04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3842 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Jón Ásbergsson:

Herra forseti. Ég efast ekki um að Framkvæmdasjóður öryrkja er þarft fyrirtæki og yrði góð stofnun, og ég efast ekki heldur um að mörg mannúðarmál og fjárveitingar til þeirra eru knýjandi og að þær mannúðarstofnanir, sem nú nýta sér afmarkaða tekjustofna, fara vel með þá og hafa ofarlega í huga við meðhöndlun þess fjár að nýta þá sem best. Hins vegar er mér algerlega óskiljanleg sú tilhneiging, bæði þm. og opinberra aðila yfirleitt, að byggja tekjuöflun sína á sölu áfengis. Mönnum hlýtur enn að vera í ríku minni viðtal við hæstv. fjmrh. skömmu fyrir áramót, þá er hann kveinaði sem mest yfir því að sala á áfengum drykkjum hefði dregist saman. Og sérstakar ráðstafanir voru gerðar til að hafa áfengisútsölur opnar lengur en venja er til fyrir áramótin til að ná sölu áfengis nokkuð upp.

Mér finnst með öllu óeðlilegt að við tengjum fjárveitingar til mannúðarmála áfengisbölinu. Ég vil einnig spyrja fyrir hönd okkar, sem erum þó enn þá nokkrir sem höfum gaman af að líta í glas: Hvers vegna eigum við sérstaklega að standa undir stærri skerf af mannúðarstarfseminni heldur en þið hinir sem ekki drekkið?