03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3830 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst staðfesta það með orðum mínum hér, að hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sem nú dvelst erlendis í opinberum erindagerðum, hefur veitt mér umboð til að lýsa því hér yfir fyrir sína hönd, að brtt. sínar við frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem ræddar voru við 2. umr., taki hann til baka. Það vil ég staðfesta úr þessum ræðustól. Þessar brtt., sem hv. 1. þm. Austurl. hafði lagt fram, miðuðu fyrst og fremst að því að tryggja að ríkisvaldið tæki hið fyrsta upp samningaviðræður við stéttarsamtök bænda um að marka stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins og um fjárhagsvandamá? landbúnaðarins í heild. Ástæðan fyrir því, að þessar till. eru teknar til baka nú við 3. umr., eru í fyrsta lagi yfirlýsing hæstv. landbrh., sem gefin var hér við 2. umr., um að eftir þessum brautum yrði unnið af hálfu rn., og í öðru lagi traust á því að svo verði gert, þannig að sérstök viðbótarsamþykkt í þeim efnum reynist ekki jafnnauðsynleg og menn höfðu álitið í upphafi:

Ég vil ekki fara út í það nú að endurtaka neitt af því sem ég sagði við 2. umr. málsins. Ég setti þá fram ýmsar ábendingar varðandi efni frv. Ég vil aðeins taka það fram, að ég tel að það hafi að sumu leyti verið komið til móts við ábendingar mínar í endanlegri tillögugerð hv. landbn., en þó engan veginn að öllu leyti. Ég geri mér hins vegar ljóst að mál standa svo, að það er mikill ábyrgðarhluti að valda frekari töfum á afgreiðslu þessa máls en orðið er, og ég er því tilbúinn að sætta mig við þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir, enda þótt ég sé engan veginn fyllilega ánægður með hana. Ég minni aðeins á það, að það vald, sem Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins fá í hendur samkv. till. hv. landbn., er ákaflega víðtækt og ég ber nokkurn ugg í brjósti fyrir því, að þessu valdi kynni að verða beitt á annan veg en ég tel viðunandi. En ég sætti mig við þetta samt, vegna þess að fari svo að einhverjum þeim, sem hér sitja á hinu háa Alþ., mislíki alvarlega gerðir Framleiðsluráðsins og Stéttarsambandsins, þá er að sjálfsögðu alltaf hægt að taka málin upp á nýjan leik hér á Alþ. og breyta þeim ákvörðunum sem við tökum nú.

Ég vil aðeins vekja athygli á ummælum hv. 7. þm. Reykv., þar sem hann segir sem svo, að fyrst menn vilji fela stéttarsamtökum bænda og framleiðsluráði þeirra þetta vald, þá mætti kannske alveg eins hugsa sér að selja öðrum hópum í þjóðfélaginu: iðnrekendum, verkamönnum eða einhverjum enn öðrum, sjálfdæmi í eigin málum. Mér fannst túlkun hans í þessum efnum dálítið undarleg. Við vitum nefnilega að það, sem hér er um að ræða, er ekki að með frv. sé verið að bæta kjör þess þjóðfélagshóps sem það snertir mest, bænda, heldur er verið að leggja á þá ákveðnar byrðar. Málið er einfaldlega það, að stéttarsamtök þeirra taka að sér að deila þessum byrðum niður á sína félagsmenn, og mér finnst það út af fyrir sig mjög virðingarvert. Enda þótt ég sé ekki viss um að þeir muni beita þessu mikla valdi nákvæmlega að mínum óskum, þá finnst mér út af fyrir sig virðingarvert að stéttarsamtök þeirra skuli bjóðast til þess að deila þessum byrðum niður sjálf á sína menn. Ég er reyndar ekki í nokkrum vafa um að þeir væru ákaflega margir hér í þjóðfélaginu sem mundu fagna því mjög, ef um það væri að ræða að við skulum segja meiri hl. hér á Alþ. teldi óhjákvæmilegt að skerða kjör félagsmanna Alþýðusambands Íslands svo og svo mikið, kannske ekki allra jafnt, en Alþýðusamband Íslands lýsti yfir að það væri reiðubúið að deila niður skerðingunni á sína félagsmenn. Ég hygg að ákaflega margir í þessu þjóðfélagi og þ. á m. margir, sem sitja hér á hinu háa Alþ., mundu fagna því og telja sig þar með leysta undan stórum vanda. Hitt er ég viss um, að því fer fjarri að Alþýðusambandið væri reiðubúið til slíks, og ég er reyndar sjálfur þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að taka að sér slík verkefni. En ég bendi á þetta vegna þess að ég held að það sé hollt að menn hugleiði þennan samanburð, þar sem er annars vegar Alþýðusambandið og hins vegar Stéttarsamband bænda, því að það er í raun og veru alveg hliðstætt, sem Stéttarsambandið er þarna að bjóðast til að gera, eins og ef Alþýðusamband Íslands segði: Gott og vel, hér er ákveðin kjaraskerðing óhjákvæmileg, við tökum að okkur að deila henni niður.

Ég vil síðan koma örlítið inn á það sem minnst hefur verið á í umr. og liggur þó utan þessa frv. sem slíks, þ. e. þann mikla vanda sem við blasir í landbúnaðarmálunum þegar við vitum að hvorki meira né minna en 5 milljarða kr. vantar nú í ár umfram lögboðnar útflutningsbætur til þess að tryggja bændum grundvallarverð og þar með þau launakjör, vil ég kalla, sem þeir eru taldir eiga rétt á miðað við aðrar viðmiðunarstéttir. Það hefur komið hér fram, að fyrirhuguð sé allveruleg lántaka í því skyni að leysa verulegan hluta af þessum stóra vanda, en ekki vandann allan. Ég vil nota tækifærið við þessa umr., fyrst þetta hefur borið á góma í ræðum annarra hér, að láta það koma ótvírætt fram, að þingflokkur Alþb. hefur nú þegar veitt ráðherrum Alþb. heimild til að standa að ákvörðun um slíka lántöku innan ríkisstj.

Það var að heyra á hv. 7. þm. Reykv., að skoðun hans væri sú, að þarna væri um að ræða nokkuð sem alls ekki mætti verða. Hann minntist í því sambandi á að hann treysti hæstv. landbrh. til svo nútímalegra vinnubragða að ekki yrði af fjáröflun með þessum hætti. En ef menn hafna slíkri fjáröflun, hvaða kostir eru þá fyrir hendi? Það eru tveir kostir aðrir fyrir hendi. Annar er sá að ganga beint til verks með almennri skattheimtu strax á þessu ári til að greiða kannske 3, kannske 4 milljarða upp í þessa 5 sem vantar. Auðvitað munu bændur sjálfir verða að bera hluta af þessu. Sá kostur er fyrir hendi. Ég hygg að hv. 7. þm. Reykv. munu ekki telja það nútímalegan kost, og ég hygg að slík fjáröflun muni tæpast samrýmast skattastefnu Alþfl. En þá er það hinn kosturinn, og það er líklega hann sem hv. þm. Vilmundur Gylfason telur sérstaklega nútímalegan, þ. e. a. s. að segja við bændurna sjálfa, þessa 4–5 þús. bændur sem hér þrauka við bú í landinu, að þeir eigi að bera þetta sjálfir, nokkuð á aðra millj. kr. í tekjuskerðingu á hvert einasta sveitaheimili í landinu. Það væri fróðlegt að fá það skýrt fram, hvort það er stefna hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, og það sem skiptir meira máli, hvort það er stefna þingflokks Alþfl. Ef svo er, þá er þar um stefnu að ræða sem ég verð að segja að ég er algerlega andvígur. En ef það er ekki stefna Alþfl., þá væri æskilegt að fá það fram, hvaða aðrar till. hann hefur til lausnar vandans nú á þessu ári, 1979. Það legg ég áherslu á, vegna þess að enda þótt allt verði gert sem í mannlegu valdi stendur til að hefjast handa um skipulagslegar aðgerðir til minnkunar landbúnaðarframleiðslu á næstu árum, þá mun það ekki koma að gagni í ár.

Ég vil aðeins segja í viðbót, að ég er þeirrar skoðunar, og það er reyndar mjög í samræmi við þær brtt. sem hv. 1. þm. Austurl. lagði hér fram, en hefur að vísu dregið til baka af ástæðum sem ég gat um áðan, að í fyrsta lagi sé skylt að hefjast handa með viðræðum af hálfu ríkisvaldsins við stéttarsamtök bænda sem allra fyrst um skipulegar aðgerðir til að draga sem allra mest úr umframframleiðslu á næstu árum, með þeim hætti þó að það leiði ekki til stórkostlega skertra lífskjara hjá bændum sérstaklega og ekki heldur til umtalsverðrar byggðaeyðingar umfram það sem orðið er, en innan þessa ramma skipulegar ráðstafanir til þess að ráðast gegn offramleiðsluvandanum. Þetta ber að gera. En hversu vel sem unnið verður í þessum efnum af hálfu ríkisstj. og annarra aðila, þá dugir það ekki til á árinu 1979. Það mál verðum við að gera upp. Hver á að taka þennan 5 milljarða poka á sig? Eiga það að vera sveitaheimilin ein, eða á það að vera þjóðarheildin? Ég segi hiklaust: Það á að vera þjóðarheildin.