05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Vegna þeirrar till. til þál. um almennar skoðanakannanir, sem hér er til umr., vil ég lýsa þeirri meginskoðun minni, að ég er ósammála þeirri almennu röksemdafærslu sem fram kemur í grg. með till. og kom fram í framsöguræðu hv. þm. Páls Péturssonar. Ég hygg að það sé alveg ljóst, að þær skoðanakannanir, sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni, hafa auðvitað ýmsar takmarkanir. En kjarni málsins er sá, að þeir, sem hafa framkvæmt þessar skoðanakannanir, hafa jafnframt lýst því í smáatriðum hvernig að er farið, hvernig hringt er í fólk, hvernig úrtakið er unnið. Í upplýstu samfélagi, — og upplýst samfélag er gott samfélag, samfélag sem ekki er upplýst er hins vegar ekki gott, — en í upplýstu samfélagi á fólk að vera fullkomlega fært um að dæma sjálft um hvernig skoðanakannanir eru unnar og með hverjum hætti þær þess vegna eru marktækar eða ekki marktækar eftir atvikum.

Ég held að löggjöf um skoðanakannanir, sem miðaði að því að takmarka möguleika á að framkvæma þær, væri vond löggjöf sem fæli í sér frelsissviptingu, enda virtist mér í máli hv. fyrsta flm. að það sé það sem þeir raunverulega séu að leggja til. Ég er raunar þeirrar lífsskoðunar, að það eigi ekki að standa með þessum hætti að lagasetningu, fólki sjálfu sé treystandi til þess að draga ályktanir af skoðanakönnunum, hvernig þær eru unnar, hversu stórt úrtakið er og um alls konar aðra ágalla sem vissulega eru til.

Því má ekki gleyma, að þær skoðanakannanir, sem augljóslega hafa farið svo mjög fyrir brjóstið á flm. þessarar till., eru skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka, og það skín úr hverju orði sem um þessi mál hefur verið látið falla. En blöðin, t. a. m. síðdegisblöðin sem gefin eru út hér í Reykjavík, hafa gert skoðanakannanir um sitthvað fleira en fylgi flokkanna, um hin ólíklegustu mál: afstöðu til verkfalla, bjórmál og svo mætti lengi telja. Og jafnvel þó að við tökum, eins og okkur ber að gera, slíkar skoðanakannanir með hinum fyllsta fyrirvara af alls konar ástæðum sem 6þarft er að tíunda hér, þá hygg ég að það sé upplýsingu í samfélaginu til framdráttar að svona skoðanakannanir séu gerðar, t. d. fyrir okkur sem hér sitjum á Alþ., til þess að við getum í grófum dráttum áttað okkur á því, hvernig skoðanir manna eru úti í hinu stóra samfélagi.

Ég er sem sagt þeirrar grundvallarskoðunar, að upplýstu fólki, upplýstu samfélagi sé fullkomlega til þess treystandi sjálfu að taka slíkar skoðanakannanir með hinum fyllsta fyrirvara, og ég sé enga ástæðu til að fara að setja hamlandi lagasetningu þar um. Hv. síðasti ræðumaður, Páll Pétursson, tiltók tvær skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka sem tvö tiltekin blöð höfðu gert. Úrtakið hjá öðru blaðinu var miklu stærra en úrtakið hjá hinu og það var meiri vinna lögð í það, og af því má væntanlega draga þá ályktun, að hin síðari hafi verið nákvæmari en hin fyrri. En ég held að öllum þorra fólks í upplýstu samfélagi sé fullkomlega til þess treystandi s álfu að draga slíkar ályktanir og ekki þurfi löggjöf. Ókostir við löggjöf, eins og ég geri ráð fyrir að flm. hugsi sér hana, eru hins vegar þeir, að mjög mundi draga úr því að slíkar skoðanakannanir væru gerðar, og ég held að það sé ekki upplýsingu í þessu samfélagi til góðs.

Ég sem sagt hygg að það sé svo, að sú viðkvæmni, sem hér gætti, stafi ekki af skoðunum sem hv. flm. hafa á hinum almennu skoðanakönnunum, heldur hinum sértæku skoðanakönnunum sem fjallað hafa um fylgi stjórnmálaflokkanna, það séu þær skoðanakannanir sem við er átt, jafnvel þótt það sé nefnt almennari orðum. Mér þykir þessi viðkvæmni vera ástæðulaus. Fólkinu sjálfu er treystandi til þess að setja alla þá fyrirvara um það, hvernig í slíkar kannanir er lesið. En almennt og yfirleitt um hin ýmsu mál úti í samfélaginu, sem ekki eru af flokkspólitískum toga spunnin, held ég að það stuðli að upplýsingu að slíkar kannanir séu gerðar. Ég tel að það hafi verið jákvæð skref sem stigin hafi verið. Mér eru fullkomlega ljósir margir þeir ágallar sem hv. síðasti ræðumaður lýsti, en hamlandi lög af þessu tagi um slíka hluti hygg ég vera af hinu illa og ekki til þess fallin að stuðla að aukinni upplýsingu, opinni umr. eða framför.

Þessi till. verður væntanlega send til nefndar. Í sjálfu sér eru engin nákvæm ákvæði í henni um það, hvernig þessi löggjöf komi til með að verða. Það svífur sem sé margt í lausu lofti. En af greinargerðinni og einkum þó af máli hv. síðasta ræðumanns ræð ég að það sé viðkvæmni af þessu tiltekna tagi sem málflutningnum valdi. Ég held að þessi viðkvæmni sé óþörf og að þetta mál, eins og það er hugsað, horfi ekki til framfara.