06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á ræðu hv. 3. þm. Austurl., og hina athyglisverðustu eins og að líkum lætur þegar þessi ágæti þm. kveður sér hljóðs. Það var athyglisvert að þessi grandvari maður lýsti mjög átakanlega hvers konar hrákasmíði væri á þessu verki sem lagt væri fyrir okkur í formi þess frv., sem við erum nú að ræða. Og þetta er ekki einleikið. Vettlingatökin, sem einkenndu þetta allt, voru, eins og hv. þm. sagði, með vilja gerð, því að málinu var svo illa komið að það var eiginlega ekki hægt að skilja annað á hv. þm. en að viðhafa yrði vettlingatök. (Gripið fram í.) Já, það er gott að geta brugðið fyrir sig slíku, hv. þm. Stefán Jónsson, en harla langt er þetta sótt í þetta sinn. Fyrrv. ríkisstj. tók ekki neinn þátt í þeim vettlingatökum sem hér hefur mjög vel verið lýst af hv. 3. þm. Austurl. Hv. 3. þm. Austurl. tók það beint fram, að hann harmaði hvernig komið væri í þessu máli. Hann tók fram um einstöku atriði hve þvert um geð honum og hans flokksmönnum væri að greiða atkv. með þeim. T. d., þó að hann sé á móti flötum fóðurbætisskatti, ætlar hann að vera með honum, vegna þess að þetta frv. er svo mikið hrófatildur að ef við hættum á það, eins og hann sagði, að senda það til Nd. aftur, þá er voðinn vís, þá getur þetta hrunið eins og spilaborg. Þetta er því allt í fári.

Ég er ekki að segja þetta í ádeiluskyni á hv. 3. þm. Austurl. Þetta ber að skilja miklu frekar sem lofsyrði, því að ég sé ekki annað en við séum harla sammála um þetta frv. Það var þess vegna sem ég bauð honum og fleiri góðum mönnum á fund í landbn. í morgun að verða samferða okkur sjálfstæðismönnum í afstöðu til þessa frv., því að við ættum samleið og ættum að haga okkur skv. því. En því er nú ekki að heilsa og það verður að taka þetta eins og það er. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það og snúa mér að því að mæla fyrir nál. minni hl. landbn., áliti okkar Jóns Ásbergssonar.

Eins og segir í því nál. og fram hefur komið hér, náðist ekki samkomulag í landbn. í þessu máli. Meiri hl. n. mælir með að frv. verði samþ. óbreytt, en við, sem skipum minni hl., teljum frv. svo mjög gallað að við getum ekki stutt það. Þó munum við freista þess að fá frv. breytt, og þess vegna flytjum við á sérstöku þskj. brtt. í trausti þess að þær lagfæringar fáist sem við teljum nauðsynlegar fyrir fylgi við málið. Gjarnan viljum við fylgja því sem til bóta horfir, og þó að þetta sé nú lagt með þessum hætti upp í hendurnar á okkur, eins og hv. 3. þm. Austurl. lýsti mjög vel, þá viljum við samt í minni hl. freista þess ef eitthvað má betrumbæta. Með tilliti til þess höfum við borið fram brtt. á þskj. 537.

Ég skal nú víkja að þessum brtt. Ég sé ekki ástæðu til þess í sambandi við það að fara að halda almenna yfirlitsræðu um þessi mál. Þó að umr. hafi ekki verið hér í hv. d. um þetta mál, þá hefur það samt verið þrautrætt undanfarnar vikur og mánuði. Það hafa verið á þessu tímabili haldnir sameiginlegir fundir landbn. beggja deilda. En samt vil ég fara nokkrum orðum um þessar brtt. og tel það nauðsynlegt. Þær markast í aðalatriðum af þrenns konar sjónarmiðum.

Í fyrsta lagi teljum við að frv., eins og það er, sé ekki nægilega markvisst til þess að hafa raunhæfa þýðingu til að draga úr landbúnaðarframleiðslunni.

Í öðru lagi fellum við okkur ekki við hin rúmu ákvæði, sem eru í frv. sum hver, og teljum að það fari ekki vel á því að leggja slíka ábyrgð á hæstv. landbrh. sem þarna er gert ráð fyrir, — þó að bak hans sé breitt sé mannlegra af hálfu Alþ. að taka sjálft ákvörðun í meginatriðum um það, hvað eigi að gera, því að það eigi að sjálfsögðu að bera ábyrgðina á þessu máli og framkvæmd þess.

Og þá er þriðja atriðið, sem er meginatriði á bak við brtt. okkar minnihlutamanna. Það er að við teljum ófært að afgreiða þessi lög án þess að jafnframt séu í þeim bein ákvæði um heimild til ríkissjóðs til þess að greiða fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara og birgðum búsafurða. Við teljum að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál nema sjá á einhvern hátt fyrir endann á þessu mikla vandamáli og það fari best á að fá hæstv. landbrh. heimild til slíks sem við leggjum til í brtt. okkar.

Ég vík þá að brtt. Hún er um breyt. á a-lið og a-liðurinn umorðist. En það eru ekki nema tvær efnisbreytingar sem þarna er um að ræða. Það er í upphafi a-liðarins. Eins og frv. kemur frá Nd. og var afgreitt til 2. umr. hér í Ed. Hefst a-liðurinn þannig: „Að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda“. Við leggjum til að þessu verði breytt þannig: „Að ákveða mismunandi verð á búvörum til framleiðenda á þann hátt að framleiðendur fái fullt grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram er“. Við teljum að þetta sé markvissasta leiðin sem við eigum völ á, og þess vegna viljum við ekki, eins og stendur í frv., að sé sagt að m. a. megi fara þessa leið. Við viljum leggja til að hún verði beinlínis farin.

Þarna er gert ráð fyrir að framleiðendur fái fullt grundvallarverð upp að ákveðnu framleiðslumagni eða bústofnsstærð, fyrir þann hluta framleiðslunnar, en ekki meira. Það sem framleitt er umfram verði ekki verðtryggt og verði bændur að sætta sig við útflutningsverð fyrir það sem umfram er.

Ég hef heyrt því fleygt, að þetta væri ekki nægilega gott vegna þess að það væri ekki farið nógu vel með þá sem hafa stærri búin. Ef við gerum t. d. ráð fyrir, — við segjum ekki í frv. við hvaða hústærð á að miða, — að það sé miðað við 500 ærgildi, þá þurfa þeir, sem eru með stærri bú, að sætta sig við útflutningsverð. Menn segja að þetta sé hart aðgöngu fyrir þá sem eru með stærri búin. Ég segi að þetta sé sanngjarnt, því að allir bændur fá sömu aðstoð frá hinu opinbera sem liggur í verðtryggingunni á fullu grundvallarverði upp að ákveðinni bústærð. Allir bændur fá það, hinir stærri líka. Það fá allir aðstoð. Er ástæða til að aðstoða þá stærri meira en þá smærri? Ég sé ekki neinn siðferðislegan grundvöll fyrir því, og ég sé ekki heldur þörf á slíku, því að með þessari aðstoð eru af hálfu ríkisvaldsins gerðar ráðstafanir til þess að tryggja að bændur fái sómasamleg laun eins og þeim ber við búreksturinn. Þeir, sem vilja framleiða meira, gera það á eigin áhættu. Slíkir bændur geta líka oft gert það, að ég hygg með góðum árangri, þó að þeir fái ekki hið meira verð, vegna þess að það er alltaf minni stofnkostnaður sem þarf að standa undir á hverja búskapareiningu eftir því sem búin verða stærri. Og það er vel hægt að hugsa sér að hændur geti framleitt dilkakjöt fyrir útflutningsverð ef þeir fá hagstætt verð fyrir ull og gærur. Ég vildi nú segja þetta og skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég vék aðeins að einni mótbáru, og þetta er eina mótbáran, að ég hygg, gegn þessari aðferð sem við leggjum til. Þess vegna fór ég þessum orðum um það efni. Þetta er önnur breytingin sem er í a-lið 1. gr.

Hina efnisbreytinguna er að finna í 3. mgr., en þar stendur: „Sérstakar aðgerðir eru heimilaðar til að auka búvöruframleiðslu, þar sem hún er of lítil fyrir neysluþarfir í einstökum landshlutum“. Þetta er kannske ekki mikið mál í sjálfu sér og varðar ekki miklu á landsmælikvarða, ef mætti taka svo til orða. Hins vegar þykir okkur að það sé þörf á að hafa þetta heimildarákvæði, vegna þess að við vitum um sum byggðarlög og suma landshluta sem þannig er ástatt um að það er langt frá því að vera nægileg mjólkurframleiðsla þar eins og er. Og vegna þess að ekki er nægileg mjólkurframleiðsla, þá þýðir það oft og tíðum skort á þessari neysluvöru. Það þýðir margs konar vandkvæði að halda uppi þeirri mjólkurframleiðslu sem þar er, vegna þess að mjólkurbúin eru svo veik og þau hafa ekki bolmagn til eða eiga í mjög miklum erfiðleikum með að koma upp nútímatækni, svo sem tankvæðingu o. fl. Almennar aðgerðir til þess að draga úr landbúnaðarframleiðslu mega ekki koma niður á þessum aðilum. Auk þess er það svo, að ríkisvaldið verður að greiða verulegt fjármagn til mjólkurflutninga til þessara staða. Það er greitt úr verðjöfnunarsjóði. Og það er engin ástæða til að halda við slíku ástandi. Ég veit að hæstv. ráðh. þekkir dæmi um þetta eins vel og ég, og ég trúi ekki öðru en hann sé sammála mér um þetta. Ég vil því gjarnan að hann fái þá heimild sem þarna er gert ráð fyrir.

2. brtt. er við b-lið 1. gr. og orðast þannig: „Að leggja sérstakt gjald á innflutt kjarnfóður. Gjaldið má vera allt að 100% á innkaupsverð vörunnar“. Það er engin efnisbreyting í þessu, en efnisbreytingin kemur í því sem á eftir fer. „Framleiðendur búvöru á lögbýlum og aðrir, sem hafa meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu, skulu fá gjaldfrítt hæfilegt magn kjarnfóðurs til fóðrunar alls búfjár síns upp að 600 ærgildum skv. nánari ákvæðum í reglugerð“. Þetta ákvæði kemur i staðinn fyrir ákvæði, eins og það stendur í frv. núna, á þessa leið: „Framleiðendur búvöru á lögbýlum og aðrir, sem hafa meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu, skulu án þess að greiða gjaldið fá tiltekið magn kjarnfóðurs miðað við framtalið magn afurða og bústofn á skattframtali, skv. nánari ákvæðum í reglugerð“. Í staðinn fyrir þessi orð: fá tiltekið magn kjarnfóðurs, viljum við minnihlutamenn í landbn. að kveðið sé á nánar um þetta. Við teljum að þetta sé allt of rúm og óljós heimild og það eigi að taka skýrt fram að það magn, sem hér er um að ræða, skuli vera miðað við að það sé hæfilegt magn til fóðrunar alls búfjár upp að 600 ærgildum.

Ég þykist vita að það geti komið fram móthára gegn þessu á þá leið, að þetta dragi úr því fjármagni sem kemur inn fyrir skattinn. Það gerir það að vísu. En rökin fyrir þessu eru þau, að meðalbændur og minni hafa ekki efni á því að standa undir þessum skatti. Þess vegna er óraunhæft að leggja það til ef á að vera ábyrg afstaða til þessa hluta bændastéttarinnar.

Það hefur verið sagt um skattinn á fóðurbætinn að hann ætli að draga úr framleiðslunni. Það fer tveim sögum af því. Menn greinir nokkuð á um það, hvort skatturinn raunverulega gerir það eða ekki. Ég skal ekki fara sérstaklega út í það, við höfum rætt það ítarlega á sameiginlegum fundum í landbn. beggja deilda. Ég er þeirrar skoðunar, að hvað sem öllu líður hafi þessi skattur tiltölulega lítil áhrif, ef hann hefur nokkur áhrif í samdráttarátt. Það eru aðrar aðferðir sem þarf að beita. Við teljum að við höfum bent á þær með tillögum okkar varðandi a-liðinn, þess vegna sé séð fyrir slíkum mótbárum sem kynnu að koma fram um það, að það væru ekki nægilega haldgóð ákvæði í frv. þessu til að draga úr framleiðslunni.

Ég kem þá að 3. brtt. Hún er efnislega fólgin í því einu, að í staðinn fyrir að í frv. er gert ráð fyrir að hæstv. landbrh. tilnefni formann þeirrar n. sem hér um ræðir, þá leggjum við til að formaður n. verði ráðuneytisstjóri í landbrn. Hv. 3. þm. Austurl., sem hefur fylgst mjög vel með þessu máli, segist aldrei hafa heyrt nein rök fyrir þessu. Það lá kannske í orðunum, að hann tengdi þetta eitthvað víð þann mann sem gegnir þessu embætti. Ég vil taka það skýrt fram, að ég ber fyllsta traust til ráðuneytisstjórans í landbrn. En þetta ákvæði er ekki miðað við neinn sérstakan embættismann. Við teljum að það fari betur á því, að í slíkri n. sem hér er um að ræða og á að kveða upp úrskurði í þýðingarmiklum málum sé formennskan í höndum embættismanns. Það fer best á því, að sá embættismaður sé æðsti embættismaður í landbúnaðarmálunum, ráðuneytisstjóri í landbrn.

Ég kem þá að síðustu brtt., 4. brtt., og hún er í tveimur liðum. Hún er annars vegar um það, að ákvæði það til bráðabirgða, sem nú er komið inn í frv. eins og það liggur hér fyrir, verði fellt niður. Hér er um að ræða að koma í veg fyrir að það óhapp verði, sem hv. 3. þm. Austurl. henti réttilega á, að í meðförum þingsins verði þessum skatti, ef hann verður á lagður, snúið upp í flatan skatt, eins og allir eða flestir í landbn. beggja d. voru á móti. Og ég segi nú við hv. 3. þm. Austurl.: Eigum við ekki að hætta á það að samþ. þessa brtt.? Er ekki von til þess frá hans sjónarmiði, að málið geti þrátt fyrir þessa breytingu nú fengið þá afgreiðslu að öðru leyti sem hann telur nauðsynlega. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég þreifa á, að þetta frv. sé slíkt hrófatildur, að það þoli ekki að fara aftur til Nd. Það eiga að mínu viti engin vandkvæði að vera á því.

B-liðurinn í 4. brtt. fjallar um það að veita ríkisstj. og fyrst og fremst veita landbrh. heimild og aðstoða landbrh. til þess að koma því í kring að ríkissjóður greiði fyrir sölu á óverðtryggðri framleiðslu búvara á þessu verðlagsári og birgðum búsafurða sem til eru í landinu þegar lögin öðlast gildi, eins og segir í brtt.

Það er mikið búið að ræða um þann vanda, sem íslenskur landbúnaður stendur nú frammi fyrir vegna birgða af landbúnaðarafurðum. Ég skildi það svo — menn leiðrétta það ef það er ekki rétt — á hinum mörgu fundum sem við héldum, sameiginlegum fundum beggja deilda, að menn legðu mikla áherslu á að eitthvað fylgdi með varðandi þetta, ef ætti að afgreiða þetta frv. Og það er ekki að ófyrirsynju. Ég held, hvernig sem við lítum á þetta mál, að við hljótum að komast að þeirri niðurstöðu, að hvað sem við gerum skv. þessu frv., ef að lögum verður, þá hafi það harla litla þýðingu eða nái ekki tilgangi sínum ef ekki er leyst birgðavandamálið nú strax. Nú hefur maður heyrt og séð líka, eins og frv. kemur hingað, að þau ótrúlegu tíðindi hafa gerst í Nd. að sams konar tillaga hefur verið felld og, eftir því sem ég veit best, að hæstv. landbrh. hafi mælt gegn þessu. Mér finnst það koma úr hörðustu átt, því að eins og ég sagði áðan held ég að þetta sé beinn stuðningur einmitt við hæstv. ráðh. En þá er það sem hv. 3. þm. Austurl. kom inn á í ræðu sinni áðan, að hæstv. ráðh. hefur tilkynnt að hann hafi lagt til sérstök úrræði í þessu efni í ríkisstj. En nú liggur jafnframt fyrir, að það er ágreiningur um þetta í ríkisstj. Er ekki varhugavert fyrir hæstv. forsrh. að fara á flot með þetta mál án þess að tryggja sér stuðning í jafnþýðingarmiklu máli og þessu? Og mér er spurn: Hvers vegna vill hann það ekki? Nú skilst mér á hv. 3. þm. Austurl. að hann mundi hlíta þessu, að frv. yrði afgreitt án þess að við styddum á þennan hátt við hæstv. landbrh., í trausti þess, eins og hann sagði, að það næðist — ég held að ég fari rétt með — samstaða í ríkisstj. En ég segi: Guð minn góður, hver getur treyst því? Er ekki betra að hafa þetta á þurru fyrst við viljum gera ráðstafanir? Ég trúi því naumast, fyrr en ég þreifi á, að þessi till. verði ekki samþ., eins og raunar aðrar till. sem ég hef hér mælt fyrir. Og skal ég þá láta máli mínu lokið.