03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil óska hinum nýja þm., Jóni Ásbergssyni, til hamingju með hans ágætu ræðu. Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. hefur hlustað með athygli á mál þessa unga manns. Það er ekkert óeðlilegt, vegna þess að ég þykist vita að hæstv. forsrh. eigi von á því að heyra síðar margt skynsamlegt frá þessum unga manni.

Hæstv. forsrh. fór þarna út í nokkurn talnaleik í sambandi við verðbólgumálin. Ég get ekki fylgt honum alveg eftir í því efni. Ég hef ekki þessar tölur nú við höndina. Ég efast ekki um að hæstv. forsrh. hafi lesið rétt upp úr hagskýrslum. Það snerist töluvert hans mál um 50% verðbólgu og taldi hann sig færa rök fyrir því, að það hefði ekki átt sér stað í fyrri vinstri stjórninni, sem sat frá 1971–1974, heldur í þeirri ríkisstj. sem næst kom á eftir. En ég hygg að það skipti ekki verulegu máli, þegar við förum að gera upp hlut hæstv. forsrh. í þessum verðbólgumálum. Hann átti sæti í báðum þessum stjórnum og fór með viðskiptamálin í hinni síðari ríkisstj., ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, og það ráðherraembætti hefur ekki minnst um það að segja hver þróun verðbólgumálanna hefur verið.

Hæstv. forsrh. fór nokkrum orðum um frv. það, sem hér er til umr., með tilliti til þeirra umr. sem áður hafa farið fram við 1. og 2. umr. málsins. Hann tók sérstaklega fram, að það vantaði ýmislegt í þetta frv. sem varðar efnahagsmálin og er þar sammála okkur talsmönnum stjórnarandstöðunnar. En ég vek athygli á því, að hv. 6. þm. Suðurl. og frsm. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. lagði alveg sérstaka áherslu á að frv. þetta væri algert einsdæmi í sögunni fyrir það, hve það legði traustar, grundvöll eða mótaði heildarstefnu í efnahagsmálunum, eins og hann orðaði það. Ég held að það sé misskilningur, eins og ég hef áður vikið að, hjá hv. 6. þm. Suðurl. Við hæstv. forsrh. getum hins vegar verið sammála um að það vantar margt í þetta frv. Og það vantar því miður sumt af því sem er ómissandi ef á að móta nokkra heildarstefnu í efnahagsmálunum. Þess vegna er þetta frv. eins og það er.

Hæstv. forsrh. vék að því, að við talsmenn stjórnarandstöðunnar gerðum lítið úr áætlunum. Það er nokkur ónákvæmni í þessu hjá hæstv. forsrh. Ég man ekki betur t. d. heldur en ég tæki fram, að ég legði ekki lítið upp úr áætlunum. Ég tók það beint fram. Áætlanagerð og skipuleg vinnubrögð, eins og ég orðaði það við 2. umr. þessa máls, eru ákaflega þýðingarmikil. En það, sem við bentum á, og það, sem ég lagði alveg sérstaka áherslu á, var að meginmál og allir fyrstu kaflar þessa frv. fjölluðu um áætlanagerð í margs konar samböndum og það væri prentað upp ýmislegt úr gildandi lögum og reglugerðum. Það er sett í frv. ýmislegt sem mönnum mundi undir venjulegum kringumstæðum ekki detta í hug að fara að gera að löggjafaratriði. En það er eins og allt hafi verið hey í harðindum hjá hæstv. ríkisstj., því að allt mögulegt og ómögulegt er tekið í þessum vaðli og fjasi um áætlanagerðir sem er í frv.

Það er alveg rétt, eins og hæstv. forsrh. vék að, að okkur sjálfstæðismönnum finnst sumt getaverið til bóta í frv. Hann vék sérstaklega að kaflanum um verðtryggingu. Ég gerði það einnig í ræðu minni við 2. umr. málsins. Við getum verið sammála um það. En eins og ég benti á þar taldi ég að það þyrfti að kveða á með nokkuð öðrum hætti um þessi atriði en gert er í frv. og það væri ýmsu ábótavant í þessu efni í frv., þó að sumt — og meginhugsunin — stefni í rétta átt.

Hæstv. forsrh. sagði að menn ættu — ég skildi hann svo — að geta verið með því sem til bóta horfir. Jú, út af fyrir sig er sjálfsagt að vera með því sem til bóta horfir. Það gerum við sjálfstæðismenn alltaf. Við erum alltaf með því sem til bóta horfir. En þetta mál er þess eðlis, að við eigum ekki annars kost, ef við ætlum að vera með einstökum atriðum, en þurfa að vera með frv. í heild, ef einstök atriði, sem við höfum sérstakan áhuga á, ættu að komast fram. Og það eru sum atriði frv. þess eðlis, að þau útiloka að sjálfstæðismenn geti verið fylgjandi þessu frv. Nægir í því efni að nefna t. d. kaflann um verðlagsmál.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur gefið hér varðandi samkomulag ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Mér virtist hæstv. forsrh. gera ráð fyrir því, að þetta samkomulag, sem mér skilst að eigi að bera undir atkv. hjá félagsmönnum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, verði samþykkt. Ef samkomulagið verður samþykkt kaupa opinberir starfsmenn aukinn samningsrétt, aukinn verkfallsrétt sér til handa með því að gefa eftir 3% áfangahækkun í kaupi. En spurningin er: Hvað skeður ef þessu samkomulagi er hafnað af opinberum starfsmönnum? Fá opinberir starfsmenn þá áfangahækkunina, þar sem þeir fá ekki aukinn samningsrétt? Mér fannst að þetta kæmi ekki skýrt fram hjá hæstv. forsrh., þ. e. a. s. hvað skeði ef samkomulagið yrði fellt. Það væri gott og ég vil segja nauðsynlegt að fá nánari skýringu á þessu atriði.

Þá vil ég koma að því sem snýr að bankamönnunum og hv. 2. þm. Norðurl. e. hafði gert fsp. um. Ég vil spyrja frekar í sambandi við það mál. Nú hafa bankamenn fengið 3% áfangahækkun við útborgun kaups fyrir aprílmánuð. Halda þeir þessari áfangahækkun þegar frv. það, sem við nú ræðum, er orðið að lögum? Ef svo er ekki, er þá bankamönnum ætlað að greiða aftur það, sem þeir hafa fengið ofborgað, eða halda þeir því, sem þeir hafa fengið borgað, en þessi áfangahækkun sé af þeim tekin í næsta mánuði? Það eru svona spurningar sem vakna í sambandi við samkomulag það, sem hér hefur verið greint frá og gert er ráð fyrir að lögfest verði með þeirri brtt. sem nú hefur verið borin fram.

Það er ekki óeðlilegt að komi upp í hugann ýmsar spurningar í sambandi við slík viðskipti, sem þarna eru á milli hæstv. ríkisstj. og einstakra hagsmunasamtaka. Það er vegna þess að það eru að mínu viti í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð sem hæstv ríkisstj. hefur í þessum efnum. Það er í hæsta máta óeðlilegt að taka upp þá siðvenju eða stjórnarhætti að ætlast til þess að einstakar stéttir kaupi sér það, sem hingað til hafa verið talin sjálfsögð mannréttindi, með því að afsala sér kaupi í einu eða öðru formi. Þá á ég við það sem skeði við efnahagsaðgerðirnar 1. des. s. l., þegar ákveðið var að launþegar skyldu fá það sem kallað var félagslegar umbætur á því verði að afsala sér 3% af verðbótavísitölu. Og nú er gengið feti framar í þessum nýju stjórnarháttum með því sem nú er lagt til í frv. og með brtt. þeirri sem hér hefur verið lögð fram. Nú eiga opinberir starfsmenn að fá aukinn samningsrétt, sem þýðir aukinn verkfallsrétt, en þeir verða að kaupa þennan rétt með því að gefa eftir 3% áfangahækkun á launum sínum. Þetta eru frá mínu sjónarmiði algerlega óhæf vinnubrögð. Við getum deilt um það, hvort þjóðfélagið þoli kauphækkun eða þoli ekki, en við eigum ekki að fara að blanda því máli inn í aðra hluti, sem varða mál er snerta venjuleg mannréttindi. Ég tel það vera venjuleg mannréttindi að geta notið félagslegra umbóta, ef þjóðfélagið hefur á annað borð möguleika á því að koma þeim á fót. Og við eigum ekki að meta það, hvort veittur er aukinn samningsréttur eða aukinn verkfallsréttur, eftir því hvort það fást eftirgefin einhver prósent af kaupi.

Hér er farið inn á mjög hættulega braut. Það er naumast hægt að fara inn á þessa braut á hættulegri hátt en einmitt í því efni sem varðar verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Spurningin um verkfallsrétt opinberra starfsmanna er miklu meiri en svo, að það eigi að setja það mál í samband við launamál. Það verður að vega og meta eftir allt öðrum sjónarmiðum. Því miður er nú svo komið, að opinberum starfsmönnum hefur verið veittur verkfallsréttur. Ég taldi það á sínum tíma mjög varhugavert spor. Það eru margar ástæður til þess. Ég ætla ekki hér að flytja ræðu um það mál. En ég bendi aðeins á það, að við Íslendingar höfum algera sérstöðu í því efni hvað ríkisvald okkar er veikt. Og sporin hræða í þessu efni. Ég er ekki að gera því skóna núna, að það sé rétt að jafna ástandi dagsins í dag við það ástand sem var þegar við misstum sjálfstæði okkar vegna þess að við höfðum þá veikt ríkisvald. En einmitt sú staðreynd, að við höfum veikt ríkisvald, kallar á það, að við reynum að byggja upp sterkt embættismannakerfi í landinu, þannig að ríkisvaldið geti alltaf treyst á að starfsmenn þess leggi ekki niður störf, hafi ekki verkfallsrétt. Í þessu landi höfum við ekki aðstæður til þess að mæta slíku ástandi sem aðrar þjóðir hafa. Við höfum ekki her í þessu landi sem við getum beitt til varnar undir svona kringumstæðum. Og við ætlum okkur ekki að hafa her. Við verðum þess vegna að byggja ríkisvald okkar upp með sérstæðum hætti. Auk þess er á það að benda, að þar sem ég þekki til er ekki verkfallsréttur opinberra starfsmanna nema mjög takmarkað og takmarkaðra en er hér. Auk þess höfum við þá reynslu af verkföllum í þessu landi, að það er ekki hvetjandi til þess að fara að útvíkka heimild til verkfalla fram yfir það sem nú er. Það hefði verið nær fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja meiri áherslu á að búa svo að opinberum starfsmönnum að þeir gætu unað við sín kjör. Og það er einmitt það, sem er meginviðfangsefni í dag, að búa svo að opinberum starfsmönnum að þeir geti unað við sín kjör. Það er lífsnauðsyn og það er besta tryggingin fyrir því, að við fáum gott mannval til opinberra starfa. Þetta gerir ríkisstj. ekki. Hún hyggur nú á það ráð að ganga enn lengra í að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt en áður hefur verið gert.

Hæstv. ríkisstj. gerir það með þeim sérkennilega hætti, sem ég hef áður vikið að. Það á að veita réttindi gegn því að þau séu keypt. Ég verð að segja að þessir stjórnarhættir minna mig á það, þegar kaþólska kirkjan gekk sem rösklegast fram í því að selja aflátsbréf sín. Það var ákaflega vinsælt á sínum tíma og þótti hafa mikla þýðingu, því að það var hvorki meira né minna í húfi en að fólk gat keypt sér alsælu í öðrum heimi með því að afsala sér fjármunum á móti. Nú er það vinnuaðferð ríkisstj. að bjóða einstökum stéttum og hagsmunahópum að tryggja sig í þessu lífi, en gegn borgun. Borgunin felst ýmist í því að gefa eftir hluta af verðbótavísitölu eða áfanga í kauphækkunum. Ég held að hæstv. ríkisstj. ætti ekki að ganga lengra á þessari braut. Það er nóg í bili, finnst mér, hjá hæstv. ríkisstj. að leggja þetta meingallaða frv. fram á Alþ. og knýja það fram, fá meirihlutasamþykkt fyrir því með aðgerðum sem ganga svo hart að samstarfsflokkunum að fulltrúar þeirra í þessari d. mega ekki lengur mæla. Það er nóg að gert, þó að hæstv. ríkisstj. fari ekki að taka upp aflátssöluaðferðir þær sem ég hef hér vikið að.