05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3952 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, þá er hv. þm. Jónas Árnason með ágætari þm., ljóðrænni þm., en engu að síður þykir mér stundum sem nokkurs geðklofnings gæti í margháttuðum lífsskoðunum hans og skoðanabræðra hans. Hann talar um það af nokkurri forakt, að því er heyra má, að menn skrifi í blöð eða framkvæmi skoðanakannanir eða birti myndir til þess að selja blöðin, og það heyrist mér á hv. þm. Jónasi Árnasyni að sé hin fyrirlitlegasta athöfn. Nú vill svo til að hv. þm. Jónas Árnason er leikritaskáld og meira að segja gott leikritaskáld. En til hvers semur hv. þm. Jónas Árnason leikrit? Til þess að enginn komi að sjá þau? Og er það að mati hv. þm. Jónasar Árnasonar fallið leikrit, ef það fer yfir 100 sýningar? Og ef leikritið Deleríum búbónis fer yfir 200 sýningar er það þá kolfallið? Og er það leikrit eitt heppnað sem því sem næst enginn kemur að sjá og er dautt eftir þrjár sýningar? Ég held ekki. Ég held þvert á móti að hv. þm. Jónas Árnason semji leikrit til þess að margir komi og sjái þau og því fleiri sem komi að sjá leikrit, því betur þyki það ganga. Ég fer og sé hvert einasta leikrit sem hv. þm. Jónas Árnason skrifar, ef ég mögulega kem því við. Og ég held að það sé nokkurt samhengi þar á milli, að gott leikrit koma margir að sjá, en slakt leikrit koma færri að sjá. (JÁ: Það er ekki þar með sagt, að þeir taki neitt mark á því.) Nei, það kann að vera. Samt er vonandi samræmi þarna á milli.

Kjarni málsins er þó sá, að hér er þáltill. til umr. um almennar skoðanakannanir. Það gætti nokkurs misskilnings hjá hv. síðasta ræðumanni, Jónasi Árnasyni, um það, hvað vekti fyrir flm., því að í grg. með till. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess vegna er það fyllilega tímabært að sett verði löggjöf um þetta efni og ákveðin skilyrði lögfest um óhlutdrægni og vísindalega nákvæmni“.

M. ö. o.: það er verið að leggja til að setja skorður við slíkum könnunum og — eins og hér hefur réttilega verið á bent — af þeirri ástæðu augljóslega fyrst og fremst að flm, hafa mislíkað tilteknar niðurstöður tiltekinna skoðanakannana. Það er hægt að skipta mönnum í flokka og fylkingar eftir mörgum meginreglum. Eitt er það, að sumir menn eru frjálslyndir og aðrir menn eru þröngsýnir. Frjálslyndi er það gjarnan að treysta náunganum, að treysta fólki til að sjá sjálft fyrir sér og hegða sér vel eða illa eftir atvikum. Auðvitað hegðar fólk sér misjafnlega. Þröngsýni er aftur það að vilja setja reglur um hegðan mannanna í smáu og stóru vegna þess að fólki sé ekki treystandi. Forverar hv. flm. hér hafa margoft gert till. um hina kostulegustu lagasetningu, t. d. að setja lög um stafsetningu á sínum tíma. Af því að það fór fyrir brjóstið á þeim að fornar bókmenntir væru skrifaðar með nútímalegri stafsetningu. Þá átti einnig að setja lög um svipað efni, — ég man ekki hvort það voru lög, en það var allt að því, — um það sem kallað var klessumálverk, þetta þótti þeim ljótt, og ég held að það hafi átt að setja lög um að banna mönnum að mála það sem þeim þótti vera klessumálverk. Allir áttu að mála eins og Ásgrímur. Ég held að sú till. til þál., sem hér er til umr., sé af nákvæmlega sömu náttúru. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að um svona efni eigi alls ekki að setja lög. Það má setja leiðbeinandi reglur og reglugerðir kannske, en alls ekki lög sem hafa hamlandi áhrif, vegna þess að ég hygg að slíkt sé ekki til góðs. Það er augljóslega það sem vakir fyrir flm., að eins og áður þótti mönnum abstraktmálverk ljót og það særði tilfinningar að fornar bókmenntir væru ritaðar með nútímalegri stafsetningu, þá koma nú nokkrum áratugum síðar menn sem hafa látið fara í taugarnar á sér niðurstöður í tilteknum skoðanakönnunum. Því oftar sem hv. þm. Páll Pétursson talar, því ljósara verður að þetta og þetta eitt er ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi. Það er augljóst að þetta er ekki af náttúru frjálslyndrar lífsskoðunar, heldur er þetta af náttúru þröngsýnnar lífsskoðunar. Það hygg ég að sé af hinu illa. Þess vegna er ég á móti meginefni þessarar tillögu.