03.04.1979
Efri deild: 75. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3812 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er alltaf bót í máli, hvað sem stjórnarliðum líður, að það er augljóst mál að stjórnarandstæðingar hafa ekki misst málið. Það er gott. En ég vildi leiðrétta misskilning sem mér fannst koma fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Hann gerði því skóna, að með samkomulagi við BSRB væri verið að auka verkfallsrétt. Þetta er alger misskilningur. Það er ekki minnst á verkfallsrétt í samkomulaginu við BSRB. Eins og fram kom-í ræðu hans hefur BSRB nú í lögum tryggt sér verkfallsrétt. Það gerðist í tíð fyrrv. ríkisstj., ef ég man rétt. Það, sem um er að ræða í þessu samkomulagi, er ekki að auka verkfallsréttinn, heldur er það aðalatriðið að samkv. núgildandi lögum skuli kjarasamningar opinberra starfsmanna gerðir til tveggja ára, en gert er ráð fyrir að það atriði verði numið úr lögum og verði samningsatriði hverju sinni hver gildistími samninganna er. Varðandi verkfallsréttinn eru í raun og veru þau ákvæði ein í þessu samkomulagi, að ákvæðin um þá, sem vegna öryggisgæslu og annarra ástæðna mega ekki fara í verkfall, séu gerð skýrari.

Það er því alger misskilningur hjá hv. þm., að verið sé að auka verkfallsrétt með þessum breytingum á lögum um samningsrétt opinberra starfsmanna, ef til kemur. En til þeirra kemur auðvitað því aðeins að það verði samþykkt við allsherjaratkvgr. að gefa eftir þessa áfangahækkun.

Ég held að það sé ákaflega vafasamt að orða það eins og hv. þm. gerði, að með því að gefa eftir þessa áfangahækkun séu opinberir starfsmenn að kaupa sér annars konar rétt. Auðvitað meta opinberir starfsmenn þetta og það þarf enginn að setja sig í þeirra stað. Þeir meta þetta út frá sínum sjónarmiðum og sínum hagsmunum. Og þá verður að líta á hvernig var í pottinn búið þegar þeir gerðu samninga til tveggja ára og hvers vegna þeir voru að áskilja sér áfangahækkanir á sínum tíma. Það var auðvitað af því að það lá fyrir, að samningar við Alþýðusambandið runnu út miklu fyrr. Auðvitað hafa opinberir starfsmenn hugsað sem svo: Á þessum samningstíma, sem gildir fyrir okkur, verða Alþýðusambandsmenn eða þau launþegasamtök búin að gera nýja samninga þar sem grunnkaupshækkun hefur komið til greina. Þess vegna viljum við hafa vaðið fyrir neðan okkur og áskilja okkur áfangahækkun. — Þetta hlýtur auðvitað að hafa verið hugsunin sem bjó að baki því að ákvarða um áfangahækkun.

Nú hefur það hins vegar gerst, að þrátt fyrir að ASÍ hafi haft lausa samninga um svo langan tíma hafa nýir samningar ekki verið gerðir né grunnkaup almennt hækkað. Frá því sjónarmiði getur það e. t. v. verið eðlilegt frá sjónarmiði opinberra starfsmanna að vera ekki að halda fast við áfangahækkun þessa. Hún var í raun og veru tryggingarákvæði og það ástand sem það átti að vera varnagli gegn, hefur ekki komið fram. Þess vegna get ég vel ímyndað mér að þeir líti ekki á það sem svo mikla fórn af sinni hálfu að steppa áfangahækkuninni, auk þess sem þeir hljóta auðvitað að hafa þann bakþanka, að ef þeir fengju þessa áfangahækkun eru Alþýðusambandið, verkalýðssamtökin, með lausa samninga og mundu e. t. v. fara af stað og e. t. v. ekki láta sér nægja 3%. Þegar upp væri staðið, þó að opinberir starfsmenn fengju þessi 3%, gæti það því verið vafasamur hagur fyrir þá. Ég get vel ímyndað mér að hugsanagangur opinberra starfsmanna sé eitthvað á þessa lund, þegar þeir eru að tala um að gera ekki kröfur til þeirrar áfangahækkunar, sem þeir sömdu um á sínum tíma. En umfram allt vil ég leiðrétta þann misskilning og róa hv. 5. þm. Vestf., að það er ekki stafkrókur í þessu samkomulagi um aukinn verkfallsrétt.