05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. kemur æðioft hér í ræðustól, en það er kannske ekki rétt að segja að hann sé orðmargur því að hann notar kannske ekki mjög mörg orð, þ. e. a. s. hann notar oft sömu orðin. Hann á sér uppáhaldsorð og frasa og einn frasinn er um lýðræðislegar leikreglur. Ég held að lagasetning eins og sú, sem við erum hér að leggja til, yrði til þess að gera þessar leikreglur sæmilegri, til þess að gera þær lýðræðislegri, til þess að gera þær áreiðanlegri. Ég vitna til þess, að í leiðurum Dagblaðsins, a. m. k. í eitt eða tvö skipti, töldu leiðaraskríbentar blaðsins að þeir hefðu gert marktæka skoðanakönnun.

Ég vil mótmæla þessu. Gildi þessara skoðanakannana, sem það blað hefur haft, og e. t. v. annarra líka er fyrst og fremst leiðbeinandi gildi. Það er ekki það sem búið er að ske þegar skoðanakönnunin er gerð, heldur það sem skeður í kjölfarið. Sú skoðanamyndun sem á sér stað í kjölfarið á svona aðgerð, það er það sem máli skiptir og þar er það sem áhrifin liggja.

Ég held að það sé nauðsynlegt að vanda skoðanakannanir betur. Ég vitna til fræðimanna sem við eigum og eru mér náttúrlega langtum færari til að ræða á félagsvísindalegum grundvelli þetta efni. Ég vitna til útvarpserindis sem Haraldur Ólafsson lektor flutti fyrir nokkrum vikum. Ég vitna til ágætrar greinar sem Þórólfur Þórlindsson lektor skrifaði í Morgunblaðið, mig minnir 7. mars. Þeir eru báðir á þeirri skoðun að skoðanakönnun sé merkileg aðgerð, en það þurfi að vanda hana og vanda hana betur en gert hafi verið.

Ég talaði að vísu um skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka vegna þess að við munum best eftir þeim hér í þessu húsi. En ég varði líka töngum tíma í ræðu minni til að ræða skoðanakannanir um neysluvenjur. Það er engu síður hægt að misbeita þeim og þær eru afdrifaríkar engu síður. Það má ekki líta á þetta sem nein sárindi frá minni hálfu vegna þess að Framsfl. kom illa út úr sumum skoðanakönnunum. Þó vil ég taka fram að það var ekki allt á sömu bókina lært með það. Ég veit ekkert um hvort sá bati, sem Vísir er að spá í síðustu skoðanakönnun sinni varðandi Framsfl., á við rök að styðjast eða ekki. En ég held að skoðanakannanirnar, sem gerðar hafa verið í vetur, eða vil a. m. k. trúa því, að þær séu jákvæðar að einu leyti. Ég held að þær hafi nokkurt jákvætt uppeldisgildi á suma hv. þm. Alþfl. Ég held að ef rétt sé metið að þeim sé náttúrlega alltaf að fara fram, þá megi kannske rekja hluta framfararinnar til atburða eins og þessara:

Hv. 7. þm. Reykv. lýsti því fyrir nokkrum vikum í ræðustólnum að hann hefði stórkostlegar áhyggjur af því að Alþfl. hefði komið illa út úr skoðanakönnun sem Dagblaðið hafði þá nýlega gert. Það er auðvitað út af fyrir sig áfall fyrir hv. 7. þm. Reykv. ef Dagblaðið er hætt að styðja hann í stjórnmálabaráttunni og farið að styðja Sjálfstfl. Ég reyndi að hugga vin minn, 7. þm. Reykv., og ráðlagði honum að reyna að fá tímaritið Samúel eða Alþýðublaðið til þess að gera skoðanakönnun til styrktar Alþfl. Ég hef ekki orðið var við að hún hafi verið gerð, en ég endurtek ráðlegginguna.

Ég er ýmsu samþykkur af því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði. En þessi blessuð nefnd er dauð, og ég held að við séum alveg á sömu línu og nefndin að því leyti til, að það þarf að setja um þetta vissar lágmarksreglur sem þeir aðilar þurfa að uppfylla sem vilja beita sér fyrir skoðanakönnunum. Ég held að það verði öllum til góðs og þjóðfélaginu til bóta ef svo yrði.

Ég man ekki hvort ég tók það fram í framsögu minni, en ég geri till. um að þessari umr. verði frestað og málið sent til athugunar í hv. allshn.