04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3878 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Frv. það til l. um stjórn efnahagsmála o. fl., sem hér er til 1. umr. í Nd. Alþ., hefur átt sér langan aðdraganda eins og kunnugt er. Bjartsýnir menn gátu e. t. v. hugsað sér að efnislega hefðu ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. byggst á einhverjum þvílíkum þáttum, sem í frv. fetast, þegar í septembermánuði s. l. En því var ekki að heilsa og ríkisstj. hóf göngu sína með bráðabirgðaúrræðum sem voru afsökuð með því að tími ynnist ekki til þess að gera varanlegar ráðstafanir til úrlausnar aðsteðjandi vandamálum. Og tímamörkin voru sett til 1. des. En þá var enn á ný gripið til bráðabirgðaúrræða. Hæstv. forsrh. talaði að vísu áðan um fyrsta og annan áfanga og svo þetta frv. sem þriðja áfanga efnahagsráðstafana. Það hefur sem sagt tekið hátt í 9 mánuði að koma þessu frv. til l. um stjórn efnahagsmála það langt áleiðis sem raun ber vitni. Fæðingarhríðir þess hafa verið harðar og strangar, og segja má um það, eins og fleygt hefur verið, að fjöllin tóku jóðsótt og fæddist lítil mús. Sannleikurinn er sá, að efnislega er þetta frv. ákaflega rýrt.

Það sem meira er, er e. t. v. að í frv. felst uppgjöf hæstv. ríkisstj., nokkurs konar gjaldþrotayfirlýsing, ef í huga eru hafðar þær ráðstafanir sem ríkisstj. hóf feril sinn með í byrjun sept. s. l. Eins og kunnugt er byggðust ráðstafanir hæstv. ríkisstj. þá á þrem höfuðþáttum. Í fyrsta lagi þóttist ríkisstj. vera að setja samningana í gildi. Hún var að hækka kaup að eigin sögn, en þegar 1. des. s. l. lækkaði hún kaupið um 5% eða 8%, eftir því hvort menn taka niðurgreiðsluaukninguna með í reikninginn, eða ekki, og nú er ráðgert að dregið verði úr vísitölugreiðslum um 21/2 prósentustig, 41/2 prósentustig eða 61/2 prósentustig, eftir því hvaða stjórnarliðar túlka efni frv. eða um hvaða launaflokka er að ræða,.og frekari skerðingar eru boðaðar seinna á árinu. Hvað launaþáttinn snertir hóf ríkisstj. að eigin sögn feril sinn með því að hækka laun til þess svo síðan að glíma við það vandamal að lækka launin meira en hún jafnvel að eigin sögn telur sig hafa hækkað þau í byrjun stjórnarferils síns.

Annar höfuðþátturinn í upphafsgöngu ríkisstj., sem hún hefur stært sig mikið af, var aukning niðurgreiðslna. Þessi aukning niðurgreiðslna og afnám söluskatts af matvörum átti að lækka verðbótavísitöluna um 7.5% þá þegar í sept. og lofað var 3–3.5% til viðbótar í des. Við þetta var út af fyrir sig staðið. En ríkisstj. reisti sér slíkan hurðarás um öxl með þessum ráðstöfunum að nú er eitt höfuðinntak þess frv., sem hér er til umr., að draga úr niðurgreiðslum, að lækka niðurgreiðslur í áföngum á þessu ári, árinu 1980 og 1981. Það er þess vegna ljóst, að ríkisstj. hefur hvað varðar ýmsa höfuðþætti í stefnumiðum sínum við upphaf göngu sinnar gefist upp og lýst upphaflega stefnu gjaldþrota með flutningi þessa frv.

En þá er eftir þriðji höfuðþátturinn sem fólst í aðgerðum ríkisstj. í sept. s. l. og er í raun og veru ranghverfan á hækkuðu kaupi og hækkuðum niðurgreiðslum, en það er aukin skattheimta. Þessi þriðji höfuðþáttur, sem einkenndi upphaf þessarar ríkisstj., stendur óhaggaður. Skattheimtan heldur áfram og jafnvel er útlit fyrir að svo verði í auknum mæli í framtíðinni, þótt hagræðið, sem ætlunin var að veita með hækkuðum launum og auknum niðurgreiðslum, sé löngu horfið, þessi aukna skattheimta er í raun og veru til þess fallin að auka þann vanda sem við höfum átt við að glíma.

Ég mun e. t. v. hverfa að þessum atriðum nánar þegar ég ræði einstaka þætti frv., en áður en ég geri það er þó alveg sérstaklega ástæða til að geta um það, að skattar hafa sjaldan eða aldrei verið auknir jafnmikið og í tíð núv. ríkisstj. né jafnfjölskrúðugir nýir skattar verið á lagðir. Í brbl. voru, eins og kunnugt er, lagðir viðbótartekjuskattar og viðbótareignarskattar á einstaklinga og félög með afturvirkum hætti. sem ekki er viðunandi í lýðræðisríki. Þá var vörugjald hækkað. Þá var og lagt sérstakt gjald á ferðagjaldeyri. Síðan hélt þessi skattaálagning áfram með gerð og frágangi fjárl., þar sem tekjuskattur var hækkaður á einstaklinga og félög — og ekki með neinum smátækum hætti. Samkv, fjárl. hækkaði eignarskattur einstaklinga um 94%, eignarskattur félaga um 134%, tekjuskattur einstaklinga um 95% og tekjuskattur félaga um 94%. En þessu til viðbótar voru ýmsir aðrir skattar á lagðir, eins og sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sérstakur skattur, sem gefið var nafnið nýbyggingagjald, og eins og kunnugt er var verðjöfnunargjald af raforku hækkað. Ég ætla ekki að þetta sé tæmandi upptalning, og hlýt a. m. k. að bæta við þessa upptalningu stórhækkuðum skattaálögum af hálfu sveitarfélaganna í landinu. Þessar stórhækkuðu skattaálögur halda áfram og það sér ekki fyrir endann á þeim, en það, sem ætlunin var að verja tekjum af þeim til, er nú að engu orðið. Í stað þess málamyndagernings, sem var á ferðinni til að setja samningana í gildi og hækka kaup, er honum breytt í andhverfu sína og kaup lækkað. Í stað þess að niðurgreiðslur voru hækkaðar er sú fyrirætlun að engu orðin og hefur einnig snúist í andhverfu sína, lækkaðar niðurgreiðslur.

Í I. kafla þess frv., sem hér er til umr., er rætt um stefnumörkun í efnahagsmálum í 1. gr. Út af fyrir sig held ég að við getum verið sammála um þá stefnumörkun. Hins vegar er meira álitamál, hvaða erindi slík stefnumörkun á í lög. Við þurfum fyrst og fremst að setja í lög ákvæði um þær leiðir sem við viljum fara til þess að ná tiltekinni stefnu. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að fyrir Alþ. sé lögð þjóðhagsáætlun til kynningar. Það hefur verið gert, og þau tímamörk, sem þarna er um að ræða, eru út af fyrir sig ágæt. Um I. kafla er raunar ekkert sérstakt að segja umfram það sem segja má um fyrstu 30–32 greinar frv., að þar er um stefnuyfirlýsingar að ræða, sem ekki eiga heima í lögum, eða ákvæði, sem þegar er lagaheimild fyrir.

Það er þó rétt að fara nokkrum orðum um sumar þessara greina og kafla, vegna þess að í þeim felst stefnuyfirlýsing, eins og t. d. II. kaflanum, sem þó er ákaflega breyttur frá því sem var í upprunalegu frv. Alþfl.-manna, sem mun vera fyrirrennari þessa frv. Í frv. Alþfl.-manna, sem birt var í Alþýðublaðinu og aldrei hefur hins vegar séð dagsins ljós hér á Alþ., var getið um kerfisbundið samstarf aðila vinnumarkaðarins og samstarfsstofnun þessara aðila. Þeir Alþfl.-menn töluðu líka á sínum tíma um kjarasáttmála. Í einhverri útgáfu af mörgum af frv. eða frv.-hugleiðingum hæstv. forsrh. var rætt um kjaramálaráð. Í þeim greinum sem falla undir II. kafla, er ekki um slíkt að ræða og eingöngu talað um óformlegt samráð við aðila vinnumarkaðarins. Slíkt samráð hafa ríkisstj. ávallt haft og hafa eðli málsins samkv. heimild til slíks án þess að fest sé í lög, og því eru þessar greinar algerlega þýðingarlausar og hafa ekkert gildi. Athyglisvert er líka að sú ríkisstj., sem stofnuð var með þeirri yfirlýsingu að hafa sérstakt náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins, hefur hlotið mjög þunga gagnrýni fyrir skort á slíku samráði. Á ég þar ekki eingöngu við gagnrýni af hálfu vinnuveitenda, en við þá hefur í rauninni ekkert samráð verið haft og fram hjá þeim gengið algerlega. Ég á einnig í þessum efnum við Alþýðusamband Íslands, Verkamannasamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Samband bankamanna, að ég tali ekki um Sjómannasambandið. Öll þessi samtök og forsvarsmenn þeirra hafa gagnrýnt hvernig ríkisstj. hefur haldið á samráði við samtökin, sem ríkisstj. þó lofaði með fjálglegum orðum að skyldi vera höfuðaðferð hennar til þess að komast að niðurstöðu er leiddi til samkomulags þessara aðila. Auðvitað er það ekki líklegt til kjarasáttmála, að ég tali nú ekki um til þjóðarsáttar, að ganga fram hjá einstökum hagsmunasamtökum, eins og t. d. vinnuveitendum, nema menn vilji stefna í hreinan ríkiskapítalisma, eins og e. t. v. er óskadraumur sumra stjórnarliða, en er eitthvert versta hagkerfi sem hugsanlegt er og ólíklegast til þess að skapa grundvöll og skilyrði fyrir bættum kjörum þjóðfélagsþegna, og eru þar fordæmin austantjalds víti til varnaðar.

Ég skal fara fljótt yfir sögu varðandi III. og IV. kafla, þótt ég nefni þar einstök atriði, þar sem ég á von á að þeim verði gerð frekari skil af öðrum fulltrúa Sjálfstfl. hér í deildinni.

Í 6. gr. er rætt um að frv. til fjárl. skuli byggt á sömu forsendum og þjóðhagsáætlun. Þegar á þessu ári er í fjárlögum þessa árs og þjóðhagsáætlun þessa árs brotið í bága við þessa grein, þar sem frv. til fjárl. er byggt á desemberverðtagi, en ekki á því verðlagi eða verðlagsspá sem þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir.

Þá vildi ég láta það koma hér fram, vegna þess að hæstv. forsrh. talaði um að þetta frv. væri byggt á því að ekki væri stofnað til nýrra stofnana eða skrifstofa, að lengi hefur það verið talið æskilegt og ég hef oft haft orð á því, m. a. í stefnuræðum sem þáv. forsrh., að æskilegt væri að gera fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun til lengri tíma, t. d. til þriggja ára. Það hefur ekkert verið því til fyrirstöðu lagalega séð. En ástæðan til þess, að það hefur ekki komist í framkvæmd, er beinlínis sú, að Þjóðhagsstofnun hefur ekki haft mannafla eða tíma til þess að útbúa slíka áætlun og hefur hún þó verið í smíðum á undanförnum árum.

Ég hlýt að lýsa því sem minni skoðun, að rétt sé að taka framlög til sjóða og einstakra verkefna úr ríkissjóði til endurskoðunar á hverju ári. En í 8. gr. segir ekkert efnislega um það, hvert markmiðið í þeim efnum skuli vera, og hefur því enga þýðingu. Það verður að koma fram fyrir lok þessa árs, hver stefna ríkisstj. er í þessum efnum. 8. gr., eins og hún stendur í frv., segir ekkert um það og hefur því enga þýðingu.

Ég hef þegar getið um það, að 9. gr. lýsir fráhvarfi ríkisstj. frá fyrri stefnu. Það er athyglisvert, að fulltrúar Alþb. í ríkisstj. standa að inntaki þessarar greinar, en engir hafa sem þeir hrósað sér af því að auknar niðurgreiðslur hafi verið þeirra verk. Hlýtur því samdráttur niðurgreiðslna einnig að vera á þeirra ábyrgð. En í raun og veru er athyglisvert að rifja upp hversu gersamlega þýðingarlaust stökkið í aukningu niðurgreiðslna var í sept. í baráttunni gegn dýrtíðinni. Við útreikning á verði á landbúnaðarvörum miðað við 1. mars hafði verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara hækkað um rúmlega 6%, en útsöluverð landbúnaðarvara hækkað um 12–20%. Það var vegna þess að verðið slær langtum alvarlegar út í útsöluverðinu eftir því sem niðurgreiðslur eru stærri hluti af heildarverðmæti landbúnaðarafurða. Og því er það að hækkun niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum er skammgóður vermir. En auk þess hafði ríkisstj. ekki mátt í sér eða fjárhagslega getu að bakhjarli hjá ríkissjóði til að standa jafnvel við það niðurgreiðslustig sem ákveðið var með brbl. í sept. og lagasetningu í lok nóv. Það skortir í fjárl. á það nú, að því er talið er, um 3 milljarða kr. Ef halda á sér innan marka fjárl. þýðir þetta verðhækkun á landbúnaðarvörum til viðbótar annarri fyrirsjáanlegri hækkun. Eingöngu þessi fjárvöntun í fjárveitingum úr ríkissjóði á þessu ári til þess að standa við stefnumið ríkisstj. eins og því er lýst í samstarfsyfirlýsingu hennar, að niðurgreiðslur skuli vera áfram á sama stigi á þessu ári og var ákveðið í lok síðasta árs, leiða af sér væntanlega um 2–3% hækkun á framfærsluvísitölu. En þessu til viðbótar koma auðvitað aðrar hækkanir sem fyrirsjáanlegar eru á landbúnaðarvörum, eins og t. d, áburðarverðshækkun sem fyrirsjáanleg er. Áburðarverksmiðjan mun hafa sótt um rúmlega 50% hækkun. Áburðurinn er 10% í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara. Það þýðir að verðlagsgrundvöllurinn hækkar um rúmlega 5% og þegar af þeirri ástæðu munu landbúnaðarvörur hækka um álíka mikið og hækkunin var 1. mars eða um milli 10 og 20%.

Síðan er sagt í 9. gr. að þess skuli jafnan gætt að ákvarðanir við niðurgreiðslur miðist við að sem minnstar sveiflur verði í þeim. Þetta er þveröfugt við aðferðir hæstv. ríkisstj. En út af fyrir sig er ánægjulegt að ríkisstj. skuli hafa séð að sér og vilji nú hverfa á heilbrigðari brautir.

Í 10. gr. er talað um að gera skuli tillögur um 1000 millj. kr. lækkun á ríkisútgjöldum á þessu ári. Er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja. En það minnir aftur á móti á ákvæði sem var í fyrri ráðagerðum ríkisstj., þar sem talað var um að dregið skyldi úr útgjöldum síðasta árs eða heimild fengin til þess að lækka útgjöld um allt að 2 milljörðum kr. og tekið fram að það tæki til fjárveitinga utan fjárlaga. Þetta var í brbl. í sept. s. l., eða í frv. til l. um kjaramál, og var afgreitt þannig, að því er ég hygg, frá Alþ. í haust. Það hefur ekkert heyrst um árangur varðandi nýtingu þessarar heimildar, nema komið hefur nýleg grg. frá fjmrh. sem segir allt annað en að þessi heimild hafi verið nýtt. En ég skal ekki gera þá grg. að sérstöku umræðuefni, á von á því að það verði gert af öðrum.

Í 11. gr. er síðan það markmið sett að heildartekjur og útgjöld á fjárl. haldist innan marka sem svara til 30% af vergri þjóðarframleiðslu. Ég hef áður sagt frá því opinberlega, að við sjálfstæðismenn teljum þetta allt of háa viðmiðun. Vissulega má segja að 11. gr. hafi ákaflega lítið gildi og það verði að koma fram í gerð fjárl. sjálfra hvað þau hafa í för með sér varðandi heildartekjur og útgjöld miðað við verga þjóðarframleiðslu. Á yfirstandandi ári er áreiðanlega farið yfir þessi mörk, sem þó eru sett of há 30%. Líklega er talið að heildartekjur og útgjöld á fjárl. séu nálægt 32% af vergri þjóðarframleiðslu á yfirstandandi ári. Við sjálfstæðismenn töldum að fráfarandi ríkisstj. hefði komist niður fyrir 28% markið hvað snertir útgjöld fjárl. miðað við verga þjóðarframleiðslu, og við vorum ekki ánægðir með þann árangur. Þess vegna getum við ómögulega annað en gagnrýnt harðlega þegar útgjöld ríkissjóðs svara til nálægt 4 prósentustigum hærri upphæðar en við höfðum síðast miðað við. Það þýðir milli 25 og 30 milljarða kr. í aukinni skattheimtu á landsmenn á yfirstandandi ári, og sýnir engin ein tala betur hversu alvarlega horfir í skattaálögum á landsmenn og hve þung ábyrgð núv. ríkisstj. er í þeim efnum.

Það er rétt, áður en að IV. kafla er komið og í tengslum við skattastefnu núv. ríkisstj., að unna henni þess sannmælis og hæstv. forsrh. sem flm. þessa frv. að hafa fellt burt ákvæðin um eignakönnunina, sem voru í fyrri útgáfum af frv.-drögum hans sjálfs og áttu eins og sumt annað í þessu frv. upptök sín í frv. Alþfl.-manna. Það er gott til þess að vita að gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á þeim fyrirætlunum stjórnarliða, Alþfl.-manna, Alþb. og Framsfl., að stofna nú til nýrrar eignakönnunar hefur borið þann árangur að þeir hafa látið af þeim ráðagerðum, a. m. k. í bili.

Í IV. kafla þessara laga er fátt sem ekki hefur í raun verið framkvæmt undanfarið, nema helst eftir að núv. ríkisstj. tók til starfa. Það er t. d. svo komið að lánsfjáráætlun ríkisstj. fylgdi ekki með fjárl. á þessum vetri eins og endranær hefur verið mörg undanfarin ár, a. m. k. í tíð fráfarandi ríkisstj. Nú er hér um bil þriðjungur af árinu liðinn án þess að Alþ. hafi afgreitt fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj.

Þess er og getið í 20. gr., að heildarfjármunamyndun þjóðarbúsins verði innan við fjórðung af vergri þjóðarframleiðslu á yfirstandandi ári, en frávik þó talin heimil. Þessi grein segir því vitaskuld ekki mikið. En allt útlit er fyrir að sú fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem nú er hér til umr., muni sprengja þessi mörk. Þá er spurningin: Hvort gildir 20. gr. í þessu frv. eða fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin eins og frá henni verður gengið? Slík viðmiðun í lögum hefur þess vegna afskaplega litla þýðingu ef hún er ekki virt í raun í aðgerðum og samþykktum Alþingis, hvort heldur er viðmiðun um útgjöld ríkissjóðs miðað við verga þjóðarframleiðslu eða heildarfjármunamyndun þjóðarbúsins miðað við þjóðarframleiðslu. Fjárlög annars vegar eða fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hins vegar byggjast í raun á þeim grunni og virða þessi mörk. Öll sólarmerki benda til þess í báðum tilvikum, að um einbera sýndarmennsku sé að ræða hjá hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkunum þegar talað er um 30% viðmiðun útgjalda úr ríkissjóði miðað við þjóðarframleiðslu annars vegar og 25% heildarfjármunamyndun þjóðarbúsins miðað við þjóðarframleiðslu hins vegar. Hvor tveggja þessi rammi verður sprengdur.

Það er auðvitað rétt, að nauðsynlegt er að takmarka heildarfjármunamyndun ef menn vilja skapa svigrúm fyrir einkaneyslu og samneyslu í þjóðfélaginu, og til þess að sætta launþega og koma á friði á vinnumarkaðinum er nokkuð til þess vinnandi að draga úr heildarfjármunamyndun þjóðarbúsins. Þó skiptir miklu meira máli, að fjármunamyndunin sé með þeim hætti að um arðbærar framkvæmdir sé að ræða. Það getur haft afskaplega slæm áhrif einmitt varðandi friðinn á vinnumarkaðinum til frambúðar ef sú fjármunamyndun, sem er arðbær, er stöðvuð, en hún er grundvöllur batnandi lífskjara og meiri einkaneyslu og raunar samneyslu þegar til lengdar er litið.

Ég vil efnislega tjá mig fylgjandi því stefnumiði, sem 21. gr. greinir frá, og bendi á að fráfarandi ríkisstj. gerði þær endurbætur á lánskjörum fjárfestingarlánasjóða, að raunhæfari ávöxtunarkjör þeirra voru virt í framkvæmd, þótt nokkuð skorti á að um eðlilega ávöxtun eigin fjár þeirra væri að ræða. Að svo miklu leyti sem ákvæði þessarar greinar er ætlað að bæta úr því tel ég það til bóta, en bendi í þeim efnum á að auðvitað mun það leiða til þess að lánskjör munu verða óhagkvæmari lántakendum. Við því er þó ekkert að segja vegna þess að í því felst, ef um fullt jafnræði er að ræða eða sömu reglur gilda í öllum fjárfestingarlánasjóðunum, tæki til þess að beina fjárfestingunni í hagkvæmustu farvegina.

Ég hlýt að gera efnishlið V. kafla nokkuð að umræðuefni. Sá kafli mun ekki eiga upptök sín í frv. Alþfl.manna, því sem birtist í Alþýðublaðinu fyrir jólin, heldur mun hann eiga upptök sín í tillögugerð Alþb.-manna fyrir eða eftir jól. Óneitanlega ber hann þeim Alþb.mönnum, sósíalistum, þjóðnýtingarmönnum þar í flokki, nokkurt vitni. Sú miðstýring, sem er forsenda þess kafla, er mjög andstæð stefnu okkar sjálfstæðismanna. Ég vil þó taka það fram, svo að ekki megi vitna öðruvísi í orð mín síðar, að ég tel ekki að í þessum greinum sé beinlínis fólgin heimild fyrir framkvæmdavaldið til þess að beita atvinnuvegi og atvinnufyrirtæki valdi, þótt margar greinar beri því vitni að sú hætta er þó fyrir hendi. Ég vil fyrst og fremst benda á orðalag 23. gr., þar sem talað er um að samræming atvinnuvegaáætlana skuli tryggð sameiginlega af ráðh. viðkomandi atvinnugreina ásamt forsrh. Í framhaldi af því er í 24. gr. gert ráð fyrir að ríkisstj. leggi atvinnuvegaáætlanir fyrir Alþ. sem þáltill. eða lagafrv. eftir því sem við á. Þessar ráðagerðir bera því vitni, að hér er ekki eingöngu um áætlanagerð að ræða sem ætlað er að verði til leiðbeiningar, heldur er fyllilega gefið í skyn að um valdbundnar áætlanir sé að ræða. Við sjálfstæðismenn erum algerlega andvígir valdbundnum áætlunum. Ég vil rifja það upp, að í tíð fráfarandi ríkisstj. var sú breyting gerð á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins að krefjast ekki að byggðaáætlanir t. d. væru lagðar fyrir ríkisstj. eða Alþ. til staðfestingar, vegna þess að út í ógöngur var komið. Áætlunargerð er oft og tíðum óskhyggja. Hún getur út af fyrir sig haft vissa þýðingu sem slík. Auðvitað er æskilegt að byggðaáætlanir og atvinnuvegaáætlanir séu samræmdar þannig að ein áætlunin rekist ekki á aðra. En lögbinding slíkra áætlana er auðvitað af hinu illa, eykur miðstýringu í efnahagslífinu og dregur úr framtaki og hugkvæmni einstaklinga og samtaka þeirra.

Í þessum kafla er í raun og veru gert ráð fyrir því, að stjórnvöld hafi þessar áætlanagerðir eingöngu og algerlega með höndum. Í hinum 6 greinum í þessum kafla er aðeins gert ráð fyrir því með einni lítilli setningu að samtök í viðkomandi atvinnuvegum komi nokkuð við sögu. Í 23. gr. er sagt: „Við undirbúning atvinnuvegaáætlana og aðgerða til hagræðingar í atvinnurekstri skal leita álits og tryggja samráð við samtök í viðkomandi greinum.“

Það er enn fremur rétt að vara alvarlega við ákvæði 22. gr., þar sem sérstaklega er talað um eflingu atvinnustarfsemi á félagslegum grundvelli, ef í þessu felst mismunun á atvinnustarfsemi eftir því hvert rekstrarformið er. Hvað er átt við með orðalaginu: atvinnustarfsemi á félagslegum grundvelli? Er það atvinnustarfsemi á vegum ríkisins, á vegum sveitarfélaga, á vegum samvinnufélaga, á vegum hlutafélaga, á vegum sameignarfélaga eða á vegum einstaklinga? Hvar eru skilin gerð? Hver er þessi atvinnustarfsemi á félagslegum grundvelli og á ekki að efla alla atvinnustarfsemi og á ekki atvinnustarfsemin að sýna gildi sitt í verki? Ef hún gerir það og öll atvinnustarfsemi situr við sama borð skiptir engu máli hvert rekstrarformið er.

Það er svo ein af mótsögnunum í starfi ríkisstj., sem felst í 26. gr., að allra náðarsamlegast á að útvega 1000 millj. kr. að láni á yfirstandandi ári og 2000 millj. kr. á næsta ári til þess að koma á hagræðingu í undirstöðugreinum atvinnulífsins. Þetta er smáölmusa til atvinnuveganna eftir þá skattlagningu, sem um hefur verið að ræða á atvinnustarfsemina í landinu.

Hér greinir á með Sjálfstfl. og ríkisstjórnarflokkunum. Við erum þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið og hið opinbera sé ekki líklegt til að hafa það hugmyndaflug, þá sköpunargáfu og/eða það framtak sem nauðsynlegt er til þess að stuðla að framförum í atvinnustarfsemi, heldur sé þá hugkvæmni og sköpunarþrá og það framtak að finna hjá einstaklingum og samtökum þeirra. Það er ekki hægt nema að takmörkuðu leyti að hugsa nýmæli eða nýjan vaxtarbrodd í atvinnustarfsemi við skrifborð í opinberum stjórnarskrifstofum, heldur á þetta sér stað úti í atvinnulífinu sjálfu af hálfu þeirra sem í því starfa og stjórna.

Í VI. kafla eru ákvæði varðandi peninga- og lánamál. Eru út af fyrir sig athyglisverð ákvæði í 30. gr. varðandi aukningu peningamagns í umferð, sem þó er frávíkjanlegt og segir lítið ef nokkuð umfram það sem er í gildandi lögum. Að minni hyggju hefur Seðlabankinn heimild til að hafa áhrif á peningamagn í umferð. Þó er ánægjulegt að sjá að Alþb.-menn hafa hér tekið upp kenningar Miltons Freeman, sem þeir hafa hingað til á síðum Þjóðviljans ekki haft verulegt álit á.

Þá verður og að segja að breyting sú, sem varð á frv. í Ed. með aukningu bindiskyldunnar, sé ekki til bóta. Við sjálfstæðismenn höfum bent á það í stefnuyfirlýsingu okkar í efnahagsmálum, að við vildum afnema bindiskylduna í því formi sem hún nú er og þá um leið endurkaup Seðlabankans á afurðalánum, en fela hins vegar viðskiptabönkunum lánveitingar út á afurðir alfarið, þannig að ekki væru tveir bankar, bæði viðskiptabankar og Seðlabankinn, að fjalla um sömu lánveitingarnar í raun og veru. Til þess að unnt væri að hafa stjórn á peningamagni í umferð og peningamálum almennt kæmi fremur til greina að hafa rétt til þess að binda fjármagn í bönkunum með bindiskyldu er byggðist á útlánum bankanna.

Þá er ég í raun og veru búinn að fjalla um þær greinar frv. sem í sjálfu sér eru ekki annað en stefnuyfirlýsingar og ég hef rætt um sem slíkar. Þær eru í besta falli verklagsreglur, umbúðir, eins og bent hefur verið á.

Í sambandi við verðtryggingu sparifjár og lánsfjár eru ákvæðin til bráðabirgða í VI. kafla og VII. kafla um margt til bóta, en þó óþarflega flókin ákvæði. Við sjálfstæðismenn bendum í því sambandi á að þeim líklega 14 eða 15 lagagreinum, sem þarna er um að ræða, væri unnt að fækka í 3–4 lagagreinar með því að samþykkja brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. við frv. Vilmundar Gylfasonar o. fl., en þær brtt. eru á þskj. 177. Í höfuðatriðum fela þær í sér að Seðlabankinn ákveði fyrst og fremst vexti af útlánum sínum og innlánum, en vextir að öðru leyti og verðtrygging eða viðmiðun við gengi sé ákveðið af innlánsstofnunum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum svo og í frjálsum samskiptum manna á meðal.

Ég vil taka það fram, að margt í verðtryggingarkafla frv. er þess eðlis að það fer algerlega eftir framkvæmdinni hvaða áhrif þau ákvæði hafa. Hér er að vísu um ánægjulega framför að ræða bæði hjá fulltrúum Framsfl. og Alþb., að vilja horfast í augu við réttmætan fjármagnskostnað og nauðsyn þess að örva og tryggja sparnað í landinu með því að tryggja hag sparifjáreigenda, en af því leiðir auðvitað að lántakendur verða að greiða þá verðtryggingu. Í þessum kafla er gert ráð fyrir að rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna falli undir sérreglu, og þótt meira vald sé í þeim efnum flutt í hendur Seðlabankans með brtt., sem samþ. var í Ed., en áður var ráðgert í frv., er samþykki ríkisstj. áskilið. Nú hefur Seðlabankinn í raun það vald að fjalla um þessi kjör, en hefur hins vegar ekki notað þetta vald og virt skoðanir innan ríkisstj. á hverjum tíma. Í fráfarandi ríkisstj. var einmitt stundum ágreiningur á þessu sviði sem leiddi til þess að Seðlabankinn hélt að sér höndum. En þó áttu sér stað þær framfarir á síðasta kjörtímabili að stöðvuð var rýrnun sparifjármyndunar miðað við þjóðarframleiðslu, sem áður hafði verið í tíð vinstri stjórnarinnar frá 1971–1974, þannig að hefði sú rýrnun ekki átt sér stað hefði bankakerfið nú um 70 milljörðum kr. meira til umráða en raun ber vitni.

Þá er og ástæðan til þess að fjalla stuttlega um þá breytingu sem orðið hefur á fjármagnskostnaði afurðalána útflutningsatvinnuveganna, sem nú eru bundin við gengi, en með lægri vöxtum en áður. Í þessu töldu formælendur stjórnarflokkanna að fælist lækkun fjármagnskostnaðar, en reynslan á eftir að sýna hvort svo verður eða ekki. Ef verðbólgan heldur áfram, eins og útlit er fyrir, og samfara lækkar gengi íslensku krónunnar, eins og óhjákvæmilegt er til þess að brúa bilið á milli verðbólgu hérlendis og í helstu viðskiptalöndum okkar, ef ekki er um sérstakan bata í viðskiptakjörum eða aukna framleiðni innanlands að ræða, þá mun fjármagnskostnaðurinn jafnvel verða meiri hjá útflutningsatvinnuvegunum en hann var samkv. þeim reglum sem áður giltu. Þó er hér um virðingarverða breytingu að ræða, sem felst í því að virða þá staðreynd að fjármagnskostnaðurinn verður að koma fram í framleiðslukostnaði eins og annar kostnaður.

En ég undirstrika: Við sjálfstæðismenn bendum á þær till., sem við höfum flutt á sérstökum þskj., og á stefnuyfirlýsingu okkar: „Endurreisn í anda frjálshyggju“, varðandi verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Ég er þá kominn að VIII. kaflanum, um verðbætur á laun. Ég vil einnig varðandi afstöðu okkar til þess kafla leyfa mér að lesa upp, með leyfi forseta, það sem segir um kjaramál í fyrrgreindri efnahagsyfirlýsingu okkar sjálfstæðismanna:

„Almennir kjarasamningar verði á ábyrgð aðila, eigi sér sem mest stað samtímis, taki mið af þjóðhagsvísitölu og samrýmist þeim markmiðum að verðbólgan minnki og afkoma atvinnuveganna sé trygg. Samráði aðila vinnumarkaðarins verði beint í fastan farveg. Leitað verði samkomulags við aðila vinnumarkaðarins um nýtt verðbótakerfi, kjaravísitölu. Óbeinir skattar og niðurgreiðslur hafi þar ekki áhrif. Verðbætur miðist við breytingar á viðskiptakjörum.“

Í þessu felst að við viljum koma á frjálsum samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Við skiljum í raun og veru ekki hvernig á því stendur, að núv. stjórnarflokkar standa í vegi fyrir því, að aðilar vinnumarkaðarins setjist að samningaborðinu og fjalli um kaup sitt og kjör Þessir flokkar, sem höfðu það að orði að samningarnir ættu að taka gildi, láta sér það lynda að ekkert er um samningsmál fjallað milli aðila vinnumarkaðarins eftir að samningstímabilið rann út 1. des. s. l., og á ég þá við samninga á sviði almennra stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands. Frv. það, sem hér er til umr., ber þess ekki vitni að ætlunin sé að stuðla að slíkum samningsviðræðum aðila vinnumarkaðarins í náinni framtíð. Ætlunin er hér eftir sem hingað til að ákveða kaup og kjör landsmanna einhliða af stjórnvöldum. Þetta láta stjórnarflokkarnir sér lynda, þetta láta verkalýðsflokkarnir sér lynda, þetta láta launþegasamtökin sér lynda að mestu leyti enn sem komið er, hversu lengi sem það verður, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar. Í þessu felst afsal launþegasamtakanna á samningsrétti sínum í hendur ríkisvaldsins, sem er fyrirboði þess fyrirkomulags sem er í austantjaldslöndunum, þar sem ríkið segir fyrir um kaup og kjör manna og verkalýðsfélögin eru eingöngu peð á taflborði valdhafanna.

Við sjálfstæðismenn erum andvígir slíku fyrirkomulagi og viljum að um hvort tveggja, grunnkaup og vísitölubætur, ef um þær er að ræða, sé fjallað í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Við afsölum okkur ekki með því rétti til þess á löggjafarsamkomu þjóðarinnar að grípa inn í málið, ef þörf krefur, en við álítum að það sé hreint neyðarúrræði. Við stóðum að því að fyrirkomulagi varðandi verðbætur á laun var breytt með febrúar- og maílögunum á síðasta ári. Þá lýstum við því einnig yfir, að um neyðarúrræði væri að ræða þar sem samningstímabili lyki ekki fyrr en 1. des. s. l. og í veði var árangur í baráttunni gegn verðbólgunni. Hefði sú löggjöf fengið að standa, þá hefði verðbólgan komist niður fyrir 30% á síðasta ári. Það er það markmið sem hæstv. forsrh. telur útilokað að ná á þessu ári, jafnvel með þessu frv., en árangur þess taldi hann verða á þann veg að verðbólgan yrði eitthvað um 35%. Aðrir telja að spurning sé hvorum megin við 40% verðbólgan verði á þessu ári. En hefðu febrúar- og maílögin fengið að verka hefði verið grundvöllur fyrir því að koma verðbólgunni niður undir 20% á þessu ári. Menn sjá af þessu hvaða skemmdarverk voru unnin af örfámennri klíku verkalýðsforingja, og menn sjá af þessu, að stjórnarflokkarnir og hinir sjálfskipuðu verkalýðsforingjar kommúnista og krata eru að berjast við eigin draug þegar þeir eru að bítast á um einstök ákvæði í verðbótakafla þessa frv. Við teljum að meðan ekki hefur reynt á að frjálsir samningar geti tekist sé ekki tímabært að löggjafarvaldið kveði á um fyrirkomulag mála, en tökum þó fram hver helstu stefnumið okkar eru varðandi fyrirkomulag verðbóta á laun.

Ég skal engan dóm á það leggja, að hvaða niðurstöðu væri unnt að komast í þessum efnum, en tel það lágmarkskröfu til þeirra, sem hafa viljað virða samningsfrelsið, að sú leið verði fyrst farin að aðilar vinnumarkaðarins útkljái sín deilumál sjálfir.

Í þessu efni er nauðsynlegt að fá skýrð nokkur þau ákvæði, sem þessi kafli hefur inni að halda, og þá ekki síst ákvæðið til bráðabirgða í lok VIII. kafla eftir brtt. þá er samþykkt var í Ed. Spurningin er þessi: Ef meðlimir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fella samkomulag forsvarsmanna sinna og ríkisstj. og 3% grunnkaupshækkun til þeirra og Bandalags háskólamanna gengur í gildi, hvað verður þá um meðlimi Sambands ísl. bankamanna? Fellur 3% grunnkaupshækkun til þeirra niður undir öllum kringumstæðum um næstu mánaðamót og framvegis án tillits til hvernig fer varðandi atkvgr. innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja? Ég vildi í öðru tagi spyrja: Hvernig fer ef úrslit þeirrar atkvgr. verða t. d. á þá lund, að starfsmenn ríkisstofnana samþykkja samkomulagið og falla frá 3% grunnkaupshækkun, en starfsmenn einhverra þeirra sveitarfélaga, sem sérstaklega greiða atkv. um þetta samkomulag, fella samkomulagið? Fá þeir þá 3% grunnkaupshækkun? Ef ég er ekki leiðréttur, þá mun ég draga þá ályktun.

Ég get svo tekið undir með hæstv. forsrh. — og mér þykir það ekkert verra — þegar hann leggur áherslu á að það sé kaupmátturinn sem mestu máli skipti, en ekki krónufjöldinn. Við hæstv. forsrh. stóðum saman um að túlka þá skoðun á síðasta ári, þegar forustumenn Alþb. og Alþfl. hér á þingi töldu að það skipti engu máli hvert kaupgjaldið væri í baráttunni við verðbólguna, það þyrfti ekkert að fjalla um vísitölubótafyrirkomulag, það væri árás á launastéttirnar að skerða vísitölubætur. Það er út af fyrir sig gott að forustumenn Alþfl. og Alþb. hafa skipt um skoðun og líta þó nokkuð raunsærri augum á þessi mál en þeir gerðu í fyrra. En ég vek athygli á því, að þær ráðstafanir, sem er nú verið að gera í kaup- og kjaramálum, eru í fyrstu umferð að vinda ofan af fyrstu ráðstöfunum núv. ríkisstj., þegar hæstv. forsrh. gekk með flokk sinn í þau björg sem kommúnistar og kratar bjuggu honum í þessu stjórnarsamstarfi. — Og kaupmátturinn hefði ekki verið neitt síðri nú í dag eða hingað til hefðu febrúar- eða maílögin fengið að ná þeim árangri sem að var stefnt. Víst er um það, að kaupmátturinn til lengdar hefði orðið meiri.

Við sjálfstæðismenn höfum þá skoðun, að þau verkefni, sem um er fjallað í vinnumarkaðsmálakaflanum, IX. kafla, séu í raun verkefni félmrn. og þeirra ráðningarskrifstofa sem starfræktar eru víða um land, en við vörum alveg sérstaklega við ákvæði 54. gr., þar sem við teljum það óframkvæmanlegt.

Í X. kafla er fjallað um verðlagsmál. Við erum algerlega andvígir efni þess kafla, bæði eins og frv. kvað á um í upphafi og einnig eftir breytingu sem gerð hefur verið á þeim kafla. Við áttum þátt í því ásamt fyrrv. viðskrh. að setja nýja löggjöf um verðlagsmál á síðasta þingi, löggjöf sem var til þess fallin að vera tæki í baráttunni gegn verðbólgunni, tæki til þess að efla og auka samkeppni og færa húsbóndavaldið á markaðnum í hendur neytenda. Nú er verið í raun að snúa innihaldi þeirrar löggjafar við. Í stað þess að aðalreglan skuli vera frelsi undir eftirliti er aðalreglan núna höft og hömlur — gamla fyrirkomulagið sem hefur gengið sér til húðar á síðustu áratugum og skilað okkur m. a. þeirri verðbólgu sem við höfum búið við. Í þessu efni hygg ég að verði að breyta algerlega um vinnubrögð, ef nokkur árangur á að nást. Í tengslum við verðtryggingu og frelsi á fjármagnsmarkaði þarf að koma frelsi á verðlagsmarkaði eða vörumarkaði og í tengslum við hvort tveggja þetta frjáls samningsréttur aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Við verðum að taka út þá vaxtarverki sem e. t. v. stafa af því að brjóta nú í blað í efnahagsmálum, hverfa frá miðstýringu og til frjáls markaðsbúskapar, en sá búskapur einn getur stuðlað að því að við náum árangri í verðbólgubaráttunni.

Ég skal ekki vera langorður um jöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Varðandi annan sjóðanna, Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, er um enga breytingu að ræða frá gildandi lögum í raun. Ef um einhverja breytingu er að ræða er hún tekin aftur með síðustu setningunni í 60. gr. frv. Varðandi Aflatryggingarsjóð vörum við við því að ætla sér að skattleggja ofnýtta fiskstofna til þess að greiða með veiðum á vannýttum fiskstofnum. Það felst nægilega mikil skerðing í takmörkun veiði á ofnýttum fiskstofnum og því ekki unnt að skattleggja þær fiskveiðar í ofanálag, enda hæpið að það mundi ná þeim árangri sem að er stefnt.

Við vekjum svo athygli á því, að í XII. kafla er víðtæk heimild til ráðh. að setja reglugerðir. Með því að frv. þetta er allt laust í reipunum og unnt er með mismunandi hætti að fylla það út með reglugerðum og við treystum ekki núv. ríkisstj. eða einstökum ráðh. til þess að setja slíkar reglugerðir, þá teljum við ekki ástæðu til þess að styðja þann kafla frekar en aðra kafla frv.

Í heild sinni má segja að frv. þetta brjóti í bága við meginstefnu okkar sjálfstæðismanna, þótt einstaka ákvæði þess séu til bóta. Við höfum gert grein fyrir afstöðu okkar til einstakra kafla, en þar sem frv. er á svo mörgum sviðum og í svo mörgum greinum þeim annmörkum bundið sem ég hef getið um, þá teljum við þýðingarlaust að flytja brtt. við frv. og munum greiða atkv. gegn ákveðnum greinum frv. og X. kafla og gegn frv. í heild af þeim ástæðum sem ég hef nú lýst.