04.04.1979
Neðri deild: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3920 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það út af þeim ummælum sem hv. síðasti ræðumaður hafði um það hér áðan, að lán s. l. ár hafi farið nokkuð fram úr lánsfjáráætlun, að eins og nú horfir um lánsfjáráætlun þessa árs ætti að vera næsta auðvelt að halda henni í réttu horfi, því að ekki sýnist líklegt að hún fái afgreiðslu fyrr en á næsta ári og þá væri hægt að sníða henni stakk eftir þeim lántökum sem fram hafa farið á þessu ári.

Ég verð að segja það í upphafi míns máls, að hv. síðasti ræðumaður kom það víða niður að nauðsynlegt er að ræða þessi mál frá víðari sjónarhóli en ég hafði ætlað mér. Hann hóf rangfærslur sínar og útúrsnúninga á því ári 1971, og það er nauðsynlegt að byrja þar strax og leiðrétta það sem hann fór þar rangt með.

Það er rétt munað hjá honum, að þegar viðreisnarstjórnin fór frá var gerð úttekt á þjóðarbúinu sem var metin svo af þeim, sem þá tóku við, að unnt ætti að vera að auka og bæta lífskjörin í landinu um 20% á næstu tveim árum. Þetta er rétt. Hins vegar er það mikill misskilningur hjá þessum hv. þm. ef hann heldur að sú ríkisstj., sem þá tók við, hafi verið þannig innréttuð að hún hafi haft einhverja sérstaka löngun til þess að sjá kjarasamninga verkafólksins í landinu í friði. Það hefur ekki verið háttur Alþb., þegar það hefur komist í ríkisstj., að sjá verkafólkið í landinu í friði. Það hafa verið þeirra fyrstu aðgerðir gjarnan og þær síðustu einnig að skerða kjörin í landinu. Þessum hv. þm. til upprifjunar skal ég tilfæra orð sem formaður Alþb., Lúðvík Jósepsson, viðhafði hér á þingi þegar hann var að láta af ráðherraembætti, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er enginn vafi á því, að sá vandi, sem við stöndum nú frammi fyrir í efnahagsmálum, snýst öðru fremur um það, hvernig skuli fara með þá hækkun á kaupgjaldsvísitölu sem sýnilegt er að verða muni 1. júlí n. k. og aftur 1. sept. að hausti. Eins og fram hefur komið í umr. hér er reiknað með því, að kaupgjaldsvísitalan muni hækka 1. júní n. k. um 13–15%, og ef sú hækkun verður látin ganga yfir án aðgerða mundi kaupgjaldsvísitalan aftur hækka sennilega um 7–8% eða jafnvel meira 1. sept. Það er við afleiðingarnar af þessum hækkunum, sem fyrst og fremst þarf að glíma. Og ég held, að allir hljóti að verða sammála um að það þarf í rauninni að koma í veg fyrir það, að þessar hækkanir gangi yfir og út í efnahagskerfið. En þá kemur að sjálfsögðu upp spurningin um það, hvernig hægt er að komast hjá því að þessar hækkanir gangi út í efnahagskerfið, með hvaða ráðum er hægt að koma í veg fyrir þessar hækkanir.

Þetta eru skýr ummæli um það, hvað vakti fyrir Lúðvík Jósepssyni á þessum tíma. Ég hef ekki í höfðinu öll ummæli hans frá þessu ári, það væri fróðlegt að fletta því upp. En ég veit að þessi hv. þm. er kunnugur því sem fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans og veit hvað Lúðvík Jósepsson hefur sagt í þessum efnum, enda kemur nákvæmlega það sama fram nú á þessu þingi þegar þessi hv. þm. styður þessa ríkisstj. Fyrstu aðgerðir þessarar ríkisstj., sem nú situr, voru þær að auka á launamuninn í landi með septemberráðstöfunum. Ég veit að hv. þm. rekur minni til þess, að svo fór jafnvel að laun hinna lægst launuðu hjá ríkinu beinlínis lækkuðu í krónum talið vegna þeirra ráðstafana. Svo er afskaplega auðvelt að koma hér nú löngu síðar og halda því fram, að fyrir sér hafi vakað allan tímann að standa sérstaklega á verði fyrir þetta fólk. Það er afskaplega auðvelt. Á sama tíma og hinir lægst launuðu fengu færri krónur í umslagið hækkuðu laun þeirra, sem mest fengu, um eitthvað 12%, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Þú getur sjálfur flett þessu upp, ekki ætla ég að fara að deila við þig um það sem rétt er. Hér er ég með tölurnar: Hjá iðnaðarmönnum hækkaði um 11%, verkamönnum um 8%, verslunarmönnum 7%, ríkisstarfsmönnum 11–12%. Þetta er sannleikurinn í því máli.

Ef við rifjum upp það sem næst gerðist, þá minnumst við þess hvernig stóð á því að Kjaradómur felldi úr gildi þakið sem var á vísitölunni. Það var ekki frv. forsrh. sem olli því, eins og hv. þm. sagði. Það eru ekki annað en látalæti til að reyna að skella skuldinni á aðra en þá sem eiga hana raunverulega, eins og er háttur þessara manna í Alþb. Höfuðsökina í því máli bar meiri hl. þeirrar borgarstjórnar sem nú situr, með þeirri dæmalausu samþykkt sem hún gerði á s. l. sumri. Síðan var þessu fylgt eftir með aulalegum ráðstöfunum í sept., sem olli því að vísitöluþakið kom svo misjafnt niður hjá einstökum launþegahópum að Kjaradómur sá sér ekki annan kost vænni, til þess að misréttið væri ekki himinhrópandi í þessu þjóðfélagi, en að afnema launaþakið. Ef hv. þm. hefur í sér dugnað og dug til þess að lesa forsendur Kjaradóms, þá getur hann kynnt sér að svo var í raun og veru.

Það er töluvert eftirtektarvert að fylgjast með því sem er að gerast á Alþ., ekki aðeins í dag, heldur undanfarna daga og mánuði. Það er t. d. gaman að sjá það, að Alþb. er nú búið að koma sér upp sínum Vilmundi í gervi hv. 3. þm. Vestf., Kjartans Ólafssonar, sem nú hefur fengið það hlutverk af Alþb. að látast vera óánægður með gerðir ríkisstj., haft í hótunum og þar fram eftir götunum. Og ég verð að segja það, að í þessari „genaralprufu“, sem fram fór hér í dag, tókst honum mætavel upp í þessu nýja hlutverki sem hann hefur kosið að taka að sér.

En við skulum aðeins hugleiða hvað er að gerast í launapólitíkinni í landinu. Hvernig stendur það? Við munum eftir því, að þegar þessi ríkisstj. var mynduð var það sett sem höfuðmarkmið í samráði við verkalýðshreyfinguna að engar grunnkaupshækkanir skyldu verða á þessu ári eða fram til 1. des. 1979. Þetta var það markmið sem sett var af ríkisstj. og verkalýðshreyfingin stóð á bak við. Verkalýðshreyfingin var jafnframt fús til þess að taka á sig nokkra kjaraskerðingu til þess að ná verðbólgunni niður. Fyrsta kjaraskerðingin kom í sept. Hún var margvíslega upp sett til þess að reyna að ljúga því að fólkinu í landinu að kjörin hefðu ekki verið skert. Einn þátturinn í þeirri blekkingaiðju var sá að auka niðurgreiðslur sem síðar voru framkvæmdar með því að auka tekjuskattana á fólkinu í landinu. Ef við athugum hversu víða það er sem hjón vinna úti í þessu þjóðfélagi, þá getum við jafnframt komist að raun um að tekjuskattsgreiðendur eru ekki fáir í þessu landi og þeir, sem hafa háan tekjuskatt, eru býsna margir, s jómenn ekki síst fyrir vestan. Fólkið í landinu var látið bera uppi þessar niðurgreiðslur. Jafnframt var vísitalan fölsuð á þann hátt að greiddar voru niður vörur sem ekki voru til á markaðnum, eins og t. d. nautakjöt. (KÓ: Hvað vegur það í vísitölunni?) Þú ert nú svo góður í tölum, það kom fram áðan, að þú ættir að vita það.

Hér skulum við koma að því sem gerðist 1. des. Þá féllst verkalýðshreyfingin á að kaupgjaldsvísitalan yrði skert um 2% gegn því að beinir skattar yrðu lækkaðir miðað við það sem þeir hefðu verið á árinu 1978. Við þetta var ekki staðið. Beinir skattar voru þvert á móti hækkaðir. Sjúkratryggingagjaldið var að vísu lækkað að hámarki um 23 þús. kr. hjá hjónum. Á móti átti að koma 2% lækkun á brúttólaunum. En ekki nóg með það, heldur var skattvísitalan höfð lægri en nam meðallaunahækkunum frá árinu 1977 til 1978, auk þess sem tekjuskattur á eigin húsaleigu var stórlega aukinn. Allt olli þetta því, að beinir skattar aukast árið 1979 miðað við það sem var á árinu 1978, þó ekki sé tekið tillit til hins nýja 10% stiga sem bætt var við. Þetta var þannig gersamlega svikið. Það var ekki nóg með að þeim blekkingum væri beitt, að beinir skattar ættu þarna að koma til lækkunar á vísitölunni, — það var ekki nóg með það að þeim skrípaleik væri beitt, — heldur var ekki staðið við þetta að einu eða neinu leyti, ekki gerð tilraun til þess, og hefur ekki verið gagnrýnt af þeim mönnum sem telja sig sjálfskipaða talsmenn launamanna í landinu, — ekki minnst á það einu orði, látið eins og þeir hafi fengið skattalækkanirnar sem þeir aldrei fengu, ekki einu sinni fyrir vestan. Hvernig var með 3% sem þeir áttu að fá uppi borin með margvíslegum félagslegum umbótum? Hvað hefur séð dagsins ljós af því? Í sambandi við opinbera starfsmenn sem líka lækkuðu í launum — hvað er ætlast til að þeir fái sérstaklega í félagslegum umbótum vegna þess að þeir gáfu eftir 3%? Það væri gaman að fá það upplýst.

Ekkert af þessu hefur séð dagsins ljós. Allt voru þetta tóm svik af þeim mönnum sem telja sig til verkalýðsflokkanna í þessu landi, og þegar þeir verða óðamála gera þeir ekki einu sinni greinarmun á Alþýðubandalaginu og Alþýðusambandinu, þeir telja sig vera búna að fá eignarhald á því sem þar er: — Ég ætla svo ekki að reyna að lýsa betur en þessi hv. þm. og hæstv. viðskrh. þeirri kjararýrnun sem þeir segja að nú sé að bresta á 1. júní. Þeir gerðu það svo fagurlega og vel að þar verður ekki um bætt.

Þessi ríkisstj. hefur skert kjör allra launþega í landinu miklu meir en síðasta ríkisstj., ef við köllum það að skerða kjörin að reyna að skerða kaupgjaldsvísitöluna til þess að hindra víxlhækkun kaupgjalds og verðlags: Nú er ég ekki einn þeirra manna sem trúa því, að kaupmáttur launa aukist með aukinni krónutölu. Og ég verð að segja það gagnstætt síðasta ræðumanni, að ef unnt yrði að koma verðbólgunni úr 40% niður í 33% gegn því að kaupmátturinn minnkaði einungis um 0.6%, þá mundi ég ekki hika við að segja að það væru góð býti, gagnstætt því sem hann sagði, því að vitaskuld er verðbólgan mesti óvinur launamannsins í landinu og þá einkanlega hins lægst launaða. Hitt er líka jafnhjákátlegt, þegar verkalýðshreyfingin í landinu er að senda þessari ríkisstj. einhverjar sérstakar ástarkveðjur, einhverjar heitar játningar um að hún hafi komið drengilega fram gagnvart launþegum, sagt þeim, hvernig í pottinn væri búið, og lýst ráðstöfunum sínum eins og efni stóðu til. Það hefur ekki verið gert.

Ég man eftir því fyrir rúmu ári, að ég var staddur á fundi þar sem voru frummælendur úr röðum verkamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og frá Bandalagi háskólamanna. Ég minnist þess, hversu mikilli ánægju var lýst yfir af öllum þessum aðilum, að þeir skyldu nú loksins hafa náð samstöðu um að þeir mundu ekki þola neitt þak á neina vísitölu, það mætti ekki rugla neina umsamda launataxta í landinu, hagsmunir verkamannsins færu í öllum atriðum saman við hagsmuni Bandalags háskólamanna. Ég man að á þessum fundi orðaði ég það, hvort það væri kannske ekki kominn tími til þess fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu að hafa frumkvæði að því að stofna til viðræðna við stjórnvöld og atvinnurekendur um það, hvernig væri hægt að tryggja kaupmátt lægstu launa og koma verðbólgunni jafnframt niður. Það kom aðeins eitt svar við því frá þeim aðilum, að auðvitað kæmi slíkt ekki til mála, allir launþegar yrðu að standa saman um ítrustu kröfur, eins og raunar kom fram áðan hjá hæstv. viðskrh. þegar hann talaði um að það væri rétt af verkalýðshreyfingunni að halda sínum ítrasta rétti um það, að við kjarasamninga yrði staðið í öllum atriðum, — hjá þeim manni sem nú er reiðubúinn til þess að samþykkja svo og svo mikla skerðingu á kauptöxtum í landinu, hjá þeim manni sem lýsti því yfir í þessum ræðustól fyrir nokkrum vikum að verðbólgan væri komin niður í 22%. Nú ætlar hann að fara að skerða kaupgjaldsvísitöluna um svo og svo mörg prósent til þess að koma henni í 35%, hvernig sem það kemur saman. Við í Sjálfstfl. höfum þó venjulega reynt að skerða kaupgjaldsvísitöluna til þess að minnka verðbólguna, en ekki auka hana.

En hvað er svo að gerast í verkalýðshreyfingunni? Stendur hún eins einhuga á bak við þessa ríkisstj. og ástarhótin gefa tilefni til að ætla? Formaður Sambands byggingarmanna segir í Þjóðviljanum 31. mars s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Afleiðingin af þessu hlýtur að verða sú, að verkalýðshreyfingin búi sig nú í stakk til þess að ná nýjum samningum, þar sem boð hennar um óbreytta samninga á þessu ári hefur ekki verið þegið“.

Snorri Jónsson, forseti Alþýðusambandsins, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við höfum boðist til að taka tillit til aðsteðjandi vanda, eins og t. d. vegna verðhækkana á olíu, en við getum ekki mælt með svona krukki sem óhjákvæmilega skekkir alla kjarasamninga“.

Guðjón Jónsson, formaður Málm- og skipasmíðasambandsins, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er augljóst, að verkalýðshreyfingin verður að beita þeim vopnum sem hún hefur til þess að verja kjörin og nú á næstunni verður að athuga til hvaða ráða ber að grípa“.

Hæstv. viðskrh. segir:

„Alþb. áskilur sér allan rétt til að fá fram breytingar á þessum kafla við hlið verkalýðshreyfingarinnar“.

Af þessum tilvitnunum má ljóst vera að Alþb. hefur nú hreiðrað um sig í vígstöðu. Það er reiðubúið til þess að láta til skarar skríða innan verkalýðshreyfingarinnar hvenær sem er. Við vitum að Farmanna- og fiskimannssambandið hefur gert kröfur sem eru, ef ég man rétt, um 60% grunnkaupshækkanir. Það markmið að halda óbreyttum grunnlaunum út árið 1979 virðist því nokkuð fjarri þessa stundina. Það verður ekki betur séð en sá fleygur sé kominn milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar að verkalýðshreyfingin hafi misst allt traust á þessari ríkisstj. Hún er ekki reiðubúin lengur til þess að taka á sig meiri fórnir, vegna þess að þær fórnir, sem launafólk tók á sig í sept. og í des., voru svo illa notaðar, tíminn var svo illa notaður, vegna þess að ríkisstj. hefur staðið sig illa. Hún hefur ekki beitt réttu tökunum til þess að ná verðbólgunni niður, og það er fólkið í landinu sjálft sem þrýstir á að þessi skrípaleikur hætti. Það skiptir engu máli hversu margir verkalýðsforingjar syngja ástarsöngva til þessarar ríkisstj., vilji hins almenna launamanns um sterka stjórn efnahagsmálanna brýst fram og sigrar fyrr eða síðar.

Við skulum svo aðeins íhuga eitt atriði í þessu máli, og það er þetta: Er það virkilega svo, að Bandalag háskólamanna og BSRB séu tilbúin að afsala sér 3% grunnkaupshækkun nú 1. apríl? Er eitthvert afsal í því fólgið? Forustumenn þessara samtaka, forustumenn BSRB hafa gert samkomulag við ríkisstj. um breyttan samningsrétt. Forustumenn BSRB meta þetta svo, að það sé jafnvirði 3% grunnkaupshækkunar. Ef atkvæðagreiðslan í maí fer þannig að samkomulagið verður samþ., þá hafa opinberir starfsmenn fengið 3% grunnkaupshækkun í formi breytts samningsréttar. Fari svo að samkomulagið verði fellt fá opinberir starfsmenn 3% í beinhörðum peningum. Grunnkaupshækkunin kemur því til framkvæmda. En þá er spurningin: Með hvaða siðferðilega rétti beitir ríkisstj. og meiri hl. Alþ. sér þá fyrir því að taka þessa 3% grunnkaupshækkun af bankamönnum?

Herra forseti. Ég vil mælast til þess við hæstv. utanrrh., sem hér er viðstaddur, að hann beiti sér fyrir því, að það samkomulag, sem ríkisstj. hefur gert við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, verði lagt fyrir þm. áður en þetta frv. kemur til 2. umr. Með þeirri brtt., sem lögð var fram og samþ. í Ed., er verið að setja Alþ. í þá stöðu að gera upp hug sinn um það, hvort það vilji fallast á þetta samkomulag eða ekki. Brtt. felur það beinlínis í sér. Og mér finnst óviðkunnanlegt og ekki virðingu Alþ. samboðið að ætlast til þess, að það greiði atkv. um slíkan pinkil án þess að fá að taka böndin utan af honum og gægjast í hann. Ég held þess vegna að það sé óhjákvæmilegt, að samkomulagið við BSRB í endanlegri gerð verði kynnt þm. Það gefst þá líka tilefni til þess að ræða efnislega það sem í því samkomulagi stendur. Ég vil t. d. mjög draga í efa að það ákvæði sé skynsamlegt, að á þriggja ára fresti skuli vera verkfallsréttur um skipan í launaflokka, bæði fyrir launþega og ríkisvaldið, og vek athygli á því, að m. a. Félag símamanna hefur lýst andstöðu sinni við þetta samkomutag. Ég held þess vegna að það sé alveg nauðsynlegt að það verði lagt hér fram.

Það hefur vakið nokkra athygli að hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir í blöðum, að hann sé þegar farinn að beita sér fyrir því að sum ákvæði í því frv., sem hér liggur fyrir, verði numin á brott síðar meir. Í máli hv. 3. þm. Vestf. mátti einnig heyra það, að baráttan muni um það standa á næstu mánuðum. Þetta sýnir eitt með öðru hversu trúverðug þessi ríkisstj. er, hversu samstaðan er mikil og heilindin sönn.

Ég get ekki látið hjá líða að drepa á eitt atriði, sem Alþb.-menn hamra mjög mikið á. Það er að það skipti engu máli gagnvart verðbólgunni, hversu há launin í landinu séu, það skipti bókstaflega engu máli. Þeir segja einnig að það sé ekki leið til að minnka verðbólgu að draga úr verðbótum. Þá er spurningin, ef svo er ekki, og lýsir í rauninni því, að þeir trúa ekki sjálfir því sem þeir fram halda, — þá er spurningin þessi: Hvers vegna eru þeir þá æ ofan í æ að skerða kaupgjaldsvísitöluna, og hvers vegna taka þeir nú þátt í því að skera niður grunnlaun, sem ég tók eftir að hæstv. forsrh. sagði að væri algert einsdæmi og hann mundi ekki eftir öðru slíku? Það þurfti sennilega að fá Alþb. í ríkisstj. til þess að á því yrði byrjað.

Það er eftirtektarvert í sambandi við þær tilraunir, sem þessi hæstv. ríkisstj. myndar sig til við að gera í baráttu sinni við verðbólguna, að hún virðist líta svo á að vísasti vegurinn til þess að ráða niðurlögum hennar sé að leggja auknar byrðar og fleiri pinkla á atvinnureksturinn í landinu. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er talað um að til hagræðingar í undirstöðugreinum atvinnulífsins muni ríkisstj. á árinu 1979 útvega sérstaklega einn milljarð kr. að láni, á árinu 1980 muni ríkisstj. beita sér fyrir sérstakri fjáröflun í sama skipi að upphæð 2 milljarðar kr. Þarna á að búa til pólitískan sjóð sem á að úthluta úr eftir geðþótta stjórnmálamanna, — ráðh. Miklu skynsamlegra sýnist að rýmka fyrningarreglur, ganga ekki of nærri fyrirtækjum og láta þau fyrirtæki, sem í raun eru lífvænleg, vaxa og dafna, heldur en að leggja drápsklyfjar á atvinnureksturinn í landinu, þannig að hann hafi ekki möguleika til endurnýjunar, og reyna svo að leiðrétta mismuninn eftir á með pólitískum ölmusum. Einhvern veginn er það líka þannig, að þegar Alþfl. og Framsfl. eru nógu langt í burtu frá Alþb., þá skilja þeir að þetta er ekki rétt stefna, þá vita þeir sem er, að endurnýjun í atvinnurekstrinum er nauðsynleg og að fyrningarákvæðin eru ekki sett út í bláinn. Þess vegna eru þeir reiðubúnir til þess að rýmka þau ákvæði, þegar þeir eru ekki í stjórnarsamvinnu við Alþb. Hins vegar skortir þá þrek til að standa á sínum málstað í þessum vonda félagsskap. Í þessu sambandi er líka eftirtektarvert að það er mjög ofarlega í huga margra stuðningsmanna þessarar ríkisstj., að eitt rekstrarform eigi frekar rétt á slíkum opinberum styrkveitingum en annað, og hefur m. a. hv. 3. þm. Austurl. flutt þáltill. um það efni. Ég held að óþarfi sé að fara mörgum orðum um haldleysi stefnu sem þannig er fram haldið, en betra að taka litla dæmisögu, nýlega, þar sem ríkisstj. komst að þeirri niðurstöðu, eins og nú er ástatt með fiskstofna, að skynsamlegra væri að selja Fontinn til Siglufjarðar og láta hann veiða þorsk heldur en láta hann fara til Dalvíkur til þess að veiða djúprækju.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að orðlengja hér frekar. Ástæðan fyrir því, að ég hef haldið þó þetta langa ræðu, eru þær orðalengingar sem hér hafa farið fram fyrr í kvöld. En ég vil sem sagt leggja áherslu á það, senu ég sagði áðan, og ítreka það, að opinberir starfsmenn fá 3% grunnkaupshækkun 1. apríl, annaðhvort í formi hærri launa eða með rýmkuðum samningsrétti, sem þeir meta sem jafngildi 3% grunnkaupshækkunar og eru þess vegna reiðubúnir til að afsala sér henni. Á hinn bóginn á að taka þessi 3% af bankamönnum. Það má vera að lagasetning af þessu tagi standist fyrir dómstólum. En jafnvíst er hitt, að hún felur það ekki í sér að allir séu jafnir fyrir dögunum. Og hún er til þess vaxin að rýra traust manna á þessari stofnun. Hitt hefði verið sjónarmið sem hægt var að fallast á, eftir að bankamenn höfnuðu málaleitan ríkisstj. og ríkisstj, taldi nauðsynlegt vegna ástandsins í landinu á launamarkaðinum að þessi 3% grunnkaupshækkun tæki ekki gildi, að hún hreinlega afnæmi hana með lögum hjá öllum þessum aðilum. Það hefði líka verið í samræmi við þá stefnu ríkisstj. að ekki skyldi koma til grunnkaupshækkana á þessu ári. En þessi leið hlýtur að leiða til ringulreiðar. Það er nokkurn veginn gefið mál, að starfsmenn ýmissa sveitarfélaga munu hafna þessu samkomulagi vegna þess að það, sem þar er í boði, gefur þeim ekki mikið í aðra hönd, þannig að 3% hækkunin mun ganga til einhverra. Og þá er eftirleikurinn erfiðari að ætla að taka 3% af þegar þau eru einu sinni komin á.

Ég held að þróunin s. l. ár rúmlega og raunar síðustu 14–15 mánuði sé afskaplega lærdómsrík og þau viðbrögð sem orðið hafa hér í landinu hjá verkalýðshreyfingunni við tilraunum stjórnvalda til þess að ná verðbólgunni niður. Við munum eftir látunum fyrir einu ári. Ég minnist þess, að hv. 5. þm. Reykn. talaði fjálglega fyrir kröfunni um samningana í gildi, og ég minnist einnig þess, að hv. 6. þm. Reykv. talaði fjálglega fyrir þeirri sömu kröfu. Þegar þessir menn voru komnir í þá aðstöðu að flokkur þeirra stóð að ríkisstj. kvað við annan tón. Nú get ég út af fyrir sig skilið það, að menn séu tilbúnir til að taka á sig nokkra erfiðleika ef þeir vilja styðja að stjórnarstefnu í landinu, ef þeir vilja styðja ríkisstj. til góðra verka, eins og nú er tíðkað að segja. En hitt er alvarlegra, þegar forustumenn í launþegahreyfingunni verja til þess fjármunum hennar að koma slíkum duttlungum sínum fram, þegar þeir eru staðnir að því á þessu eina ári að beita öllu afli verkalýðshreyfingarinnar í annað skiptið til þess að sólstöðusamningarnir séu bókstaflega í gildi, en beita á sama hátt afli sínu hið næsta ár til þess að samningarnir séu ekki í gildi. Augljósast er þetta um forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Nú fara þeir á sömu staðina og fyrir einu ári til að biðja menn um að afsala sér 3% grunnkaupshækkun. Það er þegar ýmsir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar úr röðum Alþfl. og Alþb. eru uppvísir að slíkum vinnubrögðum sem krafan kemur fram um það frá launþegunum sjálfum, að það verði skipt um vinnubrögð í þessari hreyfingu, það verði séð svo til, að minni hl. hafi þar meiri rétt og að lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar verði aukið í þeirri von að þá sé betra að vænta.

Ég held að það sé nokkuð rétt sem Kjartan Ólafsson, hv. 3. þm. Vestf., segir um það, hvern þátt verkalýðshreyfingin hafi átt í verðbólguþróuninni hér undanfarinn áratug. Niðurstaðan er sú, að ráðstöfunartekjur launþegans hafa haldist nokkurn veginn i sama horfi, en hins vegar kostnaðarhækkanir af þeim sökum margfaldast í fyrirtækjunum. Kaupmátturinn hefur ekki vaxið þótt kostnaðurinn hafi margfaldast, krónunum fjölgað. Þetta er mjög alvarlegt mál og brýnt við að snúast. Það er að vísu rétt, að þetta er kannske ekki sá vettvangur sem þetta mál ætti að taka upp á.

Þegar ég las það frv., sem hér liggur fyrir, varð ég fyrir miklum vonbrigðum vegna þeirrar meginstefnu sem þar er mörkuð, vegna þess að ég finn að þar er þannig staðið að málum í heild, að því miður er ekki þess árangurs að vænta sem skerðing kaupgjaldsvísitölunnar gefur tilefni til að hægt sé að ná. Það er af þeim sökum sem ég er ekki reiðubúinn til að fylgja þessu frv. Ef launþegarnir í landinu eru reiðubúnir til að taka á sig slíkar byrðar í bili, þá verður að ætlast til þess að eðlilega sé staðið að málum á annan hátt og stjórnvöld m. a. skilji að launþeginn og fyrirtækið, sem hann vinnur hjá, eru ekki tveir fjandsamlegir aðilar, heldur næst þá fyrst árangur þegar þar er mikil samvinna og gagnkvæmur skilningur hvors á þörfum annars.