05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3948 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins skýra frá því, að það eru nokkur ár síðan svipuð þáltill. og þessi, sem hér um ræðir, var samþ. af hinu háa Alþingi, þ. e. að fela ríkisstj. að skipa n. til að semja reglur ekki aðeins um skoðanakannanir, heldur einnig um þjóðaratkvgr., til þess að rýmka þá möguleika sem þar bjóðast. Það var á árum viðreisnarstjórnarinnar sem slík n. var skipuð og þá undir forsæti Ólafs Björnssonar prófessors. Ég var einn af þeim sem völdust til setu í þessari n., og hún vann nokkuð vel fyrst framan af og safnaði ýmsum upplýsingum um skoðanakannanir og framkvæmd þeirra, en þá voru skoðanakannanir dagblaða rétt að hefjast. Hún undirbjó álitsgerð um málið, en það komst aldrei lengra. N. sofnaði út af og hefur ekki starfað nú um nokkuð mörg ár, en hún var sem sé búin að vinna talsvert undirbúningsstarf.

Ég vil aðeins láta það koma fram, að í n. var rætt um að það væri ekki með nokkrum hætti hægt að setja neinar skorður af einu eða neinu tagi við gerð skoðanakannana, þannig að hvaða aðili í þjóðfélaginu sem væri gæti efnt til skoðanakannana. Hins vegar væri rétt að setja einhverjar leiðbeinandi reglur um framkvæmdina, þess efnis, að þær skoðanakannanir, sem uppfylltu tiltekin almenn skilyrði um framkvæmd skoðanakannana, fengju nokkurs konar opinberan stimpil á sig sem réttar og gildar hvað framkvæmdina varðar.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma, annað heldur en taka það fram, að þær skoðanakannanir, sem gerðar hafa verið að undanförnu, einkum og sér í lagi kannanir sem gerðar hafa verið af tveimur tilteknum blöðum hafa sýnt sig að vera marktækar og eru mjög merkileg nýjung í okkar þjóðmálum. Og ég lít svo á að það mál, sem hér um ræðir, megi alls ekki skoðast þannig að það sé með einhverjum hætti verið að stefna því gegn þeirri framkvæmd sem þar hefur verið unnin, heldur þvert á móti að Alþ. eigi að styrkja slíkar framkvæmdir þannig að þær séu jafnvel enn meira marktækar eftir en áður.

Ég vildi sem sagt aðeins láta það koma fram, herra forseti, að þetta mál hefur áður verið á dagskrá og talsvert unnið í því þó svo niðurstaða hafi ekki fengist.