04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3044)

243. mál, jarðræktarlög

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 490 flyt ég stjfrv. til l. um breyt. á jarðræktarlögum, nr. 79 frá 1972.

Að mínu mati eru jarðræktarlögin ein merkasta löggjöf þessarar þjóðar. Með þeim er að því stuðlað, að land vort verði ræktað og að því hlúð eins og sjálfsagt hlýtur að vera. Með þeirri löggjöf er gert ráð fyrir að veita styrki til jarðræktar og sömuleiðis styrki til byggingar áburðargeymslna og heygeymslna. Þetta er allt ákveðið sem annaðhvort krónutala á hvern rúmmetra eða fermetra eða hundraðshluti af kostnaði, en jafnframt verðtryggt. Vafalaust hafa framlög þessi haft mjög víðtæk áhrif til aukinnar ræktunar í landi okkar.

Nú horfir hins vegar svo, að ýmsir telja að rétt sé að draga a. m. k. úr þeirri ræktun sem leiðir til aukinnar framleiðslu landbúnaðarafurða, og jafnframt má færa rök að því, að framkvæmdir bænda munu dragast nokkuð saman vegna þess samdráttarástands sem í búvöruframleiðslunni hlýtur að vera fram undan. Því ákvað ég að taka þetta mál upp við fulltrúa bænda.

Hófust þegar fyrir áramótin viðræður við formann Stéttarsambands bænda og búnaðarmálastjóra um breytingu á þessum lögum. Brtt. voru útbúnar og þær síðan lagðar fyrir Búnaðarþing, þar sem um þær var fjallað. Á Búnaðarþingi urðu nokkuð skiptar skoðanir, en með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. var þó samþykkt að mæla með þessum breytingum á jarðræktarlögum, en með vissum takmörkunum, t. d. takmörkunum á heimild til að skerða hin ýmsu framlög. Ég hef í endurskoðun á frv. þessu tekið tillit til meginþorra þeirra aths. og till. sem komu fram á Búnaðarþingi.

Þetta er stuttur inngangur, sem ég ætla að sýni í fljótu bragði meðferð þessa máls, áður en ég rek helstu efnisatriðin.

Í 1. gr. frv. er bætt við orðunum „og hagræðingar“. M. ö. o. eru framlög þessi nokkuð útvíkkuð, þeim er ætlað að ná til jarðræktar, húsabóta og hagræðingar. Má segja að skýring á þessari viðbót komi síðar.

Í 2. gr. eru þau nýmæli, að þar er ákveðið að styrkir, sem veittir eru samkv. þessum lögum, skuli samræmdir stærðarmörkum í lánareglum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Gagnrýnt hefur verið að styrkir samkv. jarðræktarlögum, sérstaklega til áburðargeymslna, hafi ekki verið samræmdir lánum Stofnlánadeildar landbúnaðarins til byggingar gripahúsa. Þetta hefur leitt til þess, að bændur hafa í ýmsum tilfellum byggt töluvert stærra en lánareglur gera ráð fyrir og þá fyrst og fremst út á meiri styrki, eins og ég nefndi, og þannig getað staðið undir kostnaði við stærri byggingu. Menn eru sammála um að eðlilegt sé. að samræma þetta tvennt. Að því stefnir þetta ákvæði í 2. gr.

Þá eru í 3. gr., sem er ákvæði til bráðabirgða, teknar út sex framkvæmdir, sem heimilað er samkv. ákvæðum þeirrar greinar að skerða yfirleitt um allt að 50% frá því sem nú er í lögum. Þarna er að sjálfsögðu að því stefnt að draga úr ýmsum jarðræktarframkvæmdum sem gætu orðið og verða til þess að auka landbúnaðarframleiðsluna. Ég nefni sem dæmi grænfóðurrækt, sem tvímælalaust stuðlar að slíku. Hins vegar er talið rétt að hafa þetta í heimildarformi, því að eins og hv. þm. hlýtur að vera ljóst getur auðveldlega orðið það ástand, ekki síst þegar hafís liggur við landið, að ekki verði talið fært að skerða t. d. framlag til grænfóðurræktunar. Getur þá orðið nauðsynlegt að hverfa frá slíkum áformum.

Þá er gert ráð fyrir því að landbrh. geri, að höfðu samráði við stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, till. til ríkisstj. um ráðstöfun á því fé, sem sparast samkv. stafliðunum sex, til annarra verkefna sem lúta framkvæmd þeirrar stefnu sem mörkuð er fyrir landbúnaðinn, svo sem til að styrkja nýjar tekjuöflunarleiðir bænda og auka fjölbreytni í framleiðslu búvöru, til að stuðla að bættri heyverkun, til hvers konar hagræðingar sem orðið getur til að bæta tekjur bænda án framleiðsluaukningar í nautgripa- og sauðfjárrækt og til annarra verkefna er stuðla að því að ná framleiðslu- og tekjumarkmiðum.

Hér er tekið inn eftir ábendingu Búnaðarþings, að haft skuli samráð við stjórn Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Búnaðarþing gerði reyndar að till. sinni að Framleiðnisjóður úthlutaði því fjármagni sem hér er um að ræða, en ekki var talið fært að fela sjóðnum svo ótakmarkaða heimild, heldur nauðsynlegt að ríkisstj. fjallaði um slíka ráðstöfun. Hins vegar er í frv. gert ráð fyrir því, að Framleiðnisjóði verði falið að sjá um afgreiðslu mála sem undir verksvið hans falla.

Í þeim fjórum liðum, sem ég nefndi áðan, er að finna ábendingu um til hvers megi verja því fjármagni sem þarna kann að verða til ráðstöfunar. Lögð er áhersla á nýjar búgreinar, sem að sjálfsögðu eru mikilvægar og stuðla að því að draga megi úr hinni hefðbundnu framleiðslu á sviði sauðfjárræktar og nautgriparæktar. Ég vil í þessu sambandi nefna að nú er til athugunar hjá sérstakri nefnd, sem ég hef skipað, hvort ekki sé rétt að stuðla að því að hér komi upp refarækt, sem er að mati sérfróðra manna líkleg til þess að verða arðbær búgrein. Hún er það í nágrannalöndum okkar, og allt bendir til þess að svo gæti orðið hér einnig. Nefndin mun fljótlega skila tillögum. Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að reyna þessa nýju búgrein vel undirbúna og þannig að unnt sé að fylgjast vandlega með byrjunartilraun á þessu sviði. Ég tel ákaflega mikilvægt að þarna sé ekki rasað um ráð fram, eins og stundum hefur hent okkur, heldur líklegra til framhalds þeirrar búgreinar og til þess að hún megi verða örugg búgrein hér á landi að velja nokkra bændur og aðra aðila til að ráðast í eins konar tilraun með slíka búgrein. Vænti ég þess, að tillögur um það liggi fljótlega fyrir. Gert er ráð fyrir að byrjunarframkvæmdir geti orðið á þessu ári. Ég nefni þetta sem dæmi um nýja búgrein, sem að mætti hlúa með því fjármagni sem til ráðstöfunar yrði af jarðræktar- og húsabótastyrkjum.

Eins og fram kemur bæði í 3. gr. og reyndar einnig í 4. gr., sem ég kem að síðar, er hér um að ræða heimild til 5 ára. Það er tengt því áformi að gera áætlun fyrir landbúnaðarframleiðsluna til 5 ára og yrði þá sú heimild, sem veitt yrði samkv. þessum lögum, liður í þeim framkvæmdum sem fetast í slíkri áætlun fyrir landbúnaðarframleiðsluna.

Í 4. gr. er síðan ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir því, að á þessu 5 ára tímabili þ. e. a. s. 1980–1985, verði á fjárl. ætlað fjármagn til framkvæmda samkv. ákvæðum 10. gr. sem nemi meðaltali slíkra framlaga á árunum 1978 og 1979 og þá tekið tillit til verðlags. M. ö. o. er hér lagt til að framlagið, eins og það er nú, verði bundið við verðlag, en aftur á móti veitt heimild til að ráðstafa, eins og ég hef rakið, því sem ekki er ráðstafað til jarðræktar, bæði vegna skerðingar sem til kann að koma samkv. ákvörðun landbrh. í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands og vegna minni framkvæmda af hálfu bænda sjálfra. Nú eru ætlaðar samkv. ákvæðum jarðræktarlaganna um það bil 1100 millj. í jarðræktarframlög og það sem tengt er framkvæmd jarðræktarlaganna. Þessu fjármagni er að sjálfsögðu ráðstafað í ár, því að hér er um að ræða styrki sem koma til greiðslu eftir á. Hins vegar hafa menn reynt að gera sér grein fyrir þeim samdrætti sem orðið gæti á næstu 5 árum. Þetta er vitanlega ákaflega erfitt að áætla. Það fer mjög eftir vilja bænda til að framkvæma og að sjálfsögðu einnig eftir árferði, því að eins og ég nefndi áðan kann að reynast erfitt að draga úr vissri ræktun ef árferði verður erfitt. Þó hafa menn leyft sér að setja á blað tölur eins og 300–400 millj. á ári á þessu 5 ára tímabili. Þarna getur því orðið um umtalsvert fjármagn að ræða. Í fyrsta lagi má þá ráðstafa því til að auka fjölbreytni búvöruframleiðslunnar og breikka þann grundvöll, sem þar er, eins og ég hef þegar nefnt, sem að sjálfsögðu er mjög mikilvægt í þeirri viðleitni að draga úr sauðfjár- og nautgriparækt og einnig og ekki síður í þeirri viðleitni að byggja landið nokkurn veginn eins og nú er — eða m. ö. o. að koma í veg fyrir að bú leggist niður þar sem slíkt getur orðið hættulegt fyrir byggðaþróun. Í öðru lagi er heimilt með tilvísun til ákvæðis d-liðar að verja því fjármagni, sem þarna verður afgangs, til annarra verkefna er stuðla að því að ná framleiðslu- og tekjumarkmiðum, e. t. v. til þess að bæta bændum að einhverju leyti þann tekjumissi sem þeir verða fyrir sérstaklega í ár og hlýtur að gæta að einhverju leyti næstu árin.

Ég vil að lokum segja það, að hér er um að tefla einn þátt í viðleitni til þess að breyta um stefnu í framleiðslu landbúnaðarafurða. Ljóst er að ekki verður haldið áfram á þeirri braut sem við höfum verið á undanfarin ár. Landbúnaðarframleiðslan hefur farið langt fram úr þeim mörkum sem menn hafa sett sér og koma kannske einna helst fram í ákvæði framleiðsluráðslaga um tryggingu ríkissjóðs vegna útflutnings, sem má þó nema hæst 10% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða. Ég hygg að tilgangslaust sé að deila um það, hverjum sé þar um að kenna. Sjálfur tel ég að því ráði ýmsir þættir.

Í umr. í Nd. í gær kom fram, að þetta markmið hefur oft verið brotið á undanförnum árum, þ. e. a. s. framleiðslan hefur farið fram úr því, en það er einnig staðreynd, að það meginmarkmið framleiðsluráðslöggjafarinnar, að bændur skuli hafa tekjur í samræmi við tekjur verkamanna og iðnaðarmanna, hefur einnig verið þverbrotið, ekki bara 2–3 ár, heldur líklega öll árin síðan það kom í framleiðsluráðslöggjöfina. Því hafa bændur nánast verið neyddir til þess að auka framleiðslu sína og reyna þar með að auka tekjur sínar. Það eru sem sagt margir þættir sem áhrif hafa. Því er jafnframt í undirbúningi að breyta framleiðsluráðslöggjöfinni, taka upp beina samninga milli bænda og ríkisvalds. Það er í samræmi við samkomulag stjórnarflokkanna, eins og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu þeirra. Jafnframt verða þá gerðar víðtækar breytingar á framleiðsluráðslöggjöfinni. Sérstaklega tel ég mikilvægt að undirstrika þá betur en nú er bæði tekjumarkmiðið fyrir bændastéttina og einnig framleiðslumarkmiðið, þ. e. a. s. að framleiðslunni verði eins og frekast er unnt stillt innan þeirra marka sem Alþ. setur í áætlun fyrir landbúnaðinn, sem ég hef þegar minnst á og er einn þáttur í þessari stefnumótun.

Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál. Það er von mín að það fái skjóta afgreiðslu á þingi — a. m. k. verði því örugglega lokið á þessu þingi. Framkvæmdir, sem styrkhæfar verða á árinu 1980, verða í sumar. Því verður að liggja ljóst fyrir þegar nú í vor, áður en slíkar framkvæmdir eru hafnar, hvaða skerðingu verður beitt.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.