06.04.1979
Efri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Út af spurningu hv. 4. þm. Reykn. vil ég segja þetta: Samráð var haft við bæði framleiðendur svínakjöts og alifuglakjöts. Umsagnir þeirra, hygg ég að megi fullyrða, bárust til landbn. Gert er ráð fyrir að þeir hljóti alveg sambærilega meðferð að þessu leyti og aðrir framleiðendur landbúnaðarafurða. Ég get getið þess, að í upphaflegum till. sjömannanefndar svokallaðrar var gert ráð fyrir heimildum til endurgreiðslu fóðurbætis til framleiðenda sauðfjár- og nautgripaafurða eingöngu. Þetta var fellt út. Ekki var talið rétt að takmarka heimildina við þessar framleiðslugreinar, m. a. með tilliti til þess að þarna ættu allir að sitja við sama borð. Þeir hafa aðgang bæði að Stéttarsambandi og Framleiðsluráði. Þetta mun verða betur undirstrikað en áður hefur verið í því frv. til breytinga á framleiðsluráðslöggjöf sem nú er í undirbúningi, svo að ég hygg að réttur þeirra sé fyllilega tryggður.

Ég skal ekkert segja um endurskoðun á vísitölugrundvellinum. Ég hygg að hv. þm. hafi töluvert til síns máls þar. Það er hins vegar svo á fjölmörgum sviðum, að neysluvenjur breytast að sjálfsögðu. Hins má þó geta, að í þessu sambandi hefur það verið nokkurt vandamál að ekki liggja fyrir nógu traustar tölur um framleiðslu t. d. eggja og alifugla. Menn vona að með þeim ákvæðum sem sett hafa verið í frv., þar sem fóðurbætisskattur er ákveðinn með tilliti til framtals, muni þetta lagast, komast á réttan grundvöll.

Það, sem hv. þm. sagði að lokum um framleiðslu eða samdrátt í framleiðslu fyrir forgöngu mjólkurbúanna sjálfra, skildi ég svo, að biðja ætti menn að framleiða minna. Má ekki orða það svo? Þetta hefur mikið verið um rætt. Vandinn er bara sá, að erfitt er að ná svo víðtækri samstöðu, og svo er líka staðreyndin að t. d. mjólkurframleiðslan fyrir höfuðborgarsvæðið er nú ekkert mikil hér á Suðvesturlandi, hún er árstíðabundin, þannig að það veitir ekkert af framleiðslunni eins og er. Smjörbirgðirnar minnka núna og eru komnar niður í kringum 1200 tonn. En því miður bendir allt til þess, m. a. vegna þess að ekki hefur tekist að sporna við fóðurbætisinnflutningi og kaupum, að mjólkurbirgðir munu aukast aftur að vori og sumri. Aftur á móti vil ég taka undir það sem hefur komið fram í þessari umr., að kannske er hér um atriði að ræða sem getur hreyst snarlega með árferði t. d., ef hafís leggst að landi. Og ef klaki helst lengi eins djúpt í jörðu og hann. er þegar orðinn á Norðurlandi, þá mun náttúrlega stórum draga úr allri framleiðslu. Þessi framleiðsla er svo háð náttúru- og veðurfari að þarna er ýmislegs að gæta. Hér er að sjálfsögðu allt saman miðað við meðalframleiðsluár. — Ég hygg að spurningar hafi ekki verið fleiri.