06.04.1979
Efri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3119)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég taldi það við hæfi, þar sem allir aðrir og þó bið ég hv. þm. Braga Sigurjónsson afsökunar í því sambandi — flestir aðrir landbn. menn í þessari hv. d. hafa kvatt sér hljóðs um frv. þetta, að ég gengi aðeins upp í ræðustólinn, með þeim ásetningi þó að tala ekki lengi.

Ég lýsti yfir því í n., að ég styddi frv. með nokkrum trega í þeirri fullu vissu, sem mér virðist blasa við mér, að þessi mál verði enn til umfjöllunar á næsta þingi og e. t. v. næstu þingum, þar sem hér er um að ræða þess háttar grundvallarbreytingar á ýmsa lund á afurðasölumálum landbúnaðarins, að ekki er við því að búast að nýskipaninni verði komið í fast form þegar með þessari lagasetningu. Ber frv. þess raunar vitni, enda þótt ég geti alls ekki tekið undir þau orð hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, hæstv. forseta d., að hér sé um eins konar hrófatildur eða hrákasmíð að ræða. Ég hygg að við hljótum að skoða þetta frv. í samhengi við önnur þau frv., sem nú eru í gerð varðandi málefni landbúnaðarins, og í 1jósi þeirrar staðreyndar, að flokkar hæstv. landbrh og hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar hafa skipst á að stjórna málefnum landbúnaðarins frá því að fyrst var til á íslensku heitið landbúnaðarráðherra. Að vísu kom mér í hug undir ræðu hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar áðan, þegar hann hnýtti heldur í Sjálfstfl. fyrir linkulegan stuðning við málefni landbúnaðarins í tíð síðustu ríkisstj., — þá kom mér í hug það sem haft var eftir Guðmundi heitnum á Selkotseyri þegar hann kveinkaði sér við Jakobínu konu sína, en hann var fjórði maður hennar, og sagði: „Ekki finnst mér það nú viðkunnanlegt, Guðrún mín, hvað illa þú talar um fyrri mennina þína heitna, því að það er viðbúið að ekki muni ég heldur lifa þig.“ Ég vænti þess, að um það er lýkur muni bændaforingjar Framsfl. lofa að verðleikum stuðning Alþb. við málefni landbúnaðarins í þessari stjórn og væntanlega þá einnig stuðning Alþfl. með hástemmdari orðum en hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson viðhafði um stuðning Sjálfstfl. við málefni bænda í síðustu ríkisstj.

Ég ítreka það, að ég mun styðja og greiða atkv. með því frv., sem hér liggur fyrir, m. a. í trausti þess að enn muni þessi mál verða til umfjöllunar á næstu þingum, að því er ég vænti í góðu samstarfi núv. stjórnarflokka, og að við eigum óafgreidd mál héðan sem fyrirheit liggja fyrir um og vissulega snerta einnig það mál sem hér er um fjallað, þannig að við munum síðar þurfa að líta á þessi mál sem lúta að kjörum bænda í heild, og þá ekki síst þegar að því kemur að til framkvæmda komi fyrirheit sem gefið hefur verið af hálfu stjórnarflokkanna, sem Sjálfstfl. hefur nú lýst yfir stuðningi við og stéttarsamtök bænda hafa gert að kröfu sinni, að upp verði teknir beinir samningar bænda við ríkisvaldið um kaup og önnur kjör. Þegar að því kemur hljótum við að líta á þessi mál í heild.

Ég get tekið undir gagnrýni hv. þm. Braga Níelssonar um ákvæði til bráðabirgða. Ég er ekki sáttur við það. Á sama hátt og hann ber ég þarna fyrir brjósti sérstaklega hagsmuni þeirra bænda sem hafa langtum minni og afurðarýrari bú en þau sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson tilgreinir sérstaklega í brtt. sinni og ræðum, þ. e. a. s. miklu smærri bú en 600 ærgildi. En þar sem það blasir nú við okkur, að þetta ákvæði er nauðsynlegt nú, þar hygg ég að hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson hafi satt að mæla, þá sé ég mig knúinn til að greiða einnig atkv. með þessu ákvæði til bráðabirgða, en með mjög einbeittum fyrirvara um það, að ég hlýt að ganga til liðs við þá menn sem kynnu að vilja beita sér fyrir því síðar, ef þeim þykir það ákvæði til bráðabirgða ætla að verða of lífseigt, að taka þá upp annan hátt. Ég er aftur á móti vongóður um að sú skipan mála, sem nú á að taka upp, að veita stéttarsamtökum bænda meira olnbogarými en þau hafa áður haft til þess að fjalla um einstök tæknileg vandamál varðandi afurðasölumálin, sá nýi háttur muni auðvelda lausn á ýmsum þessara vandamála, m. a. vegna þess að þar með axlar bændastéttin sjálf ábyrgðina á ýmsum sviðum. Kann svo að fara að það verði auðveldara við að eiga þegar þing kemur saman að hausti fyrir þá sem þá standa enn á „eyri vaðs“ af hv. þm. að fjalla þá um þessi mál, og læt ég svo máli mínu lokið.