02.11.1978
Sameinað þing: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að Ísland eigi að vera fyrir Íslendinga. Ég hef raunar flutt um það efni allmargar ræður úr þessum ræðustól og á kannske eftir að flytja einhverjar. Ég held að eignarhald útlendinga fyrirtækjum á Íslandi og umsvif útlendinga í íslensku efnahagslífi séu ekki heppileg, og ég treysti því, að ég eigi eftir að eiga samleið með hv. flm. þessa máls um það atriði. En við erum nú ekki einir í heiminum og suma hluti er kannske hugsanlegt að lána, þó að aðra sé ekki hugsanlegt að lána.

Eitt af því, sem ég tel vel geta komið til greina að við eigum að leigja, er veiðiréttur í ám og vötnum, þ.e.a.s. gegn ákveðnum og ströngum skilyrðum. Ég held að svo framarlega sem þessum skilyrðum, sem ég hér á eftir kem til með að geta um, sé fullnægt, þá eigi ekki að þurfa að ganga á laxinn í ánum í sjálfu sér, hann eigi að endurnýja sig. Ekki fara þeir með árnar, og ef öll gát er á höfð eiga þeir ekki að skemma þær heldur, og þá eru þær okkur tiltækar, þegar við viljum og þurfum að nota þær sjálfir.

Yfirleitt held ég að reynslan af erlendum veiðimönnum, sem hingað hafa komið, sé heldur góð. Þetta eru yfirleitt friðsamir menn og fremur litlir veiðimenn. Þeir eru ekki eins harðsnúnir fiskimenn og sumir af okkar duglegustu veiðimönnum. En það er mikilvægt, ef þessi viðskipti eiga sér stað á annað borð, að þeim sé hagað skynsamlega. Í fyrsta lagi verður að gæta þess mjög nákvæmlega og fylgjast sérstaklega með sóttvörnum, að þessir menn beri ekki laxapestir utan úr veröldinni í okkar óspilltu og heilbrigðu ár. Það verður að ganga ákaflega ríkt eftir því, að í hverju einstöku tilfelli séu landsréttindi gersamlega tryggð í höndum Íslendinga, og það verður líka að ganga mjög hart eftir því, að gjaldeyrisskil séu fullkomlega tryggð. Ég er ekki þar með að segja að þetta sé ekki allt saman í sæmilegu lagi, ég þekki það ekki, en það var á hv. frsm. að skilja að svo væri ekki. En ég legg áherslu á það eins og hann, að það er mjög nauðsynlegt að fylgjast með þessum atriðum öllum. Og það er góðra gjalda vert að ræða þetta mál, eins og hæstv. ráðh. reyndar gat um, og eins og hann gat um líka er væntanlega úrbóta þörf í málinu.

Samt sem áður held ég að þessi till. sé ekki vænleg til úrbóta. Í fyrsta lagi fannst mér hálfgerður krossferðartónn í hv. flm. og dulin andúð, a.m.k. ekki veruleg samúð með því sem hann kallaði veiðiréttareigendur, og ég mun teljast, ef grannt er skoðað, einn af þeim, því að ég er einn af þeim litlu arðtökum sem hv. flm. talaði um. Hv. flm. hefur tekið af mér ómakið raunar að svara sér, því að hann svaraði sér sjálfur, þ.e.a.s. hann las og að mér heyrðist nokkuð ítarlega grg. frá Landssambandi veiðifélaga og þar með ættu sjónarmið veiðiréttareigenda að vera komin nokkuð til skila. Þó get ég ekki að mér gert, úr því að ég er kominn hingað, að ræða þetta dálítið nánar.

Landssamband veiðifélaga fór fram á það, skildist mér, að flm. drægju till. til baka, en því var hafnað. Ég hygg að það væri e.t.v. mögulegt að endurbæta till. í nefnd, þannig að hún samræmdist betur þeim sjónarmiðum sem ég og ég vona einhverjir fleiri hér í deildinni hafa.

Flm. dró mjög í efa og neitaði reyndar með nokkuð hörðum orðum þeim hugmyndum, að það gæti svo farið að jarðir færu í eyði ef af þessu yrði öllu saman. En ég vil benda honum á í allri vinsemd, að jarðir fara hugsanlega frekar í eyði ef veiðihlunnindi þeirra eru skert eða ef veiðihlunnindi þeirra falla í verði. Formaður veiðimálanefndar hefur aflað upplýsinga um það, að í þeim 10 ám, sem hv. flm. las hér upp um langar og miklar skýrslur, sem reyndar fóru inn um annað eyra mitt og út um hitt, séu til viðbótar við þessi prósent, sem flm. tilgreindi, arðtakar, þ.e.a.s. þeir menn sem taka við arði í þessum veiðifélögum, 280, og þeir og þeirra heimafólk 1570 talsins.

Hv. flm. sagði, að hlutur erlendra sportveiðimanna í laxveiðum á Íslandi væri mikill, og þetta er að vissu leyti rétt. Ég hefði orðað þetta svolítið öðruvísi, að hlutur erlendra sportveiðimanna í tekjum af sportveiði er talsvert mikill á Íslandi.

Í tillgr. felst tvenns konar tilgangur, þ.e.a.s. í fyrsta lagi að leggja gjald á leyfi, sem seld eru til þess að stemma stigu við því, að íslenskum veiðimönnum sé bolað úr íslenskum laxveiðiám, og í öðru lagi með gjaldtöku að afla tekna til tilrauna við fiskrækt í sjó og vötnum. Varðandi fyrri liðinn er það að segja, að s.l. sumar leyfði Veiðimálastofnunin að notaðir væru 32936 stangveiðidagar í íslenskum laxveiðiám. Eftir því sem ég hef getað aflað mér upplýsinga um notuðu erlendir veiðiaðilar eitthvað í kringum 5000 af þessum nærri 33000 stangveiðidögum. Íslendingar notuðu 19000 af þessum dögum og afgangurinn, þ.e. 8900 dagar, var ónotaður. Það er varla hægt að tala um að íslenskir veiðimenn hafi ekki komist fyrir við laxveiðiár landsins fyrir útlendingum meðan nærri þriðjungurinn er ónotaður af þeim veiðidögum sem eru til ráðstöfunar. Það má miklu fremur segja að það sé verið að bæta nýtingu þessara hlunninda með því að auka veiðiskapinn með þessu móti, að hafa fleiri um hituna. Meira að segja brjóstvörn íslenskra stangveiðimanna, Stangveiðifélag Reykjavíkur, hafði s.l. sumar 6 vikna tíma í Grímsá. 23% af þessum 6 vikna tíma, sem sannarlega er ekki langur, eins og hv. flm. lét í ljós, fór til útlendinga. Það voru útlendir menn sem veiddu 23% af þeim veiðitíma sem Stangveiðifélagið hafði í Grímsá, og a.m.k. sumum þeim erlendu stangveiðimönnum útvegaði Stangveiðifélagið leiðsögumenn. Þetta er samkv. upplýsingum formanns Landssambands veiðifélaga sem hann hefur látið mér í té. Ef hugsað er um þessa gjaldtöku sem tekjustofn fyrir fiskræktina í landinu, fyrir fiskræktartilraunir, þá verður hún náttúrlega að vera mjög veruleg til þess að hún skipti einhverju máli. Og litlar upphæðir mundu auk þess verða léttvægar, eins og hæstv. landbrh. gat um, til þess að fæla erlenda veiðimenn burt. Væntanlega yrði seljandinn að taka þetta gjald á sig. Væntanlega mundu þeir sölumenn, sem í þessu standa, pressa verðið upp eftir því sem mögulegt er í útlöndum, þannig að þeir fengju fyrir snúð sinn það sem frekast væri unnt. Ég geri ráð fyrir því, að þessir menn séu ekki ratar, og þess vegna er þetta skattur á veiðiréttareigendur, a.m.k. töluverð hætta á að hann verði það.

Hv. flm. drap í lok ræðu sinnar á atriði sem mér er mjög kunnugt, það er stofnverndarsjóður íslenskra hrossa, því að ég á sæti í stjórn þess sjóðs og átti í og með hugmyndina að þessum sjóði. En þar er alls ekki um nákvæmlega sama málið að ræða. Ég er til með að ræða líka við hann um hross ef svo ber undir, en við þyrftum kannske ekki alveg svona marga áheyrendur til þess. Við skulum geyma okkur það í dag. En ef þetta gjald nær tilgangi sínum, að stöðva veiðileyfasölu til útlendinga, þá verður offramboð á veiðileyfum innanlands og meira offramboð en nú er. Þá mundi þetta væntanlega leiða til lækkunar á veiðileyfum og þá mundi það ekki síst verða til þess, að margt af þeim ám, sem nú seljast á sæmilegu verði, mundi alls ekki seljast. Lækkunin mundi bitna harðast á þeim veiðiám sem verið er að rækta upp og hafa ekki náð frægð eða vinsældum á við okkar bestu ár. En þetta kippir einnig fótum undan framkvæmdum við opnun nýrra veiðisvæða, því að ekki færu menn að leggja í kostnað við stigagerð eða fiskrækt á nýjum svæðum ef ekki væri einhver von til þess, að einhver vildi veiða þar. Þess vegna held ég að alger útilokun erlendra veiðimanna væri ekki til bóta. Og ef veiðileyfi féllu mjög í verði þá yrðu bændur bókstaflega neyddir til þess að snúa sér í auknum mæli að netaveiði og henni er ákaflega þægilegt að koma við og fjárhagslega séð getur hún, ef hún er rekin á félagslegum grundvelli, sem hægast átt rétt á sér.

Hv. flm. nefndi gjaldeyristekjur af þessum erlendu laxveiðimönnum og taldi þær vera 700 millj. kr. Ég hef heyrt þessa tölu líka og ég hef það fyrir satt, að engir aðrir ferðamenn skili tiltölulega eins miklum tekjum í þjóðarbúið í gjaldeyri Svo framarlega sem verið er að hugsa um ferðamenn á Íslandi, þá eru þessir æskilegri en flestir aðrir. Svo er þjónusta við þessa menn orðin nokkur atvinnugrein í sumum sveitum landsins og eins og ég sagði áðan: nýting laxveiðihlunninda yrði lakari en ella yrði.

Það er fullyrt í grg., að íslenskir veiðimenn hafi ekki bolmagn til að greiða jafnhátt gjald og útlendingar gera. Meðalverð veiðileyfa á Íslandi er samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér frá Landssambandi veiðileyfa, um 46 þús. kr. á hvern stangardag. Verð veiðileyfa í sumum þeim ám, sem Íslendingar veiða einir í, er hærra en þetta, a.m.k. suma tíma sumarsins. Það eru hygg ég ekki nein tvímæli á því, að t.d. veiðileyfi í Laxá í Ásum, sem er í mínum augum og reyndar margra annarra ein albesta laxveiðiá landsins, eru miklu hærri en þessi upphæð — og meira en það, þar veiða menn fyrir leyfinu sínu vegna þess að áin er svo gjöful. (ÁG: Af hverju telur þú að meðalverðið sé svona hátt?) M.a. vegna þess að Laxá í Ásum er væntanlega inni í þessu dæmi. En það er greinilegt, að einhverjir menn hafa bolmagn til þess að veiða í Laxá í Ásum sem var verið að segja að kostaði 100 þús kr. á dag, það er ekki mín fullyrðing. Það er greinilegt, að menn hafa sem sagt bolmagn til þess að kaupa þó nokkuð dýr veiðileyfi. En það er kannske ekki útilokað að þeir hafi fyrir snúð sinn víðar, því að ef við höldum okkur við þessar 46 þús. kr. og veltum þessu fyrir okkur ofurlítið lengur, þá upplýsir Veiðimálastofnunin að stangveiddur lax árið 1978 sé nálægt 4800 laxar. Ef gert er ráð fyrir að þessi lax sé að meðaltali 7 pund að þyngd, þ.e.a.s. 3.5 kg og meðalverð á kg. 1950 kr., — þetta eru tölur sem ég hef eftir nokkuð ábyggilegum aðila, að ég held, — þá koma sem sagt 13365 kr. á hvern stangardag. Meðalverð hvers veiðileyfis á innanlandsmarkaði árið 1978 var í vor áætlað 17500 kr. og ef þessi áætlun hefði staðist, þá gerum við ráð fyrir að veiðimaðurinn hefði orðið að borga rúmar 4 þús. kr. af hverju leyfi umfram aflaverðmætið.

Það er verið að halda því fram, og reyndar sagði flm. líka í framsöguræðu sinni, að verð á íslenskum laxveiðileyfum væri mjög lágt, og miðaði þá við útlendinga, og ég hygg að hann fari þar með hárrétt mál. Hann fullyrðir að ásókn útlendinga í íslenskar laxveiðiár muni aukast á næstunni.Ég get ekki dæmt um það. En það hefur dregið úr þessari veiði a.m.k. á sumum svæðum landsins. Og úr því að hann gat um Vatnsdalsá og taldi hana með ólöglegum hætti á áhrifasvæði útlendinga, þá verð ég að hugga hann með því, að hún er í beinni leigu hjá íslenskum leigjendum. Hitt veit ég ekkert um, hvort þeir framleigja einhverja daga í henni til útlendinga.

Hann vitnaði til þess, hver háttur væri hafður á í Bandaríkjunum og Kanada um þessi mál, að þar ætti ríkið árnar. Þar með er náttúrlega e.t.v. verðmunur orðinn eðlilegri en ella. En þetta fyrirkomulag hefur ekki gefist vel í Bandaríkjunum eða Kanada. Þeir eru að eyðileggja sínar ár, og ég held að þetta sé vont skipulag veiðimála sem þeir hafa haft uppi. Ég vil hins vegar fagna þeirri hugmynd, sem er í þessari grg., að gerð verði allsherjar úttekt á leigu íslenskra laxveiðiáa og gjaldeyrisskilum í tengslum við leigu til útlendinga. Það er eðlilegt að bæta við athugun á þýðingu laxveiðihlunninda fyrir þjóðarbúið og gildi þeirra fyrir íslenskan landbúnað, sem alltaf er verið að basla við að gera fjölbreyttari, og er sannarlega ástæða til og mikil nauðsyn.

Hv-flm. valdi 10 ár og las upp skýrslu sem hann hefur gert um þær. Ég svara ekki að einu eða neinu leyti, eins og ég sagði áðan; fyrir Laxá í Dölum né Hofsá, en Vatnsdalsá er sem sagt leigð Íslendingum. Ég get ekki stillt mig um að bæta einni á við. Hann var að tala um 10 bestu árnar, — ég veit ekki hvar hann fær þá hugmynd,að þessar ár séu 10 bestu laxveiðiár landsins. Það getur skeð, að þetta séu 10 af bestu laxveiðiám, en ég tók það svo að hann hefði sagt 10 bestu. Ég vil endilega hafa fleiri húnvetnskar ár á þessum lista. Ef farið er að tala um 10 bestu, þá finnst mér ekki óeðlilegt að taka Laxá í Ásum. Og hvað þá um Miðfjarðará? Það vill svo til að Miðfjarðará er einmitt ein af þeim ám þar sem útlendingar eru við veiðar. Ég hef leyft mér að verða mér úti um nokkrar upplýsingar um þá á og vil bæta þeim við í þessari umr., úr því að Miðfjarðará var ekki með í þeim upplýsingum sem flm. notaði. Raunar skildi ég ekki fyllilega hvaða gagn hv. þm. gætu haft af þessum tölulegu upplýsingum um þessar ár í svona smáum atriðum. Ég er alveg sammála flm. um að það er ákaflega óheppilegt skipulag, að aðrir eigi jarðirnar heldur en bændur, t.d. að menn í Reykjavík safni jörðum og eigi þær, m.a. hugsanlega vegna laxveiðihlunninda. Það er atriði sem löggjafinn hefur raunar lagt nokkuð á sig til þess að kippa í liðinn, en þó þarf þar betur að gera.

En hvernig er þessu háttað með Miðfjarðará? Núgildandi arðskrá er síðan 1963. Nýtt mat fór fram á þessu ári, en því er ekki lokið enn þá. Samkv. arðskránni frá 1963 skiptist arðurinn á 38 lögbýti með um það bil 176 manns heimilisfasta árið 1970. Hæsti arður til einstaks lögbýlis nam 11.67% og voru flest býlin eða 26 með arðseiningar á bilinu frá 0.1–2.49%, 8 frá 2.5–4.99%, 2 frá 5–9.9% og 2 yfir 10%. Meðalhundraðshlutinn alls nam með hliðstæðum útreikningum og hjá hv. flm. 2.67% til hvers lögbýlis. Eitt af þessum lögbýlum er í eigu Reykvíkings. Því tilheyrir arðseining sem nemur 1.2%. Eigandi tveggja annarra býla er fluttur úr Torfustaðahreppi vegna aldurs. Arðseiningar á býlum hans eru 0.55% og 1.97%. Ábúendur ríkisjarðanna njóta arðsins.

Bændur leigja ána sjálfir út beint til stangveiðimanna, og þeir hafa umboðsmann í Bandaríkjunum sem leigði út fyrir þeirra hönd þær þrjár víkur sem þeir seldu á erlendan markað 1977. 168 dagar af 705 voru seldir útlendingum eða 23.8%. Brúttótekjur 1977 námu 15–16 millj. kr. og í ánni voru mest 9 stengur. Um það bil helmingur þeirrar fjárhæðar var greiddur í arð í peningum, hinn helmingurinn fór í kostnað við byggingar, afborganir og vexti, en félagið hefur nýlega byggt viðbótarveiðihús fyrir um 20 millj. kr. Stöngum var fjölgað í 10 1978, brúttósala veiðileyfa þá nam 35 millj. kr. og velta um 45 millj. Endanlegt uppgjör hefur að sjálfsögðu ekki farið fram enn þá. Ef reiknað er með 80% nettóarði af 30 millj., eða 25 millj., þá nemur meðalarður hvers lögbýlis, þ.e.a.s. 2,67%, 631 200 kr., og það munar um það fyrir Miðfirðinga. Miðfirðingar sýndu þann dugnað að taka rekstur árinnar í eigin hendur 1975, og nú er svo komið að heimamenn sjá um og vinna flest þau störf sem þar þarf að vinna. Um þetta get ég sérstaklega vegna þess, að ég tel þetta fyrirkomulag vera mjög til fyrirmyndar. Ég held sem sagt að stemma þurfi stigu við milliliðakostnaði og umsvifum milliliða og gróða þeirra í þessu sambandi. Samtök veiðiréttareigenda eiga að taka þetta í sínar hendur.

Ég held að það sé sem sagt meginatriðið að gæta sóttvarna og að samtök veiðiréttareigenda selji beint, og þar með er líka miklu þægilegra að tryggja fullkomin gjaldeyrisskil. Í þessari till. er lagt til að verja fé til fiskræktar, og eftir mínum skilningi er það fé bænda, því að það mundi draga úr þeirra hluta. Bændur greiða nú þegar talsvert mikið fé til fiskræktar, bæði það sem að þeir leggja til fiskræktar í eigin ám og einnig til félagslegra þarfa, til Fiskræktarsjóðs, en hann nýtur 2% af skírum tekjum hvers einasta veiðifélags í landinu.

Svo er raun, eins og hæstv. landbrh. drap á líka, enn ein hætta í þessari till., ef hún væri samþykkt í því formi sem hún er, að til þess að sleppa við gjaldið gæti svo farið að einhverjir Íslendingar freistuðust til að fara að teppa fyrir útlendinga, og þá er ekki jafntryggt að gjaldeyrisskilin yrðu með eðlilegum hætti.

Ég þakka flm. fyrir að vekja máls á þessu máli og fyrir ítarlega ræðu, þó að ég hefði reyndar kosið mér að hún væri í ofurlítið öðrum tón en hún var, því að eins og ég sagði áðan, þá þótti mér gæta nokkurs kala til þeirra sem hann kallaði veiðiréttareigendur og eru að mestu leyti, sem betur fer, bændur í þessu landi.

Ég mun ekki elta ólar við að ræða þetta meira að sinni. En ég treysti því, að þrátt fyrir að hv. 1. flm. hafi ekki viljað draga till. til baka, þá sé hann til viðtals um að breyta í henni atriðum þannig að menn gætu fremur fellt sig við hana og breiðari samstaða næðist um hana. Það er ekki gott verk, hvorki hjá flm., sem ég veit að hann vill ekki vinna, né heldur Stangveiðifélagi Reykjavíkur eða neinum öðrum aðila að fara að efna til einhverrar keppni eða illdeilna milli samtaka stangveiðimanna og samtaka veiðiréttareigenda, vegna þess að þetta eru aðilar sem eiga að eiga með sér góð og skynsamleg viðskipti, annar að selja sína vöru og hinn að kaupa hana á sannvirði. Í þeim vanda vona ég að við flm. eigum eftir að vinna.