06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr. í hv. d., er búið að vera lengi á döfinni. Í meira en fjóra mánuði hefur þetta velkst fyrir þinginu, og því miður hafa málin gengið á afturfótum vegna þess að ekki var hægt að grípa til ákveðinna ráða nógu fljótt. Ég minnist þess, að hæstv. landbrh. sagði frá því í upphafi þessa máls, að hann óskaði að þetta mál gengi greiðlega í gegnum þingið svo hægt væri að taka á vandamálum landbúnaðarins. En það er nú eins og vill verða, að sjónarmiðin eru mörg og það hefur verið mikið gert til þess að reyna að fá samstæða skoðun á þessu máli. Í upphafi voru skoðanir mjög skiptar og eru það kannske enn. En um eitt voru þó allir sammála, að þarna væri mikill vandi á höndum og við yrðum að reyna að ná samstöðu allra flokka innan ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar líka til að fá sem farsælasta lausn á þessu máli. Vitanlega ætla ég ekki að fara að tíunda hér neina landbúnaðarpólitík Alþfl., enda síst tími til þess núna.

Eins og hv. 5. þm. Vestf. kom að í sinni ræðu má vel segja að frv. í sinni mynd sé að einhverju leyti hrófatildur og við tökum með vettlingatökum á þessu máli. En því miður vill það oft svo verða, að þegar menn eru lítt samstiga í byrjun gangi illa að fá sterku tökin út úr hópnum. Því er þetta nú svona komið, og það á við um fleiri mál í þinginu.

Eins og ég áður sagði var ásetningur allra að reyna að komast að þeim samningum að allir gætu sem best víð unað. Á fundi í morgun í landbn. þessarar deildar kom berlega í ljós, að okkur hafði ekki til fullnustu tekist þetta. En þó finnst mér nú, þegar ég sé brtt. hv. minni hl., að munurinn á frv. og brtt. hans sé afskaplega lítill og sumt af því ekki mér geðfelldara en frv. sjálft. Ég sé þar af leiðandi enga ástæðu til að fylgja brtt. Sem dæmi um ákvæði í brtt., sem ekki er í frv., má nefna, að í brtt. er miðað við að gjaldfrítt sé hæfilegt magn kjarnfóðurs til fóðrunar alls búfjár upp að 600 ærgildum. Ég felli mig engan veginn betur við þetta en það sem stendur í frv., því að meðalbú á Íslandi er alls ekki svona stórt, jafnvel þó í fyrradag, held ég að það hafi verið, teldi bóndi úr Húnavatnssýslu bú sitt ekki vera nema rétt meðalbú, en hann átti þó 1100 ær. Þetta stangast algerlega á við allar skýrslur sem ég hef lesið. Hefði þarna staðið 300–400 ærgildi, þá hefði ég haft tilhneigingu til að vera samstiga hæstv. forseta vorum í deildinni.

Það er þó eitt í frv. sem hefur farið verulega illa í taugar mínar, og það er bráðabirgðaákvæðið. Hygg ég að við flestir í d. séum sammála um að þetta sé mjög leiðinlegt ákvæði, að það skuli vera sagt: „Fram til þess tíma, er tekist hefur að afla nauðsynlegra gagna“. Málið er þó búið að vera meira en fjóra mánuði í gangi. Þetta finnst mér afleit niðurstaða. Ég vil reyna að treysta því samt, að þetta ákvæði, þessi flati skattur sem þarna er lagður á smábændur jafnt sem stóra, — þetta ákvæði verði helst aldrei notað og alla vega sem allra skemmst og allra minnst. Ég ætla samt, þrátt fyrir óvilja minn gagnvart þessu ákvæði, að styðja þetta frv. í þeirri trú að það geri gagn og þeir menn, sem með þessi lög fara, muni nota þau hændum og landslýð öllum til góðs.