04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3837 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

244. mál, hvalveiðar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þar sem mál þetta kemur til n. sem ég er formaður í, þá tel ég hlýða að lýsa nú þegar yfir stuðningi mínum við þetta frv., sem hefði mátt vera fyrr fram komið. Ég tel alveg vafalaust að við þurfum að gera ráðstafanir til að hafa mjög strangt eftirlit með veiðum á hvalastofninum innan efnahagslögsögu okkar og tel raunar nauðsynlegt að hv. sjútvrn. taki þau mál til íhugunar í heild. Nú er það svo, að ég hygg að að bestu manna yfirsýn sé hvalveiðum íslendinga í því formi, sem þær nú eru, allvel komið. Ýmis álitamál eru samt í jaðri hvalveiða okkar, og þar vil ég minna á framferði sem brýtur í bága við önnur lög, þ. e. a. s. dýraverndunarlögin, sem hér hefur viðgengist í sambandi við veiðar á hvölum til að selja í ágóðaskyni í dýragarða og meðferð á slíkum skepnum, þar sem raunverulega er ekki um að ræða veiðar eða sjávarútveg í hinni eiginlegu merkingu, heldur annars konar framferði. Ég vildi gjarnan að hæstv. sjútvrh., nú þegar slotar hinum bráðu önnum stjórnarmyndunar, tæki þessi mál til vinsamlegrar athugunar og þá í heild það sem lýtur að hvalveiðunum hér við land. En ég get aðeins lofað því sem tormaður sjútvn., að þetta erindi, sem okkur er nú falið, verði tekið til skjótrar og vinsamlegrar meðferðar í nefndinni.