04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3847 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

22. mál, Framkvæmdasjóður öryrkja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það kom fram áðan, að frv. um málefni þroskaheftra hefði legið á borðum félmrh. frá því í desembermánuði. Ég vil leiðrétta þetta, vegna þess að það frv. hefur ekki legið fullbúið hjá félmrh. nema í tvær vikur og þar af hefur ríkisstj. haft það til athugunar í eina viku. Það frv. verður lagt fram til prentunar á morgun og því gefst mönnum kostur á að ræða það næstu daga.

Það er svo með þetta frv., þó að það hafi verið lengi á leiðinni, að þar er ekki gert ráð fyrir neinni fjármagnsútvegun. Frv. er heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra og vissulega mjög þarft frv., en ég er smeykur um að þegar ekki er séð fyrir fjármagni til þess að framkvæma það, sem lögbundið er, verði ekkert úr framkvæmd, líkt og skeð hefur með grunnskólalögin, sem því miður hafa ekki enn komist í framkvæmd að því leyti er lýtur að þessum málum.

Í skýrslu, sem menntmrn. sendi frá sér 1978, segir að 1000 börn njóti ekki þeirrar kennslu sem þau þurfa, þ. e. a. s. þroskaheft börn og börn sem eru á annan hátt hömluð. Það segir okkur og það sýnir okkur að það er mikil þörf á því að gert verði stórt átak til þess að bæta úr. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem á einhvern hátt eru hamlaðir, eru sviptir lífinu að miklu leyti. Þeir eru einangraðir, njóta ekki jafnréttis, þeir eru afskiptir í þjóðfélaginu. Ég álit það frv., sem hér er, þarft í þeirri jafnréttisbaráttu sem vissulega hefur lengi verið háð, en því miður hefur ekki tekist sem skyldi í því að gera vel við þá sem illa eru settir í þjóðfélaginu.

Jafnréttisbaráttan gengur oft langt. Við heyrðum það áðan hjá 5. þm. Norðurl. v., að hann kvartar yfir því, að þeir sem líta í glas njóti ekki jafnréttis við hina að því leyti til að lögð eru á vínið alls konar gjöld. Við skulum vona að menn séu ekki það harðir í jafnréttisbaráttunni, að þeir, sem þurfa helst aðstoðar með hjá þjóðfélaginu, verði fyrir barðinu á því.

Þegar flm. lagði frv. þetta fram í upphafi hafði hún sérstaklega í huga að tekna yrði aflað af öllum aðgöngumiðum. Sagði svo í c-lið upphaflega frv., með leyfi forseta:

„Leggja skal 20% styrktargjald ofan á verð allra seldra aðgöngumiða í landinu. Gjald þetta greiðist samhliða skemmtanaskatti, sbr. 9. gr. laga nr. 58/1970. Styrktargjald þetta skal hækka árlega samhliða byggingarvísitölu.“

Þetta var fellt út í Nd., en hefði þó vissulega mátt vera með. Það var einnig gerð önnur breyting í Nd., á þann hátt að endurskoða skyldi frv. að 6 árum liðnum þannig að menn gætu þá séð hvort ekki væri ástæða til að fara aðrar leiðir í því að fjármagna þessa hluti.

Það kom fram áðan, að sérstaklega þyrfti að sinna sérkennslunni, en svo segir í grg. og reyndar frv. sjálfu að 10% af fjármagninu skuli varið til verkefna, er úrlausnar þurfa við í sérkennslu- og endurhæfingarmálum. Það ætti því að vera tryggt.

Ég vil enn á ný skora á þdm. að gera sitt til þess að hraða afgreiðslu þessa frv. Það er engin ástæða til að bíða eftir frv. um málefni þroskaheftra. Þetta er allviðamikið tekjuöflunarfrv. og ef við komum því áfram er ég þess fullviss að hægt verður að horfa fram á betri tíma fyrir þá sem erfitt eiga uppdráttar í þjóðfélaginu.