04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mér er ánægja að því að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. Ég gleðst mjög af því að sjá þetta frv. komið hingað í seinni deild. Ég hef áður staðið í nokkuð ströngu til að reyna að koma svona frv. í gegn, sem tókst ekki, því miður. Ástæðan var sú, að frv., þar sem markaðir tekjustofnar eru til umr., eiga nokkuð erfitt uppdráttar, ekki að menn vilji ekki gera allt fyrir það málefni sem um er að ræða, heldur af því að aðferðin sé óæskileg. Ég er aftur á móti á alveg öndverðri skoðun. Mér finnst það hafa sýnt sig í okkar uppbyggingu í þessu landi, að markaðir tekjustofnar hafa sinnt mjög merku hlutverki, og það er álit mitt, að það fjármagn, sem lagt er fram með mörkuðum tekjustofnum, nýtist betur en annað fjármagn, af þeirri einföldu ástæðu að þar kemur oftast annað fjármagn til viðbótar og enn fremur að þeir aðilar, sem þetta fjármagn nota, hafa venjulega sérstakan áhuga á að fjármagnið nýtist sem allra best. Þó er það svo að þeir stjórnmálamenn, sem gjarnan eru andvígir mörkuðum tekjustofnum, samþykkja þá þegar mikið liggur við. Eða hvað eigum við að segja um þann markaða tekjustofn, sem stjórn vegamála í þessu landi greip til þegar mikið lá við að fá meira fjármagn í vegagerð? Hvað eigum við að segja um Byggðasjóðinn, sem hefur haft markaðan tekjustofn fram að þessu sem hefur í raun og veru verið hans höfuðtekjur? Sama er að segja um orkumálin. Þegar mikið lá við var settur til þeirra markaður tekjustofn og hans hefur notið við nú upp á síðkastið. Þetta sýnir að það eru í raun og veru fyrst og fremst litlu tekjustofnanir, sem hafa verið ætlaðir ýmsum félögum sem unnu að sérstökum verkefnum, sem fjárveitingavaldið hefur verið andvígt. En ég held að það sé síður en svo ástæða til þess.

Ég er ekki heldur alveg sammála hv. síðasta ræðumanni um að enda þótt löggjöf kunni að koma nú fljótlega um ráðstafanir til hjálpar þroskaheftum muni sú löggjöf leysa þann vanda svo örugglega að ekki verði not fyrir sjóð eins og þann sem hér um ræðir. Ég held að reynslan sýni okkur að löggjöf, jafnvel þótt hún sé fullkomin og góð, leysi ekki þann vanda að ríkið hafi allt í einu fjármagn til að sinna öllum þeim verkefnum sem þar liggja fyrir. Og einn af kostunum við sjóð sem þennan er einmitt sá, að hann grípur á þeim verkefnum sem hafa orðið utan gátta þegar ríkið er búið að sinna þeim hlutverkum er það telur nauðsynlegust.

Hvað varðar endurhæfingarmálin, þá hefur það verið á allra vitorði að undanförnu að þeim er ekki sinnt sem skyldi, og lít ég þó svo á að við séum betur settir í þeim efnum heldur en flestar aðrar þjóðir. En það verður þar eins og með aðra málaflokka marga, þar sem mikið þarf að gera á stuttum tíma, að það verða alltaf einhver atriði sem betur mættu fara og betur mætti gera. Og þá er það einmitt til svona verkefna í höndum aðila, sem áhuga hafa á verkefninu, sem nauðsyn og gagn er að hafa slíkt fjármagn.

Ég held sem sagt að við getum vel staðið að því að samþykkja frv, sem þetta. Ég veit að það kemur í góðar þarfir. Ég veit að fjármagnið verður vel notað og vonast til að sú n., sem fær frv. til umfjöllunar, afgreiði það fljótt og vel.