04.04.1979
Efri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

247. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram sem stjfrv. um Rafmagnseftirlit ríkisins, er að meginstofni undirbúið af nefnd sem fyrrv. iðnrh., dr. Gunnar Thoroddsen, skipaði til þess að endurskoða orkulög og gera till. um heildarskipulag orkumála. Í nefnd þessa voru skipaðir Aðalsteinn Guðjohnsen formaður Sambands ísl. rafveitna, Gísli Blöndal hagsýslustjóri, Helgi Bergs formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, Jakob Björnsson orkumálastjóri, Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Páll Flygering ráðuneytisstjóri, Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, Þorv. Garðar Kristjánsson formaður orkuráðs, og var hann jafnframt formaður nefndarinnar. Á vegum iðnrn. var farið yfir tillögu nefndarinnar og gerðar á þeim nokkrar breytingar, m. a. með hliðsjón af ábendingum frá starfsmönnum Rafmagnseftirlitsins.

Mér þykir hlýða að rekja hér, þó ekki í löngu máli, hvernig mál varðandi rafmagnseftirlit hafa þróast hérlendis.

Fyrstu ákvæðin í íslenskum lögum, sem miða að því að tryggja að raflagnir séu vel af hendi leystar og vandaðar að frágangi, er að finna í lögum nr. 28 frá 20. okt. 1913, um rafmagnsveitur í kaupstöðum og kauptúnum. Þar eru ákvæði um löggildingu manna til raflagnastarfa og segir þar m. a. svo í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Sveitarfélagsstjórnin ein hefur rétt til að löggilda menn, er hún telur hæfa, og svo marga, sem henni þykir þurfa, til þess að leggja rafmagnstaugar bæði utan húss og innan, og skulu þeir skyldir að hlíta þeirri verkkaupsskrá, sem sveitarfélagsstjórnin setur. Þeir einir, sem þannig eru löggiltir, mega fást við lagning rafmagnstauga eða önnur svipuð störf, sem að rafmagnsveitu lúta, hvort heldur innan húss eða utan.“

Í lögum nr. 51 frá 3. nóv. 1915, um rafmagnsveitur, sem öðluðust gildi 1. jan. 1916, eru ákvæði um frágang og meðferð á raforkuvirkjum og um efni og búnað þeirra. Segir svo í 15. gr. þeirra laga:

„Stjórnarráðinu er heimilt, ef það sér ástæður til, að setja reglur um efni og útbúnað við rafmagnsveitur, er miða að því að tryggja öryggi þeirra, og jafnframt að gera ráðstafanir þær, sem nauðsynlegar eru til að reglunum sé fylgt, og leggja sektir við broti á móti þeim.“

Um áramótin 1929–1930 skipaði þáv. atvmrh., Tryggvi Þórhallsson hina fyrri raforkumálanefnd, sem svo var kölluð, en í henni fengu sæti Geir Zoëga vegamálastjóri, Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri og Jakob Gíslason verkfræðingur. Á fundi sínum 12. maí 1930 tók nefndin til umræðu eftirlit með raforkuvirkjum. Geir Zoëga lagði sem ráðunautur Brunabótafélags Íslands ríka áherslu á nauðsyn þess, að settar yrðu reglur um gerð og frágang raforkuvirkja, sem giltu um land allt, og komið yrði á ríkiseftirliti með rafveitum og raforkuvirkjum almennt. Eftir till. nefndarinnar var þá þegar sett bráðabirgðareglugerð um raforkuvirki með heimild laga frá 1926 og jafnframt byrjað á samningu ítarlegrar reglugerðar. Með bréfi atvmrn. nokkru síðar var Jakob Gíslasyni rafmagnsverkfræðingi falið að safna skýrslu um gerð, tilhögun og rekstur raforkuvirkja víðs vegar um land, enn fremur um eftirlit með frágangi raforkuvirkja og rekstri svo og öllum raflögnum utan húss og innan.

Með lögum nr. 63 23. júní 1932 og lögum nr. 83, um raforkuvirki, með sömu dagsetningu, er lögunum um sama efni frá 1926 breytt og felld inn í þau ný ákvæði, þ. á m. að ráðh. skuli setja reglugerð um raforkuvirki, og er nánar tiltekið í lögunum um reglugerðarákvæði. Samningur reglugerðarinnar, sem þegar var byrjað á 1930, var síðan haldið áfram. Varð hún allumfangsmikil, um 60 bls. í Stjórnartíðindabroti, og hafði inni að halda allítarleg ákvæði um gerð og frágang raforkuvirkja. Var reglugerðin gefin út af atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu 14. júní 1933 sem reglugerð nr. 61 og öðlaðist gildi 1. júní sama ár.

Auk fyrirmælanna um að ráðh. skuli setja reglugerð um raforkuvirki eru í raforkulögunum frá 1932 einnig fyrirmæli um að ráðh. skuli skipa eftirlitsmann með raforkuvirkjum til að annast eftirlit, skýrslugerð o. fl., og er tilskilið í lögunum að eftirlitsmaður skuli hafa lokið fullnaðarprófi við rafmagnsdeild verkfræðiháskóla.

Eins og áður er sagt fékk Jakob Gíslason þegar árið 1930 skipunarbréf þar sem honum var falið að hafa með höndum starf það er hér um ræðir, og hélst það óbreytt við gildistöku raforkulaganna frá 1932.

Í upphafi reglugerðar um raforkuvirki er þess getið, að eftirlitsmaður með raforkuvirkjum og þeir, sem fara með umboð hans, verði í reglugerðinni nefndir Rafmagnseftirlit ríkisins eða Rafmagnseftirlitið, og í fjárl. 1933 er í fyrsta skipti samþ. fjárveiting til Rafmagnseftirlits ríkisins. Er þar átt við hina nýju stofnun og er gert ráð fyrir að forstöðumaður hennar hafi sér til aðstoðar einn rafvirkja.

Þótt eftirlit með raforkuvirkjum hafi í rauninni verið hafið nokkru áður er venjulega talið að Rafmagnseftirlit ríkisins hafi tekið til starfa um leið og reglugerðin öðlaðist gildi, þ. e. 1. júní 1933. Starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins var þegar í upphafi miklu umfangsmeiri en heiti stofnunarinnar gefur til kynna. Auk starfa, sem beinlínis flokkast undir rafmagnseftirlit, fékk Rafmagnseftirlit ríkisins til meðferðar að vera ráðunautur ríkisstj., annarra stjórnvalda og opinberra stofnana í raforkumálum; semja umsagnir um reglugerðir og gjaldskrár rafveitna, um brunamál, iðnréttindi o. fl., gera till. til ríkisstj. varðandi löggjöf og framkvæmdir í raforkumálum. Einnig skyldi Rafmagnseftirlitið gera áætlanir um raforkuvirki og vinna að undirbúningsrannsóknum í þágu ríkis og sveitarfélaga, ýmiss konar ráðuneytisstarfsemi og annast leiðbeiningar til sveitarfélaga og einstaklinga. Einnig skyldi það hafa umsjón með byggingu rafveitna fyrir ríkið og fyrir opinberar stofnanir.

Þessi störf urðu æ umfangsmeiri eftir því sem árin liðu, og leiddi það að lokum til þess, að samin voru og samþykkt raforkulögin 1946. Þau lög fjalla um skipulagningu á raforkumálastjórn ríkisins. Samkv. þeim lögum var stofnað nýtt embætti, embætti raforkumálastjóra, og skyldi hann m. a. hafa í umboði ríkisstj. yfirumsjón með eftirliti ríkisins með raforkuvirkjum. En jafnframt var samkv. raforkulögunum 1946 skipaður rafmagnseftirlitsstjóri ríkisins til að stjórna framkvæmd eftirlits ríkisins með raforkuvirkjum. Starfssvið Rafmagnseftirlitsins, eftir að raforkulögin gengu í gildi í ársbyrjun 1947, þrengdist þannig frá því sem verið hafði og komu í hlut þess aðeins þau störf sem markast af reglugerð um raforkuvirki frá 1933 með áorðnum breytingum. Hefur þessi skipan mála haldist fram á þennan dag, þótt raforkulög hafi tekið breytingum.

Meginbreytingin á lögunum um þessi mál varð árið 1967, er orkulög tóku við af svonefndum raforkulögum. Í orkulögunum eru sams konar ákvæði og voru í raforkulögum frá 1946, á þá leið að Orkustofnun hefur í umboði ríkisstj. yfirumsjón með eftirliti ríkisins með raforkuvirkjum.

Í frv. því, sem hér er flutt, er sú meginefnisbreyting gerð, að Rafmagnseftirlit ríkisins er tekið undan Orkustofnun, sem hefur haft yfirumsjón með eftirliti af hálfu ríkisins með því að fullnægt sé ákvæðum laga um varnir gegn hættum og tjóni af raforkuvirkjum. Þykir þetta umsjónarstarf ekki lengur eiga heima í verkahring Orkustofnunar og ekki samræmast breytingum sem fyrirhugað er að gera á starfsemi hennar. Sú formbreyting felst þannig í frv. þessu, að nú er gert ráð fyrir sérlögum um Rafmagnseftirlit ríkisins, en ákvæði um þau efni hefur verið að finna í almennum orkulögum.

Af öðrum nýmælum í lagafrv. vil ég nefna m. a. skýrari ákvæði samkv. 5. gr. um vald rafmagnseftirlitsstjóra til að úrskurða um tiltekin atriði, en þeim ákvörðunum má áfrýja til ráðh.

Þá eru samkv. 7. gr. nokkru rýmri ákvæði um setningu reglugerðar, m. a. um hönnun og frágang raforkuvirkja með tilliti til umhverfis, endurbætur á raski við nýlagnir og samstarf við náttúruverndaraðila þar að lútandi. Einnig er heimild til að kveða á í reglugerð um fræðslu og upplýsingar til almennings um hættur af rafmagni og leiðir til að verjast þeim.

Þá eru samkv. 9. gr. rýmkaðar nokkuð heimildir frá því sem er í gildandi lögum til tekjuöflunar til að standa undir rekstri Rafmagnseftirlitsins, þar sem gert er ráð fyrir að eigendur raforkuvera og rafveitna skuli greiða til Rafmagnseftirlitsins gjald, allt að 1.5% af heildartekjum þeirra af raforkusölu og leigu mælitækja að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku, söluskatti og verðjöfnunargjaldi, en gjald þetta hefur numið 1% hingað til. Setur ráðh. í reglugerð nánari ákvæði um fjáröflun fyrir Rafmagnseftirlitið og er hér þannig um hámarksheimildir að ræða sem eiga að tryggja að eftirlitið geti staðið fyrir lögboðinni starfsemi og aflað til þess nauðsynlegra tekna.

Um frv. að öðru leyti vísa ég til efnis þess og aths. þeirra er fylgja á prentuðu þskj.

Herra forseti. Um leið og ég legg áherslu á þýðingu þeirra verkefna, sem Rafmagnseftirliti ríkisins er ætlað að leysa, og nauðsyn þess, að vel sé búið að stofnuninni, legg ég til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og iðnn.