02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Laxveiðiskýrslur veiðimálastjóra sýna, að á liðlega 30 árum hefur laxveiði nálega fjórfaldast hér á landi. Talið er víst að áframhald verði á þessari þróun. Áætlað er að árlegur tilkostnaður vegna veiða á laxi og silungi hérlendis sé þessi: Tilkostnaður veiðiréttareigenda nemi á þessu ári 130 millj. kr., opinberra aðila 73 millj. auk laxastiga í Laxá í Þingeyjarsýslu, innlendra sportveiðimanna 500 millj. kr. og erlendra sportveiðimanna 700 millj., en sú tala er að vísu nokkuð á reiki, og netaveiði bænda í síðasta lagi 120 millj. kr.

Af þessum tölum má greina tvennt: Í fyrsta lagi, að tilkostnaður vegna þessara veiða sé ekki undir 1.5 milljarði kr. Í öðru lagi, að hlutur erlendra sportveiðimanna í laxveiðum á Íslandi er orðinn gríðarlega mikill. Ástæðan er m.a. sú, að þeir hafa tekið á leigu góðar laxveiðiár í heilu lagi og laxveiðidaga á besta veiðitíma.

Þáltill. sú, er ég mæli hér fyrir, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um að leggja sérstakt gjald á leyfi, sem seld eru útlendingum til veiða í íslenskum laxveiðiám. Gjald þetta renni í ríkissjóð og skal fjármunum, sem þannig aflast, varið til tilrauna með fiskirækt í sjó og vötnum.“

Nokkuð hefur borið á því í umr. hér á fyrstu þingdögum, að menn hafa deilt um höfundarrétt að málum sem lögð hafa verið fram. Til þess að koma í veg fyrir að slíkt verði um þetta mál vil ég taka strax fram, að hverjum og einum þm. er heimilt að eigna sér þá hugmynd sem fram kemur í þessari þáltill., og því fleiri því betra.

Ekki þarf að fara í grafgötur með það, að á síðustu árum hefur ásókn útlendinga í íslenskar laxveiðiár aukist verulega ár frá ári. Ástæðan er einkum sú, að Ísland er almennt talið með albestu laxveiðilöndum í heimi, m.a. vegna þess að ár í öðrum löndum eru stórlega mengaðar. Þá má nefna að stöðug rýrnun íslenskrar krónu hefur valdið því, að verð veiðileyfa til útlendinga hér á landi er tiltölulega lágt miðað við verð á veiðileyfum í svipuðum eða sambærilegum ám í öðrum löndum sem best geta talist fallin til laxveiða. Margir þeirra laxveiðimanna, sem hingað koma, eru auðmenn sem nokkrar milljónir til eða frá skipta ekki verulegu máli. Þeir hafa tekið á leigu heilar laxveiðiár ýmist allt veiðitímabilið eða besta veiðitímann.

Í grg. með till. segir, með leyfi forseta:

„Íslenskir veiðimenn hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða jafnhátt verð fyrir árnar og útlendingarnir. Þetta hefur haft í för með sér mjög verulega hækkun á veiðileyfum, og nánast má tala um sölu á hlunnindum úr landi og brot á landslögum, sbr. leiguna á Laxá í Dölum og Hofsá í Vopnafirði, þar sem t.d. Íslendingar fá ekki að veiða í þeirri fyrrnefndu.“

Skal nú rennt nokkrum stoðum undir þessar staðhæfingar.

Þeir erlendu menn, sem fyrir nokkrum árum tóku á leigu Laxá í Dölum, heimila ekki íslenskum stangveiðimönnum veiðar í ánni. Má því með sanni segja að þessi hlunnindi hafi beinlínis verið seld úr landi.

Sigurður Líndal prófessor ritaði árið 1976 greinargerð um lögmæti samninga um veiðiréttindi í Vatnsdalsá og Hofsá í Vopnafirði. Þar leitast hann við að svara þeirri spurningu, hvort ákvæði leigusamninga kunni að fara í bága við íslensk lög, nánar tiltekið ákvæði laga nr. 39/1951, um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi, og laga nr. 19/1966, um eignar- og afnotarétt fasteigna. Í stuttu máli kemst Sigurður Líndal prófessor að þeirri niðurstöðu, að veiðileyfasala erlendra manna í tengslum við samninginn um Vatnsdalsá sé óheimil án leyfis, en ekki er vitað til þess, þegar grg, er skrifuð, að slíkt leyfi hafi verið fengið. Um samninginn um Hofsá í Vopnafirði kemst Sigurður Líndal prófessor að þeirri niðurstöðu, að þar vinni hinn erlendi leigutaki sjálfstætt, en það er honum óheimilt án leyfis félmrh. Ekki er flm. þessarar þáltill. hins vegar kunnugt um, hvort þær breytingar hafi verið gerðar á fyrrnefndum tveimur samningum, að komið hafi verið í veg fyrir að þeir brjóti í bága við landslög.

Þá segir enn fremur í grg. þáltill., með leyfi forseta: „Nú er fyrirsjáanleg enn meiri ásókn útlendinga í íslenskar laxveiðiár, og eru dæmi þess að í ár hafi verið boðið margfalt hærra verð en íslensk veiðifélög hafa getað boðið. Á þennan hátt er beinlínis verið að bola íslenskum laxveiðimönnum frá íslenskum laxveiðiám. Við þessari þróun verður að stemma stigu og jafnvel væri athugandi að gera allsherjarúttekt á leigu íslenskra laxveiðiáa og gjaldeyrisskilum í tengslum við leigu til útlendinga.“

Verður nú reynt að renna frekari stofnun undir þennan hluta grg.

Á undanförnum árum hafa íslensk veiðifélög háð harða samkeppni við útlendinga um leigu á laxveiðiám sem boðnar hafa verið út. Íslendingar hafa farið mjög halloka í þessari samkeppni og eru mörg ný og nýleg dæmi um þetta. Það síðasta er um Haukadalsá, þar sem svissneskir auðmenn hafa boðið nær helmingi hærra verð í ána en íslensk veiðifélög geta með nokkru móti boðið. Fleiri tilboð útlendinga í laxveiðiár eru nú í athugun, og má með fullri vissu segja að enn verði höggvið stórt skarð í þá möguleika sem Íslendingar hafa haft til veiða í eigin ám.

Margt hefur verið rætt um gjaldeyrisskil vegna leigu íslenskra laxveiðiáa, en leigusamningar vegna þeirra hafa verið í höndum einstaklinga og veiðiréttareigenda. Yfirvöld hafa ekki fylgst með þessari samningagerð né framkvæmd samninga, og því er lítið vitað hvað raunverulega er samið um. Ekki verður hér farið út í einstaka þætti þessa máls, þar eð heimildir skortir, en staðreyndir mundu koma í ljós við athugun.

Mjög er erfitt að reikna út tekjur Íslendinga af laxveiðum erlendra manna. Í fréttaauka í Ríkisútvarpinu hinn 9. júní s.l. var rætt við forustumann Landssambands veiðifélaga. Þar kom fram sú skoðun, að tekjur Íslendinga af laxveiðum erlendra manna yrðu um 850 millj. kr. á þessu ári. Þá er átt við sölu veiðileyfa, þjónustu, tekjur af ferðum þeirra til og frá landinu, nema þeirra sem í einkavélum koma, og væntanlega framlög þeirra til smíði veiðihúsa eða endurbóta á þeim. Þessar tölur hljóta þó að vera áætlaðar, enda engin leið að reikna þetta dæmi nákvæmlega.

Ef þessi tala, 850 millj. kr., sem sömu aðilar hafa nú nýlega lækkað í 700 millj., er borin saman við upplýsingar Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisskil fyrir veiðileyfi á þessu ári, hljóta ýmsar spurningar að vakna. Á þessu ári námu gjaldeyrisskilin 256.3 millj. kr. og samkv. því hafa hinir erlendu laxveiðimenn eytt hér á landi 450 eða 600 millj. kr. í annað en veiðileyfi. Að mati flm. er þessi tala æðihá þegar þess er gætt, að erlendu veiðimennirnir voru um 500 talsins.

Gjaldeyrisskil til Seðlabankans fyrir veiðileyfin hafa hækkað ört frá árinu 1975. 1975 voru þau 104 mill j. kr., 1976 147.5 millj. og í fyrra 211 millj. kr. Hins vegar er ljóst, að gjaldeyrisskilaþátt þessa máls ber að kanna vandlega.

Þar eð tölur í íslenskum krónum segja ekki mikla sögu á miklum verðbólgutímum, mun ég leitast við að gera grein fyrir þætti a.m.k. tveggja gjaldmiðla í tölum þeim sem Seðlabankinn hefur látið mér í té.

Árið 1975 voru gjaldeyrisskil í dollurum 559.997 dollarar. Á þessu ári, á tímabilinu jan. — sept., eru gjaldeyrisskilin 271 þús. dollurum hærri en árið 1975. Í svissneskum frönkum voru gjaldeyrisskil 1975 20 753 svissneskir frankar, en eru í septembermánuði í ár 99 þús. svissneskum frönkum hærri. Dollaragreiðslur 1976 og 1977 eru nokkru hærri hins vegar en í ár. Ástæðan getur verið sú, að í tölum þessa árs sé ekki allt komið til skila, en þær ná til septembermánaðar. Þó er ástæða til að ætla að meginhluti gjaldeyris fyrir veiðileyfi sé kominn til skila.

Í grg. með þáltill. segir með leyfi forseta:

„Í mörgum löndum, t.d. Kanada og Bandaríkjunum, er svo um hnúta búið, að heimamenn í ríkjum, þar sem veiðiár eru, greiða ekki nema hluta þess gjalds, sem aðkomumönnum er gert að greiða. Þessa leið mætti kanna hér á landi gagnvart Íslendingum og útlendingum.“ Við þetta má bæta, að í Bandaríkjunum eru veiðiár þjóðareign og þar fá allir að veiða gegn vægu gjaldi. Þar er litið svo á, að enginn einstaklingur eða einstaklingar geti kastað eign sinni á veiðiár, þótt svo vilji til að þær renni um landareign þeirra.

Í grg. þáltill. segir enn fremur, með leyfi forseta: „Flm. þessarar till. eru þeirrar skoðunar, að útlendingum, sem sækjast eftir því að veiða í íslenskum laxveiðiám, verði gert að greiða sérstakt gjald, sem nýtist þjóðinni til undirbúnings átaks í fiskirækt, sem er álitleg tekjuöflunarleið fyrir þjóðina og hefur reynst mjög arðsöm, t.d. í Noregi. Hér gæti verið á ferðinni ný búgrein fyrir bændur í fjölmörgum vötnum þeirra, og einnig er mjög tímabært að rannsaka vandlega og undirbúa á vísindalegan hátt tilraunir með fiskeldi í sjó.“

Hér er ráð fyrir því gert, að útlendingar taki þátt í kostnaði við þá fiskirækt, sem m.a. á stóran þátt í því hve góðar og eftirsóttar íslenskar laxveiðiár eru. Leiða má að því nokkur rök, að margar laxveiðiár hafi orðið betri veiðiár vegna afskipta ríkisvaldsins og með fjármunum greiddum úr ríkissjóði. Sjálft á ríkið fjölmargar hlunnindajarðir við laxveiðiár, en ekki er flm. kunnugt um að ríkið hafi notið arðsins nema í nokkrum tilvikum, heldur hafi það fremur verið ábúendur.

Með þessari tillögu er beinlínis gerð tilraun til að jafna hlunnindum, þar eð bændur, sem ekki njóta arðs af laxveiðiám, gætu notið arðs af fiskirækt í vötnum, sem tillagan stefnir að.

Einhverjir kynnu að segja, að í þessari till. kæmi fram fjandskapur við veiðiréttareigendur og að henni sé einkum beint gegn bændum, þ.e. að með þessu yrði dregið úr líkunum á því, að verðmæti hlunninda bænda færu vaxandi. En lítum nú örlitið nánar á þennan þátt málsins.

Athugun á arðskrá 10 helstu laxveiðiáa landsins leiðir margt fróðlegt í ljós. Þessar ár eru: Norðurá, Laxá í Kjós, Grímsá, Þverá, Laxá í Leirársveit, Hítará, Laxá í Dölum, Víðidalsá, Vatnsdalsá og Hofsá. Fjöldi arðtaka í þessum 10 ám er 280 og er meðaltalsarður til hvers manns 3.57%. En þetta meðaltal segir litla sögu. 153 fá að meðaltali 1.24% í arð hver. 72 fá 3.5% hver, 36 fá 7% hver, en 19 fá rúmlega 16% hver. Í mörgum tilvikum fer hæsti arðshlutinn ekki til bænda, heldur landeigenda sem hafa búsetu í Reykjavík, þ.e. að margar hlunnindajarðir eru í eigu Reykvíkinga. Til að gefa gleggri mynd af arðskiptingunni skal ég nefna nokkrar ár.

Í Norðurá í Borgarfirði er 31 veiðiréttareigandi, sem skipta á milli sín 30% arði samtals, 5 skipta á milli sín 16%, 2 13% og 3 rúmlega 40%. Í Laxá í Kjós eru 8 með 14.6% samtals, 3 með 11.4, 2 með 11.7 og 3 með yfir 62% af arðinum. Í Grímsá eru 11 arðtakar með 14.5% samtals 12 eru með 39%, 3 með 21% og 2 með 24.5%. Í Þverá eru 18 með 21.5%, 6 með 21%, 5 með 30% og 2 eru með 26.6. Í Hítará er skiptingin á þessa leið: 3 eru með 4.5% samtals, 4 með 12.8%, 5 með 40% og 2 skipta á milli sín 42%. Í Hofsá eru 10 með 15.7%, 3 með 12.5%, 1 með 6% og 4 skipta á milli sín 66% arðsins.

Til frekari glöggvunar má reikna þetta dæmi á annan hátt. Þá kemur í ljós, að í Norðurá fá 38 veiðiréttareigendur 59.5% af arði, en 3 fá 40.5%. Í Laxá í Kjós fá 13 samtals 37.7%, en 3 skipta á milli sín 63.3%.

Þannig mætti lengi rekja þessar tölur, en heildarniðurstaðan af arðsútreikningi þessara 10 miklu laxveiðiáa eru þessi: Af 280 veiðiréttareigendum eru 153 í þeim hópi sem fær 0.01–2.5% eða samtals 19% af arðinum. 72 eru í þeim hópi sem fær 2.5–5% arðs eða samtals 25.2%, arð á bilinu 5–10% fá 36 arðtakar eða samtals 25.2%, en 19 fá 10% af arði og þar yfir eða 30.5%. Af þessu má ljóst vera, að það er mjög fámennur hópur veiðiréttareigenda sem fær arð sem máli skiptir. Langstærstur hluti arðsins skiptist á fámenna hópa og í þeim hópum eru allmargir Reykvíkingar sem eiga jarðir við nokkrar helstu laxveiðiár landsins. Varla verður því sagt að með þessu sé ráðist gegn bændastéttinni og reynt að rýra hlunnindi hennar. Hins vegar kemur í ljós að hlunnindum er mjög misskipt, og er nú svo komið að fá bændaefni hafa ráð á að kaupa góðar hlunnindajarðir. Kaupendur þeirra koma úr þéttbýli eða hafa gert það á undanförnum árum og hafa þá ekki keypt jarðirnar til að búa á þeim, heldur í öðrum tilgangi. Þetta er líka óheillaþróun. Þessari þáltill. til frekari stuðnings vilja flm. vísa til ályktana aðalfundar Landssambands stangveiðifélaga, sem haldinn var 7. og 8. okt. s.l. Þar er lýst sömu afstöðu til þessa máls og hér hefur verið rakin. Flm. vilja taka undir áskorun um bann á leigu á veiðiréttindum til erlendra auðmanna og fyrirtækja og að allur arður af veiðiréttindum hins opinbera fari óskiptur til fiskiræktar í íslenskum ám og vötnum. Með leyfi forseta vil ég nú lesa grg. þá sem fylgir ályktun fundar Landssambands stangveiðifélaga:

„Það er margyfirlýst stefna Landssambands stangveiðifélaga, að íslenskir stangveiðimenn leitast ekki við að skaða frelsi veiðiréttareigenda til að ráðstafa eignum sínum á frjálsum markaði. Það er hins vegar löngu augljóst mál, að íslenskir stangveiðimenn geta ekki keppt við erlenda auðmenn um veiðileyfi og að finna verður leiðir til þess að Íslendingar fái eðlilegan forgang á þessu sviði sem öðrum í sínu eigin landi. Við viðurkennum ekki rétt verkfræðinga, lækna eða flugstjóra, svo að nokkrir séu nefndir, til að nota erlenda viðmiðun við ákvörðun tekna sinna, og við getum heldur ekki fallist á að veiðiréttareigendum beri þessi réttur. Við lítum svo á, að Ísland sé afmarkað verðlagssvæði og að við séum allir bundnir af þeirri verðmyndun sem hér ríkir. Við teljum sjálfsagt og eðlilegt í ljósi alþjóðalaga, að erlendir menn komi til Íslands, m.a. sem veiðimenn, og þau markmið, sem hér eru höfð í huga, eru því alls ekki sett til að hindra eðlilegan straum ferðamanna til landsins.“

Tveir af forustumönnum Landssambands veiðifélaga, en að því sambandi eiga aðild langflestir veiðiréttareigendur á landinu, hafa fengið tækifæri til að kynna sér allar þær upplýsingar sem hér koma fram. Ég hef boðið þeim að gera skriflegar aths. við það sem hér hefur verið sagt. Aths. þeirra eru á þessa leið, sem leyfi forseta: „Landssamband veiðifélaga fagnar því að fá tækifæri til að gera aths. við þáltill. yðar og fleiri alþm. um sérstakt gjald á veiðileyfi útlendinga, sem veiða í íslenskum ám. Við þökkum einnig boð yðar frá 27/10 um að lesa aths. þessar við flutning framsöguræðu yðar.

Fyrir um það bil tveimur áratugum var laxveiði aðeins þriðjungur að magni til miðað við það, sem hún er nú. Þá nýttu eigendur laxveiðihlunninda veiðirétt sinn ýmist sjálfir eða leigðu hann beint til veiðimanna og samtaka þeirra. Upp úr 1960 fer að bera á því, að íslenskir leigutakar laxveiðiréttinda framleigi þau til útlendinga. Fljótlega kom í ljós, að óhæfilega mikill munur var á tekjum leigutaka af endurleigunni og upphæð þeirri sem þeir greiddu veiðiréttareigendum. Þetta ranglæti olli óánægju sem leiddi til þess, að eins fljótt og unnt var vegna gildandi samninga hækkuðu veiðibændur leiguna fyrir hlunnindi sín eða tóku útleigu þeirra beinlínis í eigin hendur, svo sem gert var í Laxá í Dölum, en þar, svo að dæmi sé tekið, höfðu íslenskir leigutakar fyrirgert öllu trausti veiðibænda fyrir fádæma ósanngirni og rányrkju árinnar. Við þetta misstu leigubraskararnir þann óréttmæta gróða sem þeir höfðu haft. Síðan nota þeir hvert tækifæri til að fordæma hlunnindaleigu veiðibænda til erlendra aðila.

Staða þessara mála í dag er sú, að tekjur af veiðihlunnindum hafa sívaxandi þýðingu fyrir íslenskan landbúnað og virðast í sumum sveitum hafa úrslitaáhrif á efnahag íbúanna. Án þeirra er fullvíst að ýmsar jarðir, sem nú eru vel byggilegar, mundu fara í eyði. Með ákvæðum jarðalaga, skattalaga og fleiri ráðstöfnunum af opinberri hálfu hefur til þessa markvisst verið stefnt að því að halda þessum hlunnindum í eigu heimafólks eða a.m.k. tryggja að arður af hlunnindum verði að verulegu leyti eftir í byggðarlagi, jafnvel þótt eigandi búi annars staðar, sem í dag heyrir fremur til undantekninga. 3993 lögbýli eiga nú aðild að veiðifélögum og sýnir það, hversu almenn þessi hlunnindi eru.

Markmið umræddrar þáltill. virðist vera að bola erlendum veiðimönnum frá íslenskum laxveiðiám í því skyni að lækka verð á veiðileyfum til lítils hluta íslenskra stangveiðimanna sem ekki una því að geta ekki fengið veiðileyfi í hvaða á sem er hvenær sem þeim þóknast fyrir sanngjarnt verð að mati þeirra sjálfra. Fyrir þessu hefur fámennur hópur veiðimanna barist undanfarin ár. Þeir skeyta því engu þótt augljóst sé, að innanlandsmarkaðurinn sé of lítill til þess að nýta þessi hlunnindi. Þeir skeyta því engu þótt brottrekstur erlendra veiðimanna muni skerða lífsafkomu 10–12 þús. manns í sveitum landsins, rýra gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 700 millj. kr. og svipta þá, sem sumarstörf hafa af þjónustu við útlendingana, atvinnu sinni. Þessi hópur hefur þyrlað upp miklu moldviðri til að gera veiðar erlendra manna hér tortryggilegar á flestan hátt. Þeim hefur orðið það vel ágengt í áróðri sínum undanfarin ár, að fjölmargir landsmenn ljá nú þeim eyra gagnrýnislaust. Þarna hafa veiðiréttareigendur ekki verið nógu ötulir við það að túlka sjónarmið sín.

Landssamband veiðifélaga lýsir þeirri skoðun sinni, að flm. umræddrar þáltill. hafi ekki séð fyrir eða vilji stuðla að þeirri öfugþróun sem af lögum í umrædda átt mundi leiða, heldur byggist afstaða þeirra á því, að viðhlítandi upplýsingar hafa ekki verið nægilega aðgengilegar. Því styður Landssamband veiðifélaga heils hugar þá hugmynd flm., að gerð verði allsherjarúttekt á sem flestum þáttum veiðimála hið bráðasta. Fyrr en þær niðurstöður liggja fyrir er mjög erfitt fyrir ókunnuga að meta staðreyndir þessa máls. Því fer Landssamband veiðifélaga fram á það við flm. till., að þeir dragi aðra hluta hennar til baka og endurskoði síðan í ljósi þeirra upplýsinga sem áður áminnst könnun gæfi.“

Ég verð að segja það, að flm. sjá ekki ástæðu til að draga til baka hluta af þessari þáltill. Á það hefur verið rækilega bent, að aðeins lítill hluti veiðiréttareigenda hefur umtalsverðar tekjur af veiði og leigu laxveiðiáa. Það er fjarstæðukennd fullyrðing að halda því fram, að jarðir færu í eyði þótt gjald yrði lagt á erlenda laxveiðimenn, og ég hirði ekki um að svara þeim fullyrðingum frekar. Því fer einnig fjarri að mínu mati, að tilgangurinn með þessari till. sé að bola erlendum laxveiðimönnum frá veiðum hér á landi.

Því var haldið fram í eina tíð, að sérstakt gjald á útflutning á hryssum og stóðhestum mundi draga úr útflutningi þar eð verð þeirra mundi hækka. Engin teikn eru á lofti um að þetta sé rétt, þvert á móti. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar, að slík gjaldtaka geti orðið allri fiskirækt í landinu mikil lyftistöng. Hún mundi jafna aðstöðu innlendra og erlendra laxveiðimanna og hlunnindi meðal bænda. Þá gefur auga leið, að gera þarf vandlega athugun á öllum gjaldeyrisskilum vegna laxveiða útlendinga hér á landi, enda munu gjaldeyrisyfirvöld hafa mikinn áhuga á því verkefni. Mig langar að geta þess, að engin sérstök gjaldeyrisskil eru t.d. gerð vegna veru útlendinga í fjölmörgum veiðihúsum hér á landi, en dvalarkostnaður þeirra þar skiptir tugum milljóna á hverju einasta sumri.

Herra forseti. Að lokum þetta: Flm. telja, að hér sé á ferðinni mál sem þarfnast skjótrar afgreiðslu. Skipulag þessa þáttar laxveiðimála hefur vérið í hreinum ólestri. Íslenskar laxveiðiár eiga ekki að vera tómstundagaman erlendra og innlendra auðmanna eingöngu. Allir, sem hafa áhuga á þessari íþrótt án tillits til efnahags, eiga að geta notið hennar. Íslensk sumur eru stutt, og það er rangt að selja þessi dýrmætu hlunnindi úr landi, — hlunnindi sem margir vilja njóta og eiga rétt á að njóta. Það er röng stefna að sprengja upp verð á laxveiðileyfum og að gera laxveiðiár að leikvöllum auðmanna. Þetta verða veiðiréttareigendur að skilja. Deila má um rétt þeirra til þessara hlunninda. Vart ráða þeir rennsli ánna eða göngu laxins, og þeir hafa að mörgu leyti með stefnu sinni gefið byr undir báða vængi þeirri kröfu, að árnar og laxveiðirétturinn verði þjóðareign. Sumrin eru sá tími sem Íslendingar njóta útivistar. Þeir gera það á misjafnan hátt. Lax- og silungsveiðar eru ríkur þáttur í tómstundum þeirra. Þegar fjármunir erlendra auðmanna koma í veg fyrir að þeir geti notið þess, sem íslensk náttúra hefur að bjóða, er kominn tími til að spyrna við fótum. Ég skora á alla hv. þm. þessarar deildar að eigna sér höfundarréttinn að þessari tillögu og fylgja henni fast eftir.

1. flm. þessarar till. mun innan skamms fylgja henni eftir með tillögu um nýskipan fiskiræktar í sjó og vötnum og um nýtt átak á því sviði. Síðan fer ég þess á leit við hæstv. forseta, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og allshn.