04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3853 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

243. mál, jarðræktarlög

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég koma fram viðbótarskýringum á því sem mér fannst ekki ljóst að hv. síðasti ræðumaður hefði gert sér grein fyrir.

Í fyrsta lagi eru bæði 3. gr, og einnig 4. gr. ákvæði til bráðabirgða, og ég vil leyfa mér að fullyrða að það er að vel hugsuðu máli. Eftir ítarlegar umræður við forustumenn bændastéttarinnar treysti ég mér ekki til að gera grundvallarbreytingar á jarðræktarlögunum, heldur eingöngu breytingar til bráðabirgða. Þau hverfa að sjálfsögðu til síns fyrra forms að þessu tímabili loknu.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, að jarðræktarlögin eru tvímælalaust framleiðsluhvetjandi. Því hefur enginn mótmælt. Framleiðsla landbúnaðarafurða er því miður of mikil. Þar er um verulega umframframleiðslu að ræða sem við getum ekki selt úr landi. Þessi aukning hefur orðið mikil á síðustu þremur árum og farið stöðugt vaxandi. Því hljóta menn að spyrja í sambandi við breytingar á öllum ákvæðum, sem leiða til aukinnar framleiðslu, hvort menn meini eitthvað með því að draga eigi úr framleiðslu landbúnaðarafurða, einnig hvort menn meini eitthvað þegar um það er talað að beina þurfi framleiðslu bænda inn á nýjar búgreinar eins og gert er ráð fyrir með þessu frv.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að í meðferð Búnaðarþings voru gerðar ýmsar breytingar á upphaflegu frv. og þær eru langflestar teknar til greina. T. d. eru takmarkanir á skerðingarákvæðum við 50%, stærð túna o. s. frv. komið frá Búnaðarþingi, og þar var frv. í því formi, sem það er orðið nú, samþykkt með mjög miklum yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Ég man ekki hvort það voru 2 eða 3 atkv. sem voru á móti, en þau voru mjög fá.

Sérstaklega var gagnrýnt af hv. þm. að miða ætti styrki við stærðarmörk í lánareglum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þarna er að sjálfsögðu eingöngu um að ræða það sem Stofnlánadeildin lánar út á, þ. e. a. s. húsabætur, sem hér er kallað svo. Nú þekkjum við því miður mörg tilfelli þar sem Stofnlánadeildin hefur lánað út á fjárhús fyrir 500 fjár, en byggt hefur verið fyrir allt upp í 1000 fjár. Hvers vegna miðaði Stofnlánadeildin þessar takmarkanir við 500 fjár? Fyrst og fremst með tilliti til þess, að sauðfjárframleiðslan er orðin meiri en við ráðum við með góðu móti. Við þurfum nú að flytja úr landi u. þ. b. þriðjunginn af kjötframleiðslu okkar. Við, sem erum fylgjandi þessari breytingu, teljum þess vegna vafasamt að stuðla að byggingu stærri húsa en ákveðið er af Stofnlánadeild. Þess vegna er þetta ákvæði komið inn. Mér sýnist satt að segja, að hægri hönd þurfi að vita hvað sú vinstri gerir.

Með ákvæði í 2. gr. er ekki verið að draga úr því að byggðir verði áburðarkjallarar — alls ekki verið að draga úr því. Hins vegar má segja að sjálfsögðu, að í f-lið sé heimild til að skerða framlög til áburðargeymslna. Ef sú skerðing kemur til framkvæmda svo að um munar, þá má segja að sé að vísu verið að draga úr byggingu áburðargeymslna eða kjallara. Ekki má því rugla saman þessum tveimur liðum.

Ég skal ekki fjalla um það, hvort þetta atriði hefur fengið nægilega ítarlega umfjöllun. Það er sjálfsagt deiluatriði. En ég vil hins vegar endurtaka það sem ég sagði áðan, að þetta mát hefur verið rætt mjög ítarlega, að vísu ekki á löngum tíma. Til þess var ekki ráðrúm. Ég ákvað að bíða með að leggja það fram þar til Búnaðarþing hefði fjallað um það, svo að athugasemdir þaðan mætti taka til greina. Ég vil því halda því fram, að þarna hafi verið til kvaddir þeir aðilar sem gerst þekkja og hagsmuna eiga að gæta, en tek hins vegar undir það, að það er sannarlega von mín að þetta mál fái vandlega meðferð í landbn. og hún skoði hverjar þær hugmyndir sem fram kunna að koma um endurbætur á frv. Ég er ekki að loka fyrir það.