04.04.1979
Efri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3931 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á l. nr. 101 1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o. fl., lagði ég fram í hv. Nd. um miðjan desember. Frv. hefur síðan fengið mjög ítarlega meðferð á sameiginlegum fundum beggja d. Það hefur einnig verið rætt ítarlega bæði innan þings og utan. Því tel ég að mér sé óhætt að stikla nokkuð á stóru í framsöguræðu minni nú.

Í framleiðsluráðslöggjöfinni, sem nú gildir, er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að bændur fái tekjur sem sambærilegar eru við það sem verkamenn og iðnaðarmenn hafa. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að verðlagning landbúnaðarafurða fari fram í samningum á milli fulltrúa bænda og fulltrúa neytenda. Í þriðja lagi er þar ákvæði sem segir að komi til útflutnings á umframframleiðslu landbúnaðarafurða á verði, sem ekki nær því grundvallarverði sem um er samið milli bænda og neytenda, sé óheimilt að ná tekjumarkmiðinu með því að hækka verð á landbúnaðarvörum innanlands, en hins vegar veiti hið opinbera tryggingu vegna slíks útflutnings sem má nema mest 10% af framleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða.

Nú hefur þróun síðustu ára orðið sú, að útflutningur hefur orðið meiri en þessi 10% ná að jafna. Sérstaklega hefur það verið síðustu 3 árin. Árum saman þar á undan, reyndar allt frá því að þetta ákvæði var sett 1962, má segja að landbúnaðarframleiðslan hafi verið undir þessu marki, stundum allverulega, örfá skipti farið aðeins yfir. En síðustu 3 árin hefur stefnt mjög ákveðið í vaxandi umframframleiðslu landbúnaðarafurða. Fyrsta árið af þessum þremur var umframframleiðslan jöfnuð með ráðstöfun fjármagns sem ekki hafði verið notað þrjú árin á undan. Annað árið var umframframleiðslan að hluta jöfnuð með viðbótarframlagi úr ríkissjóði sem nemur 1300 millj. og samþ. var hér á hinu háa Alþ. fyrir áramótin. Á þessu ári hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin hvernig á að mæta enn vaxandi umframframleiðslu. Þörfin fyrir útflutningsbætur, ef við viljum kalla það svo, til viðbótar því, sem lög heimila, mun vera um 5.2 milljarðar til þess að bætur nái grundvallarverði, eða um 1.2 millj. á hvert bú að meðaltali.

Nú er það hins vegar staðreynd, að fulltrúar bænda hafa árum saman bent á þessa hættulegu þróun og tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá heimilaðar fyrir Framleiðsluráð leiðir til að sporna gegn þessari þróun. Framleiðsluráð hefur samkv. gildandi lögum heimild til að leggja á verðjöfnunargjald ef útflutningsbætur nægja ekki, en verðjöfnunargjald þetta má eingöngu leggja jafnt á framleiðslueiningu, svo og svo mikið á kg kjöts og svo og svo mikið á lítra mjólkur. Hins vegar hafa lengi verið uppi hugmyndir um að með álagningu slíks gjalds mætti jafnframt stuðla að því, að framleiðslan drægist saman, sérstaklega á stærri búunum.

Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér ítarlega. Nóg er að geta þess, að allt frá 1972 og þar til nú hefur ekki tekist að ná samstöðu um slíkar heimildir til handa Framleiðsluráði. Fyrrv. hæstv. landbrh. setti á s. l. ári á fót n., sem hlotið hefur nafnið sjömannanefnd, til þess að fjalla enn um þetta vandamál og gaf henni þá það hlutverk að athuga hvort til verðjöfnunargjalds mætti ekki fara aðrar leiðir, eins og ég nefndi áðan, sem jafnframt spornuðu gegn aukinni framleiðslu. Sjömannanefnd skilaði áliti í sept. s. l. Það álit hefur síðan verið kynnt ítarlega fulltrúum bænda og i stofnunum bænda. Reyndar höfðu till. n. verið ræddar á Stéttarsambandsþingi s. l. haust og hlotið þar yfirgnæfandi fylgi. Mig minnir að aðeins 4 eða 5 atkv. hafi verið þar á móti. Þar var bent á fimm atriði sem Stéttarsambandsþing taldi að breyta ætti. Af þeim voru fjögur tekin til greina. Ég lít svo á, að till. sjömannanefndar hafi hlotið víðtækan stuðning þeirra stofnana bænda sem um slíkt ber að fjalla. Því valdi ég þann kostinn í des. að leggja frv. fram efnislega nánast óbreytt frá því sem sjömannanefnd skildi við það. Einu umtalsverðar breytingar voru þær, að fellt var niður ákvæði sem heimilaði að endurgreiða fóðurbætisgjald að hluta til framleiðenda sauðfjár- og nautgripaafurða. Um það var ekki samstaða að takmarka heimild til endurgreiðslu við þá framleiðslu eina og ekki heldur að leyfa endurgreiðslu til allra framleiðenda búvöru.

Önnur breyting, sem ég tók þar inn, var heimild til þess að jafna flutningskostnað á fóðurbæti eða kjarnfóðri um landið af því fé sem safnast með þeim álögum sem frv. þetta gerði ráð fyrir.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur svo þetta frv. fengið mjög ítarlega meðferð í landbn. Það var sent til umsagnar til allra búnaðarsambanda. Fjölmargar umsagnir bárust og til að gera langa sögu stutta er nægilegt að geta þess, að landbn. hefur gert á frv. miklar breytingar og mun ég nú lýsa þeim í fáum orðum og þá fyrst og fremst hvernig frv. er nú orðið.

Í því frv., sem ég lagði fram, gerði ég í 1. gr. ráð fyrir því að útvíkka allverulega verkefni Framleiðsluráðs, sérstaklega að tengja Framleiðsluráð þeirri áætlunargerð sem ég tel nauðsynlega og menn eru reyndar, hygg ég, nokkuð sammála um að þurfi að ráðast í um landbúnaðarframleiðsluna. Þessi grein hefur í meðferð Nd. verið felld úr frv. Það hefur verið gert í fullu samkomulagi við mig. N. taldi að þetta ætti fremur heima í almennri endurskoðun framleiðsluráðslöggjafarinnar, og á það get ég fallist.

Á 2. gr. frv., sem er viðamesta efnisgreinin, eru gerðar jafnframt verulegar breytingar. Þar var gert ráð fyrir tveimur leiðum í upphaflegu frv. til þess að hamla gegn vaxandi framleiðslu landbúnaðarafurða um leið og verðjöfnunargjald væri innheimt. I fyrsta lagi var gert ráð fyrir að ákveða mætti mismunandi verð á búvöru til framleiðenda og í grg. og till. n. kemur fram að þar var gert ráð fyrir að leggja visst gjald á eftir bústærð, allt frá 2% fyrir bú miðað við grundvallarbúið, með um 400 fjár, og upp í 10% á búskap þéttbýlisbúa. Í öðru lagi var gert ráð fyrir að leggja sérstakt gjald á allt innflutt kjarnfóður. Það, sem réð þessum till., var að sjálfsögðu það að sporna gegn stækkun búa og stuðla að því að stærri búin drægjust saman. Þessu réð m. a. byggðasjónarmið, því að sjálfsögðu er unnt að framleiða allar okkar landbúnaðarþarfir á örfáum búum. Hins vegar samræmist það ekki þeirri byggðastefnu sem við Íslendingar fylgjum og leggjum mikið fjármagn til að framkvæmd sé. En þarna réð einnig sú staðreynd, að í ljós hefur komið, ekki síst í athugun á lausaskuldum bænda, að stóru búin bera sig síst betur og reyndar yfirgnæfandi fjöldi þeirra verr en vel rekið meðalbú. Þar undanskil ég þó félagsbú. Þessu virðist valda að þegar bú verða það stór, að ein fjölskylda fær ekki ráðið við rekstur þeirra, verður aðkeypt vinnuafl of dýrt til þess að búið fái undir því staðið svo að sæmilegt sé.

Seinna ákvæðið um kjarnfóður byggist á því, að kjarnfóðurnotkun og mjólkurframleiðsla sérstaklega eru í beinum tengslum og er mjög auðvelt að sýna fram á fylgni aukinnar kjarnfóðurgjafar og aukinnar mjólkurframleiðslu. Ítarleg athugun var gerð á þessu á vegum Framkvæmdastofnunar fyrir nokkrum árum og kom þar fram að þarna er slík fylgni að varla verður því á móti mælt, enda er það staðreynd, að með einu kg af kjarnfóðri má framleiða á góðu búi 2–2.5 lítra af mjólk. Jafnframt er það svo, að hlutfallið á milli mjólkurverðs og kjarnfóðurverðs hefur mjög raskast á síðari árum, m. a. vegna þess að kjarnfóður hefur vegna offramleiðstu í Efnahagsbandalagslöndunum verið greitt þar mjög mikið niður. Lengi hefur verið talað um eðlilegt hlutfall þarna á milli, nokkurn veginn sambærilegt verð á einu kg af kjarnfóðri og einum lítra mjólk, en nú er það hins vegar svo, að ekki þarf nema um það bil hálfan lítra af mjólk til að greiða fyrir eitt kg af kjarnfóðri. Því liggur í augum uppi að það er ákaflega skynsamleg leið fyrir einstaklinginn, einstakan bónda, að auka sínar tekjur með því að kaupa kjarnfóður og framleiða síðan mjólk með þessum hætti. Og það er eindregin skoðun sérfróðra manna, að þarna sé orðið um of mikla og mjög óeðlilega gjöf kjarnfóðurs að ræða í viðleitni bænda, sem ég út af fyrir sig er alls ekki að áfellast, til þess að drýgja tekjur sínar, m. a. vegna þess að tekjumarkmiði framleiðsluráðslaganna hefur aldrei verið fullnægt.

Þetta voru meginatriði upprunalegrar 2. gr. Jafnframt eru þar ákvæði, sem enn er að finna í frv., um gæslu þessa fjár og hvernig megi ráðstafa því, m. a. til þess að greiða bændum bætur fyrir að draga úr óhagkvæmri útflutningsframleiðslu og til að jafna tekjur bænda, greiða ýmsa kostnaðarliði o. s. frv. Jafnframt er þarna ákvæði um að reglugerð skuli sett í samvinnu við Stéttarsamband bænda. Stéttarsamband bænda skal gera till., sem landbrh. síðan fær til samþykktar eða til meðferðar, þannig að þarna er gert ráð fyrir að í fyrsta lagi hafi Framleiðsluráð landbúnaðarins veg og vanda af framkvæmdinni, Stéttarsambandið geri till. um reglugerð, en ráðh. staðfesti.

Það er kannske rétt að geta þess strax, hvaða breytingar hafa verið gerðar á 2. gr. Því ákvæði, sem ég nefndi fyrst, að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda, er haldið í frv. Hins vegar er bætt við tveimur öðrum leiðum. Það er í fyrsta lagi að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslu til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn, allt að ákveðnu marki, en síðan stiglækkandi eftir því sem framleiðslan vex þar fyrir ofan. Þetta er nýmæli, en hefur verið skoðað nokkuð af Stéttarsambandi bænda. Kemur þetta vissulega til greina, en er raunar mjög hörkuleg leið til þess að draga úr framleiðslu stóru búanna. Auk þess veitir þessi leið að sjálfsögðu ekkert verðjöfnunargjald, ekkert fjármagn sem má nota til verðjöfnunar.

Þá er einnig heimild til þess að ákveða að bændur fái fullt verð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir afganginn. Þessi leið kemur sannarlega vel til greina eins og allar þær leiðir að sjálfsögðu sem í frv. eru og er einnig að öllum líkindum enn meira hamlandi en stighækkandi framleiðslugjald, sem ég nefndi áðan að væri í upphaflegu frv. Hins vegar hygg ég að megi segja um þessar leiðir báðar, að þær eru að ýmsu leyti erfiðar í framkvæmd og þurfa ítarlegri athugunar við.

Meginbreytingin, sem gerð var af n. á upphaflegu frv., er sú að fella niður heimild til þess að leggja á fóðurbætisgjald, en taka upp það sem mætti nefna skömmtun á fóðurbæti. Reyndar er gert ráð fyrir að gera það þannig að leggja megi á fóðurbætisgjald allt að 100% af innkaupsverði vörunnar, en framleiðendur búvöru á lögbýlum og aðrir, sem hafa meiri hl. tekna sinna af búvöruframleiðslu, skuli án þess að greiða gjaldið fá tiltekið magn kjarnfóðurs miðað við framtalið magn afurða og bústofns á skattframtali samkv. nánari ákvörðun í reglugerð. Það er einnig, hygg ég, réttilega ályktað hjá n., að þetta er að mörgu leyti ákveðnari aðgerð til þess að draga úr kjarnfóðurnotkun. Það má hafa skattinn allt að 100% af innflutningsverði og hlýtur það að hafa veruleg áhrif. En þarna er einnig um að ræða mjög erfitt ákvæði í framkvæmd. Eins og ég sagði áðan ber að fara eftir framtöldu magni í ákvörðun skömmtunar á hvert býli. Það þarf að fá úr skattaframtölum. Þetta tekur allt nokkurn tíma. Þarna kemur einnig til, sem flækir málið allmikið, að flutt er inn og blandað hér heima í fóðurbæti, sumt er keypt hér innanlands o. s. frv. Kann að vera erfitt að hafa eftirlit með því, hvað fer út á skömmtunarseðil og hvað án. Því hefur n. sett inn ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fram til þess tíma, er tekist hefur að afla nauðsynlegra gagna, er heimilt að gjald samkv. b-lið verði lagt á allt kjarnfóður, en endurgreiðist síðan eftir ákvæðum b-liðar.“

Það er hægt að setja slíkar hömlur á strax, en svo þegar ákveðið hefur verið hvað veita á út á hvern grip með skömmtunarseðlum, þá verði gjaldið endurgreitt í samræmi við það. Þetta tel ég mikilvægt ef þessi leið á að hafa einhver áhrif á framleiðslu mjólkurafurða nú í ár.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja fleiri atriði í 2. gr. Ég hygg að ég hafi nefnt þau sem veigamest eru.

Þá var í upphaflegu frv. 3. gr., sem gerði ráð fyrir að yrði búvöruframleiðslan of lítil í landinu bæri Framleiðsluráði að gera till. til Sexmannanefndar og landbrh. um aðgerðir til úrbóta. Þessi grein var felld niður í meðferð n. Talið var að hún ætti fremur heima í almennri endurskoðun framleiðsluráðslaganna, og get ég tekið undir það.

Nú hef ég lýst þessu máli í meginatriðum þess. Ég vil þá leggja áherslu á það, að hér er að sjálfsögðu fyrst og fremst um það að ræða að heimila Framleiðsluráði að innheimta verðjöfnunargjald, eins og ég sagði áðan, með öðrum hætti en nú er gert, þannig að um leið megi breyta þeirri framleiðsluþróun sem verið hefur. Menn gera sér að sjálfsögðu grein fyrir því, að þetta verðjöfnunargjald er nauðsynlegt til þess að jafna á milli þeirra seljenda búvöru, sem selja innanlands og fá fullt verð, og hinna, sem selja til útlanda og fá ekki nema kannske hluta eða brot úr verði. Þarna er mjög mikill mismunur á milli seljenda. Sumir selja nánast allt sitt innanlands og aðrir nánast allt sitt á erlendum markaði.

Ég vil svo geta þess, að sú þróun, sem orðið hefur í landbúnaðinum, er margþætt. Hún er alls ekki eingöngu vegna þess að framleiðslan hafi aukist mikið innanlands. Hún hefur aukist nokkuð, en það er langtum minna en þeir erfiðleikar, sem við eigum við að stríða, gefa til kynna. Þarna veldur einnig og ekki síður veruleg röskun á framleiðslukostnaði innanlands annars vegar og verði á erlendum mörkuðum hins vegar. Aðeins fyrir örfáum árum fengum við Íslendingar yfir 80% af framleiðslukostnaði lambakjöts í Svíþjóð, en nú innan við 40%. Þessu veldur að sjálfsögðu að hluta verðbólgan, en þessu valda einnig vaxandi niðurgreiðslur í markaðslöndum okkar. Þar hefur sú framkvæmd verið á síðustu árum, að nauðsynjavörur eins og landbúnaðarafurðir hafa verið greiddar mjög mikið niður, sums staðar töluvert meira en hér á landi, til þess að halda þessum nauðsynjum fyrir almenning í lágu verði og m. a. vega þannig gegn hækkunum á ýmsum öðrum nauðsynjum.

Ég vil jafnframt láta það koma fram, að mjög ítarleg könnun á mörkuðum hefur farið fram. Sérstök markaðsnefnd hefur starfað í nokkurn tíma og gert sjálfstæðar tilraunir víða, sent kjöt, bæði ferskt og frosið, til ýmissa markaðslanda. Í fáum orðum verður að segja, að í ljós hefur komið að markaðsverð ræðst annars vegar af niðurgreiðslum í þessum löndum og hins vegar af því sem flutt er inn af nýsjálenskri framleiðslu. Við framleiðum ekki nema brot af því sem Ný-Sjálendingar gera, og ekkert virðist benda til þess, að við getum selt okkar kjöt hærra sem nokkru nemur. Að vísu höfum við fengið aðeins hærra verð en Ný-Sjálendingar á einstaka mörkuðum.

Jafnframt vil ég geta þess, að markaðsnefnd hefur látið fara fram gæðakönnun á íslensku kjöti. Niðurstaðan hefur verið góð, en þó varð niðurstaðan sú t. d. i Bandaríkjunum, að okkar kjöt væri sambærilegt við ný-sjálenskt kjöt, en ekki betra, væri ákaflega svipað. Og sömu sögu er að segja annars staðar frá, þannig að vonir manna um að unnt sé að selja okkar tiltölulega litla magn sem einhvern lúxusvarning eru ekki byggðar á mjög sterkum rökum, því miður.

Ég vil svo að lokum segja það, að þetta frv. er ekki nema liður í stefnumörkun á sviði landbúnaðarins, stefnumörkun þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði úr landbúnaðarframleiðslunni smám saman, fyrst og fremst á næstu 5 árum, og nálgast það sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., að landbúnaðarframleiðslan verði sem næst þörfum innanlandsmarkaðarins. Ég hef látið gera athugun á því, hvað megi gera ráð fyrir hröðum samdrætti.

Í ljós kemur að gera má ráð fyrir allhröðum samdrætti í mjólkurframleiðslunni án þess að mjög bagalegt væri fyrir framleiðendur, fyrst og fremst með því að draga úr fóðurbætisnotkuninni. Í þeirri áætlun, sem nú liggur fyrir, sem er að vísu bráðabirgðaáætlun, er gert ráð fyrir að mjólkurframleiðslan verði sem næst innanlandsneyslu plús í kringum 5% til að-gera ráð fyrir árstíðarsveiflum. Þarna eru þó vissulega óvissuþættir, eins og t. d. hver innanlandsneyslan verður. Hún fer mjög eftir niðurgreiðslum. Ef niðurgreiðslur eru stórminnkaðar má ætla að dragi úr innanlandsneyslunni, og er því ákaflega erfitt að setja fram ákveðin lítramarkmið í mjólkurframleiðslunni. En það þarf hins vegar sannarlega að athuga.

Í sauðfjárframleiðslunni er stórum erfiðara að gera slíka áætlun. Sauðfjárafurðir eru veigamikill þáttur í mikilvægum iðnaði okkar landsmanna, þ. e. a. s. ullar- og skinnaiðnaðinum, sem er vaxandi og eitt af því fáa í íslenskum iðnaði sem virðist bera sitt barr nokkuð vel og vera sterkur á erlendum mörkuðum. Þar eru uppi ráðagerðir um að auka verulega á næstu árum vinnslu skinna í verðmætustu afurðir og er þá um mjög mikla verðmætissköpun að ræða. Í ullariðnaðinum eru ýmsar blikur á lofti, sérstaklega vegna íblöndunar með erlendri ull. Það mál er nokkru flóknara. Því hefur í þessari spá, sem ég nefndi, verið gert ráð fyrir að sauðfjárframleiðslan dragist saman á 5 árum um 15%. Má segja að þar sé tekið meðaltal af því sem menn hafa talið örugglega óhætt, þ. e. a. s. 10%, og hins, sem menn hafa talið margir hverjir nálgast hámark, 20%. Þarna ber þess einnig að gæta, að samdráttur í sauðfjárframleiðslunni hlýtur að verða miklu hægari en í mjólkurframleiðslunni. Fóðurbætirinn hefur þar sáralítil áhrif, og ef slátrað er meira að hausti en venja er til,verður það bara til þess að kjötmagnið verður meira á markaðnum á næsta ári. Þarna verður því samdráttur að gerast smám saman. Einnig er tvímælalaust að hraður samdráttur í sauðfjárframleiðslunni mun hafa miklu meiri áhrif en í mjólkurframleiðslunni á byggðavandann. Því er nauðsynlegt að samfara samdrætti í sauðfjárframleiðslu verði komið á fót nýjum búgreinum. Ég nefndi fyrr í dag við umr. um jarðræktarfrv. eina hugmynd á því sviði, þ. e. a. s. refarækt. Ýmsar aðrar eru í athugun, t. d. hrossarækt í auknum mæli til útflutnings, fiskeldi og fiskrækt, og fleira er verið að kanna. En það tekur allt sinn tíma, þannig að niðurstaðan er sú, að samdrátturinn verði hægari í sauðfjárframleiðslunni.

Ég hef getið þess hér, að sumar þær till., sem voru í upphaflegu frv., muni fara inn í endurskoðun á framleiðsluráðslöggjöfinni í heild. Þeirri endurskoðun miðar vel áfram, nefndin hefur skilað áliti og um þetta er nú fjallað m. a. í þeirri samráðsnefnd þingflokka sem ég hef fengið mér til ráðuneytis. Ég geri mér fastlega vonir um að það frv. komi fram a. m. k. strax eftir páska, og ég geri mér jafnframt vonir um að þar náist samstaða um ákveðnari markmið, bæði framleiðslumarkmið og einnig tekjumarkmið.

Þá vil ég geta þess, að ég geri ráð fyrir að hér verði dreift á morgun eða föstudag þáltill. um stefnumörkun í landbúnaði. Í þeirri till., einkum í grg. hennar, er ítarlega fjallað um hvernig standa megi að þeim samdrætti sem ég hef nú verið að lýsa.

Ég vil svo nefna að lokum, af því að það hefur spunnist inn í umr. um þessi mál, sem von er, hvernig leysa beri vanda bænda nú í ár, sem er mjög stór og nemur tekjuskerðingu um 1.2 millj. að meðaltali á hvert bú. Það tengist að sjálfsögðu þessari stefnumörkun allri. Ég hef lagt málið þannig fyrir, að stefnumörkunin og lausn þess vanda þurfi að fylgjast að. Því skýrði ég frá því í Nd. í gær, að ég hef lagt fyrir ríkisstj. till. sem tengja þetta hvort tveggja, þar sem gert er ráð fyrir að útvega sem lánsfé 3.5 milljarða til þess að brúa 2/3 af þeim vanda sem blasir við bændum í dag, en það verði síðan að hluta endurgreitt með þeim — ef ég má kalla það svo — sparnaði sem við gerum ráð fyrir í útflutningsbótum á næstu 5 árum.

Herra forseti. Ég vona að mér hafi tekist að nefna meginatriði þessa viðamikla máls, — þessa máls sem ekki varðar aðeins eina stétt, bændastéttina, þó að það brenni fyrst og fremst og mest á henni, heldur varðar sannarlega þjóðina alla. Mér sýnist vera mjög rík samstaða um það, að snúa beri við þeirri þróun sem verið hefur, — samstaða um það bæði hjá bændum og hjá landsmönnum almennt. Einnig sýnist mér samstaða um að á einhvern máta verði hlaupið undir bagga hjá bændum nú í ár. Mjög er mikilvægt í þessu sambandi að það frv., sem hér er til umr., komi fljótt til framkvæmda þannig að hefja megi aðgerðir til að draga úr framleiðslunni. Til þess að svo mætti verða hafa verið sameiginlegir fundir í landbn., og það er einlæg von mín að það verði til þess að þessi hv. d. treysti sér til að afgreiða þetta mál fyrir páskaleyfi þm.

Að svo mæltu og að þessari umr. lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.