04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3844 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það var aðeins örlítið atriði sem ég vildi undirstrika við 1. umr. þessa frv. Ég á sæti í n. þar sem um það verður fjallað, svo að ég ætla ekki að ræða um frv. ítarlega eða í heild. En það atriði, sem mig langaði til að benda á og undirstrika sérstaklega, varðar sérkennsluna. Ég sé að í frv. eru hugmyndir um stofnun sérkennslusjóðs. Ég geri ráð fyrir að það vaki alls ekki fyrir flm. að sá sérkennslusjóður eigi að annast verkefni, sem núna eru í verkahring hins opinbera og fræðsluyfirvöldum er lögum samkv. skylt að sinna hvort sem er. Það, sem ég á við, er þetta: Það er skylt að veita öllum landsins börnum á tilteknu aldursstigi fræðslu, grunnskólafræðslu, hvernig sem þau eru annars af guði gerð. Sérsjóðir til að annast það verkefni ættu ekki að vera nauðsynlegir og engir sjóðir, sem stofnaðir yrðu, ættu að létta þessari skyldu af hinu opinbera. Hún er lögbundin nú þegar og það þarf að framfylgja því til fullnustu að fatlaðir einstaklingar, vangefnir eða öryrkjar af einhverjum ástæðum, sem eru á skólaskyldualdri, eigi kost á innan skólakerfisins þeirri fræðslu, sem þeir eiga rétt á, og í sem allra ríkustum mæli í þeim stofnunum sem eru ætlaðar til fræðslu börnum yfirleitt.

Ég held að við ættum að vera á verði gegn þeirri þróun, að of mikið verði reist af sérstofnunum. Við getum auðvitað ekki útilokað þá þörf, en þetta atriði fannst mér ástæða til að láta koma fram, ekki síst vegna þess að ég varð þess vör nokkrum sinnum þann tíma sem ég átti sæti í tryggingaráði, að inn komu umsóknir til þess að standa straum af fræðslukostnaði fyrir einstaklinga sem voru á fræðsluskyldualdri. Meðferð tryggingaráðs þá á slíkum málum var að vísa þeim til menntmrn. Mér finnst m. ö. o. engin ástæða til þess að sleppa menntmrn. við þá skyldu sem það hefur að þessu leyti. Fjárveitingavaldinu ber að sjá um að það sé unnt að framfylgja þessari skyldu fyrir öll börn á landinu, hvernig sem þau eru, hvort þau eru haldin örorku eða einhverjum heilsubresti, ef þau á annað borð geta meðtekið einhverja fræðslu.

Þetta var það efnisatriði frv. sem ég vildi benda á. En mig langar til að senda hv. 5. þm. Norðurl. v. smákveðju í sambandi við þá ábendingu sem hann kom með út af fjármögnuninni sem ráðgerð er í frv. Það er auðvitað rétt, að áfengisverð er geysilega hátt á Íslandi og auðvitað má taka undir að það horfir ekki til neinnar sérstakrar menningar að hafa verð á léttum vínum svo hátt að mönnum finnist alveg fráleitt að fá sér stöku sinnum glas af góðu vini með hátíðamat. Stundum hefur verið reynt að fara inn á þá braut að láta verð á léttum vínum ekki hækka í sama mæli og verð á sterkum vínum. En hvað sem líður slíkri pólitík, þá hljóðaði aths. hv. þm. eitthvað á þessa leið: Af hverju skyldum við, sagði hann, sem höfum gaman af því að líta í glas, eiga að standa undir fleiri verkefnum þjóðfélagsins heldur en annað fólk? — Segja má að það sé kannske ekki ástæðulaust að spyrja svona, en ekki trúi ég öðru en þeir, sem á annað borð hafa gaman af að líta í glas, hafi líka gaman af því að greiða 100 kr. til jafnþarfra verkefna og stundum eru nefnd í sambandi við áfengisgróðann.

Þegar menn tala um fjármögnun verkefna, sem ýmsir sjóðir áfengisgróðans eiga að standa undir, dettur mér í hug frv. sem hv. 4. þm. Reykn. var að nefna áðan og einmitt, ef svo má segja, vó í þennan sama knérunn. Það var nýting á áfengisgróðanum einmitt með þeim hætti að sérstakt gjald yrði lagt á það sem þegar er fyrir vegna áfengiskaupa.

En það er annað, sem er ástæða til að draga fram í þessu sambandi. Fyrir löngu löngu var stofnaður sérstakur sjóður sem heitir Gæsluvistarsjóður og átti að standa undir ýmiss konar aðgerðum til að lækna drykkjusjúka. Í upphafi var gert ráð fyrir að Gæsluvistarsjóður hefði til umráða tiltekinn hundraðshluta af gróða Áfengisverslunar ríkisins. Það eru mörg ár síðan fjármagn til þessa sjóðs varð margfalt minna en sá eini hundraðshluti sem í upphafi var hugsaður. Það er með slíka fjáröflun, sem í upphafi er mörkuð eins og þarna var gert, að ríkið seilist í hana til almennra verkefna. Hæstv. fyrrv. fjmrh., hv. þm., kemur einmitt nú í salinn, þegar ég minni á það atriði að ríkissjóður hefur mikla tilhneigingu til að seilast í slíka tekjustofna og nota þá í ýmiss konar almenn verkefni. Ef við snerum nú svolítið ofan af þessu og beindum a. m. k. einum heilum hundraðshluta af gróða Áfengisverslunar ríkisins í þessar áttir þyrftum við ekki að vera að hugsa um frv. eins og hérna liggur fyrir nú. Hitt er annað mál, að ég get tekið undir þá óskhyggju þm., sem hér hafa talað, að það væri ósköp gott ef við þyrftum ekki að fara inn á þá braut að leggja til að ýmis nauðsynleg verkefni væru fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum. Það væri auðvitað miklu einfaldara og eðlilegra ef til slíks þyrfti ekki að grípa. En ég skil ósköp vel þá hugsun, sem vafalaust liggur að baki flutnings frv. þessa, að mönnum blöskrar svo fjárskorturinn á tilteknum sviðum að menn freistast til þess að grípa til ráða eins og lagt er til í þessu frv.

Ég er, herra forseti, ekki reiðubúin til að ræða frv. að öðru leyti í stórum dráttum. Ég vildi aðeins undirstrika þetta atriði með sérkennsluna og draga fram, að það er ekki alveg óeðlilegt að þeir, sem njóta gleði af áfengi, greiði um leið í verðinu eitthvað vegna þeirrar sorgar sem áfengið því miður veldur mörgum.