03.04.1979
Neðri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3834 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en verð að leiðrétta misskilning sem komið hefur fram hjá nokkrum hv. ræðumönnum. Ég sé reyndar að hv. 2. þm. Norðurl. v. er ekki í salnum og skal þá bíða með þær aths.

Ég get raunar tekið undir ýmislegt sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv. Ég tek t. d. undir það, að sannarlega eru landbúnaðarmálin mál þjóðarinnar allrar. En þau hvíla náttúrlega þyngst, sérstaklega tekjuhlið þessara mála, á bændastéttinni — langsamlega þyngst. Ég tek undir það sem hann sagði, að að sjálfsögðu hlýtur Alþ. að setja leikreglur, — ég hygg að hann hafi orðað það svo. En mér sýnist hins vegar að hann hafi ekki hlustað nægilega vel á mitt mál. Það er nefnilega rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 1. þm. Suðurl., að sú aðstoð, sem ég hef lagt til í ríkisstj.ríkisstj. beiti sér fyrir, — ég legg áherslu á það, því að að sjálfsögðu þarf það að koma til ákvörðunar Alþingis, — er skilyrt. Hún er háð þeim skilyrðum, eins og ég rakti áðan, að stefnubreyting verði í framleiðslumálum landbúnaðarins. Til að undirstrika þetta enn betur vil ég lesa orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, úr þessari till. Þar segir:

„Ofangreindar ráðstafanir“ — þ. e. a. s. útvegun þessa fjármagns — „eru háðar því, að þegar verði hafist handa um að snúa við þeirri þróun vaxandi framleiðslu landbúnaðarafurða, sem verið hefur undanfarin ár, og áætlun gerð til 5 ára um þróun landbúnaðarframleiðslunnar, þar sem að því verði stefnt, að framleiðsla búvöru verði sem næst þörfum þjóðarinnar og íslensks iðnaðar, enda veiti það Alþ., sem nú situr, nauðsynlegar heimildir.“

Ég vona að þetta sé skýrt. Ætlunin er m. ö. o. að Alþ. setji leikreglurnar, eins og hv. þm. orðaði þetta ágætlega áðan. Ég hef gert grein fyrir því, hvernig ég tel að Alþ. eigi að setja leikreglur: með því að ákveða meginmarkmið og leiðir og með því að samþykkja áætlun fyrir landbúnaðarframleiðsluna til 5 ára. Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að ekki hefur unnist tími til að vinna slíka áætlun. Þetta er ákaflega mikið verk og þótt vinna sé hafin á það töluvert í land. Ég geri mér vonir um að slík áætlun geti legið fyrir þegar Alþ. kemur saman í haust. Einnig í því sambandi er mikilvægt að Alþ. ákveði í meginatriðum leikreglur sem leggja má til grundvallar við slíka áætlunargerð, og að því stefnir sú þáltill. sem ég hef boðað.

Ég vil segja um það sem hv. þm. sagði áðan, að þessi lántaka þýddi — ég held að hann hafi orðað það svo — að verið væri að færa niður lífskjör allrar þjóðarinnar, að rétt er að þarna er gert ráð fyrir að öll þjóðin taki á sig hluta af þessu vandamáli bændastéttarinnar. En ég vona að hann geti viðurkennt það, að lífskjör bænda eru færð meira niður en annarra þjóðfélagsþegna. Gert er ráð fyrir að bændur taki á sig beint sjálfir og án aðstoðar 1/3 af þessari byrði. Einnig var dæmið sett þannig upp, að bændur eru nánast knúðir til þess að draga saman framleiðsluna inn fyrir þessi 10% mörk sem útflutningsbætur leyfa nú, þannig að þetta hvort tveggja er tengt.

Ég vona að þessar skýringar verði til þess, að hv. þm. treysti sér til þess að fylgja mér í þessari viðleitni — og stjórnarflokkunum, vil ég segja. Till. eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Þær eru allar unnar á þeim grundvelli.

Ég vil svo segja örfá orð um það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði áðan. Mér þykir leitt ef hann tók mál mitt svo, að með því væri ég ekki að greiða fyrir skjótri meðferð málsins, eins og hann sagði orðrétt. Mál mitt var einkum um þær aðgerðir sem ég hef lagt til í ríkisstj. í tengslum við þennan bráða vanda landbúnaðarins eða bændastéttarinnar. En ég skildi svo ræðu hv. þm. við 2. umr., að hann nánast krefðist þess, að ég gerði grein fyrir því hvað ríkisstj. ætlaði að gera. Og svo gerðu fleiri þm., eins og t. d. hv. 1. þm. Austf. Ég taldi mér því nánast skylt að gera grein fyrir þessu og ég væri með því að greiða fyrir meðferð þessa máls.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um ýmsar ádeilur hv. 2, þm. Norðurl. v. og hv. síðasta ræðumanns á jarðræktarlög og fleira. Það kemur síðar til umr. og fáum við þá tækifæri til þess.

Ég vil leiðrétta það hjá hv. þm., að ég hafi sagt að Framsfl. væri enginn bændaflokkur. (Gripið fram í.) Jú, ég skrifaði það orðrétt. Framsfl. er ekki einvörðungu bændaflokkur, reyndar tel ég, að bændastéttinni væri lítill greiði gerður með því að einangra hana frá öðrum þjóðfélagsþegnum, og tek undir það sem hv. 7. þm. Reykv. sagði: Hún er að sjálfsögðu órjúfanlegur þáttur í þjóðfélaginu í heild.

Ég vil einnig leiðrétta það, að ég hafi nokkurn tíma nefnt að stefnt væri að því að draga saman framleiðslu sauðfjárafurða um 30–35%. Ég er sannfærður um að það finnst hvergi eftir mér haft. Ég hef sagt að í athugun væri samdráttur sem næmi 10–20%, og ég hef margsinnis undirstrikað að í því sambandi þarf að skoða betur en unnt hefur verið tengsl sauðfjárræktar við ullar- og skinnaiðnað. Þetta er í athugun, en viðurkenna verður að þarna eru ýmis ljón á vegi sem ég ætla ekki að fara að lengja umr. hér með því að ræða.

Það kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að mörkin um útflutningsbætur hafa ítrekað verið brotin. Rétt er það, síðustu árin. En framleiðsluráðslöggjöfin setur önnur mörk. Hún setur t. d. það markmið, að bændur skuli hafa tekjur sem samræmast tekjum verkamanna og iðnaðarmanna. Hvað halda hv. þm. að það markmið hafi oft verið brotið? Ég hygg að það hafi verið brotið svo að segja öll ár, og kannske er það ástæða fyrir því að bændur hafa neyðst til að auka framleiðslu sína, eins og ég nefndi áðan, og skapa sér þannig auknar tekjur. Ég er sannfærður um að ef þess hefði verið gætt, að bóndi með grundvallarbú hefði þær tekjur sem lög hafa ætlað honum, þá væri það vandamál, sem við eigum við að stríða nú, stórum minna og kannske ekkert. Því er ekki unnt að afgreiða þetta mál svo að eitt markmið hafi verið brotið. Við þurfum að líta á framkvæmd laganna í heild sinni.

Að lokum út af ákvæði til bráðabirgða sem hv. sjálfstæðismenn flytja hér till. um. Ég hef sagt það áður, að viðleitnin er góðra gjalda verð, en hún er lítils virði án þess að veita heimild til tekjuöflunar. Ríkissjóður hefur ekkert fjármagn aflögu til að leggja í þetta nú. Því fer víðs fjarri. Þess yrði þá að afla með skattheimtu. Ef hv. þm. vilja veita þá heimild, þá mun sú leið að sjálfsögðu verða skoðuð.