06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4021 í B-deild Alþingistíðinda. (3150)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Efnahagsmál eru að sjálfsögðu einhver mikilvægustu mál hverrar þjóðar. Bærilegur efnahagur er grundvöllur margvíslegra framfara sem allir segjast berjast fyrir. Ýmsar umbætur á mörgum sviðum þjóðlífs eru í rauninni óframkvæmanlegar nema efnahagsstaða þjóðarheildar og sem flestra þjóðfélagsþegna sé í bærilegu lagi. Þrátt fyrir þessar staðreyndir verð ég að segja að þras og þref um efnahagsmál hefur bæði fyrr og síðar tekið óhóflega langan tíma hér hjá okkur á Alþingi Íslendinga. Það hefur bæði fyrr og síðar skipað svo mikið rúm, að margir aðrir málaflokkar, sem þó eru mikilvægir ekki síður en efnahagsmálin, sitja allt of oft á hakanum — þeir fá ekki þá umr. og þá athugun sem æskileg verður að teljast og raunar nauðsynleg eigi eðlileg þjóðfélagsþróun að eiga sér stað.

Ég hef ekki tekið mikinn þátt í þeim margvíslegu efnahagsmálaumr., sem fram hafa farið á þessum vetri, og ég mun ekki leggja mjög mikið af mörkum í þetta sinn. Mér þykir margt ánægjulegra en að þrasa og þrefa um prósentutölur, um fjárupphæðir og annað af skyldum toga, þó að ég játi að sjálfsögðu, eins og ég þegar sagði, mikilvægi þess að móta stefnu í efnahagsmálum. En þetta tekur hjá okkur allt of langan tíma. Það er verið að togast á um þessi mál mestan hluta þingtímans. Vitanlega er það þá vegna þess að býsna margir, sem ekki hafa sérlega mikið til málanna að leggja, síst til upplýsinga eða til málefnalegrar umfjöllunar, breiða sig oft út og láta móðan mása, stundum með þeim árangri að kjarni máls vill hyljast í þoku óljósrar eða órökréttrar hugsunar. Ég ætla sem sagt ekki að auka mjög á umr. af þessu tagi, en mig langar að leggja fáein orð í helg í sambandi við það frv. sem hér er nú til meðferðar.

Að frv.-gerð um stefnumótun í efnahagsmálum var um hríð í vetur unnið á mjög eðlilegan og skynsamlegan hátt að mínum dómi — þann eina hátt, liggur mér við að segja, sem líklegur er til að skila sæmilegum árangri.

Þrem fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, þrem hæstv. ráðh., einum frá hverjum stjórnarflokki, var falið að vinna að undirbúningi slíkrar löggjafar og að sjálfsögðu ráð fyrir því gert að hver þeirra um sig ynni að því í samráði við sinn þingflokk að móta stefnuna um öll hin stærri og stefnumarkandi atriði. Þessi vinna fór fram. Hún tók nokkurn tíma. Það var togast á eins og gengur um allmörg veigamikil mál í þessu sambandi, því er ekki að leyna, en samkomulag náðist að lokum um mjög marga efnisþætti, þótt nokkur atriði væru óútkljáð. En svo gerðist það, í stað þess að ljúka þessu verki sem komið var býsna langt, og það var komið það með atbeina stjórnarflokkanna allra, að því er ég best vissi, að horfið var að því ráði, í stað þess að halda undirbúningsvinnunni áfram í nokkuð svipuðu horfi og verið hafði, að fela hæstv. forsrh. að semja frv. upp úr þessum till. Þetta verk vann síðan hæstv. forsrh. ásamt embættismönnum ríkisins.

Nú er skemmst frá því að segja, þó að ég ætli ekki að hafa um það öllu fleiri orð, að sjaldan hef ég orðið jafnhissa og þegar ég sá frv. hæstv. forsrh., þar sem í ýmsum veigamiklum, jafnvel afgerandi atriðum var farið út fyrir þann samkomulagsgrundvöll sem fyrir lá af hálfu ráðherranefndarinnar og raunar stjórnarflokkanna allra, að því er ég best vissi. Efnislega dettur mér ekki í hug að fara nú að gagnrýna frv.-drög hæstv. forsrh. Þetta er liðin tíð. Það eru ekki þau sem hér eru til umr. nú, heldur verulega breytt frv. Ég held þó að hér hafi orðið mistök. Slíkt er mannlegt. Jafnvel hinir snjöllustu skákmenn leika stundum hæpna leiki. Ég held að þessi leikur hefði getað haft býsna alvarlegar afleiðingar. Ég ætla þó ekki að deila um það nú, eins og ég sagði. En við verðum allir að læra af reynslunni. Og það, sem reynsla þessara síðustu vikna og mánaða ætti öðru fremur að hafa kennt okkur stjórnarliðum, er þetta: Það er hvorki vegurinn til frægðar né langlífis þessari ríkisstj. né nokkurri ríkisstj. að tína saman úr ýmsum áttum gamlar viðreisnarkenningar, marghraktar af lífinu sjálfu og nöktum staðreyndum þess. Og viðreisnarbrotin eru ekkert betri fyrir það, þó að sum þeirra séu send handan úr Seðlabanka, önnur úr Þjóðhagsstofnun og einhver komi m. a. s. fljúgandi vestan af Ísafirði, þar sem fremur virðist skorta bærilega skólameistaraíbúð en afleitar tillögur eða kenningar í efnahagsmálum. En þetta er allt liðin tíð.

Um tíma leit út fyrir að tveir stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Alþfl., ætluðu að snúast sameiginlega og af hörku gegn þriðja stjórnarflokknum, Alþb., og reyna að knýja fram þau ákvæði frv. — stórvafasöm að okkar áliti — sem fólu í sér verulega hættu á kjaraskerðingu, og ekki síður hin, sem líkleg voru til að geta framkallað svo mikinn samdrátt að hann gæti leitt til atvinnuleysis. Miklar breytingar hafa verið gerðar á þessu frv., og í ýmsum veigamiklum atriðum hefur verið komið til móts við Alþb. og sjónarmið þess, þau sjónarmið að vernda eftir megni kaupmátt lægri launa og tryggja fulla atvinnu. Vitanlega er þetta samkomulagsfrv., og trúlega er enginn stjórnarflokkurinn og e. t. v. enginn þm. innan stjórnarflokkanna algerlega ánægður með öll ákvæði þess. En ég tel, og það er ríkjandi skoðun innan þingflokks Alþb., að svo miklar lagfæringar hafi fengist á frv. að það megi við það hlíta, og því mun ég styðja það eins og það liggur nú fyrir.

Það frv., sem hér er um að ræða, er 67 greinar og skiptist í nokkuð marga kafla. Þar er víða komið við og þar eru ákvæði sett um mörg og ólík atriði. Margt er jákvætt í þessu frv., en önnur ákvæði þess, eins og ég hef þegar drepið á, orka tvímælis, svo að ekki sé meira sagt. Mér finnst enn vera dálítill viðreisnarkeimur af sumu og sá keimur er mér næsta leiður. Í of mörgum efnum bera ákveðnir kaflar frv. merki uppruna síns, þótt margt hafi, eins og ég sagði, verið lagað síðan frv. kom fram. Um það efni, hverju þokað hefur verið til betri vegar, vísa ég til ræðu hæstv. viðskrh. við 1. umr. málsins í þessari hv. deild.

Þetta frv, í núverandi mynd er samkomulagsfrv. töluvert ólíkra þriggja stjórnarflokka og það ber þess merki að sjálfsögðu. En eftir að komnir eru inn í frv. hinir sterkustu varnaglar um þau ákvæði þess sem kynnu að stuðla að of miklum og of örum samdrætti og gætu því framkallað atvinnuleysi, þá tel ég að ég get stutt frv.

Svo vil ég aðeins segja þetta: Sú margra mánaða togstreita, sem fram hefur farið milli ríkisstjórnarflokkanna um stefnumótun í efnahagsmálum, hefur því miður orðið til þess, að mörg önnur mál, sem þessi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa heitið að vinna að og hafa heitið að leysa, hafa ekki komist að. Þau virðast allt of mörg liggja hálfunnin eða varla það. Hin fáu, sem fram eru komin á þingi, hafa einnig tafist, a. m. k. sum hver, og átt óeðlilega erfitt uppdráttar. Þótt svo eigi að heita að 2/3 hlutar þm. styðji þessa ríkisstj. og stjórnarsinnar eigi formann og varaformann — ég held í öllum nefndum þingsins, hefur þetta gengið allt, að mér finnst, helst til seint. Sannleikurinn er sá, að þessi hæstv. ríkisstj. á mörg mikilvæg og vonandi góð verk óunnin. Þau verk þarf að vinna. Það var lofað að vinna þessi verk. Sum loforðin komu í stjórnarsamningi, öðrum hefur verið heitið samtökum launþega, m. a. í sambandi við niðurfellingu þriggja verðbótastiga 1. des. Enn önnur nauðsynjamál, sem síðar hafa komið fram, krefjast einnig úrlausnar.

Meðan hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar, og ég dreg þar engan undan, hafa verið að deila og togast á um ýmis atriði í frv.-drögum og síðar frv. um stefnumótun í efnahagsmálum hafa þessi nauðsynjamál því miður orðið að bíða, eða a. m. k. ekki fengið þá umfjöllun sem nauðsyn bar og nauðsyn ber til. Þessu langa og heldur leiðigjarna moldarverki okkar stjórnarliða, sem við höfum staðið í síðustu vikurnar, líki ég við vorstörf á búi þar sem allir, sem vettlingi geta valdið, hafa verið settir í það að stinga upp mó, jafnvel í heldur leiðinlegum mógröfum, og því ekki getað sinnt öðrum nauðsynjastörfum fram eftir öllu vori. Ég leyfi mér að segja og segi það við góðkunningja mína í stjórnarflokkunum öllum þremur: Eigum við ekki að fara að koma okkur upp úr þessum mógröfum og taka til við að vinna vorverkin hvert af öðru? Þau bíða eftir okkur. Hættum skæklatoginu í bili a. m. k., samþykkjum frv. eins og það nú er orðið og förum að gefa okkur tóm til að sinna þeim margvíslegu framfaramálum sem legið hafa eftir vegna stöðugra árekstra og leiðindadeilna um stefnuna í efnahagsmálum.

Ég hef litið þannig á og geri það enn, að núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar eigi skyldugt verk að vinna, sem þeir hafa tekið að sér og hafa ekki leyfi til að hlaupast frá að svo komnu máli. Ég veit að á ýmsum stundum, á vissum augnablikum getur litið þannig út, að óbilgirni samstarfsflokka geri samvinnu lítt fýsilega og jafnvel lítt mögulega. Þá ber vitanlega að reyna samningaleið til þrautar En það vil ég segja öllum stjórnarliðum, að þegar svo er komið í þriggja flokka ríkisstj. að tveir stjórnarflokkar hafa myndað varanlegan flokk gegn hinum þriðja í því skyni að reyna að ganga yfir hann eða lítillækka, þá er slík ríkisstj. feig. Frá sjónarmiði okkar Alþb.-manna leit svo út um hríð að þetta feigðarmerki væri farið að gera vart við sig hjá núv. hæstv. ríkisstj. Sú varð ekki raunin, sem betur fór, og því tel ég að allir stjórnarflokkarnir geti nú nokkurn veginn sæmilega við þetta samkomulagsfrv. unað og samþykkt það.

Það ætti að vera öllum verkalýðssinum ljóst, og þeim er það ljóst mörgum hverjum, að næstu missirin og jafnvel næstu árin verður ekki mynduð önnur ríkisstj. hér á landi sem fremur en þessi eða til jafns við hana er líkleg, þrátt fyrir allt, að koma fram ýmsum umbótamálum launastéttum landsins til handa. Þrátt fyrir ýmis vonbrigði, þrátt fyrir ýmis mistök nýtur þessi ríkisstj. býsna mikils og eindregins trausts meðal launafólks í þessu landi. Margur óttast að vonum það sem við kann að taka ef þetta stjórnarsamstarf rofnar bráðlega. Því leyfi ég mér í fullri vinsemd að snúa máli mínu til allra stjórnarsinna og endurtek enn: Eigum við ekki að koma upp úr mógröfunum, hætta í bili að þrefa og þrasa um meira eða minna ljós eða óljós stefnumið í efnahagsmálum? Við skulum samþykkja þetta frv. með kostum þess og vissum göllum og snúa okkur svo í alvöru að því að vinna vorverkin.