04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3901 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hér er til umr. það hið fræga frv. sem hæstv, forsrh. flutti í Ed. um stjórn efnahagsmála eftir að hann í margar vikur, marga mánuði hafði gert tilraun til þess að fá samstöðu innan ríkisstj. í efnahagsmálum. Þetta frv. var uppgjöf hans og sýnir betur en nokkuð annað, hvernig í raun og veru samstarfið og samstaðan hefur verið á stjórnarheimilinu allt frá því að ríkisstj. var mynduð 1. sept. s. l.

Af hálfu okkar sjálfstæðismanna gerði hv. 4. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl. grein fyrir sjónarmiðum okkar varðandi þetta frv., en ég hafði hugsað mér að víkja sérstaklega að þeim köflum frv., þar sem fjallað er um ríkisfjármálin, og þeim greinum sem í frv. eru og beinlínis fjalla um þann þátt efnahagsmálanna.

Í heild er hér flutt frv. um stjórn efnahagsmáta án þess að þar sé gerð tilraun til þess að leysa aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum, heldur frv. fyrst og fremst unnið og síðan flutt til þess að lengja líf þessarar hæstv. ríkisstj. og viðhalda þeirri verðbólgu sem hjá okkur hefur verið að undanförnu, að vísu nokkuð misjöfn, en með flutningi þessa frv. virðist um að ræða hreina uppgjöf í þessum málum.

Það einkennir þessa málsmeðferð og frv. allt, að stjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Ákvæði hafa verið sett í frvgr., en eins og best kom fram í ræðu hæstv. viðskrh. áðan hafa greinarnar allar verið endurbættar og allar á þann veg að útgöngudyr eru fundnar og ákvæðin, sem í greinunum eru, nánast gerð að engu. Það, sem er einna merkilegast við þetta allt saman, er sú uppgjöf — sú algera uppgjöf sem er hjá Alþfl. Við erum búnir að heyra fjölmargar yfirlýsingar fulltrúa þess flokks á þingi frá því að það kom saman og margar dagsetningar, en það bregður svo við nú þegar þetta frv. er til umr., að allar yfirlýsingarnar, öll stóru orðin eru dregin til baka og nánast ekkert af því, sem þeir lýstu yfir á s. l. ári að væru meginatriðin í efnahagsstefnu Alþfl., er lengur til og gefist upp í þeirri að vísu hörðu baráttu sem þeir hafa talið sig eiga í á undanförnum mánuðum.

Vinnubrögðin við frv. þetta eru líka með nokkuð sérstökum hætti, nánast allt öðruvísi en gert hafði verið ráð fyrir við myndun þessarar ríkisstj., og það kom gleggst fram í dag þegar hæstv. viðskrh. gerði grein fyrir öllum mótmælunum frá fjöldasamtökum sem hafa haldið því fram að í landinu væri vinveitt stjórn og þess vegna væri ástæða til þess að láta hana lifa.

Það sem af er starfstíma þessarar ríkisstj. sýnist flestallt í efnahags- og fjármálum hafa gengið öðruvísi en frv. þetta gerir ráð fyrir. En það má vel vera, að menn hugsi sér að bæta ráð sitt og hætta þeirri óráðsíu, sem verið hefur, og taka upp betri vinnubrögð og koma málunum í lag.

Það er eitt ákvæði sem ég vildi mega vekja athygli á. Í 13. gr. frv. segir: „Kostnaðarmat á tillögum frumvarpa sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.“ Það skal fjárlaga- og hagsýslustofnun annast og það á að leggja fram með hverju frv., en þrátt fyrir ósk okkar í fjh.- og viðskn. hefur ekki fengist upplýst kostnaðarmat við þetta frv., sem leggur þessar skyldur á herðar þeirri stofnun í framtíðinni, fjárlaga- og hagsýslustofnun. Mætti segja mér að þannig ætti eftir að fara í fjölmörgum atriðum. (Forsrh.: Frv. er ekki orðið að lögum.) Frv. er ekki orðið að lögum, sagði hæstv. forsrh., og ég veit ekki hvort hann er farinn að óttast. Sem fyrirmynd að því, sem i frv. stendur, hefði mér fundist að hæstv. forsrh. hefði átt að beita sér fyrir því, að þessi verklagsregla, sem hefur verið reynt að hafa án þess, þess að hún væri í lög sett, væri viðhöfð við þetta frv. Ég held hins vegar að ef þetta frv. verður að lögum, sem mér virtist hæstv. forsrh. nú í einhverjum vafa um að yrði, verði oft til þess lagatexta, sem hér verður samþykktur, vitnað þegar ungum laganemum verður kennt hvernig löggjöf á ekki að vera.

Ef við víkjum að fyrstu köflum þessa frv. er hér um að ræða yfirlýsingar og stefnumið sem við sjálfsagt getum flestir fallist á, en núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki getað komið í framkvæmd. Mér sýnist því að eina úrræðið hafi verið að koma þeim yfirlýsingum í frumvarpsform til þess að þau stefnumið lægju þó fyrir í lagatexta. Það sýnist heldur ekkert útlit fyrir að hæstv. ríkisstj. geti komið því í framkvæmd sem um er getið í I. kafla þessa frv. Hins vegar liggur ljóst fyrir að það, sem að er stefnt með þessu frv. er aukin miðstýring. Það eru vaxandi ríkisútgjöld sem leiða að sjálfsögðu af sér aukna skattheimtu. Hins vegar er að finna í frv. og í frv.-textanum ýmsar verklagsreglur sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár.

Ýmis gullkorn er að finna í þessum frumvarpstexta. Sumar greinarnar ern hins vegar svo fáránlegar að ég neita að trúa því, að hæstv. forsrh. hafi staðið að samningu þessa frv. eða a. m. k. fjölmargra greina þess, en ég mun víkja að því hér á eftir.

Í köflunum varðandi stefnumörkun í efnahagsmálum og samráð stjórnvalda, I. og II. kafla frv., er, eins og ég sagði áðan, að finna stefnuyfirlýsingar og setningar sem flestir geta fallist á. Ég held þess vegna að hér sé ekki um að ræða lagasetningu, heldur hitt, að búið hafi verið til frv. til staðfestingar á stefnu sem hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að koma í framkvæmd.

Í III. kaflanum er fjallað sérstaklega um ríkisfjármálin og með hvaða hætti þeim skuli skipað. Einhvern veginn er það nú svo, að í þeim greinum — frá 6. til 13. gr. — er að finna ákvæði eða till. um ákvæði um verklagsreglur sem verið hafa um langan tíma. Frv. til fjárl., eins og segir í 6. gr., skal samið með tilliti til þjóðhagsáætlunar. Fjárlagafrv. hefur að sjálfsögðu ævinlega verið samið með tilliti til þess, nema þá fjárlagafrv. fyrir árið 1979, en forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárl. voru ekki þær hinar sömu. Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir langtímafjárl. og það sett fram eins og hér væri um nýmæli að ræða. Langtímafjárlög hafa verið til umr. hér á Alþ. Ef ég man rétt var það fyrrv. fjmrh., Magnús Jónsson, sem fyrstur flutti hér á Alþ. till. varðandi þessi mál, og á síðasta kjörtímabili var ráðinn sérstaklega í fjárlaga- og hagsýslustofnun fulltrúi til þess að vinna að þessum málum. Það, sem 7. gr. gerir ráð fyrir, er því ekki annað en það sem unnið hefur verið að að undanförnu. Sama má segja um fleiri greinar þessa frv.

Í 8. gr er sérstaklega vikið að mörkuðum tekjustofnum. Ég hef ekki farið dult með skoðun mína í þeim efnum. Ég teldi eðlilegast að við gerð fjárl. hverju sinni væri tekin ákvörðun um þær fjárveitingar og skiptingu þeirra sem Alþ. þá hugsar sér. Ef litið er á vinnubrögð meiri hl. Alþ. undanfarna daga verð ég að vekja athyli á því, að fyrir Alþ. liggja frv. um markaða tekjustofna. Ég held að miklu meiri brögð séu að því nú en á undanförnum þingum að þm. hafi flutt frv. þar sem tekjuöflun hafi verið markaðir tekjustofnar. Ég held að það væri þess vegna ekki úr vegi að hæstv. ríkisstj. gerði stjórnarliðum grein fyrir því, hvað hún í raun og veru hugsaði sér í sambandi við fjárlög og markaða tekjustofna, en léti það ekki gerast sem hér hefur verið að gerast undanfarnar vikur.

Í 9. gr. frv. er vikið að niðurgreiðslum, og gerði hv. 4. þm. Reykv. grein fyrir þeim málum í dag. En það er að sjálfsögðu eftir öðru í frv. þessu og í því, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera, því að þar rekur sig hvað á annars horn og gerðir stjórnarinnar koma þvert á það sem hún hefur verið að gera áður. Hér er mótuð stefna í niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum þvert á það sem voru fyrstu aðgerðir ríkisstj. í septembermánuði s. l.

Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir niðurskurði á fjárl. Við skulum vona að takist að ná því fram sem þar er gert ráð fyrir. Það er að sjálfsögðu búið að breyta dagsetningum, þar sem hér var gert ráð fyrir að þessu yrði lokið fyrir 1. apríl. En ég vil biðja hæstv. forsrh. að taka það til athugunar, að við í fjh.- og viðskn. fáum upplýsingar um hvað líði þessari tillögugerð og hvort hægt sé að láta okkur í té upplýsingar um með hvaða hætti þessi niðurskurður eigi að vera.

Í 11. gr. frv. er gert ráð fyrir ákveðinni prósentu í sambandi við ríkisumsvif. Það hafa allir verið sammála um að draga úr ríkisumsvifum og gagnrýndu ýmsir fyrrv. ríkisstj. fyrir að ekki hefði tekist nógu vel þá. Ég skal fúslega viðurkenna að það tókst ekki, en það tókst þó að minnka umsvif ríkisútgjalda úr 31.5% af þjóðarframleiðslu, sem þau voru á árinu 1975, í 27–28% á árunum 1976 og 1977. Það kom hins vegar í ljós, strax eftir að núv. ríkisstj. hafði komið fram með sínar fyrstu aðgerðir, að þær leiddu til aukinna útgjalda hjá ríkissjóði. Í þeirri skýrslu, sem hefur verið lögð fram af hæstv. fjmrh. um ríkisútgjöldin 1978, kemur í ljós að aftur er um að ræða aukningu á útgjöldum ríkissjóðs, þ. e. i 29.2%. Það er eins í þessari grein og öðrum, þegar búið er að setja fram markmiðið koma útgöngudyr, og þar stendur: „Frá þessu skal þó víkja, ef óvæntar og verulegar breytingar verða í þjóðarbúskapnum, og sérstaklega ef ætla má, að hætta sé á atvinnuleysi.“ Þar með er gert ráð fyrir að auka ríkisútgjöldin, enda kom glögglega fram í ræðu hæstv. viðskrh. í dag að kröfu hvers þessi setning hefði verið sett inn í þessa grein.

12. gr. þessa frv. er að mínum dómi furðuleg, þar sem stendur: „Ríkisendurskoðun skal fylgjast með framkvæmd fjárl. í umboði Alþingis.“ — Framkvæmd fjárl. í umboði Alþingis hlýtur að mínum dómi að heyra undir fjmrn. Ég þykist hins vegar skilja, og það kemur fram í grg. þessa frv., hvað fyrir frv.-flytjanda vakir. Ég get sagt það hér, að þær hugmyndir, sem fram hafa komið í frv. Halldórs Ásgrímssonar fyrrum þm., sem hann flutti fyrst í fyrra og svo aftur nú, þegar hann var á þingi sem varaþm., eru að mínum dómi mjög athyglisverðar, þ. e. a. s. að ríkisendurskoðun sem slík heyri undir Alþingi og starfi í umboði Alþingis sem ríkisendurskoðun. Þá væri eðlilegt að tengja störf ríkisendurskoðunar störfum fjvn. og þá e. t. v. að gera breytingu sem yrði að vera breyting á stjórnarskrá, þ. e. a. s. að frv. að ríkisreikningi yrði flutt í Sþ. eins og fjárlög, en ekki í deildum eins og nú er. Með þessu ætti að fást að mínum dómi — og ég held að það vaki tvímælalaust fyrir flm. — betra eftirlit og betri endurskoðun á útgjöldum hinna einstöku stofnana ríkisins og Ríkisendurskoðun sé þá óháðari og það sé fjárveitingavaldið sem hún geri grein fyrir störfum sínum. Þannig væri betur tryggt að fjármagn, sem Alþ. ákvæði til útgjalda, nýttist og skilaði þeim árangri sem til er ætlast.

13. gr. frv. þessa er nánast komin úr lögum sem gilda í dag-lögum um opinberar framkvæmdir. Það, sem í 13. gr. segir, er allt að finna þar. Hér er um að ræða endurupptöku á verkefnum fjárlaga- og hagsýslustofnunar og samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir.

Af því, sem ég hef sagt, má sjá að allar þessar greinar eru með einum eða öðrum hætti aðeins verklagsreglur eða endurtekning á lagagreinum sem í gildi eru í dag. Hvers vegna hér er um að ræða uppsetningu með þessum hætti skal ég ekki um segja, nema ef vera skyldi, eins og ég gat um í upphafi, að það sé gert til þess að gera frv. myndarlegar úr garði vegna þess hversu lítilfjörlegt það er varðandi lausn á þeim miklu vandamálum, sem við höfum átt við að glíma.

IV. kaflinn fjallar um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Lánsfjáráætlun hefur verið samin á s. l. þremur árum og þar var um að ræða ákvörðun fyrrv. ríkisstj. í framhaldi af framkvæmdaáætlunum sem Alþ. hafði samþykkt allt frá því að mig minnir 1965, þ. e. a. s. um opinberar framkvæmdir fjármagnaðar með lánsfé. Hins vegar taldi fráfarandi ríkisstj. rétt að gerð yrði heildaráætlun um opinberar framkvæmdir og ekki aðeins um þær, heldur einnig um lánamarkaðinn, þannig að hægt væri að ná heildaryfirsýn í einni áætlun sem gerð yrði, og enn fremur að þar kæmi fram fjármögnun svo og þau vaxtakjör sem gilda ættu í landinu, þ. e. a. s. hjá hinum einstöku sjóðum sem með útlánastarfsemi hafa að gera. Það, sem hér er sagt, er nánast ekki annað en það sem gert hefur verið á undanförnum árum. Ég held meira að segja að í 16. gr. frv. sé tekið upp úr stjórnarskránni — 40. gr. hennar — þar sem segir að með skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun skuli lagt fram frv. um heimildir til lántöku innanlands og utan, ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar fjáröflunarráðstafanir vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða að því marki; sem slík ákvæði eru ekki í frv. til fjárlaga. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir fyrir um það, með hvaða hætti þessi mál skuli vera á Alþingi, eins og þau hafa að sjálfsögðu alltaf verið. Þannig er hér enn eitt dæmið um hvað þetta frv. er í raun og veru mikil sýndarmennska.

Þó kemur fram í þessum kafla atriði sem ég vildi nefna, en það er í 19. gr. frv., þar sem stendur: „Undirbúningur fjárfestingar- og lánsfjáráætlana skal vera á vegum ríkisstj. og skulu Þjóðhagsstofnun, fjárlaga- og hagsýslustofnun, Seðlabanki Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins í samvinnu við einstök rn. annast nauðsynlega undirbúningsvinnu.“

Hafi ég skilið rétt, m. a. það sem hæstv. forsrh. sagði í dag, er með þessari grein verið að veikja fjmrn., veikja fjárlaga- og hagsýslustofnunina, þar sem lánsfjáráætlun hefur verið samin, og fela forustu í þeim efnum stofnunum, þ. e. a. s. embættismönnum, en þeir aðilar, sem hafa hina pólitísku ábyrgð á fjármálum ríkisins, fari ekki með forustu í þessum málum.

Ég hefði talið eðlilegt að í slíkri upptalningu væri rn. númer eitt. Ég held að það sé skýrt tekið fram í þeirri lánsfjáráætlun, sem Alþ. fjallar um nú, að hún sé samin af fjmrn., fjárlaga- og hagsýslustofnun. í samráði við Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka, Framkvæmdastofnun o. s. frv. Ég þóttist skilja það á hæstv. forsrh., að þessi lánsfjáráætlun yrði í framtíðinni á vegum ríkisstj. Ber að skilja það svo að fjmrn. fari ekki lengur með þau mál? Ég gat ekki skilið það öðruvísi. Ég held að hér sé verið að veikja þá stofnun sem þeir pólitísku aðilar, sem ábyrgðina bera, eiga að sjá um.

Þá er gert ráð fyrir því í 20. gr. þessa frv., að heildarfjármunamyndunin í landinu verði innan við 25% eða fjórðung, eins og þar er talað um, af vergri þjóðarframleiðslu. Og síðan kemur: „Frá þessu má þó víkja, ef óvæntar og verulegar breytingar verða í þjóðarbúskapnum, og sérstaklega, ef ætla má, að hætta sé á atvinnuleysi.“ Hæstv. viðskrh. gerði í dag grein fyrir tilurð þessarar greinar og svo útgöngudyrum þessarar greinar. Það er ekki hugsun þeirra, sem að þessu standa, að halda sig að þeim meginsjónarmiðum sem fram eru sett, heldur skulu þau sett fram og síðan á að vera hægt að fara í kringum þau eins og ástæða þykir. Ég held líka að sú lánsfjáráætlun, sem nú er hér í þinginu, geti ekki verið innan ramma þessarar greinar. Það er að vísu sagt að hún sé innan við fjórðung af þeirri þjóðarframleiðslu sem Þjóðhagsstofnun spáir að verði á árinu, en ég held að það sé þegar komið í ljós að það skorti nokkra milljarða í þá lánsfjáráætlun og aðeins í sambandi við þau verkefni sem tekin eru fram í lánsfjáráætluninni. Ég tala ekki um það sem verið er að ræða þessa dagana á þingi, lántökur fyrir Framleiðsluráð, jafnvel erlendar lántökur fyrir Framleiðsluráð til þess að standa straum af útflutningsuppbótum, þar sem útgjöld ríkissjóðs, sem ætluð eru til þeirra hluta, koma ekki til með að duga. Ef þær tölur eru skoðaðar saman vantar nærri heilan tug milljarða til þess að lánsfjáráætlunin sýni þá réttu mynd sem hún á að gera.

Þegar við ræðum þetta frv. höfum við fyrir okkur fyrstu 6 mánuði af starfstíma núv. hæstv. ríkisstj. Það væri ekki rétt að dæma þá mánuði eina sér, heldur bíðum við að sjálfsögðu þess, að 16 mánaða tímabilið liði, til þess að hægt sé að meta gerðir ríkisstj. með tilliti til þess sem sagt var við myndun ríkisstj. Hins vegar má skoða áætlanir, sem gerðar voru í septembermánuði, og útkomu ríkisfjármálanna árið 1978. Af því má ráða örlítið hvernig þessum hlutum hefur verið háttað. Ég held að það gefi okkur nokkra mynd af því sem í raun og veru er að gerast. Með þeim fyrstu ráðstöfunum, sem ríkisstj. gerði í sept., var gert ráð fyrir að það yrði 400 millj. kr. halli á ríkisbúskapnum, sem hins vegar reyndist ekki aðeins 400 millj., heldur 3.6 milljarðar, ef ekki eru teknar með afborganir til Seðlabankans. Þegar þessar tölur eru skoðaðar vil ég mega vekja athygli á að við endurskoðaða áætlun ríkissjóðs á miðju ári var gert ráð fyrir að 3 milljarðar væru til upp í greiðslur við Seðlabankann. Með greiðslum við Seðlabankann verður greiðsluhalli ríkissjóðs tæpir 7 milljarðar, eða 6 milljarðar 772 millj. kr. Það er ljóst mál, að með þessari útkomu er sagan að endurtaka sig um fjármálastjórn vinstri stjórna. Vandanum er ævinlega velt yfir á ríkissjóð: annars vegar eru útgjöld hans aukin, hins vegar eru ríkisfyrirtækin ekki þannig útbúin að þau geti skilað jöfnuði, heldur reynt að haga hlutum þannig að þar safnist skuldahali sem að sjálfsögðu endar hvergi annars staðar en hjá ríkissjóði.

Í tíð fyrri ríkisstj. voru stjórnarandstæðingar ekkert sparir á gagnrýni í sambandi við skuld ríkissjóðs hjá Seðlabankanum, sem að sjálfsögðu var allt of mikil. Það átti sínar skýringar. Hún var afleiðing hinnar miklu verðbólgu, sem verið hefur á undanförnum árum, en 80% af skuldasöfnun 1974–1977 voru frá árunum 1974 og 1975 sem afleiðing af vinstri verðbólgunni. Ég aflaði mér í dag upplýsinga um það hjá fjmrn., hver væri skuld ríkissjóðs 31. mars, sem er eðlilegt viðmiðunartímabil, en tekjur eru að fullu komnar inn í lok mánaðarins. Skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann eru 36.7 milljarðar kr. Skuldin var 31. mars á s. l. ári 24 milljarðar 700 millj. kr. Aukningin er 12 milljarðar kr. og þar af á þessu ári 10.4 milljarðar og af því 222 milli. kr. vegna gengissigs. Ég held að þeir aðilar, sem gagnrýndu skuldasöfnun á s. l. kjörtímabili, hafi þarna ærið verkefni við að glíma. Mér er fullkomlega ljóst að á þessum mánuðum er skuld ríkissjóðs ævinlega meiri en þegar liða tekur á árið, en ég held að það sé ekki eingöngu það, heldur og hitt, að útstreymi úr ríkissjóði sé ekki með sama hætti og verið hefur og að hlutfallslega séu útgjöld ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðunum orðin meiri en þau hafa verið á undanförnum árum.

Ég aflaði mér upplýsinga í fjmrn. í dag varðandi útflutningsuppbætur, en það er gert ráð fyrir 5.4 milljörðum kr. til útflutningsuppbóta á þessu ári. Það er þegar búið að greiða, þegar 3 mánuðir eru liðnir, 4.4 milljarða kr., eða tæp 80% af þessum útgjaldalið. Ég bar þetta saman við þróun mála á s. l. ári, en þá hafði verið greitt af þessum lið eftir fyrstu 3 mánuðina 55%. Það liggur í augum uppi, þegar við sjáum þessar tölur, að hér er um vandamál að ræða í sambandi við útflutningsuppbætur. Það vandamál hefur verið fyrir hendi á undanförnum árum, enda þótt ekki hafi tekist að koma sér saman um lausn í þeim efnum.

Ef taka á nú erlent lán á vegum Framleiðsluráðs til þess að greiða útflutningsuppbætur, þá held ég að skörin sé farin að færast upp í bekkinn. Þeir aðilar, sem gagnrýnt hafa erlendar lántökur og gagnrýnt hafa útgjöld ríkissjóðs, því að enginn kemur til með að greiða þetta annar en ríkissjóður þegar fram í sækir, þurfa að skoða nokkuð hug sinn í þessum málum.

Annað atriðið er í sambandi við fjármál ríkissjóðs á s. l. ári, þ. e. a. s. hlutfallið af þjóðarframleiðslunni. Liggur ljóst fyrir, í hverju sú aukning er fólgin, og kemur fram, að þar er um að ræða niðurgreiðslur sem auknar voru til mikilla muna og valda því að hlutdeild ríkisútgjalda í þjóðarframleiðslunni verður þetta miklu meiri. Sem hlutfall af fjárl., ef ég man rétt, voru niðurgreiðslur tæp 10% á árinu 1974 — höfðu verið það á árinu 1971. Þar hafði tekist á síðasta kjörtímabili að draga úr og verið reynt að ná fram því sjónarmiði sem kemur fram í þessu frv., og muni ég rétt voru niðurgreiðslurnar komnar í milli 5–6% sem hlutfall af fjárl.

Það er ljóst mál af því sem fram kemur í þessu frv., að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að láta þar við sitja að ríkisútgjöldin verði um 29% af þjóðarframleiðslu, heldur 30% og þar yfir. Þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1979 var samþ. í desembermánuði s. l. mátti reikna með að ríkisútgjöldin yrðu 32–32.5% af þeirri þjóðarframleiðslu sem þá var spáð. Þetta gengur þvert á það, sem núv. ríkisstj. ætlar, að draga úr ríkisumsvifum, því að eftir því sem ríkisumsvifin eru stærra hlutfall af þjóðarframleiðslunni, eftir því er erfiðara að fást við útgjöld einstakra ríkisstofnana. Ég held að því, sem ég hef hér sagt, að ekki náist það markmið ríkisstj., sem hún setti sér í sept., að skila hallalausum fjárl. fyrstu 16 mánuðina, en tíminn kemur til með að leiða það í ljós.

Við erum hér að fjalla um frv. um stjórn efnahagsmála. Það er komið fram í aprílmánuð. Lánsfjáráætlun hefur enn ekki verið samþ. á Alþ. Það liggur í augum uppi að það veldur miklum erfiðleikum í fjármálastjórninni. Og þá hefur það að sjálfsögðu mikil áhrif á efnahagsmátin þegar ekki er hægt að afgreiða á einum og sama degi eða á sama tíma fjárlög ríkisins og lánsfjáráætlun. Ég tala nú ekki um ef ekki eru sömu forsendur fyrir fjárl. og lánsfjáráætlun. En fjárl. árið 1979 voru ekki afgreidd hallalaus, enda þótt þau tölulega á pappírnum sýndu það. Jafnvel hæstv. fjmrh. hefur opinberlega viðurkennt að þar vanti marga milljarða til þess að endar nái saman.

Ég sagði í upphafi, að í framhaldi af því, að hv. 4. þm. Reykv. gerði í dag grein fyrir sjónarmiðum sjálfstæðismanna varðandi það frv. sem hér er til umr., vildi ég sérstaklega fara nokkrum orðum um þá kafla sem fjölluðu um ríkisfjármálin svo og lánsfjáráætlunina. Það hef ég gert og ætla ekki að tefja tímann meir. Það er ljóst mál, að frv. þetta leysir engan vanda, enda þannig að því staðið að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman og því er hér um að ræða frv. forsrh., sem hann ekki heldur gat fengið samkomulag um. Það er hins vegar ljóst af því sem hér hefur verið sagt í dag, að þeir, sem hafa haft tögl og hagldir, þ. e. a. s. Alþb.-ráðh. ríkisstj., hafa náð fram því sem þeir hafa lagt áherslu á. Það er og ljóst mál, að Alþfl. hefur bognað, hann hefur fallið frá öllum stóru orðunum. Þetta frv. er því enn eitt dæmið um það, hvernig núv. ríkisstj. hefur svikið og er að svíkja allt það sem þm. stjórnarflokkanna sögðu á s. l. sumri í þeirri kosningabaráttu sem þá fór fram. Þeim hefur ekkert tekist og verk þeirra sýna að þeim mun ekkert takast, einfaldlega vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um svo veigamikil mál sem efnahagsmálin og fjármálin eru. Sé ekki samstaða um slíkt hjá þeim flokkum, sem standa að einni ríkisstj., kann ekki vel að fara.