06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (3112)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Landbn. Ed. hefur fjallað um það mál sem hér er til umr. og varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. skilaði svo hljóðandi nál.:

„Landbn. hefur fjallað um þetta mál á mörgum sameiginlegum fundum með landbn. Til viðtals við n. komu ýmsir aðilar, sérstakt samráð var haft við formann Stéttarsambands bænda og umsagnir hinna fjölmörgu aðila, er frv. var sent til, voru athugaðar og yfirfarnar mjög gaumgæfilega. Reynt var eftir föngum að samræma hin ýmsu mismunandi sjónarmið, er fram komu.

N. gerðu sameiginlega fjölmargar breyt. á upphaflegri gerð frv.

Meiri hl. landbn. mælir með samþykkt frv. óbreytts svo sem það kom frá Nd“.

Undir þetta skrifa auk frsm. Vilhjálmur Hjálmarsson, Bragi Níelsson, Stefán Jónsson og Bragi Sigurjónsson. Ítarleg framsöguræða fyrir þessu máli af hálfu hæstv. landbrh. gerir óþarft að hafa um þetta nú mjög mörg orð. Það er þó rétt að undirstrika það, að vandamál landbúnaðarins, sem mjög hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu og um hefur verið fjallað af mismunandi mikilli þekkingu og enn meir mismunandi sanngirni, eru auðvitað enn til umr. og umfjöllunar, ekki síður þó þetta mál komist í gegn, þar sem hér er aðeins um að ræða brot af þeim vanda sem þar er við að fást. Hins vegar er ljóst að umr. um þann mikla vanda og um stefnumörkun í landbúnaði hljóta að koma á dagskrá hjá okkur þegar till. til þál. frá landbrh. um stefnumörkun í landbúnaði kemur til umr. í Sþ. að loknu páskaleyfi, þar sem fyrir eru tekin þrjú meginmarkmið: framleiðslumarkmið, tekju- og þjónustumarkmið og byggðamarkmið.

Það þarf ekki að rekja það fyrir hv. d., að upphafleg gerð þessa frv. var um margt mjög álík því sem gerð þess er nú. Þar var byggt á áliti hinnar svokölluðu sjómannanefndar frá Stéttarsambandi bænda sem hafði unnið mjög ítarlega að þessu máli og reynt að finna þá leið til jöfnunar meðal bænda á vissri tekjuskerðingu sem talið var óhjákvæmilegt að þeir tækju á sig. Skýtur það í raun og veru nokkuð skökku við afstöðu þessarar stéttar miðað við ýmsar aðrar stéttir þjóðfélagsins sem eru að leita ráða til þess að koma sínu annars mjög háa kaupi sem allra hæst upp, svo sem s. l. nótt reyndist bera gleggst með sér varðandi þá hátekjumenn sem þar var um að ræða, að á öðrum stað og á öðrum tíma er fjallað um það af annarri stétt, hvernig hún megi skerða tekjur sínar sem eru þar auðvitað hjá mörgum langt undir meðallagi almennra tekna í landinu. Þetta er auðvitað umhugsunarefni sem ekki er vert að ræða hér frekar, en hlýtur þó að koma í hugann í sambandi við þá undarlegu lausn sem við fengum að sjá í þeirri deilu sem undanfarið hefur staðið hjá einhverjum mestu hátekjumönnum þjóðfélagsins.

Fljótlega komu fram hugmyndir um breyt. á þessu frv. Alveg sér í lagi voru breyt. fólgnar í andstöðu, sem við urðum varir við og fór vaxandi, varðandi flatan kjarnfóðurskatt og einmitt miðað við það, að hér hafa vinnubrögð n. verið að reyna að taka sem mest tillit til hinna ýmsu hugmynda sem fram hafa komið. Það er svo, að þó að stjórn Stéttarsambands bænda sé vissulega vel metin af okkur sem störfum í landbn., þá viljum við einnig og ekki síður taka tillit til hinna ýmsu sjónarmiða sem koma frá bændum almennt og við sjáum og finnum að eiga þar ríkan og mikinn hljómgrunn.

Ég vil taka það fram, að það var mjög góð samvinna milli n. beggja, Ed.- og Nd.-nefndanna, og það var einnig mjög góð samvinna við stjórnarandstöðuna. Landbn. Nd. skilaði frá sér nál. með breyt. fyrir alllöngu, og síðan komu fram í Nd. brtt. frá þeim hv. þm. Pálma Jónssyni og Eggert Haukdal. Eftir að þær till. komu fram og alveg sérstaklega eftir að fram kom ákvæði til bráðabirgða flutt af hv. þm. Lúðvík Jósepssyni var reynt til þrautar að ná samkomulagi og samræmingu um hin ýmsu atriði sem fóru á mis, bæði varðandi ákvæðin til bráðabirgða og eins brtt. þeirra sjálfstæðismanna í Nd.

Ég hygg að Nd. hafi í raun og veru afgreitt málið frá sér, eftir að breyt. komu fram sem þið sjáið nú á þskj. 520, sú afgreiðsla hafi farið þannig fram í Nd., að þar hafi tvö sérstök ágreiningsatriði ekki verið tekin til baka af hálfu þeirra sjálfstæðismanna, en önnur atriði hafi farið fram nokkurn veginn mótatkvæðalaust frá þeirra hálfu. Við vorum hins vegar þess fullvissir í öllu okkar nefndarstarfi, að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hafði þar sérstöðu frá upphafi og hefur haldið þeirri sérstöðu. Hún kemur þess vegna okkur ekki á óvart eða á nokkurn hátt í bakið á okkur. Okkur var hún ljós frá upphafi. Við vissum það, þó að við værum að reyna að ná sem viðtækustu samkomulagi við stjórnarandstöðuna, að þau sérsjónarmið, sem hv. þm. túlkaði í n., mundu koma fram hér í Ed. Okkur koma því brtt. hans og sérálit þeirra hv. þm. Jóns Ásbergssonar og hans ekki á neinn hátt á óvart.

Það er ekki ástæða til að vera að rekja breyt. mjög nákvæmlega, en ég skal þó fara í nokkur þau atriði sem sýna ljóslega að menn vildu taka sjónarmið hinna ýmsu aðila til gaumgæfilegrar athugunar. Ég bendi t. d. á það atriði sem hv. þm. Pálmi Jónsson kom fram með í brtt. sinni og var tekin upp orðrétt í Nd., þar sem komið var til móts við sjónarmið hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar alveg sérstaklega varðandi beinar greiðslur til bænda, þ. e. a. s. það ákvæði að greiða með samþykki ríkisstj. hluta af niðurgreiðslum til framleiðenda í samræmi við framleiðslumagn, allt að ákveðnu marki, en síðan stiglækkandi eftir því sem framleiðslan vex þar fyrir ofan. Ég hlýt að lýsa þeirri afstöðu minni hér, sem kemur ekki afstöðu meiri hl. út af fyrir sig við sem slík, að það fyrirkomulag, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur verið að reifa hér varðandi heinar greiðslur til bænda, hef ég ekki dregið neina dul á að ég hef stutt að því marki sem mögulegt væri að framkvæma það, tel það eðlilegra, en ætla ekki að fara nánar út í það. Hér er komið fyrsta skrefið þar til móts við: að heimila Framleiðsluráði að fara þessa leið að því marki sem hún er þarna skilgreind.

Síðan var mjög um það deilt í n., þó að mér fyndist það ekki skipta mjög miklu máli, og varð mjög hörð rimma út af því reyndar í Nd.-nefndinni, vissi ég, hvort ætti að setja undirstafliði í sambandi við hinar ýmsu leiðir sem þarna eru farnar, flokka þær í a, b, c og d. Til samkomulags var ákveðið að setja alla leiðirnar þannig jafnar, þó að við gerum okkur auðvitað fullvel ljóst að sú heimild, sem er fyrst upp talin, er auðvitað sú heimild sem verður nýtt fyrst og fremst, þ. e. a. s. að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda. Í því sambandi er m. a. heimilt að ákveða framleiðendum fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar og útflutningsverð fyrir það sem umfram er. Við gerum okkur fullljóst að þetta hljóti að verða sú aðferð sem verður nýtt, sérstaklega með tilliti til þeirrar stefnu sem er uppi hjá Framleiðsluráðinu og Stéttarsambandi bænda. En til samkomulags var þetta gert og eins það, að heimilt væri að nota samtímis óafgreiddar heimildir þó ekki væri gengið eins langt í því efni og þeir sjálfstæðismenn í Nd. vildu.

Við meðferð þessa máls í n. komu fram mjög margar aths. frá Stéttarsambandi bænda, langt mál í raun um ýmis framkvæmdaatriði þessa máls og þessara heimilda.

Það kom sem sagt í ljós, þó að þeir hefðu hugsað þetta mál mjög mikið, að þegar þeir fóru að hugsa það enn betur og líta eftir því, hvernig mætti framkvæma hina ýmsu þætti, þá sáu þeir á því ýmsa annmarka og vildu fá um það skýr ákvæði í lög, þannig að sýnt væri hvernig með heimildirnar ætti að fara og hvernig þar mætti við bæta. Það varð hins vegar að samkomulagi, að ég hygg með yfirlýsingu frá bæði formanni landbn. Nd. og eins frá hæstv. landbrh., að ákvæði er þetta varði, sem Stéttarsambandið kom sérstaklega fram með, yrðu ákveðin í reglugerð, og um sumt segir það hér, því að t. d. segir í frv. eins og það er nú: „Réttur þeirra, sem hefja búskap, draga saman búvöruframleiðslu eða hætta búskap, skal tryggður með ákvæðum í reglugerð“.

Ég tel óþarft að endurtaka þær ábendingar sem Stéttarsambandið kom þarna með, en það er fullt samkomulag við formann þess og þá aðila, sem þar starfa, að þessi ákvæði, sem þeir óskuðu um tíma eftir að færu inn í lögin, yrðu sett í reglugerð.

Það voru auðvitað ýmis atriði sem nokkuð skiptar skoðanir voru um. Ég tek dæmi um það, sem kom inn seinna, eiginlega á síðasta stigi málsins, þ. e. a. s. um að innlendir aðilar, sem framleiða fóðurmjöl, skuli senda Framleiðsluráði ársfjórðungslega skrá yfir alla sölu á þeirri framleiðslu innanlands. Skal tilgreina hverjir kaupendur eru, heildarmagn til hvers aðila og einingarverð. Okkur þótti mörgum hverjum þarna vera of stíft að farið, töldum nægilegt að þarna væri um misserislega skrá að ræða. En samkomulag varð um að setja þetta inn ársfjórðungslega. Einnig var á tímabili inni í sambandi við ráðstöfun þessa fjár ákveðið flutningskostnaðarákvæði sem fellt var niður til samkomulags. Þá var tekin inn breyting í sambandi við þá n., sem á að fjalla um þau ágreiningsatriði sem kunna að verða, að n. skyldu skipa fimm menn í stað þriggja, þ. e. a. s. tveir fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda, tveir fulltrúar Búnaðarfélags Íslands og formaður tilnefndur af landbrh. Sjálfstæðismenn vildu að vísu binda þetta enn fastar, og ég hygg að þeir séu enn við sama heygarðshornið í því efni, að vilja endilega hafa þar ráðuneytisstjórann í landbrn. sem formann. Ég hef aldrei heyrt beinan nægilegan rökstuðning fyrir því, nema ótakmarkað traust á þeim ráðuneytisstjóra sem nú er og ég skal ekki dul á draga. En spurningin var auðvitað allan tímann um það, hversu rúm ákvæði eða þröng ætti hér að hafa, hve miklar heimildir Framleiðsluráð ætti að hafa, hversu mikið Alþ. ætti að ákveða og hversu mikið efni að setja í vald Framleiðsluráðsins um framkvæmd þessa máls. Um þetta voru vissulega skiptar skoðanir. Á nefndarfundi í morgun orðaði hv. þm. Jón Ásbergsson það svo, að sér sýndist um margt vera vettlingatök í sambandi við þær heimildir sem í frv. eru settar fram. Þau „vettlingatök“ eru með vilja gerð. Niðurstaðan varð og samkomulag um að hafa þessar heimildir sem rýmstar, þannig að Framleiðsluráðið hefði þetta meira í hendi sér en við t. d. sumir höfðum á tímabili ætlað. Við lýstum því þá að við vildum gjarnan hafa ákvæðin þrengri og ákveðnari og Alþ. ætti þarna að hafa frekari afskipti. Ég gat þess vegna tekið undir með hv. þm. varðandi þetta atriði — kannske ekki orðalagið, en þá meiningu sem á bak við lá. Niðurstaðan varð sem sagt sú að ganga ekki lengra í því að ákveða beint um framkvæmd hinna einstöku heimilda, heldur leggja þetta meira í hendur Framleiðsluráðsins varðandi alla framkvæmd.

Ég leyni því ekki hér og tala þar ekki aðeins fyrir mig, heldur ýmsa aðra nm. sem munu sjálfsagt gera grein fyrir því nánar síðar, að það atriði, sem kom síðast upp í afgreiðslu Nd. á þessu máli, þ. e. a. s. ákvæði til bráðabirgða, er ákvæði sem okkur mörgum er ekki mjög að skapi. Það ákvæði er um að fram til þess tíma, er tekist hefur að afla nauðsynlegra gagna, sem er reyndar alveg óákveðið, sett í vald Framleiðsluráðs og hvað það verði lengi að því, sé heimilt að gjald skv, b-lið, þ. e. a. s. kjarnfóðurgjaldið, verði lagt á allt kjarnfóður. Að vísu segir svo aftur: „en endurgreiðist síðan eftir ákvæðum b-liðar“. Þetta þýðir það í raun og veru, að hin flati kjarnfóðurskattur, sem upphaflega var í frv., mun koma til framkvæmda núna, þó ekki á þann hátt sem þar var ætlast til, því að endurgreiðsluheimildin er vissulega fyrir hendi, en engu að síður hljótum við að bera nokkurn ugg í brjósti varðandi það að þetta ákvæði verði notað of lengi. Hæstv. landbrh. mun hafa gefið yfirlýsingar um það og mun gjarnan gera, að ríkt verði eftir því gengið að á þessu fáist endurgreiðslur skv. því sem þarna er um talað. Í trausti þess, að við það verði staðið, höfum við fallist á þetta, þó að við séum sannarlega hræddir við þetta mál og teljum að með þessu móti hafi okkar starf að því að breyta þessu verið unnið að nokkru fyrir gíg, a. m. k. á þessu ári, og þetta kunni að koma allhart við menn nú á þessu vori alveg sérstaklega með tilliti til árferðisins sem nú er og ekkert lát virðist á.

Ég verð að játa það, að þó að þarna sé um flókin gögn að ræða og margvísleg, þá harma ég að undirbúningi Stéttarsambandsins og Framleiðsluráðsins að því að afla þessara gagna virðist ekki hafa verið hraðað eftir að ljóst var að sú leið, sem lagt er til í b-lið, yrði ofan á og öllum var ljóst að sú leið mundi verða farin. Ég er ekki að segja að þeir hefðu verið búnir að afla slíkra gagna í dag. Ég fullyrði ekkert um það. En ég fullyrði hins vegar að þeir hefðu getað verið búnir að komast lengra í undirbúningi sínum að því heldur en ég veit að þeir eru komnir. Ég er hræddur um að þeir séu hreinlega í sömu sporum og áður varðandi það og muni því vegna afstöðu sinnar í þessu máli, fyrst og fremst vegna þess að þeir hafa verið með flötum kjarnfóðurskatti í sjömannanefnd og í meiri hl. í Stéttarsambandi bænda, reyna að nýta þetta ákvæði til bráðabirgða sem mest og sem lengst. En ég skal ekki hafa uppi neinar frekari hrakspár um það.

Ég skal svo aðeins taka undir það sem margoft hefur komið hér fram, að hinn stóri vandi landbúnaðarins er í raun og veru eftir. M. a. þess vegna flutti hv. þm. Lúðvík Jósepsson brtt. um ákvæði til bráðabirgða í Nd. Alþingis þar sem hann lagði höfuðáherslu á að teknar yrðu upp beinar samningaviðræður við Stéttarsamband bænda um þau rekstrarlegu og fjárhagslegu vandamál sem landbúnaðurinn ætti nú við að stríða. Í þessum viðræðum skyldi að því stefnt að gert yrði samkomulag til næstu 4–5 ára um stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins og um fjárhagsvandamál atvinnugreinarinnar. Í samkomulagsumræðum þessum skal m. a. fjallað um stefnuna í framleiðslumálum landbúnaðarins næstu 4–5 árin. Með till. sinni til þál. hefur landbrh. komið fram með ákveðna stefnumörkun, og sú stefnumörkun kemur einnig fram í sambandi við heildarbreytingu á framleiðsluráðslögunum sem einnig mun verða lögð fram. Þar verður reynt að marka ákveðna framleiðslustefnu, þó við gerum okkur ljóst að það er mjög erfitt a. m. k. að gera það á jafnhnitmiðaðan hátt og sumir vilja vera láta að auðvelt sé. Í þessu sambandi vil ég fagna því sérstaklega að hæstv. landbrh. skuli hafa valið sér til samstarfs menn úr öllum þingflokkum varðandi þessi mál öll. Þar er mjög til fyrirmyndar. Þar eru borin undir okkur, sem í þessari samstarfsnefnd erum, hin ýmsu atriði, sem hann hefur verið með á döfinni, og okkur leyft að gera fyrir fram aths. þar við og skoða málin betur. Það er að mörgu leyti betra og heppilegra en að málum sé kastað inn á þingflokksfundi og eigi að afgreiða þau á einum stuttum þingflokksfundi af eða á eða fresta. Það er betra að það séu sérstakir menn sem um þau fjalli og geti svo túlkað þau í þingflokkum sínum eins og tryggt er með þessu fyrirkomulagi.

Í þessu ákvæði til bráðabirgða var einnig fjallað um hina sérstöku örðugleika sem landbúnaðurinn á nú við að stríða. Þar er t. d. komið inn á lausaskuldamál bænda sem hafa lengi verið í miklum hnút. Nú hefur hæstv. landbrh. lagt fram frv. í Nd. þar að lútandi sem ég hlýt að fagna alveg sérstaklega, svo lengi sem það mál hafði verið í burðarliðnum hjá hæstv. fyrrv. ríkisstj. án þess að nokkuð sæist þar út úr augum. Til okkar er komið frv. til jarðræktarlaga sem veitir ákveðið svigrúm til stjórnunar. Það mál mun landbn. fjalla um eftir páska og íhuga vandlega bæði á hvern hátt best sé að ná þeim markmiðum, sem þar er fjallað um, og eins þá e. t. v. um einhverjar breytingar sem standa að sjálfsögðu enn opnar af hálfu hæstv. ráðh.

Ég get ekki stillt mig um í sambandi við þetta að minna á hve vandi Stofnlánadeildar landbúnaðarins er nú mikill. Umsóknir um nýjar framkvæmdir eru i kringum 1800 millj. Til ráðstöfunar eru í því sambandi um 500 millj. kr. aðeins. Má segja að þarna hafi stjórn Stofnlánadeildarinnar tök á vissri stjórnun, að beina því fjármagni á þann hátt að stuðla ekki að frekari offramleiðslu, eins og mjög er um talað. Er það hollt verkefni fyrir stjórn Stofnlánadeildarinnar. En ansi verður niðurskurðurinn mikill þegar þess er gætt að bændur fara fram á framkvæmdir upp á 1800 millj., en Stofnlánadeildin hefur aðeins til ráðstöfunar 500 millj. til þessara nýframkvæmda. Þó allt sé þetta mikilvægt er auðvitað sá heildarrammi, sem blasir við í dag um vöntun á útflutningsbótum upp á 5 milljarða, altilfinnanlegastur. Eins og ég hef komið fram með áður hafa bændur ákveðið að taka á sig vissa tekjuskerðingu af þessum ástæðum, þvert ofan í það sem aðrir vilja gera. Síðan er spurningin um hvað samfélagið vill koma hér til móts við bændastéttina. Því verður ekki trúað, að menn vilji ekki að samfélagið geri það mjög rösklega og vel, sérstaklega varðandi þá tekjulægri í þessum hópi sem eru vissulega margir og mjög tekjulágir í þokkabót. Það hlýtur því að vera mjög eðlilegt að stjórnarandstaðan flytji um það till. um ákvæði til bráðabirgða að úr þessum vanda verði leyst, og hef ég síður en svo við það að athuga. Við höfum hins vegar verið með til meðferðar síðustu daga ákveðnar till. frá hæstv. landbrh. um lausn þessa vanda að verulega miklum hluta, ákvæði um lán til Framleiðsluráðsins upp á 3.5 milljarða til að mæta þessum vanda. Um það hefur ekki orðið samstaða í ríkisstj. Alþfl.-menn hafa ekki talið sig reiðubúna til að fylgja því. Á meðan getur landbrh. ekki gefið aðra yfirlýsingu en þá sem hann mun hafa gefið, að hann muni beita sér fyrir að þetta nái fram að ganga. Það kæmi mér mjög á óvart ef niðurstaðan yrði að Alþfl. hafnaði þessari till., og ég hef mikla trú á að á þessu fáist lausn, en þarna er auðvitað um grundvallarskilyrði að ræða, að á þessu fáist viðunandi lausn innan ríkisstj. Það kann að vera að hún eigi eftir að fjalla betur um það, og ég treysti sem sagt á það og hlýt því sérstaklega vegna þeirrar afstöðu sem þingflokkur minn hefur tekið í þessu máli, að greiða atkv. gegn þessu ákvæði til bráðabirgða frá þeim hv. þm. Þorvaldi Garðari og Jóni Ásbergssyni í trausti þess að ríkisstj. nái fram viðunandi lausn í þessu máli.

Ég tel að vísu og dreg enga dul á þá persónulegu skoðun mína og reyndar okkar Alþb.-manna í heild, að það hefði verið nauðsynlegt að taka hluta af þessum vanda nú þegar á þessu ári, ekki velta honum öllum á undan sér yfir á næsta ár, ekki síst í ljósi þess að vandinn verður mikill á næsta ári einnig. Og síðan þaklyftingin fræga varð hefur hvarflað að mér æ oftar, að mikið hefði nú verið gott að eiga þennan milljarð, sem þar fór, til góða í sambandi við þá fjárvöntun sem einhver tekjulægsta stéttin í þjóðfélaginu á við að stríða núna og verður að taka á sig. Mikið hefði verið ágætt að eiga þann milljarð til góða og mega taka hann af hátekjumönnunum sem voru að fá þar enn meiri laun.

Ég ítreka svo aðeins í lokin þann ugg okkar margra í sambandi við það ákvæði til bráðabirgða sem samþ. var á síðustu stundu í Nd., að hinn flati kjarnfóðurskattur verði lagður á. Okkur er hins vegar ljóst að við erum búnir að vera með málið mjög lengi til umr. Málið er í hættu ef við afgreiðum það ekki nú. Við hefðum þurft að vera búin að afgreiða það fyrir löngu og við höfum ekki viljað standa þar í vegi vegna þessa ákvæðis, þó við drögum ekkert úr því, að við allar eðlilegar aðstæður og að öðru óbreyttu hefðum við margir hverjir ekki greitt þessu ákvæði atkvæði.