03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3818 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og ég hef hvað eftir annað lagt áherslu á, ber að mínu mati að leysa málefni landbúnaðarins þannig, að saman fari ný stefnumörkun fyrir landbúnaðarframleiðsluna og ákveðin verði aðstoð til bændastéttarinnar vegna þeirra erfiðleika sem að steðja í ár vegna umframframleiðslu landbúnaðarafurða. Ég gerði grein fyrir þessu þegar í des. s. l. í framsöguerindi með því máli sem nú er til umr. Ég gerði jafnframt grein fyrir því, að ég teldi fjögur atriði mikilvæg sem ákveða þyrfti af Alþ. þannig að marka mætti nýja stefnu fyrir landbúnaðarframleiðslu:

Í fyrsta lagi víðtækar heimildir til Framleiðsluráðs til að leggja á verðjöfnunargjald þannig að spornað verði um leið gegn þeirri þróun, sem verið hefur í landbúnaðarframleiðslunni undanfarin ár, og henni snúið við. Það er það frv., sem er nú til umr.

Í öðru lagi taldi ég nauðsynlegt að jarðræktarlögum yrði breytt þannig að draga mætti nokkuð úr jarðræktarstyrkjum, sérstaklega þeim sem stuðla að aukinni búvöruframleiðslu, en jafnframt veittar heimildir til þess að ráðstafa því fjármagni, sem afgangs verður, til að auka fjölbreytni búvöruframleiðslunnar og á annan máta til þess að ná eðlilegum markmiðum fyrir landbúnaðarframleiðslu.

Í þriðja lagi lagði ég áherslu á að breyta þyrfti framleiðsluráðslöggjöfinni þannig að beinir samningar hæfust á milli ríkisvalds og bænda um kjaramál bændastéttarinnar. Inn í þá samninga hljóta að sjálfsögðu að falla framleiðslu- og tekjumarkmið fyrir bændastéttina.

Og í fjórða lagi hef ég talið nauðsynlegt að Alþ. ákveði þau meginmarkmið, sem leggja ber til grundvallar við gerð áætlunar um þróun landbúnaðarframleiðslu, og einnig ákveði þær ýmsu leiðir, sem ríkið telur rétt að fara til að ná þeim markmiðum.

Ég hef skýrt frá því, að till. til þál. um stefnumótun í landbúnaði hefur verið undirbúin, og mun hún verða lögð fyrir Alþ. eftir örfáa daga. Í þeirri till. verður jafnframt gert ráð fyrir því, að Alþ. samþykki að slík áætlun fyrir landbúnaðarframleiðsluna verði gerð og hún lögð fyrir Alþ. í haust. Mér hefur litist svo á málið, að þetta þyrfti að vera ljóst, þ. e. a. s. að stefnubreyting verði í landbúnaðarframleiðslunni, áður en unnt væri að ákveða af hálfu ríkisvaldsins hvaða aðstoð það treysti sér til að veita bændum í þeirri tekjuskerðingu sem við þeim blasir nú í ár.

Í þeim nmr., sem orðið hafa um landbúnaðarframleiðsluna, hafa jafnframt allir þeir hv. þm., sem um málið hafa talað, hygg ég, tekið mjög ákveðið undir það, að ekki komi til mála að bændastéttin beri ein og án aðstoðar um það bil 1.2 millj. kr. í tekjuskerðingu að meðaltali á hvert bú. Nú hefur svo farið, að nokkuð hefur dregist að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir, og því miður hafa því ekki komið til framkvæmda af hálfu Framleiðsluráðs þær verðjöfnunaraðgerðir sem stuðla að því að draga úr framleiðslunni. Það er mjög illt. Einkum á ég þar við takmörkun á fóðurbætisnotkun. Aftur á móti hafa bæði þm. og fulltrúar bænda eðlilega að því spurt, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera vegna umframframleiðslunnar og tekjuskerðingarinnar í ár. Ég tel mér því skylt að skýra frá því hér, að ég hef lagt fram í ríkisstj. till. um lausn á þeim vanda.

Ég hef hugsað mér að ríkisstj. lýsi því yfir, að hún muni beita sér fyrir ákveðnum aðgerðum í þessu sambandi. Ég legg til að Framleiðsluráði landbúnaðarins verði heimiluð lántaka allt að 3.5 milljörðum kr. til þess að greiða fyrir sölu á umframframleiðslu landbúnaðarafurða erlendis eða til innlends iðnaðar, að fengnu samþykki landbrh., til viðbótar þeim útflutningsbótum sem veittar eru úr ríkissjóði samkv. lögum, og ríkisábyrgð verði veitt fyrir lántöku þessari. Hér er um að ræða 2/3 af þeim vanda sem við blasir í ár, þeirri tekjuskerðingu sem við bændastéttinni blasir. Þá yrði tekjuskerðing, sem eftir stæði, að meðaltali 400 þús. kr. á hvert bú. Þá geri ég ráð fyrir að lán þetta verði endurgreitt ásamt kostnaði á 5 árum þannig: Í fyrsta lagi að hluta með því fjármagni, sem heimilt er samkv. lögum að veita til útflutningsbóta, en ekki kann að reynast nauðsynlegt að nýta að fullu einstök ár næsta 5 ára tímabil, enda veiti Alþ. heimild til slíkrar ráðstöfunar útflutningsbóta með nauðsynlegum breytingum á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í öðru lagi að hluta með nokkru af því fjármagni, sem veitt er samkv. jarðræktarlögum, en ekki kann að verða notað til slíkra framkvæmda næstu 5 árin, enda samþykki Alþ. breytingar sem nauðsynlegar eru á jarðræktarlögum í því sambandi. Og í þriðja lagi með fjárveitingum á fjárl. næstu 5 árin, að svo miklu leyti sem ekki reynist unnt að endurgreiða umrædd lán og kostnað að fullu eftir ofangreindum leiðum.

Unnið hefur verið að því af sérfróðum mönnum að meta hve hratt megi ná landbúnaðarframleiðslunni niður. Sett hafa verið þar ákveðin markmið til viðmiðunar í sambandi við mjólkurframleiðsluna. Er talið hæfilegt að stefna að því, að mjólkurframleiðslan fullnægi þörfum landsmanna að viðbættum um það bil 5%, sem er nauðsynlegt til þess að gera ráð fyrir árstíðarsveiflum í framleiðslunni. Hins vegar er stórum erfiðara að áætla samdrátt í framleiðslu sauðfjárafurða. Því veldur ýmislegt. Bæði gengur slíkt hægar. Þar er ekki um fóðurbætistakmörkun að ræða sem haft getur nein veruleg áhrif. Í öðru lagi er framleiðsla sauðfjárafurða mikilvæg í íslenskum iðnaði og til þess þarf einnig að taka tillit. Því hafa verið skoðaðir kostir með samdrátt frá 10–20%.

Í ljós kemur, að auðvelt á að vera að ná mjólkurframleiðslunni niður, og sýna bráðabirgðatölur að umframframleiðsla landbúnaðarafurða á ekki, ef ákveðið er tekið á fóðurbætismálinu, að þurfa að verða ýkjamikil á næsta ári, þótt varla komist hún niður fyrir 10%, og síðan niður fyrir það, þannig á á 2., 3. og 4. og 5. ári þessa 5 ára tímabils telja sérfróðir menn að töluverðar útflutningsbætur innan 10% markanna verði til ráðstöfunar til endurgreiðslu á þessu láni. Ég hef því jafnframt gert ráð fyrir í þessari till. að af útflutningsbótum, samkv. því sem ég rakti áðan, skuli þó greiðast a. m. k. 3.5 milljarðar kr. af láninu og kostnaði við það. Ég vek hins vegar athygli á að þetta er að sjálfsögðu háð því, að Alþ. veiti umbeðnar heimildir, Alþ. samþykki breytingar á lögum, Alþ. samþykki í fyrsta lagi það frv., sem hér liggur fyrir, þannig að takmarka megi fóðurbætisgjöf svo að áhrifaríkt verði í mjólkurframleiðslunni, Alþ. samþykki beina samninga milli ríkisvalds og bænda, samþykki breytingar á jarðræktarlögum, sem liggja nú fyrir í Ed., og leggi grundvöll að áætlanagerð til næstu 5 ára fyrir landbúnaðarframleiðsluna. Ég geri ráð fyrir að þau af þessum málum, sem ekki liggja þegar fyrir Alþ., liggi fyrir á næstu dögum. Þegar liggur að sjálfsögðu fyrir það frv. sem hér er til afgreiðslu, frv. um breytingu á jarðræktarlögum liggur fyrir Ed., till. til þál. mun verða lögð fram innan örfárra daga og frv. til l. um breyt. á l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. er til ítarlegrar meðferðar nú í þeirri samráðsnefnd þingflokka sem starfað hefur. Ég geri mér vonir um að samstaða náist þar. Það mál þarf að ræða nokkru nánar við stjórn Stéttarsambands bænda vegna ýmiss konar breytinga, sem munu verða nauðsynlegar, ef samstaða á að nást, svo að öllum líkindum verður það mál ekki lagt fyrir Alþ. fyrir páska, en þá strax eftir páskahlé.

Ég mun að sjálfsögðu hlusta á allar hugmyndir þm. um hvernig á að hlaupa undir bagga með bændastéttinni í þeim erfiðleikum sem nú eru. Ég hef engan þm., eins og ég sagði áðan, heyrt halda því fram, að bændur ættu einir að bera þessar byrðar. Ég hygg að það væri rangt að kenna bændastéttinni einni um það að umframframleiðsla er orðin svo mikil. Framleiðsluráðslöggjöfin leggur á það áherslu að bændur skuli hafa tekjur í samræmi við tekjur verkamanna og iðnaðarmanna. Þrátt fyrir ákvæði um útflutningsbætur hefur það ekki náðst.

Bændur hafa sjálfir bent á nauðsynlegar breytingar á framleiðsluráðslögunum til að hamla gegn aukinni framleiðslu. En segja má að bændur hafi haft þann kostinn nánast því einan til þess að auka tekjur sínar að auka framleiðsluna. Þarna spila því saman margir þættir og er alrangt ef einhver vill kenna bændastéttinni einni um umframframleiðsluna. Þetta er sannarlega þjóðarvandamál og þjóðin í heild hlýtur að taka á því.

Þá vil ég að lokum lýsa ánægju minni með þá samstöðu sem mér sýnist hafa náðst í landbn. um öll meginatriði þessa máls. Ég vil taka það fram, að ég met mikils þá ítarlegu vinnu sem landbn. hefur lagt í að athuga framkvæmd þeirra leiða sem er bent á í þeirri brtt. sem nú liggur fyrir, og að sjálfsögðu munu þau atriði höfð til hliðsjónar þegar reglugerð verður samin í samræmi við þessi lög.

Ég vil svo að lokum leggja á það mjög ríka áherslu, að þetta mál þarf nauðsynlega að fá samþykki Alþ. sem fyrst, þannig að hamlandi aðgerðir geti hafist. Ég tel brýna nauðsyn bera til að það verði samþykki fyrir páskahlé, annars verður þar enn á langur dráttur. Ég vek athygli manna á því, að nauðsynlegt er að kalla saman fund Stéttarsambandsins til að fjalla um málið. Það þarf því að hafa nokkurn aðdraganda.