05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

185. mál, almennar skoðanakannanir

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera þessa aths., hún skal verða örstutt. Það, sem vakir fyrir flm., er einfaldlega að bæta framkvæmd skoðanakannana. Ég vil taka það fram vegna orða sem hér hafa fallið, vegna spurninga frá Sighvati Björgvinssyni, að ég tel að engin skoðanakönnun, sem til þessa hefur verið framkvæmd á Íslandi, sé fullkomlega marktæk. En það er tekið fram í grg. með till. að það beri ekki að amast við skoðanakönnunum. Ég nenni ekki að fara að endurtaka sömu ræðuna sem ég var rétt áðan að flytja, en þar kom þetta sjónarmið alveg glögglega fram, á svo skýran hátt sem ég er maður til að setja það fram.

Hvað varðar skilgreiningu hv. 7. þm. Reykv. á þröngsýni og frjálslyndi, þá vekur það ýmsar spurningar. Ég held að það séu fleiri en hv. þm. Jónas Árnason sem ekki eru alltaf sjálfum sér samkvæmir. Vilmundur talaði um að treysta fólki, það væri merkið á frjálslyndum einstaklingum ef þeir treystu fólki. Þessi maður hefur skrifað kostulegar greinar, og það hefur komið í ljós að hann vantreysti fjölda manna. Hann ber upp á þá verstu klæki, en sem betur fer hefur í mörgum tilfellum sannast að það átti ekki við rök að styðjast.

Það er enn eitt sem þarf að ganga úr skugga um þegar skoðanakönnun hefur verið gerð. Það þarf að tryggja það, t. d. þegar gerð hefur verið pólitísk skoðanakönnun, að hún verði ekki notuð til þess að færa inn á kosningaspjaldskrár. Það er hægt með endurteknu 2000 manna úrtaki hér í borginni að afla sér mjög mikilvægrar vitneskju um stjórnmálaskoðanir manna og auðvelt að misfara með það atriði ef þetta er gert með skipulegum hætti.