02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

32. mál, lífríki Breiðafjarðar

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka mínum góðu félögum, hv. 4, og 5. þm. Vesturl., fyrir yfirlýstan stuðning við þessa till. og fulla vinsemd. Ég viðurkenni að það er alveg rétt aths. sem fram kom hjá þeim, að e.t.v. hefði verið réttast að þessi till. hefði verið flutt af öllum þm. Vesturlands og Vestfjarða. En atvikin höguðu því öðruvísi. Á fundi þeim, sem haldinn var í Búðardal 14. f. m. og boðaður var af Náttúruverndarsamtökum Vesturlands og Vestfjarða var mér kunnugt um að öllum þm. Vesturlands og Vestfjarða var boðið, og þeir eru ein tylft eða 12 að tölu. Það kom þangað enginn nema ég. En ég efast ekki um að það hefur verið einskær tilviljun.

Um Grundartanga vil ég gjarnan ræða við hv. 4, þm. Vesturl. við annað tækifæri.