05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3944 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu einungis tala um þingsköp eins og áðan þegar ég kvaddi mér hljóðs. Ég vil vegna þeirrar gagnrýni, sem ósk mín um að málinu yrði frestað vakti hér áðan, vekja athygli á því, að þetta mál hefur verið á dagskrá hvers einasta fundar Sþ. í heilan mánuð nema eins eða kannske tveggja og ævinlega verið tekið út af dagskránni. Í dag eru á dagskrá 20 mál. Eitt hefur verið afgreitt, það tók örskamman tíma. Þegar þetta mál er nú á dagskrá fundar með 20 málum eftir að því var frestað fyrir heilum mánuði, þá er einmitt þetta mál tekið til svo mikillar umr. sem tekur næstum því klukkutíma að fjarstöddum ráðh. og formanni utanrmn. Ég hlýt að lýsa furðu minni á þessu ráðslagi. Og ef ég er gagnrýnd fyrir að vera með þessu að tefja málið, þá spyr ég: Hver tafði það í heilan mánuð?