05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú réttur mánuður liðinn síðan sú umr. hófst hér í Sþ. sem nú er fram haldið, og má því segja að hún verði býsna sundurslitin, en að mun allt eiga sínar skýringar.

Ég vil byrja á að minna á hver sú till. er, sem hér er fjallað um, en það er till. hv. 10. þm. Reykv., Svövu Jakobsdóttur, um bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði. Till. er mjög stutt og hún er á þessa leið með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að undirbúa löggjöf er banni að geyma hvers konar kjarnorkuvopn hér í landi, sigla með þau eða fljúga með þau eða flytja þau með öðrum hætti um íslenskt yfirráðasvæði. Jafnframt verði kveðið á um eftirlit Íslendinga til að tryggja, að þessi lög verði virt“.

Það er ekki síst þessi síðasta mgr. sem ég vil vekja athygli á, þar sem segir að jafnframt verði kveðið á um eftirlit Íslendinga til að tryggja að þessi lög verði virt.

Ég sé ástæðu til að láta í ljós ánægju með þann stuðning sem þessi till. fékk hjá allmörgum þm., misjafnlega ákveðinn að vísu, þegar fyrri hluti umr. fór fram 6. mars. Það var að heyra að býsna margir úr hópi þm., sem þá tóku til máls, teldu fulla ástæðu til þess að till. hlyti samþykki hér á Alþ. Ég mun hafa kvatt mér hljóðs undir ræðu hæstv. utanrrh. 6. mars, en því miður sýnist mér að hann muni ekki vera hér í salnum nú. Ég vil ekki gera mig svo digran að óska sérstaklega eftir að hann verði sóttur, þó að mér hefði óneitanlega þótt skemmtilegra að hann væri hér viðstaddur, því að ég hafði hugsað mér að gera svolitlar aths. við það sem fram kom í máli hans.

Hæstv. utanrrh. tjáði það sína skoðun, að útilokað mætti kallast að kjarnorkuvopn kynnu að vera geymd í bandarísku herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Hann studdi þessa skoðun sína með þeim rökum, að annars vegar væru í gildi ákveðnir alþjóðlegir samningar sem ætlaðir væru til að hindra að kjarnorkuvopnum væri dreift um veröldina til ríkja þar sem þau væru ekki opinberlega leyfð áður, og svo minntist hann hins vegar á samninga íslenskra stjórnvalda við Bandaríkjamenn, þar sem finna má loforð Bandaríkjamanna um að geyma ekki kjarnorkuvopn hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að setja svo mikið traust á slík loforð og slíka samninga sem hæstv. utanrrh. virtist telja óhætt að gera. Ég tel að brýna nauðsyn beri til að við Íslendingar finnum leiðir til að halda uppi fullkomnu eftirliti í þessum efnum innan Keflavíkurflugvallar og treystum þar í engu á orð og yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar eða yfirmanna herstöðvarinnar þar. Ég tel að það sé, ef ekki annað verra, þá a. m. k. fullkominn barnaskapur að ætla sér að treysta á yfirlýsingar Bandaríkjamanna einar sér, að ætla þeim að vera, ef svo má segja, dómarar í hugsanlegri eigin sök. Þarna þurfa allt aðrar ráðstafanir að koma til. Það er því miður allt of mikið um það að stjórnmálamenn, bæði í okkar landi og með ýmsum öðrum smærri þjóðum, geri of mikið að því að taka gild orð og eiða stjórnvalda í risaveldunum, enda þótt mörg dæmi hafi sannað að slíkum orðum og eiðum er valt að treysta.

Grunsemdir um geymstu kjarnorkuvopna af einhverju tagi á Keflavíkurflugvelli hafa lengi verið fyrir hendi, og alltaf öðru hverju hafa komið upp tilvik sem rennt hafa nýjum stoðum undir þessar grunsemdir. Ég legg þó áherslu á að hér er að sjálfsögðu aðeins um grunsemdir að ræða. Enginn getur að mínu viti fullyrt að kjarnorkuvopn séu geymd á Keflavíkurflugvelli, en enginn getur heldur fullyrt að þau séu ekki geymd þar. Við skulum hafa það vel í huga, að tækniþróunin hefur leitt til þess að til eru orðnar ákaflega margar gerðir kjarnorkuvopna, sem ég mun ekki fara út í að telja hér upp eða lýsa, en vissulega er hægt að geyma slík vopn nú án þess að mikið beri á. Það skulu menn hafa vel í huga. Og það var næsta furðulegt að lesa í dagblöðum fyrir nokkrum árum yfirlýsingar þáv. formanns varnarmáladeildar utanrrn., þar sem hann upplýsti að sjálfur hefði hann ærið oft ferðast um flugvallarsvæðið og aldrei orðið var við neitt af þessu tagi og teldi þar með óhætt að treysta því, að þar væru engin slík vopn geymd.

Ég vil aðeins minna hv. þm, á þær fréttir sem fram komu í íslenskum dagblöðum fyrir rúmlega þremur árum í þessum efnum. Það var frá því greint 14. janúar 1976, að í tímariti nokkru vestur í Bandaríkjunum, tímariti sem sérstök ástæða er til að undirstrika að ekki er hægt að horfa fram hjá sem einhverjum ómerkingi í þessum efnum, en þar var um að ræða tímarit bandarískra kjarnorkuvísindamanna, enska heitið Bulletin of the Atomic Scientists. Í þessu tímariti hafði birst grein eftir einn af sérfræðingum þess, Barry Scneider, þar sem hann staðhæfði að kjarnorkuvopn væru geymd í allmörgum Evrópulöndum og þ. á m. á Íslandi. Þessi grein var birt í íslenskri þýðingu í einu dagblaðanna hér í Reykjavík 14. jan. 1976, og þar má sjá á mynd, sem greininni fylgir, mynd af enskum texta hins bandaríska tímarits, að því er haldið fram og því yfirlýst að bandarísk kjarnorkuvopn séu geymd í öllum NATO-ríkjum Evrópu nema í Noregi, Danmörku, Lúxembúrg og Frakklandi, og síðan eru hin ríkin talin upp og Ísland þar á meðal. Það hefði að sjálfsögðu ekki verið ástæða til að hlaupa sérstaklega eftir fréttum eða skrifum af þessu tagi í einhverju eða einhverju tímáriti í Bandaríkjunum eða annars staðar erlendis. En það, sem gerir það að verkum að hér hljóta menn að staldra alvarlega við, er að það er einmitt þetta tímarit, tímarit bandarískra kjarnorkuvísindamanna, sem birtir þessa yfirlýsingu. Og það er vert að minna á það enn, að eitt dagblaðanna í Reykjavík, Dagblaðið, sá ástæðu til í tilefni þessarar fréttar að hafa símasamband við höfund greinarinnar í hinu bandaríska tímariti og spyrja hann nánar út í heimildirnar fyrir þessu og á hverju hann byggði. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að vitna í þetta viðtal við Barry Schneider. Það birtist í Dagblaðinu föstudaginn 23. jan. 1976, fyrir röskum þremur árum, og hann er þar kynntur: „Barry Scneider, talsmaður Center for Defence Information í Washington“ — þ. e. a. s. talsmaður fyrir upplýsingaskrifstofu um varnarmál í Washington. Hér er sem sagt enginn ómerkingur á ferð, það skulu menn hafa í huga. Og hvað segir þessi maður í viðtali við Dagblaðið? Fyrst segir í inngangi Dagblaðsins:

„Verulegar líkur virðast vera á því, að kjarnorkuvopn sé að finna hér á Íslandi.

Í viðtali við fréttamann Dagblaðsins segir Barry Scneider, sem starfar við Center for Defence Information í Washington, að Lockheed Orion vélar bandaríska flotans á Keflavíkurflugvelli séu að öllum líkindum búnar djúpsprengjum með kjarnaoddi, ætluðum kafbátum í Norður-Atlantshafi.

Vélar þessar, sem í daglegu tali eru nefndar P-3, fljúga reglulegt könnunarflug frá Íslandi í leit að sovéskum kafbátum, auk þess sem þær eru búnar mjög fullkomnum radarútbúnaði.

Í grein eftir Barry Schneider, sem birtist í ritinu Bulletin of the Atomic Scientists, en hún fjallaði um kjarnorkuvopn er Bandaríkjamenn geyma eða hafa undir höndum í bandalagsríkjum sínum, segir að Ísland sé eitt þeirra landa er séu geymslustaður slíkra vopna“.

Síðan kemur hér innan gæsalappa í Dagblaðinu beint frá Barry Scneider:

„Upplýsingar mínar eru byggðar“ — og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir — „á viðtölum við þm. á bandaríska þinginu sem aðgang hafa að leyniskjölum um þessi mál“, sagði Barry Schneider. „Ég vann að gerð þessarar greinar í sex mánuði á árinu 1974. og viðmælendur mínir höfðuðu til skjala er voru ýmist eins eða tveggja ára gömul. Þegar ég var búinn að gera kort yfir þá staði í heiminum, er ég taldi líklega geymslustaði, sýndi ég mönnum hér í Washington, sem ég veit að vita hvar kjarnorkuvopn okkar eru geymd, kortið og enginn þeirra hreyfði mótmælum við Íslandi“.

Síðan er örlítið í viðbót úr þessu skrifi í Dagblaðinu: „Sagði Barry Schneider mjög sterk rök hníga að því, að hér væru kjarnorkuvopn. P-3 vélamar gæta hafsvæðisins á milli Íslands og Evrópu og eins og margoft hefur komið fram er það ein aðalumferðaræð rússneskra kafbáta“.

Hér er svo aftur vitnað orðrétt í Barry Schneider. „Þrýstingurinn frá einni svona djúpsprengju nægir til þess að gjöreyða kafbátum af stærstu gerð“, sagði Barry Schneider enn fremur. „Og þessar vélar eru þarna til þess að granda rússneskum kafbátum, ekki til þess að varpa sprengjum á önnur lönd“.

Þetta er það sem segir í Dagblaðinu 23. jan. 1976 í viðtali við títt nefndan Barry Schneider, talsmann fyrir upplýsingaskrifstofu um varnarmál í Washington.

Ég vil ekki hafa hér uppi neinar fullyrðingar um að það, sem þessi maður segir, þurfi endilega að vera öruggt. Auðvitað er sá möguleiki til að hann hafi fengið skakkar upplýsingar. En hitt segi ég um þau ummæli, sem þarna koma fram, að þó ekki væru aðrar stoðir undir grunsemdum í þá átt að kjarnorkuvopn væru geymd á Keflavíkurflugvelli, þá væru þessar upplýsingar, sem fram koma í þessum skrifum, einar sér full ástæða til þess að hafist væri handa af íslenskum stjórnvöldum um ítarlegar rannsóknir.

Ég vil aðeins minna á það, að fyrir allmörgum árum, — ekki hef ég gefið mér tóm til að fletta upp á því nákvæmlega hvenær það var, gerðist sá atburður að bandarísk flugvél, sem hafði bækistöð í herstöð Bandaríkjanna á Grænlandi, við Thule, hrapaði, og þá kom í ljós að í vélinni höfðu verið geymd kjarnorkuvopn og litlu munaði að stórkostlegt slys hlytist af. Þetta var flugvél frá herstöð Bandaríkjamanna á Grænlandi og slysið mun hafa orðið á síðasta áratug. Ég hygg að ærið margir í okkar hópi hér minnist þessa atburðar. Það kom mönnum þá á óvart að þessi vél var búin kjarnorkuvopnum, hafði ekki verið gert ráð fyrir því. Og við skulum ekki vera þau börn að telja okkur trú um að engin ástæða sé til tortryggni af okkar hálfu í þessum efnum. Ástæðurnar til nokkurrar tortryggni eru sannarlega meira en nægar.

Það er vissulega rétt, að ýmsir hv. þm. sem hafa áður talað við þessa umr., í fyrri hluta hennar, sögðu að við Íslendingar hefðum ekki yfir neinum þeim stofnunum að ráða sem vel væru til þess búnar að annast fullkomið eftirlit í þessum efnum á Keflavíkurflugvelli. Það er alveg hárrétt að svo er ekki. Og við erum flest harla ófróð í hernaðarlegum•sökum, sem betur fer.

Mér fannst það reyndar svolítið táknrænt fyrir þau viðhorf, sem löngum hafa ríkt meðal Íslendinga í þessum efnum, þegar einn hv. þm., — það mun hafa verið Friðjón Þórðarson, 2. þm. Vesturl., — sá ástæðu til þess að rifja upp við þessa umr. 6. mars um hugsanleg kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli ákveðnar staðreyndir úr okkar eigin sögu frá fyrri öldum. Hann minnti á það, að hér hefði ekki farið fram aftaka síðan 1830, þegar þau Friðrik og Agnes Natansmorðingjar voru réttuð í Vatnsdalshólum, og hér hefði ekki farið fram verulega mannskæð orrusta, ef ég man rétt, síðan Brandur Kolbeinsson féll á Haugsnesfundi í Skagafirði, 1246 trúi ég að sé ártalið. Ég get sagt það fyrir mig persónulega, að mér þykir ósköp vænt um svona ræður og ég tel að þær segi töluvert mikið um hvernig ástatt er, ekki bara í hugum þm. ýmissa heldur með okkar þjóð upp og ofan.

En enda þótt við vildum kannske láta okkur nægja að vera með hugann við þann vopnaburð sem hér hefur átt sér stað á fyrri tímum, þá komumst við að sjálfsögðu ekki hjá því að gera okkur grein fyrir að í nútímanum dugar ekki það eitt að horfa aftur í aldir, heldur verða menn að átta sig á þeim beinhörðu staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir í hervæddri veröld sem við lifum í, þar sem stórveldin leggja hið mesta kapp á að bæla niður allar sjálfstæðistilhneigingar smærri þjóða og hafa þar í sinni rétt þess stórveldis sem um er að ræða, hvort sem er í Vestur-Evrópu eða Austur-Evrópu, eða þótt litið væri til annarra heimshluta. Það er þess vegna að ég tel að okkur Íslendingum beri að koma okkur sem allra fyrst upp aðstöðu til að hafa eftirlit með því, sem fram fer í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, og þá ekki síst eftirlit með því, hvort þar eru geymd kjarnorkuvopn eða ekki. Ef Bandaríkjamenn telja það vera einhverja móðgun við sig, að þeim sé ekki treyst til að hafa þetta eftirlit sjálfir, þá verða þeir að þola þá móðgun að mínu viti. Ég gæti út af fyrir sig mjög vel hugsað mér að það yrði í þessu skyni leitað til einhverra þeirra alþjóðlegra aðila sem til þess væru bærir, hugsanlega erlendra rannsóknastofnana, og þeim falið í samvinnu við íslenska aðila að hafa þetta eftirlit með höndum, og þá ekki síst ef við gætum í þeim efnum átt samvinnu við aðila frá ríkjum sem standa utan hernaðarbandalaga eða að fyrir því væri barist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að þær tækju að sér eftirlitsstörf af því tagi, sem hér er um að ræða. Ég tel að sú öryggismálanefnd, sem sett hefur verið á laggirnar með fulltrúum allra þingflokka nú nýlega, hljóti að líta á það sem eitt af verkefnum sínum að kanna vandlega þessi mál.

Það vill svo til að þegar við ræðum nú hér í dag um nauðsynina á banni á kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði, þá ber þessa umr. að heita má upp á 30 ára afmæli stofnunar Atlantshafsbandalagsins, en við Íslendingar vorum sem kunnugt er eitt þeirra ríkja sem þar voru stofnaðilar og afmælisdagurinn var í gær. Það er rétt að taka það fram af þessu tilefni, að að sjálfsögðu er það þátttaka okkar í þessu bandalagi sem hefur valdið því, að hér er erlend herstöð í landinu og hefur verið um áratugaskeið, og það er vegna þess að við erum í þessu bandalagi og vegna þess að við sitjum uppi með þessa herstöð, sem sá grunur er fyrir hendi hjá ærið mörgum og ekki að ástæðulausu, að hér séu kjarnorkuvopn geymd í næsta nágrenni við höfuðborg landsins. Hefðum við borið gæfu til þess fyrir 30 árum og á þeim áratugum sem síðan eru liðnir að skipa okkur í sveit þeirra þjóða sem standa utan hernaðarbandalaga, þá væru engar grunsemdir af þessu tagi uppi. Það vill svo til að ef við lítum til annarra Norðurlanda, þá mun það ekkert vafamál, að þau eru öll kjarnorkuvopnalaus og það viðhorf ríkjandi hjá öllum meginþorra annarra Norðurlandaþjóða, eins og reyndar hjá okkur Íslendingum líka, að þar eigi undir engum kringumstæðum að geyma kjarnorkuvopn. En við erum í þeim sérflokki í hópi Norðurlandaþjóðanna að við erum ein með erlenda herstöð í landi okkar og þess vegna eru þessar grunsemdir fyrir hendi hér, en ekki hjá neinni þeirra þjóða, sem við viljum helst telja okkur í hópi með, annars staðar á Norðurlöndum. Og án þess að ég hafi hugsað mér að hefja hér neina almenna umr. um utanríkismál, þá vil ég minna á þessa staðreynd, ekki síst vegna þess að umr. ber upp á 30 ára afmæli inngöngunnar í Atlantshafsbandalagið, og í öllum þeim kór Atlantshafsbandalaginu til lofs og dýrðar sem við höfum fengið að heyra hér í landinu undanfarna daga með hátíðarútgáfu af Morgunblaðinu o. s: frv., þá tel ég að fari vel á því, að það sé minnt á það úr þessum ræðustól á hinu háa Alþ., að þeir eru enn þá margir á Íslandi sem telja að okkur beri að segja okkur úr þessu bandalagi sem allra fyrst og losna við herstöðina á Miðnesheiði sem því fylgir. Ef menn bæru gæfu til að stiga það stóra skref áður en langir tímar líða, þá þyrfti ekki að ræða um það hér á Alþingi síðar, hvort í landinu fyndust kjarnorkuvopn geymd eða ekki.

Meðan hér situr erlendur her og meðan íslensk stjórnvöld telja að það sé rétt að trúa öllu sem ráðamenn þess hers kunna að segja um það sem fram fer innan herstöðvarinnar, þá höfum við Íslendingar ekki raunverulegt forræði yfir öllum hlutum þessa lands. Þá eru hér í landinu svæði, að vísu sem betur fer ekki mörg og í rauninni ekki nema þetta eina á Keflavíkurflugvelli, þar sem erlendir aðilar athafna sig að eigin geðþótta og eftir því sem þeirra hernaðarlegu áhugamál gefa þeim tilefni til, án þess að við séum um það spurð. Og ég vil að lokum segja að ég bind vonir við það, að enda þótt ágreiningur sé nú sem fyrr mikill og mjög alvarlegur um það, hvort við eigum að vera í Atlantshafsbandalaginu eða ekki, það er kunnugt og ég býst ekki við að hann breytist á einum degi eða einu ári, þá bind ég engu að síður vonir við það, að innan þeirrar öryggismálanefndar, sem nýlega var skipuð af flokkunum, geti tekist samkomulag um það, hvað sem grundvallarsjónarmiðum líður, að gera sérstaka úttekt á Keflavíkurflugvelli og ástandinu þar, m. a. með tilliti til þess, hvort þar séu geymd kjarnorkuvopn eða ekki.