fyrir ákvæðið til bráðabirgða í þessu frv. geti tvær stéttir í þjóðfélaginu, félagsmenn í BSRB og félagsmenn í BHM, átt þess kost að fá umsamdar grunnkaupshækkanir, ef atvik fara á þann veg að það reyni á samkomulag það sem hér er skýrt frá og gert hefur verið, að manni skilst, við fjmrn. En ég vil benda á í þessu sambandi stöðu tveggja annarra Samtaka í þjóðfélaginu, og þar á ég við starfsmenn í bönkunum og blaðamenn. Báðir þessir starfshópar áttu samkv. samningum heimtingu á að fá 3% grunnkaupshækkun við útborgun 1. apríl. Eins og hv. alþm. er kunnugt hefur greiðslan til bankamannanna þegar verið innt afhendi samkv. samningunum. Greiðslan til blaðamannanna hefur hins vegar ekki gengið fram enn þá, en af fréttum í fjölmiðlum kemur fram að þeir muni skjóta máli sínu til hlutaðeigandi dómstóla.

Ég tel að það sé fráleitt að afgreiða brtt. þessa án þess að yfirlýsing liggi fyrir um það, að þær greiðslur, sem hafa verið inntar af hendi samkv. samningum við bankamenn og þá einnig við blaðamenn, lúti sömu reglum og ákvæðum og felast í þeirri brtt. sem hér hefur verið borin fram af meiri hl. fjh.- og viðskn.