05.04.1979
Sameinað þing: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3954 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

196. mál, stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 377 höfum við 10 þm. Sjálfstfl. leyft okkur að flytja till. til þál um stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins. Flm. þessarar till. eru úr öllum kjördæmum landsins. Þeir eru ekki einungis fulltrúar þeirra landshluta, þar sem framleiðsla landbúnaðarvara er mikil, heldur einnig þess kjördæmis þar sem landbúnaðarframleiðsla er hverfandi. Segja má að flm. þessarar till. séu þannig fulltrúar þeirra sjónarmiða sem finnast hjá framleiðendum og neytendum búvöru í þessu landi.

Till. þessi boðar nýja stefnu í málefnum landbúnaðarins, — stefnu sem er ekki einvörðungu miðuð við hagsmuni bænda, ekki við hagsmuni neytenda í þjóðfélaginu, heldur hagsmuni þjóðfélagsins í heild. Þessi till. er við það miðuð að unnt sé að ná nýjum og fastari tökum á þeim viðfangsefnum, þeim miklu vandamálum sem nú er við að etja í þessari atvinnugrein.

Tilgangur till. er að meginhluta ný stefnumörkun, en þó enn fremur hitt, að leita eftir því að fá staðfest hér á hv. Alþ. þau grundvallarmarkmið sem stefnumörkun till. byggist á, um leið og þess er farið á leit að fallist verði á þær leiðir sem bent er á til þess að ná fram meginmarkmiðunum.

Áður en horfið er að því að ræða þessa till. efnislega er rétt að gera sér grein fyrir því, hvort þörf sé nýrrar stefnu í landbúnaði, og ef svo er, hvað hafi þá breyst sem geri þetta nauðsynlegt.

Ljóst er að ýmsir þættir landbúnaðarstefnunnar eiga sér langa sögu og er ekki ástæða til þess að rifja það upp með mörgum orðum. Sumir þættir í landbúnaðarstefnunni eru áratugagamlir. Má rekja þá allt frá setningu afurðasölulöggjafarinnar, setningu jarðræktarlaga, setningu laga um landnám, ræktun og nýbyggingar í sveitum o. s. frv., en flestir slíkir lagabálkar eiga sér rætur allt aftur á 3. og 4. tug aldarinnar.

Ekki orkar tvímælis að miklar áherslubreytingar urðu á landbúnaðarstefnunni um 1960 þegar svokölluð viðreisnarstjórn tók við völdum hér á landi. Þá urðu miklar breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Sett var ný löggjöf um Stofnlánadeild landbúnaðarins og fleiri slíka veigamikla þætti landbúnaðarlöggjafarinnar. Þá má einnig minna á það, að síðan hafa auðvitað orðið nokkrar breytingar á stefnumálum landbúnaðarins, ekki kannske síst að því er snertir breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám o. fl. 1971, þegar horfið var frá þeirri stefnu, sem ríkt hafði um langt árabil, að kljúfa niður jarðir í sveitum og fjölga þannig sem mest býlum, sem var eins konar smábýlastefna í landbúnaði, sem gat átt við á sinni tíð, en hafði þó verið fylgt of lengi að mínum dómi.

Þær breytingar, sem gerðar voru á landbúnaðarstefnunni um 1960, höfðu í för með sér miklar breytingar

Í íslenskum landbúnaði. Þá var stefnt til nýrrar tækniþróunar í landbúnaði, aukinnar ræktunar, aukinnar framleiðslu og aukinnar framleiðni í landbúnaðarframleiðslunni. Segja má að í kjölfar þeirra breytinga, sem þá voru gerðar á stefnu í landbúnaðarmálum, hafi verið lyft Grettistaki í sveitum landsins og framfarir orðið giftusamlegar og miklar í þá átt að bæta afkomu fólksins, sem í sveitum býr, og einnig um leið að bæta landið sjálft. Sú stefna, sem þá var tekin upp, hefur þannig að veigamiklu leyti gefist vel. Raunar gafst hún ágætlega þann áratug a. m. k. og hefði að líkindum gefist vel enn ef ekki hefðu orðið breytingar í þjóðfélaginu og ýmiss konar þróun þjóðfélagsmála sem þá var ekki hægt að sjá fyrir. Þessar breytingar eru þessar helstar.

Í fyrsta lagi: Fjölgun þjóðarinnar hefur orðið til muna minni á þessum áratug einkanlega og raunar nokkuð á síðasta áratug einnig heldur en allar spár stóðu um á áratugnum 1950–1960 og fram yfir 1960.

Í öðru lagi: Neysluvenjur þjóðarinnar hafa breyst. Nýjar framleiðsluvörur hafa komið til sögu. Nokkuð hefur dregið úr neyslu mjólkurvara og jafnvel kindakjöts, miðað við mannfjölda, og um leið hefur hitt gerst, að þjóðfélagsbreytingar hafa hnigið í þá átt að Íslendingar stunda miklu meiri ferðalög erlendis nú um skeið heldur en áður var, þannig að segja má að í raun sé alltaf nokkur hluti þjóðarinnar í öðrum löndum og neyti því ekki íslenskra búvara.

Í þriðja lagi, og er það veigamest, hefur verðlagsþróunin í landinu orðið þessari framleiðslugrein ákaflega óhagstæð og þá um leið samspilið á milli verðlagsþróunar innanlands og verðþróunar og efnahagsaðgerða í nálægum löndum, helstu viðskiptalöndum okkar. Þetta hefur leitt til þess að framleiðsla, sem hefur haldið áfram að vaxa, hefur ekki selst að fullu á innlendum markaði og erlendis markaðir hafa orðið þrengri og óhagstæðari vegna þess misvægis sem orðið hefur í verðlagsþróun innanlands og verðþróun á erlendum mörkuðum. Allt hefur þetta svo leitt til þess, að nú er svo komið að framleiðslumál landbúnaðarins eru komin í nokkrar ógöngur og verðlagningar- og verðtryggingarkerfi landbúnaðarins er í raun og veru sprungið. Þetta lýsir sér í því, að birgðir mjólkurafurða hafa safnast upp. Um síðustu áramót voru birgðir í landinu af smjöri 1331 tonn og birgðir af osti og mjólkurmjöli um 1300 tonn, og framleiðsla þessa verðlagsárs verður það mikil að talið er að hvergi nærri dugi sú verðtrygging sem framleiðendur búvöru eða bændastéttin á í raun rétt á samkv. gildandi lögum. Skortir þar á, að talið er, rúma 5 milljarða kr. Þann halla þurfa bændur að taka á sig, nema til komi aukin aðstoð ríkisvaldsins í einhverju formi, sem er þá umfram það sem núgildandi lög gera ráð fyrir. Þetta sýnir að núverandi kerfi í framleiðslu- og sölumálum landbúnaðarins er nú fjær því en nokkru sinni að tryggja kjör bændastéttarinnar annars vegar og að hafa nokkra stjórn á framleiðslunni hins vegar. Það er því augljóst að þessi mál þarf að taka fastari tökum, nýja stefnu verður að marka til þess að bregðast við þessum vandamálum.

Samtök bænda og ýmsir forustumenn bændasamtakanna hafa sýnt á því mikinn skilning, að nauðsynlegt sé að breyta um stefnu og taka upp nýja hætti í þessum efnum. Þar hafa komið fram ýmsar hugmyndir sem hafa mjög auðveldað leitina að þeirri leið sem hyggilegast sýnir að fara um stefnumörkun til frambúðar í þessum málum. Það er þó hvergi nærri hægt að ætlast til þess, að bændasamtökin eða bændur einir leysi þessi mál. Þessi mál verða að koma til kasta Alþingis. Alþingi verður að marka stefnuna.

Ég vil einnig taka það fram, að það er skoðun mín að ný stefna í landbúnaði sé grundvallarundirsta8a þess að taka á þeim vandamálum sem nú blasa við og kalla má tímabundinn vanda búvöruframleiðslunnar, því að ef þjóðin í heild sér að Alþingi fellst á að taka upp nýja stefnu sem miðar, eins og ég hef þegar sagt, við hagsmuni alþjóðar, þá er hægt að ætlast til þess, að komið sé í auknum mæli til liðs við bændur í þeim miklu vandamálum sem þeir standa nú frammi fyrir.

Ég vil sem innskot í ræðu mína, hæstv. forseti, láta þess getið, að ég hefði talið mjög æskilegt að hæstv. landbrh. gæti verið við þessa umr., þar sem um veigamikið mál er að tefla, og vildi láta athuga hvort hægt væri að verða við því. Hér er enginn hæstv: ráðh. í salnum. Ef unnt væri að athuga hvort hæstv. landbrh. gæti verið við umr., þá væri mér þökk á því.

Það má segja að sú stefna, sem fylgt hefur verið á áratugnum frá 1960–1970 og raunar enn í dag hafi verið framleiðslustefna og að ýmsu leyti haft í för með sér tæknibyltingu, örar framfarir og mikla framleiðni í landbúnaði. Hún eigi ekki að fullu við lengur án breytinga. Réttara væri að kalla þá stefnu, sem er boðuð í þessari till. og nauðsynlegt er að taka upp, sjálfsbjargarstefnu, — stefnu sem miðar að því að nýta sem best þau tækifæri sem gefast heima fyrir, án þess að keppa um of eftir aukinni framleiðslu.

till., sem hér er flutt, er flutt til þess að mæta þessum nýju viðhorfum. Till. er nokkuð viðamikil og greinist í aðalatriðum í tvennt: Í fyrsta lagi í grundvallaratriði sem eru í 7 tölul., — grundvallaratriði sem ég tel nauðsynlegt að Alþ. lýsi yfir sem stefnu sinni að það vilji að séu í heiðri höfð. Þessi grundvallaratriði eru í sjálfu sér ekkí öll ný. En ef þau eru ekki staðfest af Alþ. og ekki er vilji fyrir því að þau verði virk, þá er landbúnaðinum að mínum dómi mikil hætta búin og mikil hætta á að afdrifarík röskun verði í íslensku þjóðfélagi. Ég vil leyfa mér að rekja í stórum dráttum þessi grundvallaratriði og legg á þau þunga áherslu:

1) Treyst verði sjálfseignarábúð bænda á jörðum og eignarréttur einstaklinga og sveitarfélaga á landi og hlunnindum verndaður. Þetta grundvallaratriði tel ég ekki þurfa mikilla útskýringa við, en ég tel þó að í því felist kjölfesta landbúnaðarins.

2) Unnið verði markvisst. að aukinni hagkvæmni í landbúnaðinum ásamt fjölbreytni í framleiðslu og fullvinnslu búvara. Það er nauðsynlegt að við þær aðstæður, sem nú eru, að leggja sem allra þyngsta áherslu á aukna hagkvæmni ásamt fjölbreytni í framleiðslu búvara. Þetta markmið er hægt að styðja með mörgum samverkandi aðgerðum, m. a. með því að beina rannsókna- og leiðbeiningastarfsemi ýmissa stofnana landbúnaðarins að þessum þætti í vaxandi mæli og leitast þannig við að tryggja að við tökum upp í vaxandi mæli það sem ég kallaði sjálfsbjargarstefnu, að vinna að bættri og aukinni fóðuröflun með aukinni votheysgerð og bættri súgþurrkun, nýjungum í sambandi við fóðrun búfjár, e. t. v. nýjum rannsóknum á nýtingu búfjáráburðar, nýjum rannsóknum og framkvæmdum í endurvinnslu túna o. s. frv. Þessir þættir verða allir til þess að bæta og auka heimafenginn bagga, en gamalt máltæki segir: Hollt es heima hvat. Þau orð standa enn í gildi, ekki síst þegar því eru mikil takmörk sett hvað unnt er að ganga langt í því að reyna að drýgja tekjurnar með aukinni framleiðslu.

3) Landbúnaðinum verði búin þau skilyrði að unnt sé að tryggja bændum sambærileg lífskjör og aðrar fjölmennar stéttir þjóðfélagsins búa við: Þessa grein þarf vitaskuld að skilgreina mun betur í löggjöf, og svo er um margt af því sem er í þessari till. Þar er t. d. eðlilegt að verði skilgreint hvaða viðmiðun eigi að nota þegar talað er um fjölmennar stéttir. Ég hallast að því, að það eigi að keppa að því að vel rekið meðalbú eigi að geta skilað þeim tekjum sem að er keppt, þ. e. tekjum sem eru sambærilegar við það sem fjölmennaratvinnustéttir aðrar í þjóðfélaginu hafa. Eðlilegt er að það kerfi verði byggt þannig upp að dugnaður og umfram allt hagsýni fái notið sín í auknum mæli.

4) Framleiðsla landbúnaðarafurða miðist fyrst og fremst við það, að ávallt verði fullnægt þörfum þjóðarinnar fyrir neysluvörur og hráefni til iðnaðar. Auk þess verði tekið fullt tillit til þjóðhagslegs gildis þeirra atvinnutækifæra annarra sem landbúnaðarframleiðslan veitir. Augljóst er að landbúnaðarframleiðsluna má ekki einvörðungu miða við neyslu þjóðarinnar, heldur þarf einnig að gefa gaum að þeim þætti sem er fólginn í því, að landbúnaðarframleiðslan er grundvöllur helstu iðnaðarframleiðslu okkar úr innlendum hráefnum fyrir utan fiskiðnaðinn. Einnig þarf að líta á þjóðhagslegt gildi þeirra atvinnutækifæra sem landbúnaðarframleiðslan veitir. Kem ég nánar að því síðar.

5) Tryggð verði í megindráttum núverandi byggð í sveitum landsins. Komið verði í veg fyrir miklar sveiflur í landbúnaðinum sem gætu valdið óvæntri búseturöskun, og til þess nýttir allir hagrænir möguleikar til atvinnu- og framleiðslustarfsemi sem byggjast á nýtingu lands-, vatns- og sjávargæða. Iðnaður og þjónustustarfsemi í sveitum verði aukin. Það er rétt að gera sér grein fyrir því, að ef þau fjögur grundvallarmarkmið, sem rakin eru að framan, verða ekki tryggð, þá verður hæpið að unnt sé að fullnægja því fimmta. Ef sveitafólk getur ekki búið við eðlileg lífskjör, ef eignarrétturinn verður ekki viðurkenndur, ef ekki verður unnið af aukinni hagsýni að búvöruframleiðslunni og ef framleiðsla búvara verður ekki miðuð við hagsmuni iðnaðarins og hagsmuni atvinnu ýmissa þjóðfélagshópa, þá verður erfitt að fullnægja því, að núverandi byggð verði haldið í sveitum landsins. Mikill samdráttur í þessum greinum mundi leiða til þess, að byggðakeðjan um landið mundi rofna.

6) Sveitafólki verði með lögum veitt sambærileg félagsleg réttindi og þorri annarra þegna þjóðfélagsins nýtur. Aukið verði jafnræði í aðstöðu til mennta og í þjónustu opinberra aðila án tillits til búsetu. Með félagslegum réttindum er átt við t. a. m. orlofsmál og annað sem meginþorri þjóðfélagsþegnanna nýtur í dag og ekki hefur enn náð til sveitafólksins. Ef þetta er vanrækt er hætt við að ungt fólk veigri sér við að festa rætur í þeirri atvinnugrein sem ekki getur boðið sambærileg réttindi sem aðrir atvinnuvegir. Fari svo, þá visnar landbúnaðurinn og tærist upp innan frá. Þess vegna er þetta mikilvægt atriði. Enn fremur þarf að auka jafnræði frá því sem nú er að því er varðar opinbera þjónustu til þess að geta nýtt þjónustu opinberra fyrirtækja þannig að ekki sé allt of mikill munur á verði og aðstöðu, eins og nú er í ýmsum greinum.

7) Gætt verði hófsemi í umgengni við landið og náttúru þess. Tryggt verði, svo sem tök eru á, að varðveitt séu sérstök náttúrufyrirbrigði, gróður, dýralíf og hlunnindi. Öllum verði gefinn kostur á að njóta samskipta við náttúru landsins og í því skyni séð fyrir nægilega mörgum opnum svæðum til útivistar, þjóðgörðum og tjaldstæðum. Hér er um grundvallaratriði að ræða sem raunar væri hægt að birta með stefnuyfirlýsingu um ýmsa aðra þætti heldur en landbúnaðarmál. En þetta fer þó hvergi betur en í landbúnaðarstefnu og er staðfesting á því, að bændur og sveitafólk hafa á þessu efni fullan skilning og að nauðsynlegt er að mæta þörfum þjóðarinnar í heild á þessum vettvangi. Þessi grundvallaratriði, sem hér hafa verið rakin, eru í sjálfu sér ekki þess háttar að þau feli í sér ákaflega mikil nýmæli, en þessi grundvallaratriði þarf að staðfesta og Alþ. að lýsa yfir vilja sínum í því, því að verði þeim kastað fyrir róða er hætt við að við getum sparað okkur að ræða þessi mál mikið á næstunni. Núv. sveitabyggð og hagsmunir þess fólks, sem sveitirnar byggir, heyra þá fortíðinni til. Þess vegna eru þessi grundvallarmarkmið alger forsenda fyrir því, að hægt sé að taka á þessum málum.

Miklu meiri nýmæli felast í þeim leiðum sem till. gerir ráð fyrir að farnar verði til þess að ná þessum markmiðum og viðhalda þeim sem sumpart hafa verið viðurkennd. Þessar leiðir eru raktar í 8 stafliðum í tillgr. og eru í þeim veigamikil nýmæli. Þar er í fyrsta lagi lagt til að gerð verði úttekt á þjóðhagslegu gildi svokallaðrar umframframleiðslu í landbúnaði. Þessi úttekt skiptist í tvennt og nái til nautgripaafurða annars vegar og sauðfjárafurða hins vegar. Enn fremur verði metin þýðing aukabúgreina og aukatekna sveitafólks og hvaða skerðingu mætti vænta á þessum þáttum, ef umframframleiðslan félli niður. Rétt er að taka það fram, að það, sem ég kalla hér umframframleiðslu, er sú framleiðsla sem er umfram neyslu þjóðarinnar á búvörum. Í þessari úttekt verði tekið fullt tillit til þeirra tekna sem af þessum hluta búvöruframleiðslunnar spretta, þ. á. m. tekna ríkissjóðs, gjaldeyristekna, tekna ríkissjóðs af gjöldum sem fylgja innflutningi sem fyrir þann gjaldeyri fæst, tekna ríkissjóðs í beinum og óbeinum sköttum af þeim hluta framleiðslunnar og úrvinnslu hennar sem hér um ræðir, en auðvitað á móti þau útgjöld ríkissjóðs op gjaldeyriseyðsla sem þessari framleiðslu eru bundin. Í úttekt þessari verði einnig metinn þáttur umframframleiðslunnar í því að mæta atvinnuþörfum þjóðarinnar, í því að skapa hráefni til iðnaðar og einnig hvaða fjárfestingarkostnaður mundi fylgja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og nýrra atvinnufyrirtækja annars staðar ef það fólk, sem að þessum hluta framleiðslunnar starfar, þyrfti að leita á ný mið sér til lífsframfæris. Þá mundi einnig hluti þeirrar fjárfestingar, sem þegar hefur verið unnin og lagðir fjármunir í, liggja óbættur hjá garði og ónotaður í sveitum landsins.

Þessa þjóðhagslegu úttekt þarf að vanda. Hana þarf að vinna þannig að fólkið í landinu treysti þeim niðurstöðum sem þar fást. Ég vil segja það hér og hef sagt það áður í þessum ræðustól, að mér sýnast allar líkur benda til þess, að sá hluti úttektarinnar, sem fjallaði um mjólkurframleiðslu eða nautgripaafurðir, mundi sýna að þá framleiðslu er ekki hagkvæmt að hafa mikið umfram innanlandsneyslu. En þegar að þætti sauðfjárframleiðslunnar kemur er það skoðun mín, e. t. v. trú mín, að það mundi sýna sig að meginhluti þeirrar sauðfjárframleiðslu, sem við búum við í dag, sé þjóðhagslega hagstæður. Það eru margir þættir sem valda því og ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Það hefur verið rakið úr þessum ræðustól af mér og öðrum. En ef það kynni að koma aftur á daginn að skoðun mín á þessu efni væri ekki rétt, þá væri óhjákvæmilegt að byggðin grisjaðist, þá væri ekki lengur pláss fyrir það fólk, sem starfar að þessari framleiðslu, í sveitum landsins. Og þá er að taka afleiðingum af því. Þá þarf að koma til móts við það fólk, sem verður að flytja sig úr átthögum sínum, frá framleiðslutækjum sínum, frá híbýlum sínum og mannvirkjum til annarra sviða í þjóðfélaginu, og standa undir því að veita því lífsviðurværi þar ásamt persónulegri fjárfestingu.

Það er vandaverk að gera slíka úttekt. En ég legg á það þunga áherslu að þetta verk þarf að vinna. Það hefur ekki verið unnið, því miður, og má merkilegt heita, jafnmikla þýðingu og slík úttekt hlýtur að hafa í allri umr. um landbúnaðarmál, ég tala ekki um stefnuna í því, hvað landbúnaðarframleiðslan eigi að vera mikil. Hér er um algera grundvallarforsendu að ræða fyrir því, að hægt sé að vinna stefnumarkandi í samræmi við þjóðhagslegt mat á því hvað við eigum að framleiða mikið í landinu sjálfu. Þessu verki þarf því að hraða, en það þarf ,jafnframt að vanda þetta verk. Það er auðvitað nauðsynlegt að slík úttekt sé tiltölulega ört í endurskoðun, vegna þess að ég ætlast til að úttekt af þessu tagi verði að nokkru lögð til grundvallar við að ákveða framleiðslumagn og verðtryggingu á tilteknu framleiðslumagni.

Í öðru lagi er hér lagt til, að teknir verði upp beinir samningar milli fulltrúa bænda og ríkisvaldsins. Í þeim samningum verði í fyrsta lagi samið um verð á búvöru, sem miðist við það að framleiðsla tiltekins meðalbús geti skilað þeim tekjum sem að var keppt í 3. tölul. sem ég rakti hér að framan, sem sé að bændur og sveitafólk gæti haft tekjur sem séu sambærilegar við tekjur annarra fjölmennra atvinnustétta í þjóðfélaginu. Enn fremur verði samið um verðtryggingu ríkisins á tilteknu heildarframleiðslumagni í ákveðnum búgreinum, — þeim búgreinum sem nauðsynlegt þykir að verðtryggja. Þar verði höfð til leiðsagnar sú úttekt á hagrænu gildi umframframleiðslunnar sem ég gerði hér að umtalsefni í næsta lið á undan.

Hér er um algert nýmæli að ræða og breytingu á því verðtryggingakerfi sem landbúnaðurinn býr við, sem er, eins og kunnugt er, að útflutningsbætur eru með þeim hætti að þær geti orðið sem svarar 10% af heildarframleiðslumagni búvara. Það þýðir það, að eftir því sem framleiðsla vex í landinu, jafnvel þó að það sé þjóðhagslega hagstætt, þá vaxa útgjöld ríkisins í útflutningsbótum. Ef bændur leggja hart að sér og taka á sig tekjuskerðingu til að draga saman framleiðslu, þá fá þeir þeim mun minna frá ríkinu í útflutningsbótum. Það eru því a. m. k. vissir vankantar á því kerfi sem við búum við, fyrir svo utan það að það er sprungið og úr samhengi við það ástand, sem við búum við í dag, og væntanlega við það ástand, sem við viljum keppa að til þess að fullnægja því markmiði að haga framleiðslumálum í samræmi við þjóðhagsleg markmið. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að útflutningsbótakerfið falli inn í slíka samninga. En það er sleginn varnagli, að því verði ekki kastað þannig, það megi ekki draga það mikið saman verðtryggingu búvara að sá verðtryggingarréttur, sem við eigum eftir núgildandi kerfi, verði a. m. k. ekki virkur í 4–5 ár. Samninga um þessi efni, verðtryggingu og verð eða a. m. k. um verðtryggt framleiðslumagn þarf að gera til 3-5 ára í senn og endurskoða árlega til þess að hægt sé að koma við breytingum sem talið er nauðsynlegt að gera á framleiðslumagninu til þess að nálgast þjóðhagslegt mark á nokkrum árum. Þetta gerist þannig að bændastéttin og úrvinnslufyrirtæki fái tóm til aðlögunar. Ef t. d. framleiðslu þarf að draga saman — við skulum segja í mjólkurframleiðslunni um 15–20%, þá gerist það á nokkrum árum og það sé vitað fyrir fram að hverju stefnt er. Þannig gefst tóm til aðlögunar og hægt að mæta því án þess að sársaukafullar breytingar verði.

Það má segja, að í þessum tveimur liðum felist meginbreytingar á stefnunni, miðað við það sem ríkt hefur. Mér er ljóst að ýmsir fleiri hafa boðað stefnu um samninga á milli ríkis og bænda um verð. En ég hef ekki rekist á það, að aðrir hafi sett fram till. um að semja um verðtryggingu á tilteknu heildarmagni búvöru eftir vissum framleiðslugreinum, en það er að mínum dómi forsenda fyrir því, að hægt sé að ná einhverri stjórnun á þessum málum. Það er hægt að setja upp áætlanir og markmið á pappírnum, en ef þeim áætlunum eða markmiðum er ekki fylgt eftir með raunhæfum hætti, ekkert stendur á bak við slíkar áætlanir, þá er hætt við að þær verði pappírsgagn eitt. Þess vegna er nauðsynlegt að verðtrygging ríkisins verði til þess að staðfesta þau markmið sem við viljum keppa að og ef um miklar breytingar þarf að vera að ræða á framleiðslumagni, þá séu þær breytingar gerðar á nokkrum árum þannig að tóm vinnist til að koma þeim fram án þess að of mikil röskun fylgi.

Í þeim liðum, sem hér eru á eftir, er fjallað um allmörg þýðingarmikil atriði. Í fyrsta lagi er því slegið föstu, að nauðsynlegt sé að grípa til sérstakra aðgerða, t. d. byggðaáætlana, til þess að viðhalda eða efla byggð á tilteknum landssvæðum og það sé hlutverk þjóðarheildarinnar. Ber þá að ætla til þess fé á fjárl. að svo miklu leyti sem um bein fjárframlög verður að ræða. En verði framleiðsluaukning vegna slíkra beinna aðgerða ríkisvaldsins hækki sjálfkrafa umsamið verðtryggt heildarframleiðslumagn búvara sem því nemur, þannig að ef gripið er til einhverra sérstakra aðgerða ríkisvaldsins, t. a. m. á Ströndum, Hólsfjöllum eða einhverjum slíkum landshlutum, til viðhalds byggð eða eflingar byggð og þær aðgerðir leiða til aukinnar búvöruframleiðslu, þá taki ríkisvaldið ábyrgð á því með aukinni verðtryggingu. Ef ríkisvaldið er í samningum við bændur búið að setja upp 3–5 ára áætlun samning um t. a. m. minnkandi framleiðslumagn, og fer svo að verja fjármagni á einhverjum sérstökum stöðum til þess að auka framleiðslumagn, þá er algert ósamræmi í slíku. Í mörgum greinum þarf að haga landbúnaðarstefnunni þannig að eitt rekist ekki á annars horn, heldur sé um samræmi í aðgerðum að tefla.

Það skal tekið fram, að í ýmsum greinum er hægt að efla eða styðja byggð í landinu án þess að aukið framleiðslumagn fylgi, t. a. m. í samgöngumálum, raforkumálum, eflingu nýrra atvinnugreina sem ekki eru á sviði hefðbundinnar búvöruframleiðslu o. s. frv., o. s. frv. (Forseti: Vegna fyrirhugaðs fundar í Nd. vil ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni og gæti þá, ef svo væri, fallist á að fresta henni senn.) Ég er langt kominn með ræðuna. (Forseti: Þá heldur ræðumaður áfram og lýkur ræðu sinni.)

Þá er hér fjallað um ríkisbúin. Ef framleiðsla þykir of mikil í landinu er eðlilegt að þess sé gætt, að bústofn ríkisbúa sé í nokkru lágmarki. Þess verði þá jafnframt gætt, að þau geti gegnt hlutverki sínu á sviði tilrauna, kynbóta og verkmenntunar fyrir búfræðinám. Gert er ráð fyrir að tekið sé til athugunar hvort ekki sé hægt að flytja hluta af hlutverki ríkisbúanna til einstakra bænda, enda mundi það þá vera flutt í raunverulegt búskaparumhverfi. Ég hef áður í þessum ræðustól vikið að ríkisbúunum og tel að framleiðslu þeirra megi draga saman í nokkrum mæli, og hlýtur það að haldast í hendur við þá stefnu sem mörkuð verður, að ríkið sé ekki að halda uppi framleiðslu umfram þarfir sem verður síðan til að auka á erfiðleika bændastéttarinnar. Þess er þó rétt að geta og ítreka, að ríkisbúin hafa veigamiklu hlutverki að gegna, — hlutverki sem ekki má kasta fyrir róða og gæta þess að sé rækt, en ég tel að framleiðsla þeirra og bústofn séu óþarflega mikil eins og nú er.

Þá er í till. vikið að markaðsmálum landbúnaðarins. Lagt er til að gert verði nýtt og öflugt átak í markaðsmálum. Þess verði freistað svo sem kostur er að ná samningum við stjórnvöld í helstu viðskiptalöndum okkar um að fá fellda niður innflutningstolla af íslenskum landbúnaðarafurðum. Það er gert m. a. í tengslum við aðra viðskiptasamninga. Þetta verk verður að færast á herðar ráðh. í ríkisstj. Íslands. Þetta hlutverk er ekki á færi markaðsnefndar landhúnaðarins, enda þótt hún geti unnið að mörgum öðrum þáttum markaðsmála, eins og hún hefur gert, og ég ætla að hún hafi unnið gott starf. Ekki síður þarf að huga að innlenda markaðnum og vinna að því að auka fjölbreytni í vinnslu landbúnaðarafurða í því skyni að mæta þörfum markaðarins innanlands og huga að því að mæta t. a. m. breyttum þjóðfélagsháttum, sem m. a. lýsa sér í því, að nú er mikill fjöldi húsmæðra í landinu útivinnandi og hefur lítinn tíma til að sinna matargerð i matartíma. Þess vegna þarf að mæta þörfum þessa fólks með því að hafa á boðstólum fljótgerða rétti sem reiða má fram á örskömmum tíma. Hér er mikið verk óunnið, að ég ætla, hvað markaðsmálaþáttinn snertir, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Í þessum lið er bent á nokkra þætti til þess að auka hagkvæmni í búrekstrinum og skal ég ekki gera þá frekar að umtalsefni, vegna þess að ég hef þegar vikið nokkuð að þeim þáttum í sambandi við grundvallaratriðin.

Í g-lið er fjallað um lánamál. Þar er lagt til, að Stofnlánadeild landhúnaðarins verði tryggður öruggur fjárhagsgrundvöllur og með lánveitingum úr deildinni verði m. a. auðvelduð eigendaskipti á jörðum. Meginefnið er þó það, að þessum og öðrum lánveitingum deildarinnar sem og annarra lánasjóða landbúnaðarins verði hagað þannig að það samrýmist þeim markmiðum í framleiðslumálum og byggðamálum sem lýst hefur verið hér að framan og samið kann að verða um í samningum milli fulltrúa ríkisvalds og hænda. Lagt er til að rekstrarlán til landbúnaðarins verði hækkuð og afurðalán miðuð við það, að bændur fái sem svarar 90% af umsömdu verði þegar eftir afhendingu afurðanna. Tollar og sölugjöld af rekstrarvörum til landbúnaðar verði eigi hærri en gerist hjá öðrum höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar. Eðlilegt er að innheimta ríkisins af slíkum vörum sé í sem allra mestu jafnræði á ritilli einstakra atvinnugreina en á það skortir nokkuð eins og nú standa sakir.

Í 8. og síðasta lið þessara leiða, sem bent er á til þess að ná þeim markmiðum sem í upphafi voru rakin, er fjallað um lagabreytingar. Það er augljóst að breyta þarf framleiðsluráðslögum. Sumum öðrum þáttum landbúnaðarlöggjafarinnar kann að þurfa að breyta að einhverju leyti þannig að þeir lagabálkar samrýmist þeirri stefnu sem hér hefur verið rakin. Meginefnið er þó að lagabreytingarnar verði þannig að allir þættir landbúnaðarlöggjafarinnar og um leið allar stofnanir landbúnaðarins vinni með þeim markmiðum sem hér eru boðuð, — þeim framleiðslumarkmiðum, hagkvæmnimarkmiðum og byggðamarkmiðum, — og um leið að samræmi sé í starfsemi þessara stofnana og þeim atriðum sem samið kann að verða um á milli ríkisvalds og bænda. Þetta er ákaflega þýðingarmikið og ber að hafa það mjög ríkt í huga við útfærslu á þessari stefnu.

Ég hef þá lokið við að rekja þau stefnuatriði sem í þessari till. felast. Það er auðvitað fjarri því, þótt þessi till. sé yfirgripsmikil, að hún nái til allra þeirra þátta sem landbúnaðarmálin snerta. Í þessari till. er t. a. m. ekki fjallað um þann tímabundna vanda sem við stöndum nú frammi fyrir, en eins og ég hef þegar sagt er nauðsynlegt að ný stefna sé mörkuð, — stefna sem vinnur að því að ná tökum á þeim vandamálum sem við eigum nú við að etja, — stefna sem hefur þau markmið, að landbúnaðarframleiðslan miðist við hagsmuni þjóðfélagsins. Gerð sé raunhæf úttekt á þjóðhagslegu gildi þessarar framleiðslu. Þegar því verki er lokið og þegar stefnan hefur verið staðfest af Alþ., þá er a. m. k. hægt að ætlast til þess, að því bráðabirgðaástandi, sem varir þangað til stefnan er farin að verka, verði mætt með auknum framlögum, með því að létta byrðarnar sem ella munu falla á bændur af fullum þunga. Við höfum rætt þau mál nokkuð undanfarið, og ég efa ekki góðan vilja ýmissa afla hér innan Alþ. til þess að rétta hlut bænda nokkuð í þessum efnum. Þó hefur ekkert það komið fram sem sannar að þarna verði tekið á málum. Þess vegna þarf að mínum dómi að staðfesta þá stefnu sem hér er boðuð, og ætla ég þá að auðveldara reynist að fá nægilegt fylgi við það að taka á þeim vanda sem nú er augljós og hart brennur á baki landbúnaðarins.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta meir. Ég vænti þess, að þó nokkuð sé áliðið þings hljóti þessi till. afgreiðslu. Er þess full þörf, eins og ég hef rakið. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði umr. frestað og málinu vísað til hv. atvmn.