03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 510 birtast brtt. frá landbn. þessarar hv. d. Eins og lýst hefur verið af frsm. og formanni n. stendur n. öll að þessum brtt., en við tveir fulltrúar Sjálfstfl. höfum þó óskað eftir því að hafa frjálsar hendur varðandi afgreiðslu þeirra, a. m. k. að hluta.

Í sambandi við þetta mál vil ég rifja það upp, að við hv. 1. þm. Suðurl. fluttum við 2. umr. á þskj. 466 brtt. við frv. Þessar brtt. ásamt öðrum brtt. við frv. voru síðan dregnar til baka til 3. umr. og athugaðar á milli umr. í n. Voru það að mínum dómi eðlileg og hyggileg vinnubrögð til þess að freista þess að ná samstöðu í þessu máli, sem reynst hefur viðkvæmt og næsta erfitt í allri meðferð vegna þess hve sjónarmið hafa verið mörg og erfitt að samræma þau. Þetta hefur að verulegu leyti tekist hvað efnisatriði málsins sjálfs varðar.

Í þeim brtt., sem nú liggja fyrir frá hv. landbn., má segja að í aðatefnisatriðum sé í raun og veru fylgt tveim brtt. sem við hv. þm. Eggert Haukdal lögðum fram við 2. umr. Að vísu er það með breyttu orðalagi á stundum og nokkuð breyttri efnisskipan, en aðalatriðið er það, að efnislega er hér um nálega sama málið að ræða. Þess vegna höfum við ákveðið að styðja málið að mestu leyti í því formi sem það er á þskj. 510.

Ég vil aðeins segja það, að nokkrar breytingar hafa þó orðið á þessu í þeirri vinnu sem n. hefur lagt í það síðan, og er það sumpart til þess að mæta nýjum upplýsingum sem einstök atriði hafa verið tekin inn. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessa niðurstöðu ítarlega. Ég vil aðeins geta þess, að ég lít svo á að þær leiðir, sem bent er á í a-lið, séu eins og gert var ráð fyrir í till. okkar Eggerts Haukdals, þannig upp settar, að þær séu jafnréttháar og að Framleiðsluráð og Stéttarsamband bænda með staðfestingu landbrh. hafi frjálsar hendur um að velja úr þessum leiðum, sem bent er á, eftir því sem hyggilegast sýnist. Hér eru þessar leiðir ekki settar upp í neina forgangsröð. Þetta tel ég hyggilegt og tel eðlilegt að Stéttarsambandið og Framleiðsluráð hafi þarna frjálsar hendur um val.

Í sambandi við þá fyrirvara, sem við hv. þm. Eggert Haukdal höfum varðandi þessar till., höfum við kosið að láta koma til atkv. af till. okkar á þskj. 466 5. tölul., að því er varðar nefndarskipun til að úrskurða ágreiningsefni, og ákvæði til bráðabirgða. Að öðru leyti drögum við þær till., sem birtar eru á þskj. 466, til baka og óskum ekki eftir að þær komi hér til afgreiðslu.

Ég skal ekki ræða það efnislega, sem fram kom í ræðu hv. frsm. og formanns n., Stefáns Valgeirssonar, um þetta mál, að öðru leyti en því, að ég vil aðeins geta þess sem hann sagði og mun hafa verið svar við orðum í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar frá því við 2. umr., þar sem hv. þm. Páll Pétursson sagði að Austur-Húnvetningar og Skagfirðingar hafi látið frá sér fara ítarlega umsögn um þetta mál. Þetta var rétt hjá hv. þm., en þær umsagnir voru gerðar á almennum bændafundum, en ekki af stjórnum búnaðarsambandanna. Það voru aftur á móti umsagnir frá stjórnum búnaðarsambandanna sem sendar voru til hv. landbn. Það er hins vegar rétt, að þær tillögur, sem afgreiddar voru á almennum bændafundum bæði á Blönduósi og Sauðárkróki, voru mjög ítarlegar og vandaðar og hygg ég að það hafi a. m. k. að ýmsu leyti mátt sækja til þeirra góð ráð um framvindu þessa máls.

Ég geri ekki neinn ágreining að því er varðar uppsetningu í brtt. á þskj. 510, þótt hún sé að mínum dómi sumpart óskýrari en er á þskj. 466, í till. okkar Eggerts Haukdals, og mun styðja meginefni þessa máls, en óska eftir því að 5. tölul. og ákvæði til bráðabirgða komi til atkv. nú við 3. umr.

Ég tel ástæðu til að rifja upp ákvæði til bráðabirgða eins og þau hljóða í till. okkar, en þau hljóða svo, með leyfi næstv. forseta:

„Á árinu 1979 er heimilt að leggja fram nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þess að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara á þessu verðlagsári og birgðum búsafurða sem til eru í landinu þegar lög þessi öðlast gildi.“

Hér er um heimildarákvæði að ræða sem er ætlað til þess að hæstv. ríkisstj. hafi í sínum höndum lagalegar forsendur fyrir því að aðstoða við sölu og afsetningu á búvörum, bæði þeim birgðum, sem nú eru til í landinu, og eins þeim hluta af framleiðslu þessa verðlagsárs sem verðtrygging nær ekki yfir. Hér er ekkert sagt um það, að sú aðstoð ríkisvaldsins eigi að vera svo mikil að hún dugi til þess að fullt verð náist, enda hygg ég að sé sanngirni sýnd í máli eins og þessu, þá sé það mat manna að eðlilegt sé að framleiðendur, þ. e. bændastéttin, taki á sig einhvern hluta þessa vanda, en þjóðarheildin komi til aðstoðar við að bera hluta hans. Hér skal ég ekki fara út í að greina þetta nákvæmlega sundur. En svo er þetta bráðabirgðaákvæði rýmilega orðað, að það ætti síst að vera ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að leggjast gegn því að fá það samþykkt. Þess vegna kom mér nokkuð á óvart að þetta skyldi ekki vera tekið upp af hv. nefnd.

Nú er það svo að hæstv. landbrh. hefur flutt hér mikla ræðu. Sú ræða var um landbúnaðarmálin á víð og dreif. Sú ræða var ekki flutt með tilliti til þess að greiða fyrir því að þetta mál fengi skjóta afgreiðslu eða þá að þessi umr. gengi hratt fyrir sig. Ef hæstv. ráðh. hefði óskað eftir að þessari umr. lyki sem fyrst, þá hefði hann átt að einskorða sig við það mál sem hér er á dagskrá, en láta bíða almenna umr. um landbúnaðarmálin í heild. Það er þó svo, að þegar hæstv. ráðh. hefur slíka umr., þá hlýtur það að kalla eftir því, að aðrir þm. sjái sér ekki fært annað en hefja að einhverju leyti umr. um þessi mál á víð og dreif.

Hæstv. ráðh. minnti á það, að hann hefði talið að eðlilegt væri í sambandi við landbúnaðarmálin að saman færi ný stefna í landbúnaðarmálum og ákvæði um aðstoð ríkisins landbúnaðinum til handa. Þetta er allt gott og blessað. Hæstv. ráðh. taldi upp fjögur atriði sem hann hefði í hyggju að koma fram á þessu þingi er nú situr: Í fyrsta lagi heimildarákvæði til Framleiðsluráðs sem birtast með því frv. sem hér er á dagskrá. Í öðru lagi breytingar á jarðræktarlögum sem fela hæstv. ráðh. stórfelldar heimildir til þess að skerða jarðræktarframlög. Í þriðja lagi heildarlöggjöf um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í fjórða lagi að Alþ. ákveði meginmarkmið í landbúnaðarmálum og leiðir til þess að ná þeim markmiðum.

Ég vil segja út af þessum fjórum atriðum, að í raun og veru er það stefnan sem er nr. eitt. Og í raun og veru hefði hæstv. landbrh. átt að flytja sem fyrsta mál í landbúnaðarmálum till. sína um mótun nýrrar stefnu í landbúnaði. Hæstv. ráðh. hefur kynnt fyrir þjóðinni, að hann hafi slíka stefnumótun í undirbúningi, og hann hefur sagt frá þeim atriðum í margar vikur. Það er enda kunnugt að hann réð sérstakan starfsmann í rn. á öndverðri sinni ráðherratíð til þess að vinna að þessu máli, eða eins og það var orðað þá í fréttatilkynningu: „ til þess að vinna að langtímastefnu í landbúnaði fyrst um sinn“.

Þrátt fyrir þetta hefur till. hæstv. ráðh. ekki enn séð dagsins ljós. Það mega vel vera skýringar á þessu, og mér er um það kunnugt, vegna þess að ég hef séð drög að þessari till., að það virðist mjög miklu efni vera safnað í grg. till. og e. t. v. liggur í því mikil vinna að safna saman gögnum og gera útreikninga sem eiga að vera fræðilegt yfirlit yfir þróun landbúnaðar og ýmsa þætti landbúnaðarmála á liðnum árum til þess að hafa sögulegt og hagnýtt gildi í sambandi við landbúnaðarmál. Þetta er auðvitað síst að lasta. En hitt sný ég ekki til baka með, að ef þessir fjórir þættir, sem hæstv. ráðh. minntist á, eru samandregnir, þá er það stefnan sem er nr. eitt. Lagasetningu og lagabreytingar á síðan að laga að þeirri stefnu sem mótuð er.

Nú er það svo, að við 10 þm. Sjálfstfl. höfum flutt hér á Alþ. till. um stefnumörkun í landbúnaði og það eru orðnar allmargar vikur síðan því þskj. var útbýtt. Ég lít svo á að þar sé um skýrt markaða stefnu að ræða og þær breytingar í ýmsum greinum landbúnaðarstefnunnar sem feli það í sér að unnt verði að ná tökum á skynsamlegri þróun landbúnaðarframleiðslunnar á komandi árum. Þessi till. er ekki enn komin til umr., en gerir það væntanlega fljótlega, og ég tel að það væri mikils virði að sú till. fengist afgreidd á þessu Alþingi. Ég vil því síst lasta það, að að því sé stefnt af hæstv. ráðh. að móta nýja stefnu. Ég vil gjarnan sjá þá stefnu, hvernig hún verður í endanlegum búningi, áður en ég segi um hana eitt eða annað. En ef svo fer að hún fari saman við þá stefnumörkun, sem við sjálfstæðismenn höfum látið frá okkur fara, þá tel ég það vel. Fari hins vegar svo, að hún fari þar í bága við að ýmsu leyti, þá mundi ég fyrir fram a. m. k. og að lítt athuguðu máli ætla að þar væri rangt stefnt. Um þetta er ekkert að segja fyrr en þessu væntanlega þskj., sem hefur verið rætt um af hæstv. ráðh., ekki tvisvar, ekki þrisvar, ekki fjórum sinnum, heldur margsinnis, æ ofan í æ, loks verður útbýtt.

Ég verð að segja það um þá liði sem hæstv. ráðh. ræddi hér, þ. e. um jarðræktarlögin annars vegar og framleiðsluráðslögin hins vegar, að ég tel í fyrsta lagi að það sé ekki tímabært að breyta jarðræktarlögunum fyrr en ný stefna hefur verið mörkuð. Eftir að stefnan hefur verið mörkuð kann að verða þörf á því að laga jarðræktarlögin að einhverju leyti að þeirri stefnu. Að hlaupa til og byrja á því að breyta jarðræktarlögunum með einhverri skyndiaðgerð, áður en Alþ. hefur markað stefnuna, held ég að sé öfugt að farið. Þetta er reyndar mál sem sýnt var á Búnaðarþingi og ekki náðist samstaða um, heldur klofnaði Búnaðarþing í afstöðu til þess. Um frv. að öðru leyti skal ég ekki ræða hér efnislega. Það hefur verið lagt fyrir hv. Ed. Það virðist þó færa í hendur hæstv. ráðh., hver sem hann er, með aðild stjórna annarra stofnana, einkanlega aðild stjórnar Framleiðnisjóðs, vald til þess að ráðstafa fé eftir mörgum leiðum, svo mörgum og óljósum að næsta óeðlilegt sýnist og er í rauninni nokkuð undarlegt að hæstv. ráðh., hvort sem um er að ræða hæstv. landbrh. eða fagráðh. í öðrum efnum, kjósi að fá í hendur svo rúmar heimildir til ráðstöfunar fjármagns sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég skal svo ekki ræða það meir efnislega.

Varðandi framleiðsluráðslögin, þá hefur endurskoðun þeirra staðið yfir í langa tíð og ég tel fullkomlega eðlilegt að niðurstaða þeirrar endurskoðunar verði lögð fyrir Alþ., þó það hafi raunar þegar komið fram í mínu máli, að stefnuna eigi að marka fyrst og síðan eigi að laga framleiðsluráðslögin eftir þeirri stefnu sem tekin er. Um það skal ég ekki segja meir á þessu stigi.

Hæstv. ráðh. gaf í framhaldi af þessum hugleiðingum sínum og yfirlýsingum það út, að hann hefði hugsað sér að ríkisstj. lýsi yfir að heimiluð verði 31/2 milljarðs kr. lántaka til þess að mæta vanda bændastéttarinnar, þ. e. birgðavanda og vanda umframframleiðslu þessa verðlagsárs. Þetta er út af fyrir sig ágætt, svo langt sem það nær. En þó að hæstv. landbrh. hugsi sér að ríkisstj. gefi einhverja yfirlýsingu, þá er það ekki sama og ríkisstj. hafi gefið yfirlýsingu. Meðan yfirlýsing birtist ekki frá hæstv. ríkisstj. um þetta efni, þá verður að segja að þessi orð hæstv. ráðh. feli ekki mikið í sér.

Hæstv. ráðh. skýrði þessi mál nokkuð. Hluti af þessu láni átti að endurgreiðast af útflutningsbótafé á næstu 5 árum. Ég verð að segja það, að mér sýnist í fyrstu lotu a. m. k. að hér sé um næsta vafasamt atriði að ræða, því að á næstu 5 árum kunnum við að þurfa að nota okkar útflutningsbótarétt, við kunnum að þurfa að nota þá verðtryggingu sem landbúnaðurinn á rétt á lögum samkv. Það eru ekki mikil búhyggindi í því að taka þennan rétt af næstu 5 árum og eyða honum nú. Aðra þætti í þeim hugleiðingum, hvernig ætti að endurgreiða þetta fé, skal ég ekki ræða. Ég hef þegar gert aths. í sambandi við jarðræktarlögin.

Hæstv. ráðh: ræddi, hve hratt mætti ná framleiðslunni niður, og taldi það ekki mikið vandamál að því er mjólkurframleiðsluna snertir, en taldi að sauðfjárframleiðsluna mætti á nokkrum árum draga saman um 10–20% á fjórða og fimmta ári héðan frá væri því ekki þörf fyrir allan þann rétt sem bændur eiga lögum samkvæmt til útflutningsuppbóta og þar kæmi fjármagn til þess að greiða það lánsfé sem hann hygðist verja vegna þessa árs. Þetta kemur e. t. v. að nokkru heim við það sem segir í grg. með frv. til breyt. á jarðræktarlögum, en þar segir svo í upphafi grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. er kveðið svo á, að stefnt skuli að því að framleiðsla landbúnaðarvara miðist fyrst og fremst við innanlandsmarkað.“

Í þessu frv. er ítrekuð sú stefna hæstv. ríkisstj. að draga saman búvöruframleiðsluna í landinu þannig að hún miðist fyrst og fremst við innanlandsmarkað. Það þýðir að e. t. v. á að draga saman sauðfjárframleiðsluna um 30–35%, mjólkurframleiðsluna um 20–25%. Ég efast um þessa stefnu. En þessi stefnuyfirlýsing og þau orð, sem hér hafa verið sögð af hæstv. landbrh., koma beint í framhaldi af því, að hann hefur lagt nokkurt kapp á það sem nýkjörinn formaður Framsfl. að koma því til skila til þjóðarinnar, að Framsfl. sé ekki bændaflokkur. Nú skal ég ekkert vera að útlista þau orð hæstv. landbrh., en allt ber þetta þann keim, að þeir hv. alþm. og aðrir í þessu landi, sem bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti, skuli hafa allan vara á sér um framvindu mála.

Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þetta mál og ræðu hæstv. ráðh., enda þótt ærið tilefni sé til. Ég vil lýsa því yfir, eins og ég hef gert hér fyrr, að ég dreg í efa að rétt sé stefnt þar sem fram kemur í yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. og ítrekað sýnist yfirlýst af hæstv. landbrh., að rétt sé að draga saman landbúnaðarframleiðsluna svo að hún miðist við innanlandsmarkað. Ég tel að það sé rétt að hverfa að því í megindráttum að því er mjólkurframleiðsluna snertir, en hvað sauðfjárframleiðsluna snertir tel ég það hinn mesta vafa og engin svör við því hægt að gefa fyrr en úttekt hefur verið gerð á þjóðhagslegu gildi þessarar atvinnugreinar og framleiðslu hennar. Þess vegna er bráð og brýn nauðsyn að þegar verði að því horfið að gera ítarlega úttekt á þjóðhagslegu gildi þessarar framleiðslugreinar í því að skyni að fá úr því skorið, hvort sú skoðun mín sé rétt að sauðfjárframleiðslan í landinu sé þjóðhagslega hagkvæm og það væri hið mesta glapræði að draga þá framleiðslugrein saman um allt að 20%, hvað þá 30–35%. Þessu vil ég fá svarað á þjóðhagslegum grunni og að sú úttekt sé gerð þannig að þjóðin trúi. Þangað til sú úttekt hefur verið gerð er það að mínum dómi í hæsta máta ótímabært og ekki réttlætanlegt að æðsti yfirmaður landbúnaðarmála láti frá sér fara yfirlýsingar ítrekað um það, að þessa framleiðslugrein eigi að draga svo saman sem hann hefur ótvírætt meira en gefið í skyn, hann hefur hér sagt og yfirlýsingar birtast um í grg. með frv. til jarðræktarlaga, í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. o. s. frv., o. s. frv.

Að þessum orðum mæltum mun ég ekki hafa um ræðu hæstv. ráðh. fleiri orð. Ég tel meira en tímabært að Alþingi afgreiði það frv. sem hér er á dagskrá. Þar hefur margt verið gert til þess að samkomulag megi takast. Ég tel að við stjórnarandstæðingar, sem starfað höfum í landbn., höfum sýnt þar samstarfsvilja, og þrátt fyrir það að brtt., eins og ég þegar hef sagt, séu sumpart óskýrt orðaðar og efnisskipan nokkuð með öðrum hætti en í till. okkar hv. þm. Eggerts Haukdals á þskj. 466, munum við láta kyrrt liggja um meginefni frv., en óskum eftir að þær tvær brtt., sem ég hef þegar getið um, komi til atkv. hér við 3. umr.